09.02.1978
Efri deild: 58. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2155 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

175. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Áformuð gengisfelling núv. stjórnar er að verða að veruleika, — gengisfelling sem er talin frá sjónarmiði íslensks gjaldmiðils 13%, — gengisfelling sem felur í sér hækkun erlends gjaldeyris um 14.9%. Þessi aðgerð kemur vissulega fáum á óvart. Tímabil núv. stjórnar er mesta gengislækkunartímabil Íslandssögunnar. Á tímaskeiði núv. stjórnar hefur gengi krónunnar verið fellt, ef miðað er við hækkun erlends gjaldeyris, um 256%, og óhætt er að fullyrða, að engin ríkisstj., hvorki fyrr né síðar, hefur jafnskefjalaust ráðist gegn verðgildi gjaldmiðla okkar.

Nú er það að vísu svo, að gengi gjaldmiðilsins getur ekki verið neitt óumbreytanlegt „prinsip“mál. Óbreytanlegt gengi er ekki nein heilög kennisetning í sjálfu sér, Gengi krónunnar hlýtur að vera háð innri og ytri skilyrðum og ákvarðast að einhverju leyti af æskilegu hlutfalli milli innflutnings og útflutnings. Vinstri stjórnin hélt sig ekki fast við nákvæmlega sömu gengisskráninguna allt sitt valdatímabil, heldur lækkaði hún gengið oftar en einu sinni og hækkaði það einnig oftar en einu sinni. Þegar vinstri stjórnin tók við völdum var dollarinn metinn í íslenskum krónum 87 kr., en hann var kominn í 97 kr. rúmar þegar stjórnin fór frá, hafði á tímabili staðið í 84 kr, og á tímabili farið upp í 97. Á þriggja ára tímabili hafði sem sagt orðið hækkun á erlendum gjaldeyri sem nam 11%. En til samanburðar er hægt að hafa það í huga, að gengið hefur lækkað um 156% á þremur og hálfu valdaári núv. stjórnar, ef gengisfallið er reiknað í hækkun erlends gjaldmiðils.

Eins og ég sagði áðan, eru vafalaust allir sammála um að gengi krónunnar getur ekki verið neinn heilagur hlutur sem aldrei má snerta. En hitt hefur verið sjónarmið æðimargra, að sérhverri ríkisstj, bæri að reyna að varðveita verðgildi gjaldmiðilsins af alefli og gengisfelling væri seinasta úrræði sem nokkur ríkisstj. gripi til, og í öðru lagi hlyti sérhver ríkisstj. að forðast stórar kollsteypur. Reynslan hefur fyrir löngu sýnt, bæði okkur Íslendingum og öðrum þjóðum, að stórar kollsteypur í gengismálum eru til einskis og skapa miklu meiri vandamál en þeim er ættað að leysa. Hitt er ljóst, að núv ríkisstj. hefur fylgt allt annarri stefnu. Gengisfellingin hefur orðið hennar aðalúrræði gagnvart flestum efnahagsvandamálum sem upp hafa komið. Og gengisfellingin er raunar orðin fíknilyf núv. stjórnar. Það hefur aldrei verið eins ljóst og einmitt í tíð þessarar stjórnar, að efnahagsúrræðið gengisfelling hefur öll einkenni þeirra lyfja sem eru vanabindandi og hafa vaxandi eiturverkanir eftir því sem þeim er oftar beitt. Ýmis hættuleg fíkniefni eru, eins og hv. þm. er vafalaust kunnugt, vanabindandi og þó eru þau viðurkennd sem eðlilegt læknisúrræði í smáum skömmtum. Þau geta talist hyggileg aðgerð í nógu smáum stíl og eru þægileg og einföld í notkun og hafa skjót áhrif. En þau eru þeim mun hættulegri því stærri sem skammtarnir eru og því oftar og lengur sem þau eru notuð. Og allt þetta á vafalaust við gengisfellingarúræðið.

