10.02.1978
Neðri deild: 54. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2202 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Hæstv. forseti, Í stefnuræðu minni hér á Alþ. í haust rakti ég meginþætti í efnahagsstefnu ríkisstj., og undir lok ræðu minnar komst ég þannig að orði, að stefnan byggðist á forsendum, sem gætu brugðist, og sagði síðan, að ef það gerðist yrði nauðsynlegt að grípa til enn öflugri ráðstafana og yrði þjóðin öll að vera undir það búin.

Orð þessi voru af ýmsum lögð út sem óheillaspá á velgengnistímum. En mér þótti nauðsynlegt að slá þann varnagla, sem í þeim felst, vegna þess vanda sem óneitanlega blasti við að óbreyttum aðstæðum.

Ég lét jafnframt í ljós þá skoðun, að þjóðin væri vel undir það búin að leysa viðfangsefni líðandi stundar og verkefni framtíðarinnar. Okkur væri vorkunnarlaust að herða baráttuna gegn verðþenslunni og búa enn betur í haginn fyrir framtíðina.

Mér finnst eðlilegt að rifja þessar hugleiðingar upp hér, því að frv. það til l. um ráðstafanir í efnahagsmálum, sem hér er flutt, er áfangi í þeim aðgerðum sem ríkisstj. telur nauðsynlegar til að bregðast við þeim efnahagsvanda sem á rætur að rekja til vaxandi verðbólguþróunar á síðustu mánuðum og einna gleggst hefur birst í hallarekstri atvinnuveganna. Þessi vandi hefur orðið æ alvarlegri á undanförnum mánuðum, þrátt fyrir það að viðskiptakjör þjóðarinnar hafa farið batnandi undanfarin tvö ár og því öll ytri skilyrði verið með hagstæðasta móti. En hin hagstæðu ytri skilyrði ættu að gera auðveldara en oft áður að ráða fram úr efnahagsvandanum eins og hann birtist nú, ef við tökum á honum eins og menn.

Á vegum ríkisstj. hefur að undanförnu farið fram umfangsmikil könnun á þeim leiðum, sem um er að velja í stjórn efnahagsmála bæði í bráð og lengd. Þessar athuganir hafa m. a. farið fram á vegum svokallaðrar verðbólgunefndar, sem nú hefur lokið störfum og skilað ríkisstj, skýrslu sinni og álitsgerðum. Það er athyglisvert við niðurstöður n., að enginn nm. dregur í efa nauðsyn gengisbreytingar við ríkjandi aðstæður. Enginn nm. dregur heldur í efa nauðsyn umfangsmikilla efnahagsaðgerða til þess að hamla gegn verðbólgu. Þetta er mikilvæg niðurstaða þegar um er að ræða jafnstóran hóp manna með ólík sjónarmið og hér um ræðir. Og þótt nm. hafi greint á um leiðir er sá ágreiningur e. t. v. minni en hann sýnist, Þetta kemur í ljós, þegar séráliti einstakra nm. eru borin saman við álit meiri hl. í n., þótt orðin meiri hl, eigi hér naumast við.

Ríkisstj, hefur m. a, myndað stefnu sína í þessum málum á grundvelli þessara athugana og álitsgerða. Hún hefur tekið ákvarðanir sínar og reynt að finna farsæla lausn sem taki mið af sem flestum æskilegum markmiðum efnahagsstefnunnar.

Við mótun stefnunnar hefur verið haft beint samráð við aðila vinnumarkaðarins af hálfu ríkisstj. Hafa nokkrir ráðh. átt viðræður við fulltrúa helstu samtaka þessara aðila. 1 þeim viðræðum hafa sjónarmið hvers um sig verið kynnt, en ekki reynst unnt að ná samkomulagi, enda virðist bera meira á milli en svo að það takist. Reyndi sérstaklega á þann þátt í gærkvöld, þegar efnt var til fundar með fjórum ráðh. og fulltrúum Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja að frumkvæði ríkisstj. til að kynnast nánar tilboði því um viðræður, sem fulltrúar þessara aðila í verðbólgunefnd settu fram. Því miður er ljóst, að ekki er grundvöllur fyrir sameiginlegar aðgerðir ríkisvaldsins og þessara stóru launþegasamtaka í ráðstöfunum þeim, sem báðir eru þó sammála um að nauðsynlegar séu. En þrátt fyrir það hefur tillit verið tekið til sjónarmiða fulltrúa launþegasamtakanna við endanlega gerð frv.

Á síðasta ári er þjóðarframleiðslan talin hafa aukist um a, m. k. 4%, og var þjóðarframleiðsla á mann þá orðin meiri en hún hafði mest orðið áður, árið 1974, Vegna batnandi viðskiptakjara óx raungildi þjóðartekna meira eða rúmlega 7%, og voru þjóðartekjur á mann þá einnig orðnar meiri en nokkru sinni áður. Meginástæður þessa hagstæða árferðis voru góð aflabrögð og ör hækkun útflutningsverðs. Viðskiptakjör hafa hins vegar ekki náð sínu fyrra hámarki, sem var árið 1973, en þau voru þá 5% hagstæðari en á síðasta ári. Í ár er hins vegar ekki við því að búast að framhald verði á viðskiptakjarabata. Nauðsynlegt verður að draga nokkuð úr þorskafla frá því sem var í fyrra, og þótt von sé til að þar verði bætt um með auknum afla af öðrum tegundum, þá er vart hægt að gera ráð fyrir meiri aukningu útflutningsframleiðslu en nálægt 3%, samanborið við 13–15% aukningu í fyrra.

