09.02.1978
Neðri deild: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2091 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

168. mál, þingfararkaup alþingismanna

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Fyrir þrem árum fóru fram allmiklar umr. í fjölmiðlum og meðal alls almennings um þingfararkaup alþm. Við hv. 11. þm. Reykv., Ellert B. Schram, fluttum þá frv. þess efnis, að launakjör alþm. skyldu ákveðin af Kjaradómi, það væri ástæðulaust fyrir alþm. að láta brigsla sér um það, að þeir skammti sér sjálfir laun, að þeir væru eini hópurinn í íslensku þjóðfélagi sem tæki sjálfur ákvörðun um eigin laun. Þar sem sá háttur hefur alllengi tíðkast, að Kjaradómur ákveði laun nokkurra flokka opinberra starfsmanna, ráðherra, hæstaréttardómara og ráðuneytisstjóra og raunar nokkurra enn fleiri hópa, þá þótti okkur hv. þm. Ellert B. Schram eðlilegt að leggja til við Alþ. að sami háttur gilti um launaákvörðun alþm. Okkur þótti engin ástæða til að aðrar reglur giltu um það, hvernig laun ráðh. og hæstaréttardómara væru ákveðin, en þær, hvernig laun þm. væru ákveðin. Ef það væri rétt að fela Kjaradómi að ákveða laun ráðh. og hæstaréttardómara, svo að dæmi séu tekin, þá mætti a.m.k. einnig teljast rétt að Kjaradómur ákveði laun alþm. Þá yrði a.m.k. um þann kost að ræða, að það yrði ekki sagt að alþm. vildu halda sjálfdæmi um kaup sitt og kjör, heldur væri það hlutlaus aðili eins og Kjaradómur sem tæki lokaákvörðun en það er sú stofnun sem komið var á fót til þess að hafa gerðardómsvald varðandi kjör ríkisstarfsmanna.

Að vísu er það rangt, sem oft hefur verið haldið fram, að þingfararkaupsnefnd ákveði sjálf laun alþm. Þau eru, svo sem öllum alþm. er auðvitað kunnugt, ákveðin í 1. gr. laga um þingfararkaup, þar sem kveðið er á um að þm. skuli þiggja laun samkv. ákveðnum launaflokki opinberra starfsmanna í kjarasamningum um laun starfsmanna ríkisins. Hitt er jafnrétt, að það eru alþm. sjálfir sem sett hafa þessi lög, sem kveða á um að þm. skuli hljóta kaup samkv. ákveðnum flokki í kjarasamningi opinberra starfsmanna. Það eru m.ö.o. þm. sjálfir, þingheimur sjálfur sem hefur tekið ákvörðun um það, hversu há laun þm. skuli hafa, en ekki þingfararkaupsnefnd. Hins vegar hefur Alþ. falið þingfararkaupsnefnd að taka ákvörðun um endurgreiðslu þess kostnaðar sem þingmennsku fylgir, þ.e.a.s. taka ákvörðun um dagpeninga, um ferðakostnað og þar fram eftir götunum. Þá ákvörðun tekur þingheimur ekki í heild, heldur ákveðin þn., þingfararkaupsnefnd, sem að sjálfsögðu er skipuð þm. Þess vegna teljum við flm. rétt að þingið afsali sér einnig þessu valdi úr höndum þingfararkaupsnefndar í hendur Kjaradóms.

Ég þarf ekki að hafa mörg fleiri orð um þetta mál. Það er öllum hv. þm. kunnugt, að það hlaut ekki afgreiðslu, þegar það var flutt fyrir þrem árum, og sætti raunar mjög ákveðnum andmælum hér á hinu háa Alþ. Nú hafa launakjör alþm. hins vegar aftur komist mjög í sviðsljósið vegna þeirrar ákvörðunar þingfararkaupsnefndar, að kaup alþm. skyldi breytast í sama hlutfalli og breyting varð í þriðja hæsta launaflokknum í samhengi við Bandalag háskólamanna, en ekki í hliðstæðum launaflokki í samningum við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, en umræddur launaflokkur háskólamanna hækkaði eilítið meira en tilsvarandi flokkur í samningum við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. M.ö.o. hefur kaup þm. hækkað í sama hlutfalli og kaup launahæsta hópsins meðal opinberra starfsmanna.