Í fyrra, fyrir rúmu einu ári, var lögð fram af hálfu Þjóðhagsstofnunar spá um þjóðarhag á árinn 1077. Þetta var í árslok 1976 og þá byggðu menn spádóma sína á þáverandi útliti í efnahagsmálum, sem var að flestra dómi alls ekki svart á þeim tíma, Afkoma fyrirtækja hafði verið góð á árinu 1976, eins og skýrt kemur fram í riti Þjóðhagsstofnunar sem kom út í lok þess árs, og útlitið á árinu 1977 var að ýmsu leyti talið gott, m, a. stórfelldar hækkanir á afurðum okkar á ferðinni. En í þessari þjóðhagsspá, sem var gefin út í desembermánuði 1976, var samt sem áður gert ráð fyrir því, að verðbólga á árinu 1977 yrði 22–24%, jafnvel án nokkurra kauphækkana á því ári, en þeim mun meiri sem frekari kauphækkanir bættust við. Þetta tel ég að sé einkar athyglisvert fyrir þm, að skoða nú þegar verið er að framkvæma þetta stórfellda gengisfall, að á því augnabliki, þegar aðstæður allar eru í besta lagi, að því er séð verður og talið er, verðlag á afurðum okkar ört hækkandi, afkoma fyrirtækja ágæt, þá spáir Þjóðhagsstofnun verðbólgu upp á 22–24%. Hvers vegna gerir hún það? Svarið er einfaldlega það, að hún gengur út frá svo og svo miklu gengissigi á árinu 1977, gengissigi upp á 10–12%, sem muni með öðru valda 22–24% verðbólgu á komandi ári, árinu 1977.

Nú um áramótin voru aðstæður að vísu nokkuð aðrar og bersýnilega talsverðar blikur á lofti. En það sama endurtók sig nú í haust, að við útreikning fjárl. fyrir árið 1978 er gengið út frá sem gefnu að um verði að ræða 18% gengissig á árinu 1978. Í báðum tilvikum er um það að ræða að efnahagsráðunautur núv. stjórnar gengur út frá því sem gefinni stærð, bæði haustið 1976 og haustið 1917, að núv. ríkisstj. muni framkvæma svo og svo mikið gengissig á komandi ári, og það hvort heldur um er að ræða sæmilega gott útlit, góða afkomu fyrirtækja og gott ástand á mörkuðum okkar eða blikur á lofti, eins og var nú þegar fjárlög voru afgreidd. Í öðru tilvikinu er að vísu gengið út frá heldur minna gengissigi eða um 10–12% í árslok 1976, en í árslok 1977 er áætlunartalan 18%, Þetta sýnir svo glöggt sem verða má, að gengissigs- og gengislækkunarstefnan er óaðskiljanlegur partur af stefnu núv. ríkisstj. Gengissigið er framkvæmt sem hluti af fastmótaðri stefnu.

Það var ljóst þeim sem til þekktu, að í byrjun þessa árs hafði ríkisstj. tekið ákvörðun um að framkvæma þessa 18–20% gengislækkun, sem efnahagsráðunautur stjórnarinnar hafði gengið út frá í spádómum sínum, á mjög skömmum tíma í ársbyrjun, væntanlega fyrst og fremst í janúarmánuði og febrúarmánuði. Og fyrirskipanir tóku að streyma úr viðskrn, í Seðlabankann um hægfara fellingu gengisins, kvartprósent og hálft prósent á dag, og var greinilega stefnt að því, að þessi 20% gengisfelling gengi yfir á tveggja mánaða tímabili án þess að gengisfellingin vekti allt of mikla athygli og án þess að hún ylli ríkisstj. of miklum álitshnekki eða að kaupæði gripi um sig, eins og oft vill verða þegar gengisfelling er í aðsigi. En þessi áform ríkisstj. urðu að engu þegar síðdegisblöðin, sem að nokkru leyti eru stuðningsblöð núv. ríkisstj., slógu því upp og síðan að sjálfsögðu stjórnarandstöðublöðin, að í gangi væri skipulagt gengissig sem ætti að ganga yfir á skömmum tíma. Þá varð að sjálfsögðu mikið kaupæði í landinu, eins og ævinlega verður við slíkar kringumstæður, fólk fór að fylgjast með því sem var að gerast, og ríkisstj, gerði sér grein fyrir því, að það áform hennar að láta þessa gengisfellingu ganga yfir hægt og þétt á tveggja mánaða tímabili var óframkvæmanlegt án stórfelldra vandræða. Því stöndum við nú frammi fyrir þeirri gengisfellingu sem nú er framkvæmd í einu skrefi.