Þjóðarútgjöldin tóku mikinn vaxtarkipp á árinu 1977 í kjölfar afturbatans sem hófst árið 1976 og ekki síst vegna hinnar miklu kaupmáttaraukningar um mitt s. l. ár, sem kom fram í mikilli aukningu einkaneyslu. Aukningu þjóðarútgjalda fylgdi strax mikil aukning innflutnings og jókst vöruinnflutningur um 20% að magni á s. l. ári. Afleiðingin varð nokkuð vaxandi halli í viðskiptunum við útlönd þrátt fyrir viðskiptakjarabótina. Nam viðskiptahallinn líklega um 9 milljörðum kr, eða um 21/2% af þjóðarframleiðslu, samanborið við 1.7% árið áður. Í þessu sambandi ber þess að geta að útflutningsbirgðir jukust að mun á árinu sem leið. Nauðsyn ber til að koma í veg fyrir að viðskiptahalli verði á þessu ári, en það næst ekki nema með því að draga úr aukningu þjóðarútgjalda, þar sem útflutningsframleiðslunni eru nú takmörk sett.

Markmiðið á raunar að vera að ná afgangi á viðskiptajöfnuði á þessu ári. Án ráðstafana mátti telja að þjóðarútgjöld ykjust um 3–31/2% í ár og almennur innflutningur um 7%, Miðað við þá eftirspurnarþenslu, sem ríkt hefur að undanförnu, er hins vegar hætta á að innflutningsaukningin yrði meiri og þar með einnig hættan á vaxandi viðskiptahalla.

Í þjóðhagsspánni, sem lá til grundvallar við afgreiðslu fjárl. og gerð lánsfjáráætlunar, var gert ráð fyrir 31/2%–4% vexti þjóðarframleiðslu og þjóðartekna á árinu 1978, og er það talið samrýmast vel áætlunum um framleiðslugetu.

Spáin fyrir árið 1978 var byggð á mati á þeirri kaupmáttaraukningu sem að var stefnt með gildandi kjarasamningum en þróun eftirspurnar og þjóðarútgjalda ræðst að afar miklu leyti af breytingum kaupgjalds og verðlags. Niðurstaðan af því mati var sú, að kjarasamningarnir stefndu að 8–9% rauntekjuaukningu á þessu ári, en vegna skattbreytinga var hins vegar gert ráð fyrir 6% neysluaukningu einnig af því að búist er við að hækkun verðbótaþáttar vaxta muni auka sparifjármyndun eitthvað á árinu 1978. Mergurinn málsins er sá, að bak við þessa kaupmáttaraukningu hefði búið að öllu óbreyttu meira en 50% kauphækkun frá ársmeðaltali 1977–1978 og um eða yfir 40% verðhækkun, Yfir allan vafa er hafið, að af slíkri þróun verðlags og launa hefði leitt margvíslegan vanda, ekki síst að því er varðar samkeppnisstöðu útflutningsatvinnuveganna og reyndar einnig á lánamarkaði og í opinberum fjármálum. Útlit var því fyrir rekstrartruflanir og þar með atvinnubrest.

Þessi vandi hefur raunar þegar birst í rekstrarstöðu sjávarútvegs nú um áramótin, en afkoma fiskvinnslu, einkum frystingar, söltunar og herslu, var þá lakari en verið hefur um árabil. Þessar greinar voru reknar með talsverðum halla jafnvel áður en fiskverð hækkaði um 13% frá áramótum. En sú hækkun var óhjákvæmileg til þess að tryggja sjómönnum eðlilegt tekjuhlutfall miðað við landverkafólk. Við þessum vanda varð að snúast um leið og þess væri freistað að hamla gegn verðbólgu á árinu,

Gengisbreytingin sem Seðlabanki Íslands tilkynnti hinn 8. þ. m. með samþykki ríkisstj., og frv. það um ráðstafanir vegna gengisbreytingarinnar, sem flutt var sama dag, þjónaði þeim tilgangi að afstýra rekstrarstöðvun fyrirtækja í helstu útflutningsatvinnuvegunum og þar með atvinnuleysi, Jafnframt mun gengisbreytingin hamla gegn óhóflegri innflutningseftirspurn, svo að til betra jafnvægis horfi í utanríkisvið skiptum.

Ráðstafanir þær, sem felast í þessu frv. eru til þess ætlaðar að hamla gegn verðbólgu og stuðla að betra jafnvægi í efnahagsmálum. Ef stefna á að því að ná tökum á verðbólguvextinum þegar á þessu ári er sýnt, að ekki er um annað að ræða en hamla gegn víxlgangi verðlags og launa með því að takmarka nokkuð bær kauphækkanir sem ráðgerðar eru með kjarasamningunum, enda væru önnur úrræði mikils til of seinvirk eða hefðu í för með sér hættu á atvinnubresti. Í frv. þessu er því gert ráð fyrir að verðbætur á laun verði takmarkaðar nokkuð, en hins vegar er gerðum kjarasamningum ekki raskað að öðru leyti.

Í 1. gr. frv. er lagt til að hamlað verði gegn víxlhækkunum verðlags og launa með því að helminga þá hækkun verðbóta og verðbótaauka sem greiðast eiga á þessu ári umfram verðbótavísitöluna sem tók gildi hinn 1. des. s. l.

Í þessu felst, að í stað þess að laun almennt hækki um 10% hinn 1. mars hækki þau um 5%. Við verðum einfaldlega að játa að með verðbótahækkun launa væri stefnt í ógöngur ef launin æddu upp eflir óbreyttum vísitölureglum.

