09.02.1978
Neðri deild: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2141 í B-deild Alþingistíðinda. (1712)

168. mál, þingfararkaup alþingismanna

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Ég kveð mér nú hljóðs aðeins til að nefna hér mjög ánægjulega og skemmtilega ræðu sem hv. 9. þm. Reykv. flutti og hins vegar dapurlega ræðu sem hv, 3. þm. Austurl. leyfði sér að flytja.

Í ræðu hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar er sérstaklega eitt atriði sem ég vildi koma inn á. Honum fannst það vera mjög fráleitt, að við hv. 2. þm. Austurl. gætum verið sammála um það að vera á móti frv. hans, þó að við værum gjörólíkrar skoðunar um hvort þingmennska ætti að vera fullt starf eða aðeins starf að hluta til. Ég held einmitt að þessi skoðanaágreiningur okkar hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar sé þess eðlis, að hann bendi til þess að við eigum einmitt hér á Alþ. að ræða launakjör okkar fyrir opnum tjöldum og við eigum að láta fólkið ráða því, m. a. þegar það kýs okkur til þings, þá hafi það m. a. hliðsjón af því, hvort við viljum breyta Alþ. á þann veg, sem nú er verið að gera, eða hvort við viljum kannske hverfa eilítið til baka, yfir á þá stefnu sem ég hef fylgt, hvort hinn einstaki kjósandi vill frekar að alþm. allir séu atvinnustjórnmálamenn, eins og hv. þm. Lúðvík Jósepsson vill, eða hvort þeir vilja það ekki, Ég held að við séum að taka vald af fólkinu einmitt með því að láta Kjaradóm um að ráða kjörum okkar, vegna þess að auðvitað eiga kjörin að vera í samræmi við það sem við ákveðum um starfshætti.

Ég held þess vegna að það megi alveg snúa við röksemdafærslu hv. þm. Það er einmitt þetta eðli Alþ., að vera Löggjafarsamkunda, að verða að taka ákvörðun um öli málefni þjóðarinnar, öll löggjafarmálefni þjóðarinnar, sem gerir það að verkum að svona opnar umr. þurfa að fara fram og eiga að fara fram, en kannske, eins og einhver gat um, hefði verið betra að það hefði gerst en á einhverjum öðrum tíma en þegar við erum að ræða um þessi efnahagsmál. Ég held a. m. k. að þetta sjónarmið megi gjarnan koma fram, og ég vil endilega ekki taka kaleikinn frá Alþingi, eins og hv. þm. Ellert B. Schram nefndi og hv, þm. Gylfi Þ. Gíslason raunar líka, þegar hann sagði að mergurinn málsins væri, að forða þyrfti þm. frá því að vera þeir einu sem ákvæðu sín laun. Ég held að það megi nefnilega ekki alltaf vera að forða þm. frá ábyrgð.

Við forðuðum þm. talsvert mikið frá ábyrgð þegar við breyttum kjördæmaskipuninni. Nýja kjördæmaskipunin hefur auðvitað kosti, en hún hefur líka stórfellda galla, m. a. þann galla, að fólkið getur síður valið persónur nú en áður. Þess vegna getur það ekki haft hliðsjón af skoðunum okkar hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar einna þegar það kýs lista í okkar kjördæmum. En það hefur þó hliðsjón m. a. af þessari skoðun og öðrum þeim skoðunum sem nú eru uppi. Þess vegna tel ég einmitt að Alþ. þurfi að hafa manndóm í sér. til þess að fjalla um þessi mál eins og önnur löggjafarmálefni, þó að vissulega sé margt til í þeim skoðunum og sjónarmiðum sem fram komu hjá hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni, og ég endurtek þakkir mínar til hans.

En sama get ég því miður ekki sagt um ræðu hv. 3. þm. Austurl., vegna þess að hún var með endemum. Ég ætlaði mér ekki, eins og ég gat um fyrr í dag, að taka að mér neinar varnir fyrir ritstjóra Morgunblaðsins, það væri óþarft. Er þegar ósannindin ganga svo úr hófi sem þau gerðu áðan, þá held ég að ég verði að koma að leiðréttingu.