Eins og ég sagði áðan, felur efnahagsstefna núv. stjórnar það í sér, að ákveðið er að láta gengið elta innlenda verðlagsþróun án nokkurrar verulegrar tregðu. Það er þess vegna sem ég segi og hef sagt, að gengisfellingin er hluti af stefnu núv, stjórnar. Á nákvæmlega sama hátt er vaxtahækkunarstefna hluti af heildarstefnu þessarar ríkisstj. Hún hefur ákveðið að vextir skuli hækka í réttu hlutfalli við verðbreytingar sem verða innanlands, og afleiðingin er að verða sú, að algengustu útlánsvextir hér á landi verði 34% þ. e. a. s. að hverjum og einum sé ætlað að skila 1/3 af verðmæti þess, sem hann fær að láni, á einu ári auk lánsins sjálfs, sem að sjálfsögðu hlýtur að valda öllum þeim, sem lánsfé þurfa að nota, meira eða minna óyfirstíganlegum erfiðleikum í hvers konar rekstri.

Það heyrist oft hjá þeim, sem hafa ekki allt of mikið velt fyrir sér þessu ægilega verðbólguvandamáli sem hrjáir okkar þjóð, að kannske sé það eina rökrétta leiðin að verðtryggja bara öll lán, öll innlán, öll útlán, hvort heldur eru bankalán eða lán fjárfestingarsjóða, og tengja síðan gengi krónunnar beint við verðlagsþróunina, þannig að gengið sé að breytast á hverjum einasta degi eða hverri einustu viku, eftir því sem talið er að verðbreytingar eigi sér stað. Það er alveg ljóst, að með stefnu af þessu tagi væri hægt að halda alveg föstum hlutföllum innbyrðis í þjóðfélaginu þrátt fyrir mikla verðbólgu. Við þyrftum þá ekki að hafa áhyggjur af því, að útflutningsatvinnuvegir lentu í vandræðum vegna misræmis í þróun innlends verðlags og erlends verðlags, og við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af því, að skuldir rýrnuðu og sjóðir tæmdust af völdum verðbólgu. Við værum þá búnir að hnýta allt efnahagskerfið í einn allsherjar verðtryggingarhnút og þar gæti raunverulega ekkert breyst nema með auðvitað nýjum samningum og nýrri ákvörðun, en þetta væri þannig samanhnýtt að hlutföllin héldust þrátt fyrir verðbólgu.

Þetta er vissulega kenning sem á fyllsta rétt á að menn hugleiði hana og velti fyrir sér, hvaða afleiðingar hún kynni að hafa. Sumir eru þeirrar skoðunar að framkvæmd kenningar af þessu tagi mundi leysa verðbólguvanda okkar í eitt skipti fyrir öll. Ég held hins vegar að flestum þeim, sem hafa hugleitt þetta mál, sé ljóst, að jafnhliða því, sem hún leysti viss vandamál, sem stafa af því að hlutföllin í efnahagskerfinu breytast af völdum verðbólgu, þá mundi slík stefna hafa gífurlega og látlausa rýrnun á gjaldmiðli þjóðarinnar í för með sér og þar yrði sennilega um að ræða margfaldan verðbólguhraða á við þann verðbólguhraða sem við höfum nokkru sinni kynnst hér á landi. Hugsanlega yrði þá um að ræða þess háttar hrun á gjaldmiðli þjóðarinnar sem menn þekkja úr sögunni og hefur nokkru sinni gerst, en hefur haft í för með sér stórkostlega erfiðleika fyrir þær þjóðir sem lent hafa í slíku hruni. Sennilega er það ástæðan til þess, að engin þjóð hefur treyst sér til að fara þessa leið, og eru þó margar þjóðirnar sem átt hafa við verðbólguvandamál að glíma, enda alveg ljóst að sú þjóð, sem reynir að fara þessa leið, setur sig í geigvænlega hættu.

Það skal fúslega viðurkennt, að núv. ríkisstj. hefur ekki gengið svo langt að hún hafi hnýtt alla enda saman með þessum bætti. Hún hefur ekki stigið skrefið til fulls og tengt saman verðbólguhraðann annars vegar og gengi krónunnar hins vegar. En núv. ríkisstj. hefur gengið býsna langt að þessu marki á seinustu árum, Hún hefur fyrir löngu stigið það skref að reyna að aðlaga efnahagskerfið að mikilli verðbólgu. Hún gerir það með því að hækka vextina jafnt og þétt, að vísu ekki í beinu hlutfalli við verðrýrnun krónunnar, en þó því sem næst. Hún gerir það með takmarkalitlum hækkunum á opinberri þjónustu. Og hún gerir það, sérstaklega nú í seinni tíð, með látlausu gengissigi sem virðist hafa litlar hömlur. Það eina, sem verulegar hömlur hvíla á, er hækkun launanna. Aftur og aftur hefur þessi ríkisstj, reynt að hindra að launin fylgi eftir verðlaginu, og enn einu sinni er nú bersýnilega verið að gera tilraun af þessu tagi.

