09.02.1978
Neðri deild: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2122 í B-deild Alþingistíðinda. (1708)

168. mál, þingfararkaup alþingismanna

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Af óhjákvæmilegum ástæðum gat ég ekki verið viðstödd umr. fyrr í dag, þannig að fjórir ræðumenn höfðu lokið máli sínu þegar mig bar að aftur. Hér hefur ýmislegt verið sagt í þessu máli, sem ég sjálf vildi sagt hafa, og kannske get ég fyrir þær sakir orðið eitthvað stuttorðari.

Hér er til umr. frv. til 1. um að breyta lögum um þingfararkaup í þá átt, að allar ákvarðanir séu alfarið teknar frá þfkn. og fluttar yfir til Kjaradóms. Ég held að það sé enginn vafi á því að sú skipan mála, sem þetta frv. leggur til, mundi losa okkur alþm. við nokkur óþægindi, og alveg örugglega mundu laun okkar hækka, þannig að kannske er freistandi með þessar tvær athugasendir í huga að slá til og slá þessu öllu frá Alþ. og láta Kjaradóm um ákvarðanir.

Ég fyrir mitt leyti vil segja það strax, að ég er mótfallin þeirri hugsun sem þetta frv. gengur út á. Ég vil að Alþ. hafi nú sem áður áhrif á það, hver laun alþm. taka fyrir sín störf. Þar fyrir er ég ekki ánægð með þá skipan mála sem gildir í dag í þessum efnum. Ekki síst með tilliti til þess, sem hefur verið að gerast í þjóðfélagi okkar að undanförnu, finnst mér það slæmt og ekki viðunandi að alþm. þurfi að fylgja sjálfvirkt samkv. lögum ákveðnum launaflokki opinberra starfsmanna eins og nú er, — að alþm. þurfi með sjálfvirkum hætti að gerast þátttakendur í, ég vil segja, því ábyrgðarlausa kapphlaupi um kaup og kjör sem hefur því miður og óneitanlega leitt okkur nú út í alvarlegan efnahagslegan vanda. Það er staðreynd að þingfararkaup í dag er ákveðið í lögum. Allir útúrsnúningar um þetta atriði, sem viðhafðir hafa verið í fjölmiðlum, eru þess vegna alveg út í hött. Eða skyldi það vera meiningin hjá þeim mönnum, sem mest hafa haft sig frammi í þessu máli, að alþm. þurfi í þessum efnum ekki að fara að lögum af því að Alþ. sjálft hefur sett þau hin sömu lög? Í þessu er að sjálfsögðu þversögn og misskilningur og undrum sætir að ábyrgir menn við alvörublöð, eins og ég vil telja Morgunblaðið, skuli gera sig seka um slíka útúrsnúninga.

Ég ætla ekki að fara hér út í umr. um einstök atriði um kjör okkar. Við í þfkn. höfum öll og óskipt sent frá okkur nýverið grg., þar sem við sögðum allt það, sem við höfðum að segja um kaup okkar og kjör. Við skutum þar engu undan. Engu að síður hefur jafnvel þessi grg., sem aðeins flutti staðreyndir í málinu, orðið tilefni til áframhaldandi óhróðursskrifa um Alþ. og alþm.

Ég vil mjög eindregið taka undir orð hv. 5. þm. Reykv., þar sem hún benti á þá hættu sem stafar af órökstuddum óhróðursskrifum um Alþ. Við einstakir alþm. þurfum ekki að kippa okkur upp við þetta. En okkur ekki hvað síst og raunar allri íslensku þjóðinni ætti að vera það annt um Alþ. sem stofnun, að þessir vígreifu skriffinnar, sem hæst hafa látið, létu sig ekki hafa það að viðhafa annan eins málflutning í garð Alþ. og þeir hafa gert að undanförnu.

Raunar er það jafnan svo, að atyrði og óhróður í málflutningi eru þeim til mestrar vanvirðu sem þau viðhefur, en ekki hinum, sem slíkum málflutningi er beint gegn og svo mun reynast hér sem annars staðar. Og ég vil trúa því, að almennir íslenskir lesendur taki ekki sömu stöðu í málinu og greinilega er ætlast til af þeim mönnum sem þarna eru að verki. Ég hef meira álit á íslensku þjóðinni og almennum lesendum dagblaðanna en svo, að ég vilji ætla að þessi óhróðursskrif, hvað sem þar liggur að baki, það er mér hulið, falli í þann jarðveg sem skrifendur e. t. v. vona.

