10.02.1978
Neðri deild: 54. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2191 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

114. mál, almannatryggingar

Guðlaugur Gíslason:

Virðulegi forseti. Mér þykir rétt við þessa 1. umr. um málið að lýsa stuðningi mínum við efni þess að því er varðar fyrri hluta. Ég tel að það geti ekki verið nein grundvallarröskun á almannatryggingalögunum þó að slíkt ákvæði, eins og í fyrri hluta þessa frv. er, yrði tekið inn í lögin. Hitt er nokkuð annað mál, að því er varðar síðara atriðið, að allar ekkjur, sem eru orðnar 60 ára eða eldri, fái einnig bætur. Ég skal viðurkenna að það er miklu stærra mál og miklu flóknara mál og eðlilegt að það sé skoðað betur. Má vel vera að hægt sé að heimfæra það undir grundvallarbreytingar á almannatryggingalögunum.

Ég hef litlu við að bæta það sem hér hefur verið sagt áður um störf sjómanna. Ég held að hverjum einasta Íslendingi sé það ljóst, að þeir vinna alveg sérstök störf í þjóðfélaginu, sem að mörgu leyti eru það sérstæð að það hlýtur að verða að taka nokkurt tillit til þess. Ég held að það, að fyrri hluti þessa frv. yrði samþykktur, um sérstakar bætur þeim til handa eftir að þeir hafa starfað í 35 ár eða lengur, geti ekki raskað neinu í kerfi almannatrygginganna. Það er um það fáa aðila að ræða, að það getur þar engu eða litlu breytt.

Sjómannadagur er haldinn hér árlega á öllum stöðum á landinu yfirleitt sem sjómennska er stunduð frá, og þar koma fram á sjónarsviðið þeir menn sem hafa eytt 35 árum eða lengur af starfsævi sinni við að stunda sjómennsku. Í einu af stærstu byggðarlögum þessa lands að því er varðar útgerð og sjósókn, á ég þar við Vestmannaeyjar, horfum við á það á hverju ári á sjómannadaginn, að þessir menn eru kallaðir fram á sjónarsviðið og starf þeirra viðurkennt af þeirra samtökum. Þetta eru svo fáir menn sem um er að ræða, sem hafa eytt 35 árum af starfsæfi sinni eða lengri tíma í sjómennsku, að ég hygg að það muni ekki á nokkurn hátt valda neinum vandkvæðum að framkvæma lög um almannatryggingar þó að inn í þau væru teknar sérstakar bætur þeim til handa eftir að þeir hafa lagt slíkt starf af mörkum fyrir þjóðfélagið í heild, þannig að ég tel að það sé mjög maklegt af hv. Alþ. að sýna það í verki, að einnig það vill viðurkenna störf þessara manna sem hafa lagt þjóðarbúinu til jafnmikil verðmæti og þeir menn hljóta að hafa gert sem sjómennsku hafa stundað í 35 ár. Það er enginn starfsmannahópur í þjóðfélaginu, að ég hygg, sem leggur raunverulega eins mikil verðmæti í þjóðarbúið og þeir menn sem eyða allri starfsævi sinni í að stunda sjó.

Ég hef svo litlu að bæta við það sem hv. síðasti ræðumaður sagði um samanburð sem hér var gerður og kom mér eins og honum nokkuð á óvart, þegar hv. 5. þm. Reykv. tók þar flugmenn til samanburðar. Það má vel vera að til séu flugmenn hér á landi eða annars staðar sem stundað hafa flugstjórn í 35 ár. Ég dreg það þó mjög í efa. En eins og hér hefur verið réttilega tekið fram, þeir menn, sem kunna að hafa stundað flugstjórn í áratugi, þó að þeir nái ekki 35 árum, eru yfirleitt á það góðum launum að þeir hljóta að vera búnir að sjá sér borgið það sem þeir eiga eftir ólifað, en gætu þó eitthvað starfað. Þeir hljóta að vera orðnir það vel efnaðir af starfi sínu, að það þarf ekki að taka tillit til þess í lögum um almannatryggingar að mínum dómi. Þó auðvitað megi viðurkenna störf allra vinnandi stétta í þjóðfélaginu, þá er þó sjómannastéttin í sérflokki að verðmætasköpun, og þess vegna er ekki óeðlilegt að Alþ. sýni í verki að það viðurkenni þetta starf, og ég mun sannarlega greiða atkv. með framgangi þessa máls þegar að því kemur.