Ég tel að þessi stefna sé fyrir löngu komin í þrot. Ég er sannfærður um að öllum hv. þdm. er ljóst að þessi gengisfelling er aðeins skammgóður vermir. Er nokkur hér inni sem leyfir sér að halda því fram í blákaldri alvöru, að þessi gengisfelling sé einhver frambúðarlausn eða að núverandi gengi krónunnar sé ætlað, miðað við stefnu núv. stjórnar, að standa til langframa? Nei, ég held að öllum, sem á annað borð vilja viðurkenna það sem þeir sjálfir sjá og hugsa, sé ljóst að þessari gengislækkun er aðeins ætlað að leysa ákveðinn vanda, en hún hlýtur um leið að skapa nýjan og stórfelldan vanda. Hjá því verður bersýnilega ekki komist. Þetta er algjör bráðabirgðalausn.

Við Alþb.-menn erum andvígir þessari stefnu. Hún hefur sannanlega löngu gengið sér til húðar. Við teljum að eina leiðin til lausnar aðsteðjandi vanda sé að reyna að draga úr hraða verðbólguhjólsins, en ekki að auka hraða þess, það verði að fara verðlækkunarleið.

Auðvitað viðurkenna allir og þá ekkert síður stjórnarandstæðingar en stjórnarsinnar, að vandamál er á ferðinni í íslensku efnahagslífi, að atvinnuvegirnir eiga við vandamál að etja. Það er auðvitað hverjum manni ljóst. Og hvernig ætti annað að vera en að atvinnuvegirnir væru komnir í mikinn vanda eftir þá ofboðslegu verðbólguþróun sem við höfum búið við á undanförnum mánuðum. Hitt er bara spurningin, hvernig á að leysa þennan vanda. Á að leysa hann með því gamla, einfalda pennastriki sem gengisfelling er, eða á að reyna aðrar leiðir?

Flestir munu gera sér grein fyrir því, að afkoma atvinnuveganna er mjög misjöfn, og þó að bersýnilegt sé að mörg atvinnufyrirtæki í landinu séu í miklum vanda stödd þessa stundina, þá gildir ekki það sama um þau öll. Fjöldamörg fyrirtæki í landinu eru rekin með hagnaði í dag, og þær meðaltalstölur, sem efnahagsráðunautar ríkisstj. bera á borð fyrir okkur alþm. eru auðvitað þrátt fyrir allt aðeins meðaltalstölur, en segja ekkert um afkomu hvers fyrirtækis um sig. Á bak við þær felst ákaflega misjafn raunveruleiki, þar sem um er að ræða að fjöldi fyrirtækja er rekinn með tapi, en önnur eru rekin með miklum hagnaði.

Gengislækkunarleiðin er hins vegar ákaflega gróf aðferð til þess að lækna vanda þessara fyrirtækja. Það er gamalkunn hrossalækning, sem getur bjargað sumum fyrirtækjum rétt í svip, veitir þá að sjálfsögðu öðrum stórfelldan hagnað, en kemur öllum aðilum í aukinn vanda þegar frá líður.

Við Alþb.-menn viðurkennum fúslega að nú sé þörf á kröftugum efnahagsaðgerðum. Auðvitað verður ekki komist hjá því að grípa til aðgerða, og auðvitað verður ekki komist hjá því að einhverjir borgi brúsann. Um þetta eru auðvitað allir sammála. Hitt er bara spurningin, hvort byrðin verður enn einu sinni að lenda framar öðrum á neytendum í formi hækkaðs verðlags sem launafólk á ekki að fá bætt þótt samningar standi til annars. Spurningin er að sjálfsögðu sú, hvort ekki séu aðrar leiðir færar.

