10.02.1978
Neðri deild: 54. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2199 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

162. mál, kaupstaðarréttindi til handa Selfosskauptúni

Flm. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Við fjórir þm. Suðurl., sem sæti eigum í þessari hv. d., höfum leyft okkur að flytja frv. til l. á þskj. 323 um kaupstaðarréttindi til handa Selfosskauptúni.

Í frv. er gert ráð fyrir að Selfosskauptún skuli vera kaupstaður og sérstakt lögsagnarumdæmi. Það nær yfir allan núverandi Selfosshrepp og heitir Selfoss. Umdæmi þetta er í Suðurlandskjördæmi.

Um valdsvið bæjarfógeta á Selfossi og launakjör fer samkv. lögum þar um. Sýslumaður Árnessýslu skal jafnframt vera bæjarfógeti kaupstaðarins.

Sýslunefnd Arnessýslu og bæjarstjórn Selfoss skulu semja sín á milli um skiptingu þeirra sjóða sem við gildistöku laga þessara eru í eigu Árnessýslu. Einnig skulu aðilar semja um fjárhagsskuldbindingar, ábyrgðir og önnur þau atriði er þá varða og upp kunna að koma vegna laga þessara. Nái þessir aðilar ekki samkomulagi skal félmrh. úrskurða hvernig með skuli fara.

Að öðru leyti fer um málefni kaupstaðarins samkv. sveitarstjórnarlögum, nr. 58 29. mars 1961, og samþykktum settum samkv, þeim lögum.

Verði frv. samþykkt er gert ráð fyrir að lögin taki nú þegar gildi, og bráðabirgðaákvæði er með frv., þar sem segir að þar til bæjarstjórnarkosningar hafi farið fram síðasta sunnudag í maí 1978 skuli núverandi hreppsnefnd fara með stjórn kaupstaðarins.

Það, sem hér hefur verið sagt, er inntak frv. Frv, er flutt að beiðni hreppsnefndar Selfosshrepps er á fundi sínum 18, jan. s. l. gerði samhljóða eftirfarandi samþykkt:

„Hreppsnefnd Selfosshrepps samþykkir að fara þess á leit við alþm. Suðurl., að þeir flytji á Alþ. því, er nú situr, frv. til l. um kaupstaðarréttindi til handa Selfosshreppi. Kaupstaðurinn nái yfir allan núverandi Selfosshrepp og verði sýslumaður Arnessýslu bæjarfógeti kaupstaðarins.

Það er einnig vilji hreppsnefndar, að breytingin taki gildi frá og með næstu sveitarstjórnarkosningum:`

Till. fylgdi eftirfarandi grg., sem einnig var samþykkt samhljóða:

„1. Ástæður hreppsnefndar Selfosshrepps til þess að sækja um kaupstaðarréttindi eru fyrst og fremst réttarstöðulegar. Stærð hreppsins gerir það eðlilegt að hann hafi sömu réttarstöðu og sýslufélög.

2. Selfosshreppur er nú stærsti hreppur landsins með liðlega 3000 íbúa og jafnframt áttunda stærsta sveitarfélag utan Reykjavíkur.

3. Það er vilji hreppsnefndar að sú samstaða og samvinna, sem þróast hefur milli Selfosshrepps og annarra hreppa sýslunnar, megi haldast óbreytt í sem flestum þáttum eftir að Selfoss hefur öðlast kaupstaðarréttindi, enda ná ýmsar sameiginlegar þjónustugreinar sem þróast hafa á staðnum, langt út fyrir mörk hreppsins.

4. Hreppsnefnd Selfosshrepps treystir því, að erindi þetta fái vinsamlega og skjóta afgreiðslu yðar og þingsins.“

Hinn 8. jan. s. l. fór fram skoðanakönnun meðal kjósenda á Selfossi um kaupstaðarmálið. Á kjörskrá voru 1944. Þátt tóku í skoðanakönnuninni 1045 eða 53.76% kjósenda. 751 af þeim, sem atkv. greiddu, voru fylgjandi því, að Selfosshreppur fengi kaupstaðarréttindi, en 278 voru því mótfallnir.

Selfosshreppur er í örum vexti. Segja má að staðurinn sé miðstöð iðnaðar, samgangna og verslunar í fjölmennum byggðum. Jarðhiti er fyrir hendi og stendur til að hagnýta hann í ríkara mæli til hitunar húsa og iðnaðar. Í seinni tíð sækja nálægar sveitir og kauptún ýmsa skóla á Selfossi og eflir það m. a. samstarf og samstöðu í héraðinu. Það virðist vera sanngjarnt að Selfoss, sem er ört vaxandi staður, fái þá réttarstöðu sem kaupstaðir hafa.

Ýmis kauptún miklu fámennari en Selfoss hafa fengið kaupstaðarréttindi. Má m. a. nefna Njarðvík með 1750 íbúa, Seltjarnarnes með 2630 íbúa, Bolungarvík með 1134 íbúa, Dalvík með 1207 íbúa, Eskifjörð með 1033 íbúa og Grindavík með 1723 íbúa.

Selfosskauptún hefur byggst upp vegna samstarfs við nálæg byggðarlög. Kauptúnið er vel í sveit sett og hefur því orðið miðstöð athafnalífs í fjölmennum og blómlegum byggðum. Á Selfossi er stærsta mjólkurbú landsins, Þar er stórt kaupfélag ásamt fleiri verslunum. Þar eru bankar og þar er símstöð. Þar er og margs konar önnur starfsemi, svo sem veitingar o. fl. Margþættar iðnaðarstöðvar og verkstæði til þjónustu og viðgerða ásamt framleiðslu í ýmsum greinum iðnaðar eru einnig á Selfossi. Sláturfélag Suðurlands hefur fullkomið sláturhús og frystihús á staðnum og er með kjötvinnslu í auknum mæli yfir allt árið þar eystra. Á Selfossi er fiskverkunarstöð og viðgerðarverkstæði veiðarfæra. Má segja að á Selfossi sé flest það sem nauðsynlegt er talið á sviði þjónustu, svo sem í iðnaði, verslun og samgöngum. Á Selfossi er heilsugæslustöð og gamalt sjúkrahús, en byggingu Sjúkrahúss Suðurlands er nú brátt lokið. Er það vegleg bygging, sem gefur mikla möguleika með góðu starfsliði. Verið er að auka mikið við skólamannvirki sem koma til nota bæði fyrir Selfoss og nálæga hreppa.

Íbúar Selfoss gera sér fulla grein fyrir því, að ýmislegt vantar enn í vaxandi byggðarlagi þótt mikið hafi áunnist að undanförnu. Það er álit flestra sem þekkja til mála, að Selfosskauptún muni halda áfram að vaxa og hafi til þess góð skilyrði. Það kemur fram í grg, frá hreppsnefnd Selfosshrepps, sem prentuð er með frv. og lesið var upp úr áðan, að hún óskar þess, að samstarf og sú samstaða, sem þróast hefur milli Selfoss og annarra hreppa sýslunnar, megi haldast óbreytt í sem flestum þáttum eftir að Selfoss hefur öðlast kaupstaðarréttindi. Þar kemur einnig fram, að hreppsnefndin óskar þess, að frv. verði að lögum á því þingi, sem nú situr, og að breytingarnar taki gildi frá og með næstu sveitarstjórnarkosningum. Það er von flm., að frv. nái fram að ganga með æskilegum hraða.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta frv., en legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv, félmn.