09.02.1978
Neðri deild: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

168. mál, þingfararkaup alþingismanna

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka mikinn þátt í þessum umr., en það, sem olli því að ég bað um orðið, var fyrst og fremst ummæli hv, þm. Gylfa Þ. Gíslasonar, og frá fleirum hefur það komið hér fram, að það séu ósanngjarnar ákúrur sem dagblöð — og þá var fyrst nefnt Morgunblaðið og Dagblaðið — hafa fengið og þær taldar vera rangar. Ég vil segja það, að ég legg ekkert að jöfnu þau ummæli, sem komu í Morgunblaðinu, og það sem fram hefur komið í Dagblaðinu. En mig undrar það, að menn skuli yfir höfuð hér taka upp hanskann fyrir þann málflutning sem uppi hefur verið hafður í Dagblaðinu. (Gripið fram í.) Ja, það kom hér almenn yfirlýsing um það, að ákúrurnar, sem Morgunblaðið og Dagblaðið hafa fengið, væru rangar. Að vísu skal ég viðurkenna að fyrst og fremst var verið að tala um það, hvort þm, skömmtuðu sér laun eða ekki, en þessi yfirlýsing var almenn. (Gripið fram í.) Það er gott að fá staðfestingu á því. Við skulum þá líta aðeins á það, hvort þessar ákúrur eru rangar eða ekki rangar. Ég hef að vísu ekki búið mig undir það að koma hér með tilvitnanir í leiðara, en ég held að ég muni það rétt, að það bar upp á sama dag og þm. komu saman eftir jólafrí, að Dagblaðið birti í leiðara sínum ummæli um kaup og almenn kjör þm, og hélt því fram í þeim leiðara, að þm. væru skattsvikarar. Og m. a. til að sýna fram á það var það borið saman, að opinberir starfsmenn fá samkvæmt skattalögum sínar greiðslur, dagpeninga og ferðakostnað, út og inn, og var tekið fram, að þess vegna gerði þetta ekki mismun gagnvart tekjuskatti, vegna þess að í báðum tilvitunum væri ekki á þessar greiðslur lagt. En frá hinu var ranglega sagt, að þm. væru hér að svíkja undan útsvarsgreiðslum, Ég held að flestir, sem skoða skattframtalið sitt, sjái að í vissum reit á skattframtalinu eru þessar sömu greiðslur líka undanþegnar útsvari. Það var í gær sem verið er að hnykkja á um þessi svokölluðu skattsvik. Ég skal gjarnan upplýsa það, að ég lagði fram í þfkn. úrskurð ríkisskattstjóra síðan 1975, vegna þess að það höfðu verið áætlaðar tekjur á mig vegna þessara greiðslna. Ég taldi rétt að það gengi til úrskurðar, hvort það væri rétt á lagt eða ranglega.

Úrskurður ríkisskattstjóra var byggður á þeirri forsendu, að það væri ekki hægt að ætla að þm. Gunnlaugur Finnsson hefði haft af því neinar tekjur umfram gjöld sem leiddi af þessum greiðslum, og á þeim forsendum var sá úrskurður felldur, að þær skyldu ekki teljast til skattgjaldstekna. Hvað heyrum við í dag, eða hvað lesum við í blöðum nú undanfarna daga? Við lesum það, að Alþ. sé að skjóta sér á bak við úrskurð ríkisskattstjóra. Á bak við hvaða embættismann eða hvaða dóm er ekki hægt að skjóta sér, úr því að Alþ. getur skotið sér á bak við dóm slíks embættismanns?

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því, að það er alvarlegt mál þegar menn með röngu, með beinum lygum rægja og reyna að brjóta niður Alþingi, þessa stofnun í landinu sem hefur sérstöðu og fer með löggjafarvald. Ég tel að það séu vissar kenndir þar á bak við, órökstuddar, til þess að brjóta niður trúnað. Og það má örugglega nefna ákveðnum nöfnum þann hóp í blaðamannastétt, sem fyrst og fremst gerir sér far um það, og vita það, en ekki að taka upp málsvörn fyrir hann hér.

Ég held að það sé fyrst og fremst þetta sem við verðum að hafa í huga. Við eigum hvorki að óttast þá umr., sem fer fram, né eigum við að láta hana móta afstöðu okkar til þess, hvort Alþ. heldur í þá hefð, sem hefur verið og gilt hér, eða hvort eigi að breyta til einhvers annars forms.

Ég fyrir mitt leyti er alveg sannfærður um það, og ég get tekið undir það með hv. 3. þm. Austurl., að ég er alveg sannfærður um að það hefði orðið meiri fylgni á milli almennra hækkana, svo sem þær hafa verið ákvarðaðar í fjmrn., bæði varðandi dagpeninga og kílómetragjald - það hefðu orðið meiri hækkanir á greiðslum til þm. samkv. úrskurði Kjaradóms heldur en samkv. þeim ákvörðunum sem þfkn. hefur tekið.

Í tilefni af því, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, 4. þm. Norðurl. v., þá held ég að í grg. þfkn. hafi fyrst og fremst verið talað um það, hvað menn ættu rétt á, en ég tel að það sé ekki hlutverk n. að fylgjast með því, hvort einstakir þm. hafni því að taka við þeim greiðslum, sem þeir eiga rétt á, eða ekki. Þar hafa verið uppi höfð þau vinnubrögð, og hygg ég að það sé gömul hefð, að þingflokkunum hefur verið tilkynnt um niðurstöður þfkn. og til þess ætlast að þær niðurstöður yrðu kynntar þar. Það hlýtur þá að vera hvers og eins að gera það upp við sig og tilkynna það þá skrifstofustjóra Alþingis ef hann hafnar því að taka á móti greiðslum, sem hann ætti rétt á samkv. úrskurði þfkn.