09.02.1978
Neðri deild: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2145 í B-deild Alþingistíðinda. (1714)

168. mál, þingfararkaup alþingismanna

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það hefur færst allmikið fjör í þessar umr, undir miðnættið. Ég veit að það eru fleiri á mælendaskrá. Ég skal því ekki vera langorður, en mig langar til þess að segja hér örfá orð til viðbótar því sem ég gerði í kvöld, út af því sem fram hefur komið síðan.

Mér fannst afar gaman að hlýða á ræðu hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar áðan. Það er því miður allt of sjaldan sem sá hv. þm. er í svo skemmtilegum ham sem hann var hér þegar hann ræddi um þetta mál í sinni seinni ræðu. Ég ætla ekki að gera margar athugasemdir við hans mál, en mig langar til að víkja a. m. k. að einni.

Hann sagði: Ég vil ekki taka þátt í því að ákveða laun mín sjálfur. — Nú er það vitað, að þessi hv. þm. ætlar sér ekki að sitja lengur á Alþ. heldur en í mesta lagi næstu fjóra mánuði. Hann er búinn að sitja hér á Alþ. í 30–40 ár og hefur allt það tímabil tekið þátt í því að ákveða launin sín sjálfur. Alla þá tíð, sem hv. þm. hefur setið á Alþ., hefur hann ákvarðað launin sín sjálfur. Nú vill hann fara að hætta því fjórum mánuðum áður en hann fer fyrir fullt og allt. Það má auðvitað bæta við: betra er seint en aldrei, ef þetta hefur á annað borð verið skoðun hv. þm., að svona ætti það ekki að vera. En ég held að það sé ekki vegna þess. Ég sannfærist um það frekar, eftir því sem á hefur liðið þessar umr., að það er keimur af því að flm. frv. séu að hopa fyrir blaðamönnunum fyrst og fremst sem hafa hvað mest látið að sér kveða varðandi þetta mál. Og það eru alls ekki ómakleg ummæli sem ég og sumir aðrir hv. þm. hafa hér haft um skrif þessara blaðamanna. Það er síður en svo. Það er meira að segja í flestum tilfellum of vægt til orða tekið sem við höfum sagt hér í þeirra garð.

En hver er skoðun þeirra hv. þm. sem halda því fram, að það verði allra meina bót í þessum efnum að láta Kjaradóm ákveða þessi mál? Hver er þeirra skoðun á því? Telja þeir, að við það að breyta í það ástand að Kjaradómur ákveði kjörin séu líkur á því að launin hækki eða lækki?

Í mínum huga er það annað meginatriðið í þessu máli, hvort sé réttmæt sú greiðsla sem þm. fá fyrir sín störf, hvort menn geta rétttætt hana. Ég er sannfærður um það, að því er varðar þingfararkaupið sjálft, að það mundi vera hærra eftir úrskurð Kjaradóms, og ekki síður mundu önnur launakjör, sem þm. ættu að fá, verða mun rýmri ef Kjaradómur ætti að ákveða þau.

Það væri gaman að fá um það vitneskju, hvað þessir hv. þm. telja að mundi gerast í þessu. Mundi það hækka, mundi það lækka eða mundi Kjaradómur kannske bara staðfesta t þessu tilfelli úrskurð þfkn.?

Hvernig í ósköpunum stóð á því, að í ráðherratíð hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar, 1961, fylgdi hann ekki sannfæringu sinni, þegar ákveðið var að Alþ. afsalaði sér því að ákveða svo að segja laun allra ríkisstarfsmanna, — hvernig stóð á því, að hann hélt ekki sinni sannfæringu þá, 1961? Hafi hann verið yfirbugaður þá, af hverju hefur hann ekki tekið málið upp síðan? Ráðh. var hann í mörg ár eftir 1961 og hafði því kjörið tækifæri til þess að hafa áhrif á, að þessu yrði breytt í það rétta horf sem hann telur vera.

Ég sagði áðan, að það hefur frekar ásótt mig sú tilfinning, að flutningur þessa frv. stafaði af því, að menn vildu hopa. Hliðstætt frv. kom fram eftir að sjónvarpið á sínum tíma tók þetta mál upp og útmálaði launakjör þm., og ég held einnig að þá hafi verið tilhneiging til þess að hopa fyrir þessum áróðri.

Ég held að það sé ekki í huga neins þm., það sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason sagði áðan, að eina skynsamlega ástæðan — ef menn vildu kalla það skynsamlega ástæðu — sem hann teldi vera fyrir því, að við erum andvígir frv. væri sú að menn vildu sýna vald sitt. Ég held að það sé ekki. Hins vegar hygg ég að allir þm. setji sér að viðhalda virðingu Alþingis í þessum efnum sem öðrum og að þeir verði þá jafnframt að vera menn til að axla þá byrði sem því valdi eða þeirri viðleitni að viðhalda þessari virðingu er samfara.