Ég veit að allir sanngjarnir menn eru sammála mér um það, að glórulaust sé að hækka peningalaun um 10–15% á þriggja mánaða fresti. Till. í 1. gr. frv. er sett fram á þeim forsendum, að í raun sé vilji til þess að láta skynsemina ráða. Án þess verður kapphlaup launa og verðlags ekki slævt, Ráðið, sem ríkisstj. leggur til að notað verði, er einfalt og auðskilið. Greiða skal helming hækkunar verðbóta og verðbótaauka af því sem fram undan er.

Þrátt fyrir helmingun verðbóta samkv. 1. gr. frv. er þó tryggt með ákvæði um lágmarksverðbætur í 2, gr., að þessi frádráttur snerti lítið eða ekki hina tekjulægstu í hópi launþega. Hér eru einkum þeir hafðir í huga sem tekjur hafa af reglulegri dagvinnu einni á lágum kauptaxta. Ljóst er frá upphafi, að vandasamt verður að framkvæma þetta ákvæði þar sem ekki er hægt að ákveða þennan bótarétt beint út frá kauptaxta, heldur ræður einnig hvort viðkomandi launþegi hefur fengið verðbætur á yfirvinnugreiðslur og/eða ákvæðis- eða álagsgreiðslur sem samanlagt koma verðbótum til hans upp yfir hið tilgreinda mark. Um þetta efni þarf að setja sérstakar reglur, en hér er um mikið sanngirnismál að ræða og þessi fyrirhöfn því eðlileg. Launþegi með 100 þús. kr. mánaðarlaun fær samkv, þessu 8800 kr, hækkun verðbóta 1. mars n. k. eða hið sama o g annar launþegi með 176 þús, kr. fær samkvæmt helmingareglu frv.

Frv. felur í sér þá stefnumörkun, að í 3. gr. þess er ákveðið að frá upphafi næsta árs skuli óbeinir skattar ekki hafa áhrif á verðbótavísitölu eða verðbótaákvæði kjarasamninga, hvorki til hækkunar eða lækkunar launa.

Í fyrstu stefnuræðu minni sem forsrh. hér á Alþ. haustið 1974 ræddi ég um vísitölugreiðslur á kaup og sagði að viðurkennt væri að þær veittu launþegum nokkra tryggingu fyrir afkomu þeirra og sköpuðu meiri ró á vinnumarkaði en ella hefði orðið. Á hinn bóginn hefðu þær oft á tíðum átt drjúgan þátt í að magna verðbólgu og þannig grafið undan heilbrigðum rekstri þjóðarbúsins og stefnt hagsmunum launþega sjálfra í voða. Síðan sagði ég orðrétt: „Ber hér einkum þrennt til: Í fyrsta lagi hafa miklar hækkanir grunnkaups óhjákvæmilega leitt til verðhækkana sem svo vegna áhrifa vísitölukerfisins hafa leitt til nýrra launahækkana og enn frekari verðhækkana. Í öðru lagi fela verðhækkanir á innfluttum vörum í sér skerðingu á raunverulegum lífskjörum þjóðarinnar og engar launahækkanir innanlands geta því bætt þær. í þriðja lagi er ekki unnt að vega áhrif tekjuöflunar ríkissjóðs með óbeinum sköttum upp með launahækkunum, ef sú aukning opinberrar þjónustu, framkvæmda eða félagslegrar aðstoðar, sem stefnt er að, á að geta átt sér stað. Ástæðulaust er einnig að stjórnvöld séu knúin til að afla fjár með beinum sköttum sem hafa ekki áhrif á vísitöluna, fremur en óbeinum sköttum er ganga inn í vísitöluna. Þetta var sagt haustið 1974.

Það er ótvíræður galli á núgildandi vísitölukerfi að breytingar á óbeinum sköttum — öðrum en þeim sem fólgnir eru í verði áfengis og tóbaks, valda breytingum á kaupgreiðslum, en breytingar á heinum sköttum ekki. Hér er lagt til, að frá og með 1. jan. 1979 skuli breytingar á óbeinum sköttum ekki valda breytingum á verðbótum: Rökin fyrir þessu eru vel kunn. Í fyrsta lagi eru beinir skattir ekki meðtaldir í verðbótavísitölu, eins og að framan var getið. Það veldur því, að val löggjafans milli beinna og óbeinna skatta er að þessu leyti nokkuð bundið, sem hlýtur að teljast óæskilegt. Í öðru lagi stendur ómæld opinber þjónusta á móti óbeinum sköttum, sem ekki er metin til kjarabóta, og má þá minna hv, þm. á svokallað tappagjald sem rætt var um hér fyrir jólin, en samkvæmt því átti andvirði þess að renna til aðhlynningar og menntunar þroskaheftum, en það hefði haft í för með sér launahækkun fyrir alla launþega. Sjá allir hversu óeðlilegt slíkt er. Í þriðja lagi geta stjórnvöld ekki með sama árangri og ella beitt breytingum á óbeinum sköttum til hagstjórnar, vegna þess að þeir eru í grunni verðbótavísitölu. Í frv. er gert ráð fyrir að kauplagsnefnd meti hvaða skattar skuli teljast óbeinir í þessu sambandi.

Ekki þykir rétt að binda í lög með fullkominni upptalningu, hvaða skattar falli hér undir, því að skattalög geta breyst og sker þá kauplagsnefnd úr vafaatriðum.

Það þekkist í öðrum löndum að undanskilja alla skatta úr verðbótavísitölu, m, a. í Danmörku, en þar eru breytingar niðurgreiðslna ekki heldur taldar með. Þetta atriði þarf að kanna sérstaklega. Í frv. er í reynd mörkuð framtíðarstefna í þessu efni. Þessi till. er e. t. v. ekki beinlínis tengd stundarvanda þjóðarbúsins, en hugsuð til þess að bæta launaákvörðunarkerfið til frambúðar.