Hv. þm. sagði áðan að Morgunblaðíð héldi því fram í leiðara í gær fullum fetum, að þm, séu skattsvikarar. Það er enginn stafur í þessa átt í ritstjórnargrein Morgunblaðsins. Setningin, sem hann á við, er svo hljóðandi, og á henni hefur verið þrástagast, — hún er svo hljóðandi, með leyfi forseta: „Auk þess hafa þm. skammtað sjálfum sér skattfríðindi.“ Þetta vita allir menn að er rétt. Þm. hafa skammtað sér skattfríðindi. Þeir hafa skammtað ótalmörgum öðrum borgurum skattfríðindi. Það morar af skattfríðindum í skattalögum. Það er ekki sagt að það sé verið að brjóta skattalög, það eru engin lögbrot. Þm. sagði hér í dag: „skattaívilnanir“, Hann sagði það í fyrri ræðu sinni. Hann falsaði setninguna þá strax. Ég nennti ekki að leiðrétta það. En núna segir hann að Morgunblaðið hafi fullum fetum sagt, að þm. séu skattsvikarar. Þetta eru hrein og vísvitandi ósannindi þm. og þess vegna hlýt ég að verða að leiðrétta það hér. Það vita allir menn, að t, d. sjómenn hafa viss skattfríðindi. Það vita allir að sparifjáreigendur hafa skattfríðindi, Þm. hafa viss skattfríðindi, meira að segja eru skattfríðindi fyrir kirkjusöng, það er í lögum. Það er ekki sagt eitt einasta ósatt orð í þessari ritstjórnargrein, svo að ég geti séð. (Gripið fram í.) Ég er lærður í röksemdafærslu og það er a. m. k. meira en hægt er að segja um hv. þm. Sverri Hermannsson, vegna þess að það eru bæði rakaleysur og lögleysur sem hann er að halda fram, og ég skal nú koma að því, að það er að mínum dómi farið með rangt mál í grg. frá þfkn. Alþingis, og það er eins gott að segja það hér eins og það er að mínum dómi, þar sem talað er um það, eins og orðrétt segir:

„Kjaradómur úrskurðaði nú laun þm. með dómi sínum í nóv. s. l. Samkvæmt lögum taka þm. laun samkvæmt þriðja efsta flokki í launaskrá starfsmanna ríkisins, efsta þrepi þess flokks, og allir þm, sömu laun án tillits til starfsaldurs.“

Hvar stendur þetta í lögum? Þetta er hvergi í lögum. Það stendur í 1. gr. laga nr. 57 1971, að þm. taki laun samkvæmt launaflokki B 3. Annað stendur þar ekki. Það stendur ekkert um að það sé alltaf þriðji hæsti launaflokkur, og þessi launaflokkur er ekki til lengur og hefur öllum launaflokkum verið raskað. Það stendur ekkert um það heldur, að það skuli vera hæsta þrep, eða neitt af þessu sé hér staðreyndunum samkvæmt. Og ég vildi gjarnan fá að vita hvaða lögfræðingar það eru, sem fullyrða að þetta sé rétt lagaskýring. Ég sagði í minni frumræðu, að ég efaðist um að hún væri rétt. En mér er nær að segja núna, að ég sé sannfærður um að hún sé ekki rétt. Það er líka rangt með farið á einum stað í þessari grg., þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

Þm., sem búsettir eru í Reykjavík, en gegna þingmennsku fyrir landsbyggðarkjördæmi, fá greiddan húsaleigustyrk milli þinga og hálfa dagpeninga, og hefur svo verið gert síðan 1973.“

1973, stendur hér. Ég hef ekki fengið þennan styrk greiddan og mundi ekki heldur taka við honum, vegna þess að ég held að það hafi ekki stoð í ]ögum að greiða þetta. Það er sagt að allir þm. fái þetta greitt. Ég hef ekki fengið það greitt og ekki beðið um það. Hins vegar bað ég um í haust, að ég fengi að vita hvernig þessum málum væri hátta, bað skrifstofustjóra um að ég fengi um það grg., og hvaða fé það væri sem ég hefði átt samkvæmt þessu að fá, en ég hef ekki fengið grg. En það er kannske ástæða til þess nú að fara að biðja um yfirlit um launagreiðslur til hvers einstaks þm., þegar vísvitandi er borin ósanngirni og óheiðarleiki á menn úti í bæ, blaðamannastéttina í heild og ritstjóra sem reyna að stjórna sínum blöðum af eins miklum heiðarleika og þeir geta. Þetta er nefnilega farið að ganga nokkuð langt, og skilst betur mína hvað einmitt sá ritstjóri, sem hv. þm. Sverrir Hermannsson er að ráðast að, Matthías Johannessen, átti við þegar hann sagði í merkri grein í sumar, merku viðtali sem allir kannast við, að þegar hann mætti ákveðnum þm., þá minntu þeir sig á músarindla sem héldu að þeir væru komnir úr arnarhreiðri.