Hér hefur verið fjallað nokkuð vítt og breitt um eðli þingmannsstarfsins, og ég hlýt að víkja nokkrum orðum að málflutningi hv. 4. þm. Norðurl. v„ sem hafði þó raunar hafið mál sitt þegar ég kom. Ég hef vissa samúð með sjónarmiðum hv. þm. Eyjólfs K. Jónssonar, að þm. eigi ekki að hafa þingmannsstarfið að aðalstarfi, heldur þurfi hann að vera í tengslum við þjóðlífið með því að gegna öðru starfi samhliða. Þetta er góð og gild röksemd út af fyrir sig. En það er nú svo, að flestir þm. hafa, þegar þeir koma inn á Alþ., nokkra starfsreynslu af einu eða öðru starfi í þjóðfélaginu, þannig að þeir eiga að hafa þekkingu og tengsl út í bjóðlífið enda þótt þeir leggi fyrri störf til hliðar þegar inn á Alþ. kemur. Ég vil leggja megináherslu á það líka, að það er hættulegt að alþm. telji sig fulltrúa ákveðinna stétta eða ákveðinna starfsgreina. Alþm, þarf að sjálfsögðu að hafa miklu víðari yfirsýn yfir allar starfsgreinar þjóðfélagsins heldur en takmarka sig við sína eigin stétt eða starf. Þess vegna er ég því hlynnt og ég tel það eðlilegt, að alþm. — starf skoðist sem fullt starf. En ég vil engan veginn banna hitt. Það er nú svo, að menn eru misjafnlega afkastamiklir og duglegir, og ég tel að við kynnum að fara á mis við góðan starfskraft, nýtan þm., ef við gerðum það að skilyrði að hann sinnti engu öðru starfi en þingmannsstarfinn. Mér, sem er nýliði á þingi, finnst þingmannsstarfið meira en nóg verkefni. Að vísu gegni ég húsmóðurstarfi mínu jafnframt. Það eru feiknalega tímafrek störf sem því fylgja, ekki aðeins að flytja sjálfur mál, undirbúa þau, flytja og fylgja þeim eftir, heldur einnig að kynna sér önnur mál sem á döfinni eru. Það er nú svo, að okkur þm. veitist stundum erfitt að taka ákvörðun þegar við eigum að rétta upp höndina með einu eða öðru máli. Okkur væri óbærilegt að gera það, ef við hefðum ekki reynt eftir mætti að kynna okkur málið frá öllum hliðum, þannig að við vitum nokkurn veginn til hvers við erum að taka afstöðu, með eða móti.

Svo að ég víki aðeins aftur að máli hv. 4. þm. Norðurl. v., Eyjólfs K. Jónssonar, tók hann nokkuð mikið upp í sig, þótti mér, þegar hann fullyrti, að ákvörðun þfkn. á margnefndum fundi hinn 29, nóv. s. l. hefði verið slys. Þetta er ekki rétt, þetta var ekkert slys. Við vissum að við vorum að fara í öllu að lögum, og ég held, þó að ég sé ekki löglærð manneskja sjálf, að það sé út í hött að bera brigður á að þfkn. hafi farið þarna að lögum. Fleiri en einn lögfræðingur tjáðu sig um þetta og sögðu að á þessu væri enginn vafi, og að þeirra áliti var farið. Þeir bentu á að túlkun laganna hefði frá upphafi verið sú, að alþm. bæri laun eftir þriðja hæsta launaflokki opinberra starfsmanna. Það var sú túlkun sem réð afstöðu okkar. Nú í dag tökum við laun eftir þessum flokki, eftir þriðja hæsta flokki opinberra starfsmanna.

Til mín sérstaklega var beint ákveðinni spurningu vegna greinarstúfs sem ég skrifaði í Morgunblaðið hinn 18. f. m. Mér þykir verra að hv. 5. þm. Vestf. er ekki hér staddur, af því að hann beindi mjög ákveðið spurningu til mín um hvað ég hefði meint. (Forseti: Ég skal láta kanna hvort þm. er í húsinu.) Hv. þm. þarf sjálfsagt að hressa sig vel á kaffinu, ég get vikið að einhverju öðru á meðan. (Forseti: Komið hefur í ljós, að hv. 5. þm. Vestf. er að tala í símann, en hann er búinn að fá boð um að hans sé sárt saknað í salnum.) Gott, en ég vil í framhaldi af því sem ég sagði áðan um frv. sjálft — (KP: Jæja, þá er sá umdeildi kominn.) Já, mér þykir hlýða að hv. þm., sem beindi mjög ákveðið til mín ákveðinni spurningu, láti svo lítið að hlusta á og meðtaka mitt svar. (HP: Að sjálfsögðu.)

