09.02.1978
Neðri deild: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2112 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

168. mál, þingfararkaup alþingismanna

Vilborg Harðardóttir:

Virðulegi forseti. Ég hef nýverið tekið sæti á þingi og er þar af leiðandi ekki nógu kunnug því frv., sem hér er til meðferðar, og ætla ekki að fara mörgum orðum um það, nema mér finnst sjálfsagt að þm. losni undan þeirri andkannalegu kvöð að skammta sjálfum sér laun einhliða. En ég get ekki látið óátalið að hlusta hér á þm. misnota aðstöðu sína til þess að ráðast á og sverta heilar starfsstéttir, eins og hv. 3. þm. Austurl. gerði áðan, — allt vegna heimiliserja í eigin flokki og misjafnra leiðaraskrifa í eigin blaði. Hann réðst á svívirðilegan máta á blaðamannastéttina og sagði að hún væri verst menntaða stétt í landinu.

Þar sem svo vill nú til, að ég tilheyri þessari heitt hötuðu stétt, þá held ég að ég verði að fá að upplýsa þingheim og sérstaklega hv. 3. þm. Austurl. um það, að það er að vísu ekki krafist neins sérstaks prófs til þess að gegna blaðamennsku, fremur en nokkurs sérstaks prófs er krafist til þess að gegna þingmennsku. Af blaðamönnum í föstu starfi er hins vegar krafist þekkingar, verklagni og siðferðisþroska, sem mér virðist að sumir þm. krefjist ekki af sjálfum sér.