Þetta hefur valdið því, að málið hefur enn á ný komist mjög á dagskrá í fjölmiðlum og mönnum sýnist mjög sitt hvað. Ég vek sérstaka athygli á því, að dagblöð, sem styðja hæstv. ríkisstj., hafa tekið mjög eindregna afstöðu gegn þeirri ákvörðun, sem þingfararkaupsnefnd tók í þessu sambandi, og hafa ýmist beint eða óbeint lýst fylgi sínu við þá hugmynd, að alþm. afsali sér valdi sínu til að ákvarða laun sín og flytji vald þingfararkaupsnefndar til þess að kveða á um greiðslu fyrir ferða-, dvalar- og fæðiskostnað í hendur Kjaradóms, eins og lagt er til að eigi við um launakjörin sjálf.

Okkur hv. þm. Ellert B. Schram fannst allar þessar umr., sem orðið hafa undanfarið, vera þess eðlis, að ástæða væri til að vekja máls á þessu máli að nýju, enda höfum við komist að raun um að nú eru þeir miklu fleiri, bæði innan þings og utan, sem eru því fylgjandi að Kjaradómur fái ákvörðunarvald um allt þetta, um laun þm. og greiðslu fyrir ferða-, dvalar- og fæðiskostnað, í stað þess að sumpart alþm. sjálfir í heild og sumpart þingfararkaupsnefnd taki þessar ákvarðanir.

Undirtektir fjölmiðla undir þessa hugmynd eru, eins og ég sagði áðan, miklu jákvæðari nú en átti sér stað fyrir þremur árum, og ég endurtek, að miklum fleiri þm. hafa nú í einkaviðtölum látið í ljós stuðning við þessar hugmyndir heldur en kom fram í þeim umr. sem fóru fram um þetta mál á sínum tíma.

Að öðru leyti er efni málsins alveg auðskilið. Hér er um þá einföldu grundvallarspurningu að ræða, hvort þingheimur í heild eigi að ákveða eigin laun með því að ákveða efni 1. gr. laga um þingfararkaup og hvort Alþ. eigi að fela ákveðinni þn., þingfararkaupsnefnd, að kveða á um ferða-, dvalar- og fæðiskostnað, eða hvort Alþ. eigi að afsala sér þeim rétti, sem það hefur haft til þessa frá upphafi að vísu, og fela hann hlutlausum aðila, Kjaradómi. Fyrst Kjaradómur er til sem stofnun og fyrst hann ákveður þegar laun nokkurra mjög mikilvægra hópa opinberra starfsmanna, sem ég hef þegar nefnt, þá teljum við flm. með sömu rökum. rétt að Kjaradómur ákveði einnig ekki aðeins laun þm., heldur og upphæðir kostnaðar vegna ferða, dvalar og fæðis. Ég tel það vera í þágu eðlilegra og skynsamlegra hagsmuna Alþ. að það sé ekki hægt að segja um Alþ., að það skammti sér sjálft laun og upphæðir vegna ferða-, dvalar- og fæðiskostnaðar, heldur það sé metið af hlutlausum aðila. Nóg er samt um umr. um starfshætti Alþ. Um Alþ. falla oft mörg þung orð og auðvitað mörg mjög ósanngjörn. En ég fyrir mitt leyti tel alveg ástæðulaust að veita slíkt tilefni til þess að hnýta í Alþ., sem að mínu viti gefst réttilega meðan sú skipun helst, að Alþ. ákveður launin og þingfararkaupsnefnd ákveður hlunnindin. Þess vegna tel ég það vera tvímælalaust til bóta og mundi bæta og styrkja stöðu Alþ. í vitund þjóðarinnar, ef hlutlausum aðila væri falið að kveða á um öll kjör alþm., bæði bein laun og endurgreiðslu á kostnaði.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. þfkn.