Ég skorast að sjálfsögðu ekki undan því að gefa skýringu á því sem hv. þm. kvaðst ekki skilja í umræddri grein minni í Morgunblaðinu. Hann spurði, hvernig stæði á þeim ummælum mínum, að ég hefði talið eðlilegra að alþm. sýndu meiri þroska heldur en hinir kröfuhörðustu í hópi opinberra starfsmanna í kjarasamningum á s. l. hausti. Hann spurði mig jafnframt, hvort ég segði þetta af því að mér hefði ofboðið kröfuharka þeirra, og í þriðja lagi. hvort ég hefði gert till. um lægra kaup en við hlutum samkv. kjarasamningunum. Ég skal svara því strax og óhikað, að mér einlæglega ofbauð, mér hafa ofboðið þær launahækkanir sem hafa dunið yfir okkur á s. l. ári, og þá á ég ekki hvað síst við þann hóp opinberra starfsmanna sem hefur fengið allt að 80% kauphækkun á árinu. Ég veit að þetta eru ekki raunhæfar kröfur. Og ég lét þau ummæli falla í þfkn., — og nú þykir mér verra að samnm. mínir skuli ekki vera hér, — en ég get sagt það hér án þess að vilja gera mig meiri eða minni, eftir því hvernig á það er litið, að ég taldi og lét það óhikað koma fram í þfkn., að nú ættum við að taka af skarið, spyrna við fótum og taka okkur sjálf þær launahækkanir sem við teldum raunhæfar og íslenskt þjóðarbú stæðist við. Þessi ummæli mín, sem vafalaust eru ekki orðrétt, en efnislega var þetta afstaða mín, eru ekki bókuð í þfkn. En hv. þm. getur kynnt sér bókanir þfkn. og séð, að ég hef áður beðið fyrir sérstaka bókun um að ég vildi ekki styðja þær launahækkanir sem farið var fram á almennt í þjóðfélaginu, einfaldlega af því að ég taldi að þær væru bornar fram af ábyrgðarleysi. Ég er þess vegna á móti því að taka alfarið ákvörðunarvald þfkn. og Alþ. um laun og kjör. Ég vil í einlægni að Alþ., sem þarna er að sjálfsögðu ábyrgt, geti í vissum tilvikum verkað eins og öryggisventill í íslenskum launamálum. Ef við hefðum ekki haft núgildandi þingfararkaupslög til að fara eftir, þá hygg ég að við hefðum aldrei staðið upp nú um áramót með um allt að 80% kauphækkun yfir árið. Þess vegna veit ég að þfkn. mun taka þær ákvarðanir nú sem hún telur vera réttar og eðlilegar 1 þessu efni, en til þess þurfum við lagabreytingu. Ég vil hafa lög um þingfararkaup á þann veg, að þfkn. hafi að vissu marki frjálsar hendur um að lækka eða hækka laun þm. Og ég tek eindregið undir með þeim þm. sem hafa andmælt því, að við hopum nú af hólminum og að því er virðist látum undan ósanngjörnum áróðri og æsingaskrifum um kaup okkar og kjör. Þetta er sannleikurinn um afstöðu mína í þfkn., og ég, eins og ég sagði í fyrrnefndum greinarstúf, hef ekki farið dult með þessa afstöðu mína þar né heldur utan þfkn.

