09.02.1978
Neðri deild: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2130 í B-deild Alþingistíðinda. (1710)

168. mál, þingfararkaup alþingismanna

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Hæstv. forseti. Ég er satt að segja öldungis hissa á því, hversu léleg rök hafa verið borin fram gegn þessu frv. af hálfu jafnmætra þm. og talað hafa gegn því. Annars finnst mér umr. allar bera þess skýran vott, að þörf var á slíkum umr., og í raun og veru bera umr. þess vott, að nauðsyn var á því að slíkt frv. væri flutt. Niðurstaða þeirra, dómur almennings um þessar umr., verður áreiðanlega sá, að það eina rétta væri að samþykkja frv.

Ég vil fyrst leyfa mér að benda á hversu gerólíkar skoðanir hafa komið fram hjá andmælendum frv. gegn meginefni þess, sem sagt því, að alþm. sjálfir taki ekki ákvörðun um kaup sitt og kjör, h eldur geri það hlutlaus aðili, Kjaradómur. Annars vegar hefur hv. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, haldið því fram sem grundvallarskoðun sinni, að þm, eigi að hafa full laun, góð laun fyrir fullt starf, og ekki þiggja laun fyrir nein önnur störf, m. ö. o. þingstarfið eigi að vera fullt starf, eina starfið sem maður vinni meðan hann sé þm., og þá eigi að launa þm. vei. Þetta er grundvallarskoðun sem við þekkjum frá fyrri umr. um þetta mál hér í hinu háa Alþ. frægar umr. milli þeirra Bjarna heitins Benediktssonar og Eysteins Jónssonar. Eysteinn Jónsson hélt þessari skoðun fram af miklum þunga og miklum hita. Bjarni Benediktsson var henni algerlega andvígur. Hann hélt fram þeirri skoðun, sem er gerólík og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson gerðist talsmaður fyrir áðan. Hann sagði þveröfugt við Lúðvík Jósepsson, að þingmennska ætti aldrei að verða fullt starf, það spillti þingmennskustarfinu að hafa það eitt að starfi, það væri nauðsyn fyrir þm. að gegna jafnframt öðrum störfum og helst breytilegum störfum til þess að öðlast nægilega þekkingu til að geta verið góðir þm. Þetta er nú skoðun Eyjólfs K. Jónssonar, gerólík skoðun Lúðvíks Jósepssonar, þó að þeir séu sammála um það að vera gegn þessu frv. M. ö. o.: hér er enn uppi sami gamli ágreiningurinn og var á milli þeirra Bjarna Benediktssonar og Eysteins Jónssonar. Ég bendi á að meðal andstæðinga frv. eru menn sem aðhyllast jafnólíkar grundvallarskoðanir á því, hver skuli vera staða þm. og hvernig launakjörum hans þar af leiðandi skuli háttað.

En aðalrökin, sem færð hafa verið gegn þessu frv., eru þau, að með samþykkt þess sé verið að láta undan áróðri ófyrirleitinna blaðamanna, og það er sagt með óskaplegum alvöruþunga og feikilegum alvörusvip, að þm. eigi að hafa kjark til þess að axla ábyrgðina, þeir eigi að hafa kjark og þor til þess að axla ábyrgðina af óvinsælum ráðstöfunum. Ekki skal ég skorast undan því að axla ábyrgð á óvinsælum ráðstöfunum. Ég hef tekið þátt í því hér á hinu háa Alþ. í áratugi, bæði sem þm. og ráðh., að axla ábyrgð á óvinsælum ráðstöfunum og hef aldrei kvartað undan, dytti aldrei í hug að kvarta undan því, svo að það þarf ekki að brýna mig eða hv. meðflm. minn að þessu frv. á því, að við séum með flutningi þess að koma okkur sjálfum undan því að axla ábyrgð á óvinsælum ráðstöfunum. Ekkert væri fjær mér en það. Og það er í raun og veru alls ekki það sem fyrir andmælendum frv. vakir. Ég mun seinna koma að því, hvað ég tel að fyrir þeim vaki eða á hverju andstaða þeirra gegn jafnsjálfsögðu máli og ég tei samþykkt frv. vera byggist. En áður en ég kem að því vil ég minna á að það er engu líkara en jafnmætir þm. og hafa mælt gegn frv. hafi hreinlega ekki áttað sig á því, hver þróunin hefur verið í launamálum opinberra starfsmanna og þ. á m. þm. á undanförnum áratugum. Þeir láta eins og þeir viti það ekki og hljóta þó að vita það.