Í sambandi við þær breytingar, sem ríkisstj. hefur nú lagt til að gerðar verði á verðbótareglum kjarasamninga, liggur beint við að huga að forsögu málsins, þ, e. kjarasamningum þeim sem gerðir voru á s. l. sumri og hausti. Afskipti ríkisstj, af kjarasamningum ASÍ og vinnuveitenda miðuðust við að úrslit kjarasamninga yrðu innan þess þjóðhagslega svigrúms sem fyrir hendi væri til að auka kaupmátt tekna almennt. Að öðrum kosti væri eytt þeim árangri í hjöðnun verðbólgunnar, sem náðst hafði, og yfir vofði hætta á örum verðbólguvexti með víxlgangi verðlags og launa sem stefndi afkomu atvinnuvega og þar með atvinnuöryggi í tvísýnu. Þessar aðvaranir ríkisstj. voru hins vegar að engu hafðar. Minna má á, að eftir viðræður ríkisstj. og fulltrúa samtaka launþega og vinnuveitenda gaf ríkisstj. út fréttatilkynningu hinn 17. maí 1977 þar sem fram kom að ríkisstj. hefði ákveðið að beita sér fyrir ýmsum ráðstöfunum á sviði efnahags- og kjaramála til þess að stuðla að lausn vinnudeilunnar sem þá stóð milli ASÍ og vinnuveitenda. Þar kom m. a. fram eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðstafanir þessar munu m. a. fela í sér um 2–3% aukningu kaupmáttar ráðstöfunartekna almennings. Forsenda ráðstafananna er, að samkomulag náist milli deiluaðila um launabreytingar, sem ekki stefna að meiri kaupmáttaraukningu milli áranna 1976 og 1977 en 6–7% í heild og ámóta aukning milli áranna 1977–1978, og horfi jafnframt til launajöfnunar.“

Í þessum orðum fólst að ríkisstj. teldi þjóðhagslegt svigrúm til þess að auka kaupmátt kauptaxta um 3–4% hvort ár.

Þegar sáttanefnd lagði fram umræðugrundvöll til deiluaðila hinn 17. maí 1977 var eftir því leitað, hvort ríkisstj. teldi þær hugmyndir innan fyrrgreindra marka. Þessu svaraði ríkisstj. á eftirfarandi hátt, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. telur að umræðugrundvöllur sá, sem sáttanefndin hefur sett fram við deiluaðila, sé í aðalatriðum innan þeirra marka sem felast í yfirlýsingunni fyrir árið 1977, en telur þó ástæðu til að vara við því, að vísitöluákvæðin í tillögu sáttanefndar fela í sér hættu á mögnun verðbólgu. Eins væri æskilegt að dreifa áfangahækkun launa yfir lengra tímabil á næsta ári.“

Í svarinu fólst, að ríkisstj. teldi að á árinu 1977 væru hugmyndirnar innan markanna, en með þeim væri farið út á ystu nöf og verðbólguhættu boðið heim á árinu 1978, bæði með verðbótaákvæðunum og áfangahækkunum.

Eins og kunnugt er fóru svo endanlegir samningar verulega fram úr umræðugrundvelli sáttanefndarinnar, bæði að því er varðar áfangahækkun og verðbótaákvæði. Þannig má telja að þegar á árinu 1977 hafi kauptaxtar hækkað að kaupmætti um það, sem orðað var sem svigrúm á tveimur árum í fréttatilkynningu ríkisstj., og reyndar nokkuð umfram það, því talið er að kaupmáttur kauptaxta launþega hafi að meðaltali aukist um 8–9% á árinu 1977 frá fyrra ári og kaupmáttur ráðstöfunartekna í heild um 9–l0%. Þannig var farið 4–5% fram úr því marki sem ríkisstj, taldi fært á árinu 1977. Þótt vöxtur þjóðartekna hafi á árinu 1977 reynst verða um 7% í stað 5–6%, sem við var búist í maí, breytir það ekki því, að við tókum forskot á sæluna í fyrra. Það hlýtur því að teljast mikill árangur ef það tekst að tryggja kaupmáttarstig ársins 1977 einnig á þessu ári og e. t. v. bæta örlitlu við ásamt með fullri atvinnu. En það er markmið þessa frv., eins og nánar verður að vikið hér á eftir.

Ríkisstj. ákvað í vor, þrátt fyrir það hve langt var gengið, að standa við loforð sín um lækkun skatta, hækkun lífeyrisgreiðslna og aukningu niðurgreiðslna á árinu 1977, en er vitaskuld ekki af því bundin 1978. Ástæðan til þess, að ríkisstj. vildi ekki kippa til baka atbeina sínum, var einföld. Við blasti atvinnuröskun og ófriður á vinnumarkaðinum, ef ekki yrði samið. Hins vegar var ljóst, að mikil verðbólga hlyti að fylgja ef fast væri við hvort tveggja haldið, áfangahækkanirnar og verðbæturnar. Þetta hefur komið á daginn, og nú verður ekki undan því vikist að taka á málinu.