Við Alþb. menn erum eindregið þeirrar skoðunar, að í fyrsta lagi teljum við að óhjákvæmilegt sé að færa til talsvert fjármagn í okkar efnahagskerfi með stórbreytingum á núverandi skattakerfi. Ég hef flutt mjög ítarlega till. um skattamál, sem liggur fyrir Sþ., og sé ekki ástæðu við þetta tækifæri til að fara að rekja till. okkar í skattamálum, sem eru mjög ítarlegar eins og þar má sjá. En þetta er eitt meginatriðið, gjörbreyting á íslenskum skattamálum og stórfelld millifærsla í efnahagskerfinu í kjölfar hennar.

Annað stóratriðið er að sjálfsögðu það, að framleiðsla þjóðarinnar verði verulega aukin, að framleiðslumagnið verði meira en það er, svo að meira verði til skiptanna. Til þess að koma þessu atriði fram dugar að sjálfsögðu ekkert skammtímaúrræði, heldur langtímaaðgerðir, og þar tel ég að fyrst og fremst þurfi að vera um að ræða tilfærslu á vinnuafli þjóðarinnar, minnkun á þeirri miklu yfirbyggingu sem við búum við að nokkru leyti í ríkiskerfinu, en þó ekki síður í þjónustu- og milliliðakerfi einkaaðila, í öðru lagi stóraukin fjárfesting á þeim sviðum, þar sem mest arðs er að vænta fyrir þjóðarbúið, og þá um leið vitlegri fjárfesting en sú sem að undanförnu hefur sett svip á fjármunamyndunina, og í þriðja lagi aukin stjórnun í uppbyggingu atvinnulífsins í stað þess handahófs og skipulagsleysis sem nú er öðru fremur ríkjandi.

En þriðja meginatriðið, fyrir utan þau tvö sem ég nú hef nefnt, þ. e. a. s. breytingu á skattakerfinu og aukningu framleiðslunnar, þriðja stóratriðið er það, að verðbólguhvatar, sem fyrirfinnast innan okkar efnahagskerfis, verði afnumdir og dregið verð'i úr áhrifum þeirra atriða í okkar efnahagskerfi sem bersýnilega stuðla að viðhaldi verðbólgu. Þar á ég við í fyrsta lagi vaxtafótinn. Ég tel vonlaust með öllu að gera sér nokkra von um að ná niður verðbólgu hér á landi öðruvísi en að vextir séu lækkaðir, samhliða fjölmörgum öðrum ráðstöfunum. Í öðru lagi verði söluskattur lækkaður. Ég er sannfærður um að hin stórfellda hækkun söluskatts, bæði vegna aukinnar tekjuöflunar núv, stjórnar og vegna tilflutnings á skatti úr tekjuskatti og yfir í óbeinan skatt, þessi breyting, sem verið hefur að ganga yfir á seinustu 3–4 árum og hefur leitt til þess að söluskattur er kominn upp í 20%, á meiri þátt í því en flest annað, að stjórnvöldum hefur gengið svo dapurlega í viðureigninni við verðbólguna. Þetta er áreiðanlega eitt af frumskilyrðunum til þess að við getum náð verðbólgunni niður í það mark sem er hjá nálægum þjóðum, að söluskatturinn sé verulega lækkaður. Auðvitað verða þá aðrir skattar að hækka þar á móti. Auðvitað verður að hækka tekjuskattinn þar á móti. Undan því verður vafalaust ekki vikist. En það verður að gerast, ef við eigum að hafa einhverja von um að vel takist til.

Fjórða atriðið er svo það, að sæmilegur friður haldist á vinnumarkaðinum og stjórnvöld falli frá því að beita gengislækkunarvopninu svo ótt og títt sem raun ber vitni og ég hef gert hér að aðalumræðuefni í tilefni af því gengislækkunarfrv. sem hér er til umræðu.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta frv. Gengisfelling krónunnar verður auðvitað ekki slitin úr tengslum við aðra þætti íslenskra efnahagsmála, svo nokkurt vit sé i. enda er gengisfelling núv. stjórnar aðeins einn liður í margþættum aðgerðum hennar. Ekki er enn vitað hverjar þessar aðrar aðgerðir verða, því að það frv., sem væntanlegt er um þau efni, mun vera enn í fæðingu og hefur ekki enn komið fyrir augu okkar alþm. Að svo stöddu er því ekki rétt að fjölyrða um of um þær aðgerðir sem nú standa fyrir dyrum af hálfu ríkisstj., eðlilegra að geyma sér frekari umr. um útlit og úrræði í efnahagsmálum til þess tíma þegar séð verður hverjar aðgerðirnar verða.