Hver hefur þróunin verið? Ég minnist þess, að ég átti í þessari hv. þd. fyrir 20–30 árum sæti í fjhn. d. Stærstu mál, sem við fengum á þeim árum til meðferðar, voru frv. til launalaga. Fyrir 20–30 árum ákvað Alþ. sjálft laun allra opinberra starfsmanna. Alþ. sjálft ákvað laun allra opinberra starfsmanna, það ákvað laun ráðh. og það ákvað laun húsvarða í barnaskólum. Allir, sem nefndust opinberir starfsmenn, fengu laun sín samkv. ákvörðun í lögum frá Alþ. Þetta var hin stærsta og flóknasta lagasetning sem um var fjallað, og þar kom loks að mönnum ofbauð. Mönnum ofbauð að ætla Alþ. að vinna slíkt verk af nokkurri skynsemi. En ég get sagt það aftur, það eru leiðinlegustu nefndarfundir sem ég hef setið hér á hinu háa Alþ., fundir í fjhn. fyrir 20–30 árum þegar launalögin voru til meðferðar. Menn sátu hér viku eftir viku og tóku á móti sendinefndum frá þessu stéttarfélaginu eða þessum hópnum, þessum embættismönnum og hinum. Það tók oft undir 2–3 mánuði að afgreiða launalögin. Þar kom að þm. sjálfum ofbuðu þessi vinnubrögð. Svo vildi til að ég átti sæti í þeirri ríkisstj, sem hafði forustu um að þessu hringavitleysukerfi væri breytt og Alþ. hætti að ákveða laun opinberra starfsmanna, heldur fæli það hlutlausum aðila, þ. e, a. s. Kjaradómi. Þessi ákvörðun var tekin árið 1961 samkv. till. stjórnar undir forustu Ólafs Thors, sem ég átti sæti í, og að þessu var auðvitað stórkostleg bót. M, ö. o.: Alþ. afsalaði sér þá valdi sínu, rétti sínum til að ákveða laun ráðh. og húsvarða í barnaskólum, svo að ég nefni dæmi, — afsalaði sér þessu valdi sínu til þess að ákveða laun allra opinberra starfsmanna nema laun alþm.

Ég gaf það í skyn í gær, að ég hefði haft orð á því í ríkisstj., þegar þetta frv. var til meðferðar, hvort ekki væri rétt að láta lögin taka líka til alþm., skilja þá ekki eftir eina. En ég játa að á þeim tíma voru fyrir því frambærileg rök að láta lögin um laun opinberra starfsmanna ekki taka til alþm., því að eins og allir vita höfðu frá upphafi gilt þær reglur um laun þeirra, að þeir höfðu dagpeninga, en hvorki mánaðar- né árslaun. Það var gerólíkt því launakerfi sem gilti um opinbera starfsmenn, sem eru ráðnir á árslaunum, og þetta var ekki talið samrýmast. Engu að síður tel ég nú að það hafi verið rangt. Ég játa það, að ég ber ábyrgð á þeirri röngu ákvörðun eins og aðrir ráðh. og aðrir þm. sem samþykktu lögin. Það var rangt þá að láta alþm. ekki fylgja öllum öðrum opinberum starfsmönnum. Við hefðum losnað við mörg óþægindin og marga vitleysuna og margt ámælið, rétt og rangt, ef við þá, 1961, hefðum haft vit á því að láta þau lög taka til alþm. eins og allra annarra opinberra starfsmanna því að ég endurtek það og undirstrika einu sinni enn, að við erum ekkert annað en opinberir starfsmenn. En ég segi að viss afsökun hafi verið fyrir því þá vegna launakerfisins að undanskilja alþm.

