09.02.1978
Neðri deild: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2147 í B-deild Alþingistíðinda. (1715)

168. mál, þingfararkaup alþingismanna

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af einu atriði í ræðu hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, en í orðum mínum felst í raun og veru einnig svar við gagnrýni hv. þm. Karvels Pálmasonar á síðari ræðu minni.

Það er rétt hjá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni, að það eru tengsl á milli eðlis þingmannsstarfsins og þess, hvernig skynsamlegt er að taka ákvörðun um laun þm. og hver þau eigi að vera. Þetta sjónarmið í ræðu hans er rétt. Ég vil í því sambandi gjarnan láta það koma alveg skýrt fram, að ég er sammála í grundvallaratriðum þeim skoðunum sem hann lýsir nú og Bjarni heitinn Benediktsson lýsti á sínum tíma, en andvígur þeirri skoðun sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson lýsti síðdegis í dag og Eysteinn Jónsson var málsvari fyrir á sínum tíma varðandi eðli þingmannsstarfsins. Ég er sammála skoðun Eyjólfs Konráðs Jónssonar og Bjarna Benediktssonar um það, að ekki sé heppilegt að þm. séu atvinnustjórnmálamenn. Ég tel hitt heppilegra, að þeir gegni jafnframt öðrum störfum og haldi þannig lífrænni tengslum við þjóðlífið í heild, og læt með þessum orðum útrætt um það mál.

En það er mergurinn málsins, og því vil ég beina til hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar og Karvels Pálmasonar, að síðan 1971 er enginn eðlismunur á starfi þm. og starfi annarra opinberra starfsmanna. Við höfum sjálf ákveðið að þm. skuli vera á föstum árslaunum, eins og ráðuneytisstjórar, eins og sýslumenn, eins og kennarar, eins og læknar. Þetta er ekki nema sex ára gömul skipan, og það eru þrjú ár síðan við hv. þm. Ellert B. Schram fluttum till. um breyt. á þessu. M. ö. o.: ástæðan fyrir því, að þetta frv. er flutt, er að þingið er sjálft búið að taka ákvörðun um að þingmannsstarfið skuli vera nákvæmlega hliðstætt venjulegu starfi opinbers starfsmanns og meira að segja í ákveðnum launaflokki opinberra starfsmanna. Eftir að þessi skipun var tekin upp tel ég engin rök vera til þess, að laun þm. séu ákveðin með öðrum hætti en laun ráðherra, ráðuneytisstjóra, sýslumanna, húsvarða í barnaskólum, eins og ég sagði áðan, en laun allra þessara manna eru ákveðin af Kjaradómi. Þess vegna eiga laun þm. líka að vera ákveðin af Kjaradómi.

Ég lýk þátttöku minni í þessum umr. með því að endurtaka, að ég tel í hæsta máta óeðlilegt og virðingu Alþ. ósamboðið að 60 þm. skuli vera eini hópurinn í bjóðfélaginu sem ákveður kaup sitt og kjör sjálfur.