Staða ríkisvaldsins í samningum við opinbera starfsmenn var næsta erfið, enda vorn samningarnir við BSRB hinir fyrstu sem gerðir voru samkvæmt nýjum lögum, sem m. a. veittu bandalaginu verkfallsheimild. Kröfugerð sú, sem BSRB lagði fram í viðræðum við samninganefnd ríkisins, kvað á um geysimikla launahækkun, einkum í neðri hluta og um miðbik launastigans. Af hálfu samninganefndar ríkisins var á hinn bóginn í fyrstu lögð áhersla á að sú launahækkun, sem um yrði samið, yrði innan þess svigrúms sem ástand og horfur í efnahagsmálum fælu í sér, en um leið var á það fallist, að taka þyrfti tillit til misræmis í launum opinberra starfsmanna og annarra launþega ef það væri þá fyrir hendi, en það mætti kanna nánar. Eftir kjarasamninga ASÍ og vinnuveitenda var síðan ljóst, að niðurstaða þeirra samninga hlaut að binda hendur ríkisvaldsins í samningum við opinbera starfsmenn. BSRB hafnaði hins vegar boði samninganefndar ríkisins um launahækkun sambærilega við niðurstöðu hinna almennu samninga í júní, auk nokkurrar lagfæringar á launum neðarlega í launastiganum til að eyða ósamræmi við hinu almenna vinnumarkað. Sem kunnugt er boðaði BSRB þá til verkfalls sem skall á eftir allsherjaratkvgr. um sáttatillögu frá sáttanefnd, sem þó gekk lengra en boð ríkisins.

Samningar tókust að lokum, og hafði samninganefnd ríkisins þá teygt boð sín til hins ítrasta, ekki síst vegna þess öngþveitis sem verkfallsaðgerðir BSRB höfðu skapað. Varð niðurstaðan sú, að meðallaunahækkun BSRB varð um 5% umfram hina almennu samninga, auk þess sem ýmis önnur kjaraatriði voru lagfærð. Þessi hækkun var þó mjög misjöfn, þar sem samningum þessum var vitaskuld ætlað að laga launakjör opinberra starfsmanna að launum á almennum vinnumarkaði.

Um það má vafalaust deila, hvort þessir samningar hafi verið réttlætanlegir, en þeir voru reistir á samanburði við almenna kjarasamninga og við almenn launakjör á vinnumarkaðinum. Átti ríkisvaldið að taka harðari afstöðu og þar með lengja verkfallið sem þegar hafði valdið miklum búsifjum? Það var ekki skoðun stjórnarandstöðunnar hér á þingi. Skoðun mín er sú, að við þann samanburð, sem fyrir hendi var, hafi ríkisstj. orðið að ganga að þessum samningum, enda hefði dráttur á lausn deilunnar og framhald verkfalls haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Af þessum ástæðum var gengið til samninga og með þeim var fyrst og fremst reynt að koma á réttlátu hlutfalli milli BSRB og annarra launþega. Öllum var hins vegar ljóst að launahækkun í landinu í heild keyrði úr hófi fram. Við þann almenna vanda er nú glímt, en ekki snúist gegn kjarasamningum neinnar einnar stéttar. Þetta er kjarni málsins. Peningalaunin í heild eru svo mikilvæg, að þau hljóta að skipta miklu í viðureigninni við verðbólguna, og því verða launþegar nokkuð á sig að leggja í viðureigninni við hana og til þess að tryggja atvinnuöryggi. Með skyldusparnaðarákvæðum frv. er einnig lagður nokkur baggi á félögin, þ. e. a. s. þau sem vel hefur vegnað.

Í frv. þessu eru gerðar till. um ráðstafanir til að milda áhrif helmingunar verðbóta á kaupmátt og lífskjör almennings og lækka verðlag með nokkurri lækkun skatta og aukningu niðurgreiðslna. Barnabætur eru hækkaðar um 5%, en það léttir skattbyrði barnmargra fjölskyldna, og gert er ráð fyrir lækkun sérstaks vörugjalds úr 18% í 16%. Þá er gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga hækki með launum og á sömu dögum, og auk þess er gert ráð fyrir sérstakri hækkun tekjutryggingar og heimilisuppbótar umfram launahækkun hinn 1. mars n. k. Loks hyggst ríkisstj. auka niðurgreiðslur vöruverðs um 1300 millj. kr. á ári, en það jafngildir 1% í kaupmætti ráðstöfunartekna.

Kaupmáttaráhrif þeirra ráðstafana, sem hér hafa verið nefndar, jafngilda, þegar allt er talið saman, tæplega 11/2 prósentaukningu kaupmáttarráðstöfunartekna frá því sem ella hefði orðið. Með þessu gæti kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann árið 1978 orðið nálægt því sá sami og á árinu 1977, en þá var hann um það bil jafnmikill og hann hefur mestur orðið áður, á árinu 1974. Hér er að vísu um að ræða nokkra kaupmáttarfórn frá því, sem að var stefnt með kjarasamningunum, en sá kaupmáttur var sýnd veiði, en ekki gefin. Hins vegar er nú von til þess, að takast megi að treysta þann kaupmátt sem náðist á síðasta ári.

Ráðstafanir þær, sem hér eru gerðar til þess að styrkja kaupmátt tekna einstaklinga, hafa veruleg áhrif á afkomu ríkissjóðs, og er því nauðsynlegt að tryggja betur hans hag.