Einu ætla ég að bæta við. Þegar þessi lög voru til umr., þegar Alþ. var að framselja öðrum aðila vald til þess að ákveða laun allra opinberra starfsmanna, bókstaflega allra opinberra starfsmanna, eins fjölmennasta starfsmannahóps í landinu, þá heyrðist aldrei úr barka nokkurs þm. sú rödd, að Alþ. væri að afsala sér valdi sem það mætti ekki afsala sér, að Alþ. væri að setja niður með því að framselja öðrum aðila vald til ákvarðana, að sjálfsvirðing Alþ. væri að minnka, að virðing Alþ. í augum þjóðarinnar hlyti að minnka af því að við þyrðum ekki að axla þá byrði að ákveða laun ráðh. og húsvarða. Það vildi svo skemmtilega til, að þá var enginn maður á þingi sem hafði svo lágkúruleg sjónarmið. Þeir eru komnir á þing núna, því er verr og miður. En sé ástæða til að tala um að Alþ. væri að afsala sér valdi að ástæðulausu og virðing þess væri að minnka vegna þess að stungið er upp á því, að alþm, hætti að ákvarða kaup fyrir sjálfa sig, 60 manns, hvað hefði þá mátt segja þegar það var að afsala sér valdi til að ákveða laun þúsunda manna í landinu, einnar stærstu starfsstéttar landsins. Sem betur fer heyrðust þær raddir þá ekki. Þær ættu ekki heldur að heyrast núna.

Ég sagði áðan, að þó að 1961 hafi verið viss rök fyrir því að láta lög um Kjaradóm ekki taka til alþm., þá féllu þau rök algerlega niður þegar sú ákvörðun var tekin að ákvarða þm, mánaðarlaun. Þó mátti segja að þá væru launakjör þm. sérstæð að því leyti, að meðan þeir höfðu mánaðarlaun höfðu þeir þau aðeins meðan þing sat. Allir aðrir embættismenn og opinberir starfsmenn hafa árslaun. En eftir að sú ákvörðun var tekin, að alþm. skyldu hafa árslaun eins og ráðuneytisstjórar, eins og kennarar, eins og húsverðir í skólum, eins og læknar á ríkisspítölum, — eftir að ákveðið var að alþm. skyldu hafa árslaun, hvort sem Alþ. sæti eða sæti ekki, þá var bókstaflega engin skynsamleg ástæða lengur fyrir því að láta aðra reglu gilda um það, hvernig laun alþm. skuli ákveðin, en um laun ráðh., lækna, sýslumanna, húsvarða í barnaskólum o. s. frv. Ef alþm. þykir réttmætt, eins og þeim þykir væntanlega fyrst engin till. kemur til breytinga á því, að Kjaradómur ákveði laun ráðh. og húsvarða, kennara og lækna, sýslumanna, ef allt þetta er rétt, hvers vegna í ósköpunum er það þá ekki jafnrétt að Kjaradómur ákveði laun alþm.? Hvaða mismunur er á okkur þm. og öðrum opinberum starfsmönnum, sýslumönnum og húsvörðum í barnaskólum? Bókstaflega enginn. Það má segja að sá einn munur sé á, að við séum kjörnir til okkar starfs, en þeir séu skipaðir. Auðvitað er það eðlismunur, en það ætti engu að breyta um það, hvernig laun okkar eru ákveðin, enda höfum við sjálfir ákveðið að við skyldum telja okkur í hópi með ákveðnum opinberum starfsmönnum, þriðja hæsta launahópi starfsmanna ríkisins. Það sýnir best að við teljum okkur vera opinbera starfsmenn, alveg sambærilega við tiltekna hópa annarra opinberra starfsmanna. En hvers vegna í ósköpunum er sjálfsagt að Kjaradómur ákveði laun hinna hópanna, en megi alls ekki ákveða laun okkar.

Það er ekki heil brú í þessum hugsunarhætti og það er ekki samboðið jafnágætum þm. og andmælendum frv. að viðhafa svona röksemdafærslu. Það er enginn botn í henni. Ég mundi ekki vilja taka þátt í því sem þm. að ákveða laun ráðh. Þó má að vissu leyti segja að ráðh. séu starfsmenn okkar þm. Þeir eru óbeint valdir af okkur. Það mundi enginn ráðh. sitja hér í ráðherrastól nema sá sem væri valinn af meiri hl. Alþ. og sæti þar í skjóli meiri hl. Alþ. Ráðh. eru starfsmenn okkar, alveg eins og ráðuneytisstjórarnir eru starfsmenn ráðh., alveg eins og kennari er starfsmaður skólastjóra eða menntmrh. er starfsmaður ríkisvaldsins. En þó að ráðh. séu starfsmenn okkar, þá vil ég ekki eiga þátt í því að ákveða laun þeirra. Ég vil að annar aðili, óháður, geri það. Enn síður vil ég auðvitað eiga þátt í því að ákveða laun sjálfs mín.

