09.02.1978
Neðri deild: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2090 í B-deild Alþingistíðinda. (1697)

125. mál, virkjun Blöndu

Páll Pétursson:

Herra forseti. Mér finnst að hv. þm. Pálmi Jónsson ætti nú að vera glaðari í viðmóti en hann var hér áðan, því að einu sinni var hann heilsubesti maður í sínu héraði, þ.e.a.s. duglegastur að heilsa mönnum, og ávallt glaður og reifur, og það er alltaf miklu meira gaman að hafa sæmilega glaða menn í kringum sig heldur en ergilega. En kannske er ég valdandi þess, að það liggur svona illa á honum, að ég hafi sett hann út af laginu með því sem hann kallar álappalegar fullyrðingar. Hins vegar hafa góðmannlegar og markvissar fullyrðingar Pálma Jónssonar ekki sett mig út af laginu, svo að ég er í besta skapi enn.

Hv. þm. tók það fram, að ef maður samþykkti eitt stóriðjufyrirtæki þyrfti það ekki að merkja það, að hann væri endilega fylgjandi stóriðju eða ætlaði að halda áfram að samþykkja stóriðjufyrirtæki. Það var kenning um það í gamla daga, að konur, sem höfðu vissan nokkuð langan tíma ekki komist í tæri við karlmenn, öðluðust meydóm sinn á ný, og ég vonast til þess að Pálmi öðlist í þessu tilfelli meydóm sinn á ný.

Hvað varðar afstöðu mína til kaupa Víðishússins, þá hef ég gert grein fyrir því áður. Hún byggðist m.a. á því, að ég treysti á vandlega og viturlega athugun fjvn. á því máli eða meiri hl. fjvn. og stóð að sjálfsögðu með því áliti.

Ég sagði aldrei að ég hefði horft á hann samþykkja Union Carbide-samninginn við 3. umr. málsins. Hins vegar held ég að ég snúi ekki til baka með það, að Pálmi hafi við 2. umr. málsins tekið þátt í atkvgr. A.m.k. man ég áreiðanlega eftir þessari hendi koma upp.

Ég veit ekkert hvaða orðalagsbreytingar hv. þm. Pálmi Jónson hefur verið að gera í fjvn. eða hvaða speki hann leggur þar til. En ég get ekki fundið að það sé hægt að flokka basaltvinnslu undir orkufrekan iðnað, vegna þess að orkufrekur iðnaður er sá iðnaður þar sem kostar meira en 200 millj. kr. hvert vinnupláss. Síðari stig títanvinnslu gætu fallið undir þetta, en ekki sú basaltvinnsla sem fyrirhuguð er á Sauðárkróki.

Mér þótti leiðinlegt að heyra, að hann ber ekki traust til þessara manna sem ég kallaði sérfræðinga í orkumálum, hv. þm. Eyjólfs Konráðs, hvað þá Jóhannesar Nordals eða Bjarna Einarssonar.

Ég hef talað áður í þessu máli tvisvar sinnum. Ég þakka forseta fyrir að lofa mér að gera stutta aths. við fram komna ræðu. Ég áskil mér rétt til þess að afla frekari gagna um hættumörk línu, þar sem hér var vefengt að ég hefði haft rétt fyrir mér.

Hvað varðar skekkjureikninginn um 30% í kostnaðaráætlun Blöndu, þá mun ég líka áskilja mér rétt til þess að ræða það seinna, enda erum við ekki hættir að tala saman, ég og þessi hv. þm., svo að það þarf ekki endilega að ræða þetta til botns í þessari umr. En ég vil bara biðja hv. þm. upp á framtíðina að reyna að halda rósemi sinni og umfram allt að vera í sæmilegu skapi. Ég hef einhvers staðar komið við auman blett á honum, og það verður að hafa það.