Fjárl. þessa árs voru afgreidd með greiðsluafgangi er nam 350 millj. kr., og var þá byggt á áætlunum frá s. l. hausti. Raunveruleg útkoma ríkisfjármálanna 1977 var hins vegar óhagstæðari en gert var ráð fyrir við fjárlagaafgreiðsluna. Endurmat á fjárlagatölum 1978 vegna þessara breytinga á grunni þeirra bendir til 2.1 milljarða kr. lakari stöðu en í fjárl. Greiðsluhalli yrði því um 1.8 milljarðar kr. Hér er einkum um að ræða meiri vaxtagreiðslur og útgjöld til almannatrygginga en reiknað var með við afgreiðslu fjárlaga. Áhrif kauplags- og verðlagsbreytinga af völdum ráðstafana þessara svo og áhrif gengisbreytingarinnar á fjárhag ríkissjóðs eru samtals taldar fela í sér 3.3 milljarða kr. hafa í stöðu ríkissjóðs á árinu, og hefur þá verið reiknað með hækkun rekstrarútgjalda vegna gengisbreytingarinnar, en reyndar hefur þá einnig verið ákveðinn niðurskurður á rekstrargjöldum til mótvægis að nokkru leyti, eins og fram kemur í fskj. með frv. þessu. Væri ekkert frekar að gert stefndi í 11/2 milljarðs kr. greiðsluafgang hjá ríkissjóði. Ráðstafanir þær, sem ráðgerðar eru til að milda áhrifin af breytingum verðbótareglna, eru álitnar kosta ríkissjóð 2.4 milljarða kr. í útgjaldaauka og tekjutapi. Þessari fjárhæð er samkvæmt frv. þessu mætt með framangreindu svigrúmi og að auki með álagningu skyldusparnaðar á félög til samræmis við skyldusparnað einstaklinga. Jafnframt gerir frv. ráð fyrir heimild til lækkunar framkvæmdaframlaga og rekstrargjalda í A-hluta fjárlaga um 1 milljarð kr., og væri aukinni fjárráðstöfun frv. því að mestu mætt með þessu móti. Eftir þessar aðgerðir væri um nokkurn greiðsluafgang að ræða hjá ríkissjóði á árinu eða um 1 milljarð króna, ef heimild til útgjaldalækkunar yrði að fullu notuð. Ótraustari má þó fjárhagsstaða ríkissjóðs alls ekki vera.

Hér verður að hafa í huga þá óvissu sem jafnan ríkir um framvindu efnahagsmála og áhrif þeirra á ríkisfjármálin. Auk þess telur ríkisstj. nú afar brýnt að ríkisfjármálin verði ekki þensluvaldur í því árferði, sem nú ríkir, heldur sé þeim beitt til að draga úr þunga innlendrar eftirspurnar. Því er í frv. þessu gert ráð fyrir nokkrum breytingum á lántökuáformum ríkissjóðs í þessu skyni. Gert er ráð fyrir að framboð spariskírteina megi auka um 11/2 milljarð kr. frá fyrri áformum eingöngu til að styrkja greiðslustöðu ríkissjóðs og draga fé úr umferð, en ekki til að fjármagna útgjöld. Með þessum hætti væri því stefnt að 21/2 milljarðs kr. greiðsluafgangi á þessu ári. Það felur í sér nokkru traustari afkomu en reiknað er með á fjárlögum, enda nauðsynlegt til að hamla gegn verðþenslu. Auk þess verður unnið að því á næstunni að leita leiða til að fresta framkvæmdum, sem fjármagnaðar eru með erlendum lántökum, um allt að 1 milljarði kr.

Með gengisbreytingunni 8. þ. m, og þeim ráðstöfunum, sem þetta frv. felur í sér, er, eins og fyrr segir, að því stefnt að tryggja öruggan rekstur undirstöðuatvinnuveganna og þar með fulla atvinnu, jafnframt því sem hamlað sé gegn verðbólgu á árinu og grunnur lagður að sókn gegn verðbólgunni á næsta ári. Jafnhliða þessu er með þessum ráðstöfunum stefnt að bættum viðskiptajöfnuði og bættri stöðu landsins út á við.

Að óbreyttu blasti við hallarekstur og rekstrarstöðvun í fiskiðnaðinum og útflutningsiðnaði. Ráðstafanirnar tryggja viðunandi rekstrargrundvöll allra helstu atvinnuvega.

Að óbreyttu hefði verðbólguhraðinn á árinu orðið meiri en 40% að meðaltali, en 36% frá upphafi árs til loka þess. Ráðstafanirnar þoka þessari tölu niður í 36% að því er ársmeðaltalið varðar, en niður fyrir 30% frá upphafi til loka þessa árs.

Að óbreyttu hefði stefnt í a. m. k. um 4–5 milljarða kr. viðskiptahalla á árinu. Ráðstafanir þessar bæta viðskiptajöfnuð um 6-8 milljarða á þessu ári og snúa halla í afgang.

Til þess að ná þessum árangri er nauðsynlegt að draga úr innlendri eftirspurn og aukning þjóðarframleiðslu verður um sinn e. t, v. eitthvað minni en ella. Við þetta gæti einnig dregið úr þeirri umframeftirspurn eftir vinnuafli sem einkennt hefur ástand á vinnumarkaði að undanförnu, en atvinnuástand héldist áfram gott.

Þessi árangur og hallalaus ríkisbúskapur, sem aðgerðirnar tryggja, er mikilvægur og þeim mun meira er um vert að með þeim er á raunhæfan hátt leitast við að tryggja þann kaupmátt, sem náðist á árinu 1977, og leggja þannig traustan grundvöll að kjarabótum síðar.