Það hefur verið mikið að því víkið í þessum umr., hvort þm. taki í raun og veru laun samkv. lögum eða samkv. ákvörðun sjálfs sín. Ég tel hér vera um hreinan orðaleik að ræða sem alls ekki sé samboðinn þm. eða þingheimi yfir höfuð að tala. Mér þykir miður að það skuli verða að fréttast út fyrir þingsalina, að jafnlágkúruleg umr. og þetta eigi sér hér stað, því að öll eigum við að vita um hvað hér er í raun og veru að ræða. Í þeim lögum, sem í raun áttu að gilda, er nefndur ákveðinn launaflokkur og laun þm. breytast að sjálfsögðu um leið og upphæð launa í þeim flokki breytist. Að því leyti er það alveg rétt, að þm. ákveða ekki þær breytingar, sem verða á launum, en fylgja ákvörðun Kjaradóms um breytingar á launum annarra hópa opinberra starfsmanna. Þetta á auðvitað hverju barni að vera ljóst. En hitt á líka hverju barni að vera ljóst, að það eru alþm, sjálfir sem hafa ákveðið í hvaða launaflokki við skulum vera. Það erum við sjálf sem höfum ákveðið í hvaða launaflokki við skulum vera. Og þar með höfum við ákveðið launin okkar, eins og þau eru á hverjum tíma, þegar ákvörðunin var tekin. Við ákváðum laun okkar í krónum og aurum á þeim degi sem þessi lög voru samþykkt. Þá vissum við nákvæmlega hvað hinir hóparnir höfðu í laun. Þar með ákváðum við okkar laun í krónum og aurum. Hitt er rétt, að síðan þetta var ákveðið höfum við engu ráðið um það, hvernig þau hafa hreyfst. Þá hreyfast þau upp, ekki niður, öll laun hreyfast alltaf upp á við. Við höfum auðvitað engu ráðið um það, hversu mikið þau hafa hreyfst upp á við, síðan lögin voru sett. En hvernig í ósköpunum ætti nokkur viti borinn maður að trúa því, að við höfum ekki sjálfi:r í upphafi ráðið hver laun okkar voru? Það stendur í 1. gr. laganna, að við skulum þiggja laun samkv. ákveðnum launaflokki, og sá flokkur hafði ákveðin laun þegar ákvörðunin var tekin. Þar með ákváðum við laun okkar. Ef við hefðum viljað, eins og hv. þm. Lúðvík Jósepsson gaf í skyn, að hann hefði vel getað hugsað sér að við værum í hærri flokki, þá hefðum við ákveðið svolítið hærri laun. Aðrir hafa sagt að launin væru óþarflega há, og þá ættum við að ætla okkur lægri laun. En hvað er ég að segja? Ég er að segja að þá hefðum við ákveðið okkur hærri laun eða lægri laun. Við ákváðum okkur viss laun. Og hvernig getur nokkur lifandi maður með viti andmælt því, að þetta sé satt og rétt? Þess vegna verð ég að segja það, að mér þykja ákúrurnar, sem ritstjórar Morgunblaðsins og Dagblaðsins hafa fengið fyrir ummæli sín um þetta mál, vera í hæsta máta ósanngjarnar og ranglátar. Þær eru beinlínis rangar. Þeir hafa fullkomlega rétt fyrir sér í því, að þau laun, sem alþm. hafa, eru að grunni til ákveðin af alþm. sjálfum. — Ég skal segja þetta aftur: Þeir hafa rétt fyrir sér í því, að þau laun, sem þm. hafa í dag, eru að grunni til ákveðin af okkur alþm. sjálfum. Hitt er rétt, sem þm. hafa haldið fram, að breytingarnar, sem orðið hafa á laununum síðan, eru ekki okkar verk, þær eru verk Kjaradóms. Þetta er svo augljóst mál, að það liggur við að ég taki það nærri mér að þurfa að eyða tíma í að ræða annað eins og þetta, m. ö. o. að þurfa að andmæla jafnfávíslegri röksemdafærslu og beitt hefur verið að þessu leyti. Svo einfaldar eru grundvallarstaðreyndir málsins.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson varpaði fram þeirri hugmynd í ræðu sinni og boðaði till. um að það ætti að banna þm. að taka laun fyrir tvö störf, jafnvel þó að launin væru takmörkuð. Svo sem hann gat um er þm. heimilt að gegna öðru starfi hjá ríkinu og þiggja fyrir það 30–60% laun, ef hann innir af hendi 30–60% starfsins. Ég skal með ánægju, til þess að ekkert fari á milli mála um það, lýsa yfir fylgi mínu við slíka brtt. Ég vil þó gjarnan bæta því við, að ég tel — og vona að hv. þm. sé mér sammála um það — að þm. eigi þá ekki heldur að sitja á föstum launum í ráðum og nefndum t, d. bankaráðum, tryggingaráði og því um líku, því að störf þar eru, eins og allir vita, unnin í venjulegum starfstíma þm. og fyrir þau er því ástæðulaust að komi sérstök greiðsla. Við hv. þm. Lúðvík Jósepsson áttum sæti í verðbólgunefndinni svokölluðu, sem hélt feikimarga fundi, langa og stranga, og þurfti að lesa mörg hundruð vélritaðar blaðsíður til þess að vera nokkurn veginn heima í því efni sem þar er fjallað um. Við vorum hjartanlega sammála um það í gærmorgun, að sú n., sem aðallega er skipuð þm. og embættismönnum, skyldi engrar þóknunar æskja fyrir störf sín, af því að þau voru unnin í venjulegum starfstíma, alltaf einhvern tíma á milli 9 og 5 á daginn. Og n. varð sammála um að þetta væri rétt. Ég get líka skýrt frá því, sem almenningur eða blaðamenn vita eflaust ekki, að útvarpsráð hefur gert um það ályktun, að þm. skuli enga þóknun fá þegar þeir koma fram í útvarpi eða sjónvarpi, og er þó allvel borgað þegar menn koma fram í sjónvarpi. Fyrir það kemur engin greiðsla. Þetta er samkv. ákvörðun sjálfs útvarpsráðs, og ég er því fyllilega samþykkur, þetta er alveg eðlilegt. Aldrei hefur mér dottið í hug að kvarta undan því og ég held engum þm., sem betur fer.