Ég er ekki síst andvígur því að yfirfæra þetta vald til Kjaradóms vegna þess, að ég tel að við þá aðferð muni þetta hækka. Hins vegar má það rétt vera hjá hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni, að Alþ. mundi losna við mörg óþægindi við að láta öðrum eftir að ákvarða þessi laun. En ég er ekki viss um, eins og hann orðaði það, að menn mundu losna við mikla vitleysu fyrir það. Ég held að að því leyti til væri það ekkert betur farið í höndum Kjaradóms en Alþingis.

Svo sagði hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason: Það var enginn þm. 1961 með svo lágkúruleg sjónarmið, að hann vildi halda þessum áhrifum þingsins til þess að ákvarða laun. En nú eru hér komnir þm., segir hann, sem hafa þessi lágkúrulegu sjónarmið. — Er nú hægt að búast við því, að ég eða aðrir berum mikið traust til svona ummæla eftir að hafa það sem staðreynd, að þessi hv. þm. hefur í 40 ár, ef ekki meir, sjálfur tekið þátt í þessari ákvörðun? Ég held ekki. Ég held að það sé í hvorugu þessara tilvika hægt að tala um lágkúruleg sjónarmið eða viðhorf. Menn greinir hér á í þessum meginatriðum, og við því er að sjálfsögðu ekkert að segja.

Mig langar aðeins að lokum að víkja örfáum orðum að því, sem fram kom í ræðu hv. 9. landsk. þm„ Sigurlaugar Bjarnadóttur. Ég sagði fyrr í kvöld, að mér fannst ekki fara saman það, sem hún hafði á blað sett í skrifum um þetta mál, og það, sem hún hafði látið frá sér fara í ræðu, við það, sem hún hafði í raun og veru gert í afstöðunni til málsins þegar hún hafði aðstöðu til þess að taka ákvörðun. Ég skal ekki fara út í það hér, það hefur verið upplýst, að ekkert var bókað um afstöðu hennar í þfkn., þannig að ekkert er hægt þar um að fullyrða. En þessi skoðun mín stendur eigi að síður óhögguð.

Hv. þm. sagði: Við vorum að fara að öllu leyti að lögum. — Ákvörðun þfkn. er að hennar áliti, eins og ég hygg að sé að áliti allra nm. í þfkn., byggð á lögunum og farið eftir þeim. En þá liggur manni við að spyrja, þegar talað er í þeim dúr sem hv. 9. landsk. þm. gerði: Er það ekki eitthvað í þá átt, að hans mati, að vera löglegt, en siðlaust. Þetta er einn af þeim sem um þetta mál hafa skrifað, og mér finnst að það liggi við, að hjá þeim, sem skrifa og tala í svipuðum dúr og hv. 9. landsk, þm., en beita svo ekki áhrifum sínum með öðrum hætti þegar þeir hafa aðstæður til þess að taka ákvarðanir, liggi þetta á bak við.

Það má lengi um það deila, hvort þær launahækkanir opinberra starfsmanna, sem mestar urðu, hafi verið svo miklar að mönnum hafi ofboðið, eins og hv. 9. landsk. þm. sagði, að sér hefði ofboðið kröfuharkan og launahækkunin sem sumir hverjir opinberir starfsmenn fengu. Það skal ég ekki deila um hér. Hitt stendur eigi að síður óhaggað, að það voru miklum mun meiri launahækkanir, sem ríkisstj. samdi um við opinbera starfsmenn, heldur en þær launahækkanir, sem hinn almenni maður á vinnumarkaðinum innan verkalýðshreyfingarinnar fékk. Það er staðreynd. En það var ríkisstj. sjálf sem gerði þá samninga við BSRB, og það eru þeir samningar, sem þessi hv. þm. ásamt að öllum líkindum öllum stjórnarliðum öðrum ætlar að fara að breyta með lögum næstu daga.

Ég ítreka það, sem ég sagði fyrr í kvöld, að afstaða mín er sú, að það eigi ekki að láta það í hendur Kjaradómi að ákveða laun alþm. Þeir eiga að hafa til þess manndóm að gera það sjálfir, og þeim er vel til þess trúandi og treystandi að fara ekki yfir eðlileg mörk í þeirri ákvörðun, miðað við það sem almennt er að gerast á launamarkaðnum hverju sinni. Ég tel því, að það yrði ekki til bóta þó farin yrði sú leið sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég hygg að það yrði miklum mun betra að stíga skrefið til baka til þess sem áður var, að Alþ. sjálft ákvarði þetta.