Ég hef nú gert allítarlega grein fyrir þeim ráðstöfunum, sem felast í frv. því sem hér liggur fyrir, tilefni þeirra og aðdraganda. Vissulega telur ríkisstj. það hreint neyðarúrræði að gripa þurfi til breytinga á gerðum kjarasamningum með lögum, enda eru frjálsir samningar um kaup og kjör tvímælalaust einn af mikilvægustu þáttum okkar þjóðskipulags. Raunin hefur hins vegar því miður orðið sú í okkar sveiflukennda þjóðarbúskap, að óhjákvæmilegt hefur reynst að löggjafinn gripi í taumana í þessum efnum, einkum er vísitöluákvæði kjarasamninga hafa stefnt aukningu peningatekna svo hátt að þjóðarvoði blasti við. Hafa allir flokkar, sem fulltrúa eiga hér á Alþ., þurft að standa frammi fyrir slíkum vanda er þeir hafa verið í ríkisstjórn. Þótt aðstæður hafi verið mismunandi hefur vandinn svo til ætíð verið fólginn í því, að innlendar víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags hafa stefnt afkomu undirstöðuatvinnuveganna í hættu svo að vofað hefur yfir stöðvun atvinnurekstrar og vaxandi viðskiptahalli. Stundum hefur ekkert minna en almenn kjaraskerðing nægt til að jafna metin í þjóðarbúskapnum, en á öðrum tímum hefur aðeins verið þörf að halda í horfinu. Þær ráðstafanir, sem hér liggja fyrir, stefna ekki að kjaraskerðingu, heldur er markmið þeirra að hemja tekjur innan þeirra marka sem framleiðslugeta þjóðarbúsins nú frekast leyfir, en tryggja um leið að hin mikla kaupmáttaraukning, sem átt hefur sér stað undanfarin tvö ár, haldist, um leið og tryggð sé öflug atvinnustarfsemi í landinu og næg atvinnutækifæri fyrir allt vinnandi fólk.

Sem betur fer er þjóðarbúskapur Íslendinga nú líklega í meiri blóma en nokkru sinni fyrr. Framleiðsla er mikil, atvinna næg og lífskjör almennings hafa aldrei verið betri. Fyrir réttum þremur árum, þegar síðast var gripið til beinnar gengislækkunar og almennra ráðstafana henni til stuðnings, voru aðstæður á allt annan veg. Viðskiptahallinn við útlönd var um 12% af þjóðarframleiðslu, ríkisbúskapurinn var rekinn með milljarðahalla, sparifé streymdi úr bönkunum og við blasti alvarleg skerðing lífskjara. Þær ráðstafanir, sem þá voru gerðar, og sú stefna, sem ríkisstj. hefur síðan fylgt, hefur snúið þróuninni aftur til betri vegar. Og það var vissulega mikilvægur þáttur í þeirri endurreisn, sem átt hefur sér stað á þessu tímabili, að á árunum 1975 og 1976 tókst að ná samningum á vinnumarkaðinum þar sem tekið var tillit til erfiðrar stöðu þjóðarbúsins og þeirrar brýnu nauðsynjar að draga úr viðskiptahallanum við útlönd. Allt þetta, ásamt batnandi viðskiptakjörum við útlönd síðustu tvö ár, lagði grundvöllinn að þeim miklu þáttaskiptum sem orðið hafa í þjóðarbúskap okkar síðustu tvö árin. Eftir hinn geigvænlega halla á viðskiptum við útlönd á árunum 1974 og 1975 komst viðskiptahallinn s. l. tvö ár ofan í aðeins um 2% af þjóðarframleiðslu, en jafnframt hefur tekist að endurvinna að fullu þá skerðingu lífskjara sem efnahagsörðugleikarnir höfðu haft í för með sér.

Þann eina, en dökka skugga hefur borið á þennan árangur, að ekki hefur tekist að draga nægilega ört úr verðbólgunni eða græða þau margvíslegu mein sem henni fylgja. Samt hafði nokkuð skilað í áttina, þótt hægt færi, og á fyrra hluta s l. árs var verðbólguhraðinn kominn niður undir 25% og hafði minnkað um nærri því helming frá því sem hann komst hæst. En jafnframt var ljóst að frekari aðgerða í baráttunni við verðbólguna væri þörf, ef tryggja ætti til langframa batnandi lífskjör og blómlegan atvinnurekstur í okkar landi. Ríkisstj, hefur því lagt á það síaukna áherslu að vinna gegn verðbólgunni og leita varanlegra úrræða til þess að ná tökum á þessum rótgróna sjúkdómi íslensks þjóðfélags.

Hvað sem skoðunum manna liður að öðru leyti, eru áreiðanlega flestir, ef ekki allir sammála um það, að verðbólga verður ekki hamin með aðgerðum á neinu einu sviði efnahagsmála. Þar þarf til að koma samræmd stefna á mörgum sviðum, svo sem fjármálum ríkisins, opinberum framkvæmdum, peningamálum, atvinnumálum og launamálum. Enginn vafi er á því, að taumhald hefur skort í mörgum greinum á undanförnum árum. Hins vegar hefur ríkisstj. lagt á það mikið kapp að bæta fjármálastjórnina og hemja þann hluta fjárfestingar og eftirspurnar sem er á hennar valdi. Tekist hefur að koma mun betri jöfnuði á í fjármálum ríkisins þótt enn skorti nokkuð á fullt jafnvægi. Á árinu 1977 dró verulega úr opinberum framkvæmdum eða 15–16%, og stefnt er að um 9% samdrætti á þessu ári. Ákveðið hefur verið að draga úr erlendum lántökum og hefta þannig aukningu skulda þjóðarinnar út á við. Gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að bæta hag sparifjáreigenda og efla þannig innlendan sparnað um leið og lánskjör hafa verið endurskoðuð í því skyni að draga úr þess háttar fjárfestingu sem fyrst og fremst ákvarðast af eftirsókn eftir verðbólgugróða. Á öllum þessum sviðum er enn úrbóta þörf, en það, sem þegar hefur verið gert, á mikinn þátt í þeim árangri í efnahagsmálum sem náðst hefur til þessa.