Ég veiti því athygli, að hv. þm. Lúðvík Jósepsson undanþiggur einn hóp manna þeirri reglu, að þm. mættu ekki jafnframt vera í öðru starfi á fullum launum, og það eru ráðherrar. Samkvæmt hugmyndum hans er eðlilegt að ráðh. einir allra þm. megi vera í tvöföldu starfi, á fullum launum í báðum störfunum. Nú er það ekki skoðun mín, að ráðh. á Íslandi séu ofhaldnir af sínum launum. Ég var það lengi ráðh. sjálfur að ég get glöggt um það dæmt, að enginn ráðh. verður ríkur á því starfi þó að hann sé þm. jafnframt, og ég geri því enga athugasemd við þessa afstöðu hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, en ég vek bara athygli á að hún er svona. Hann ætlast til þess, að 8 þm., þ. e. a. s. ráðh., geti verið á fullum tvöföldum launum. (Gripið fram í.) Þar er engin skerðing. (Gripið fram í.) Já, ég þakka fyrir þessa leiðréttingu, hún er eflaust alveg rétt, að þeir að þessu leyti sem ráðh. hafi ekki sömu laun og hæstaréttardómarar, sem þeir höfðu áður. En það breytir í grundvallaratriðum ekki því, að Lúðvík Jósepsson gleymdi að minnast á ráðh. í þessu sambandi. Hann ætlast ekki til þess, að þeirra laun séu neitt skert frá því sem þau hafa verið síðan 1971. En það er óneitanlega umhugsunarefni, hlýtur að verða umhugsunarefni, hvers vegna ráðh. má halda fullum núverandi ráðherralaunum samfara þingmennsku, en t. d. barnakennari megi ekki halda 30% launum fyrir 30% kennsluskyldu, ef bann vill kenna. En ég fjölyrði að öðru leyti ekki um þetta.