Ég get ákaflega vel fallist á og ég mundi ekki kveinka mér við því að lækka laun okkar núna niður í 300 þús. kr., og ég fagna því, að það hafa fleiri en einn þm, tekið í þann streng. Ég held líka að við gætum sýnt okkar hug nú, þegar við erum að taka ákvarðanir eða leggja fyrir Alþ. frv. til l. sem felur í sér vissa kjaraskerðingu almennings. Þá hefðum við kjörið tækifæri til að leiðrétta það misvægi sem þarna er orðið, einfaldlega með því að afsala okkur nú öllum verðbótum og grunnkaupshækkunum út árið 1978. Það væri kannske miklu eðlilegri ráðstöfun heldur en fara að lækka í krónutölu þingfararkaupið. Og það tel ég fráleitt, sem hv. 5. þm. Vestf. talaði um, að við ættum að flytja sérstakt frv. til l. um að lækka laun okkar. Það er þetta sem ég vil forðast, að við þurfum, í hvert skipti sem þfkn. telur ástæðu til þess að víkja frá almennum launaákvörðunum í landinu, að hlaupa upp til handa og fóta og setja ný lög. Við þurfum að fá inn í lög ákvæði sem geri þfkn. fært að víkja til hækkunar eða lækkunar eftir því sem henni þykir ástæða til hverju sinni. Ég fyrir mitt leyti er í engum vafa um að alþm. er treystandi til að sýna þarna þá ábyrgð, sem þeim ber skylda til í launamálum sem öðrum málum.

Afstaða mín í þessu máli varðandi þfkn. og launamál almennt er það, að mér þætti vel fara á því, að alþm. yrðu fyrstir til þess að spyrna við fótum og sýna ábyrgð. Við höfum beðið eftir því, að einhver gerði það, einhver starfshópur í þjóðfélaginu. Það hefur ekki bólað á neinum enn, og þess vegna færi vel á því, að alþm. sýndu þarna gott fordæmi. Það mætti segja mér að einhver ákvörðun alþm. í þessa átt yrði til þess, að viðbrögð ritstjórans, sem í leiðara sínum í gær útskrifaði alla alþm. sem tugthúslimi sem ættu heima á Litla-Hrauni, yrðu þau, að nú hefðu þeir ekki þorað annað en skila þýfinu sínu — eða eitthvað í þá átt. En ég tel að við alþm. getum ekki látið ótta við slík skrif hræða okkur frá því að gera það sem við teljum eðlilegt og rétt í þessum efnum. Ég hygg að ég muni koma nánar að þessum atriðum í umr. um frv. um efnahagsaðgerðir ríkisstj. sem er dreift hér í kvöld og verður til umr. á morgun.

Ég held að ég þurfi ekki að lengja mál mitt frekar. Ég vil leggja á það áherslu og ítreka það, að við alþm. hljótum að standa uppréttir og verða ekki uppvægir þó að skrif á borð við það, sem við höfum lesið að undanförnu, beri fyrir okkar augu. Slík skrif eru dæmd til þess að falla um sjálf sig og verða til óvirðingar þeim sem viðhafa. Við getum haldið okkar striki án tillits til hvað þessir blaðamenn láta sér henta að skrifa um okkur í það og það skiptið.

Ég met að vissu marki afstöðu hv. 3. þm. Reykv., Vilborgar Harðardóttur, varaþm., er hún tók upp hanskann fyrir blaðamenn. En mig undrar í rauninni, að hún skuli hafa geð í sér til þess að verja annað eins, hafi hún lesið það. Og ég hlýt að taka undir þá afstöðu hv. 3. þm. Austurl., að þau eru auðvitað íslenskri blaðamannastétt til mikillar vansæmdar.

Að lokum vænti ég þess, að þfkn. muni innan mjög skamms tíma fjalla um þetta mál. Það má kannske segja að við hefðum átt að bregða harðar við, en ég sé enga ástæðu til þess að við kippum okkur upp við það, sem um okkur hefur verið sagt, og hlaupum til með okkar ákvarðanir. Við höfum nóg svigrúm og allar aðstæður til þess að framfylgja sannfæringu okkar í þessum efnum með heiður Alþingis og alþm. fyrst og fremst fyrir augum og það hvað rétt er og raunhæft fyrir okkur að gera nú í launamálum. En ég mun í þfkn. koma fram með mínar hugmyndir í þá átt, að alþm. taki eftir sem áður laun eftir þriðja hæsta launaflokki opinberra starfsmanna. Ég er ekki alveg sammála hv. formanni þfkn., sem vill gera þetta alveg óbundið og láta þfkn. velja sér flokk hverju sinni. Hitt er eðlilegra. Við höfum þarna ákveðna viðmiðun. Ég fyrir mitt leyti get mjög vel unað því og mér finnst eðlilegt að alþm. séu þarna í þriðja sæti. En ég vil hafa ákvörðunarrétt um að breyta kaupi okkar, ef við teljum almenn kjaramál í landinu þróast á þann veg.