Þetta frv. ásamt nýafstaðinni gengislækkun felur fyrst og fremst í sér ráðstafanir til þess að fást við þann stundarvanda í þjóðarbúskapnum sem við eigum nú enn einu sinni við að glíma og á rætur sínar í verðbólgunni. Í frv. eru hins vegar einnig ákvæði sem hugsuð eru til frambúðar, þ. e. að breytingar óbeinna skatta til hækkunar eða lækkunar skuli frá næstu áramótum ekki hafa áhrif á verðbótaákvæði kjarasamninga. Þessi breyting er nauðsynleg frá sjónarmiði bættrar hagstjórnar í landinu á komandi árum og felur jafnframt í sér umbætur á launaákvörðunaraðferðinni sem hér hefur tíðkast. Hún er skref í átt frá vélgengi í víxlhækkun kaupgjalds og verðlags.

Í skýrslu verðbólgunefndar, sem ríkisstj. skipaði fyrir rösklega einu ári til að kanna horfur í verðlagsmálum og gera till. um ráðstafanir til að draga úr verðbólgu, er áhersla á það lögð, að ástæðurnar fyrir hinni öru verðbólguþróun hér á landi séu þess eðlis, að ekki sé til nein einföld lausn, ekkert töfraorð sem komið getur á verðfestu á andartaksstund. Til þess að draga markvisst úr verðhækkun hér á landi á næstu árum þarf að vinna að því að bæta hagstjórnaraðferðirnar á öllum sviðum, og þær umbætur taka óhjákvæmilega tíma.

Í skýrslu verðbólgunefndar er fjallað um þær breytingar sem helst kæmu til greina í þessu skyni. Þar er bent á réttar leiðir sem þarf að fullkanna. N. bendir a nauðsynlegar umbætur í hagstjórn á næstu árum í sex greinum:

1) Öflugri jöfnunarsjóðir í sjávarútvegi.

2) Virkari stjórn peningamála með beitingu vaxta, verðtryggingar, bindiskylduákvæða og gengisskráningar.

3) Styrkari fjárfestingarstjórn með samræmingu útlánakjara.

4) Traustari fjármálastjórn með tilliti til árferðis.

5) Samræmdar tekjuákvarðanir og launasamningar.

6) Bætt skipan verðlagseftirlits.

Þá gerir verðbólgunefnd grein fyrir nauðsyn samræmdrar stefnu í efnahagsmálum til nokkurra ára í senn og leggur til að komið verði á fót fastri samvinnunefnd stjórnvalda og hagsmunasamtaka sem fjalli um þessa stefnumótun.

Allar þessar ábendingar n. tel ég mikillar athygli verðar, en í skýrslunni segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Reynsla undanfarinna ára og áratuga sýnir glöggt þörfina fyrir samræmda efnahagsstefnu sem ekki styðst aðeins við þingfylgi ríkisstjórna, en nýtur einnig viðurkenningar og skilnings hagsmunasamtaka almennings. Meginforsenda fyrir árangursríkri hagstjórn, þar sem komist sé nálægt viðunandi niðurstöðu að því er varðar helstu markmið efnahagsstefnu — að verðlagsþróuninni meðtalinni — er eins konar málamiðlun milli þeirra, sem taka mikilvægustu ákvarðanir í efnahagsmálum þjóðarinnar af hálfu stjórnvalda annars vegar og aðila vinnumarkaðarins hins vegar.“

Ég tel nauðsynlegt að stofnað verði til skipulegs samráðs af því tagi, sem þarna er gert ráð fyrir, í kjölfar þeirra ráðstafana, sem nú hafa verið gerðar, til þess að stuðla að þjóðhagslegu jafnvægi og draga úr verðbólgu í bráð. Fyrsta verkið ætti að vera að vinna úr ábendingum verðbólgunefndar um umbætur í stjórn efnahagsmála á þeim sex sviðum sem ég taldi upp áðan. Það er þjóðarnauðsyn að allir áhrifaaðilar í efnahagsmálum, bæði ríkisvaldið og hagsmunasamtökin, reyni að nálgast sameiginlegt mat á framleiðslugetu þjóðarbúsins, sjálfum grundvellinum fyrir varanlegum kjarabótum til viðmiðunar við gerð næstu fjárlaga, lánsfjáráætlunar og kjarasamninga.

Á þessu ári hefur ríkisstj. beitt sér fyrir nokkrum samdrætti í opinberum framkvæmdum í heild, en slík stefna skilar ekki árangri nema henni sé framfylgt á öllum sviðum efnahagslífsins og samfellt yfir allangan tíma. Að því verður að stefna á næstu árum að ná enn betri tökum á heildareftirspurninni í landinu til að tryggja jafnar framfarir og sem hægastar verðbreytingar.

Jafnan skyldu menn þó gæta þess, að hversu góðar aðferðir sem fundnar verða til þess að stjórna þjóðarbúskapnum og hversu hyggilega sem þeim væri beitt verður ekki úr verðbólgunni dregið til lengdar nema með miklu að'haldi í útlánum og ríkisfjármálum. Það hefur verið okkar veikleiki að vilja gera of margt í senn. Þjóðin er orðin þreytt á yfirboðum og sprengihækkunum í útgjöldum, útlánum og launum sem ekki skila raunverulegum árangri. Nú þurfum við að bregða á betri ráð. Vandi verðbólgunnar verður aldrei farsællega leystur nema með sameiginlegu átaki áhrifaaðilanna í efnahagsmálum og reyndar þjóðarinnar allrar.

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að svo mæltu að leggja til að frv. þessu verði vísað til fjh.- og viðskn, þessarar hv. d. að lokinni þessari umr. og til 2. umr.