Að síðustu skal ég víkja að því, hvað ég tel vera einu skýringuna á andstöðu gegn því, jafnsjálfsagt og það er, að þm. ákveði ekki laun sín sjálfir, heldur Kjaradómur, eins og hann ákveður laun allra opinberra starfsmanna. Það er svolítið vandleitað að skýringu á jafnóskynsamlegri afstöðu hjá jafnskynsömum mönnum og þeir þm. eru sem andmælt hafa frv. Ég held að það sé ekki um að ræða raunverulegt eða eðlilegt og réttmætt og virðingarvert stolt. Ég held að það sé um að ræða þráa og ekkert annað en þráa og fastheldni í gömul völd. Það hvarflar ekki að mér að um sé að ræða eiginhagsmuni hjá þessum hv. þm. sem andmælt hafa frv. og vilja halda í vald okkar til að ákveða laun sjálfra okkar. Það hvarflar ekki að mér að það sé vegna ótta um eiginhagsmuni sem þeir vilja ekki sleppa þeim völdum sem óneitanlega eru fólgin í því að flytja ákvörðunarvald um laun þm. úr þingsölunum yfir til Kjaradóms. Það hvarflar ekki að mér. En mér býður í grun, að það, sem hér sé um að ræða, sé viðleitni til þess að sýna vald, til þess að sýna að menn hafi vald og vilji ekki og þyki lítillækkun að því að missa vald. Ég held að hér sé á ferðinni metnaður, en algjörlega misskilinn metnaður, sem ég segi aftur að ég hef helst tilhneigingu til þess að flokka undir þráa. Það er satt að segja sakleysislegasta skýringin sem ég get fundið á jafnóskynsamlegri afstöðu jafnskynsamra manna og hér er um að ræða.

En að því slepptu, hver ástæðan er til andstöðunnar við þetta frv., þá finnst mér það aðalatriði málsins, og á því skal ég ljúka þessu máli mínu, það er í mínum augum mergurinn málsins, að forða þm. frá því að vera eini hópurinn í þjóðfélaginu sem ákveður sjálfur kaup sitt og kjör. Alþm. eru nú eini hópurinn, 60 alþm. eru eini hópurinn í þjóðfélaginu sem ákveður sjálfur kaup sitt og kjör. Dytti nokkrum í hug að mæla með því, að ráðherrarnir átta ákvæðu sjálfir ráðherralaunin? Dettur nokkrum manni í hug að dómarar í Hæstarétti ákveði hæstaréttardómaralaunin? Eða hverjum dettur í hug, að sýslumannafélagið ætti að ákveða laun sýslumannanna? Að ég tali nú ekki um það, að Samband ísl. barnakennara ætti að fara að ákveða laun barnakennara. En nú er ég farinn að segja það sem öllum finnst vera fullkomin fjarstæða. En þó við höfum almennt löggjafarvald, þýðir það endilega að við eigum að ákveða laun okkar sjálfra? Ég spyr: Hví þá ekki laun hæstaréttardómaranna? Við höfum verið sammála um að fela Kjaradómi ákvörðun þeirra. Hví má Kjaradómur ekki ákveða laun okkar?

Nei, hér er meira í húfi en maður skyldi halda í fljótu bragði. Satt að segja, þegar alþm. telja það vera metnaðaratriði fyrir sig, það er talið að sé verið að særa stolt þm. að afsala sér þessu valdi, þá hristir maðurinn á götunni höfuðið, að ég tali ekki um að skynsamir blaðamenn og ritstjórar hrista höfuðið. Hvernig í ósköpunum eiga menn að skilja að það sé skerðing á stolti og metnaði að vilja ekki sjálfsákvörðun um laun sín, frekar en laun ráðh., dómara, kennara, sýslumanna — hver er munurinn? Auðvitað skilur enginn maður að á því sé nokkur munur. Hafi hitt verið rétt, þá er þetta rétt. Ef við höfum gert rangt 1961, þegar við hættum að setja launalög, þá á að byrja á því aftur. Það er eina skynsamlega ályktunin sem hægt er að draga af þessum málflutningi, ef maður tæki hann alvarlega, að Alþ. taki sér aftur launaákvörðunarvald hjá öllum opinberum starfsmönnum, eins og það gerði í áratugi, heila öld. En fyrst menn höfðu kjark til þess án þess að kveina og kvarta 1961 að afsala sér þessu valdi, þá ætti mönnum nú að vera vorkunnarlaust að afsala sér valdi til ákvörðunar launa sjálfs sín og geta haldið höfðinn samt og fullri reisn. Ég tel reisn mína sem alþm. ekki vera minni, ef ég gæti komið því til leiðar að við afsöluðum okkur þessu valdi, heldur meiri eftir en áður.