10.02.1978
Neðri deild: 54. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2228 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hvað felst í grundvallaratriðum í þeim efnahagsráðstöfunum ríkisstj. sem hér eru til umr.? Annars vegar felst í þeim gengislækkun, hins vegar felst í þeim skerðing á umsömdum verðbótum launþega með riftingu á gildandi kjarasamningum.

Gengislækkunin var orðin staðreynd. Ríkisstj. var búin að fella gengið með stefnu sinni, enda t. d. gert ráð fyrir 18% gengislækkun í gildandi fjárl. Gengislækkun hefur á þessum dögum og vikum verið algerlega óumflýjanleg. Hún var orðin staðreynd. Hún er afleiðing af margra ára stefnu núv. ríkisstj. í efnahagsmálum. Hitt er aftur á móti mikilvæg spurning: Var hægt að komast hjá skerðingu kjarasamninganna? Var það mögulegt? Í því sambandi vil ég leyfa mér að benda á þá till. sem fulltrúar launþegasamtakanna og fulltrúar þriggja stjórnarandstöðuflokka í verðbólgunefndinni urðu sammála um og ástæðulaust er að lýsa nákvæmlega hér, því að allir hv. þm. hafa fengið bók á borðið, álit verðbólgunefndar, og þar er þessi till. rakin greinilega. Þar var um að ræða till. um lækkun á verðlagi sem nemur 7% og bent á ákveðnar leiðir til að gera slíka verðlagslækkun kleifa.

Því miður hefur það of oft borið við undanfarið, að bæði launþegasamtök og stjórnarandstöðuflokkar hafa mótmælt ráðstöfunum, sem ríkisstj. hefur haft á prjónunum eða verið að framkvæma eða ætlað að framkvæma og framkvæmt, án þess að benda á færar leiðir í staðinn. Það hlutskipti kusu fulltrúar launþegasamtaka í verðbólgunefndinni, Alþýðusambandsins og bandalags opinberra starfsmanna, og fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna sér ekki. Þeir lögðu mikla vinnu í að ná samstöðu um raunhæfar ráðstafanir til að vinna bug á þeim efnahagsvanda sem engum viti bornum manni dettur í hug að bera á móti að við er að etja. Þessar till. liggja fyrir og voru samdægurs, þegar í fyrradag, sendar hæstv. ríkisstj. með ósk um viðræður milli hennar og launþegasamtakanna. Því var svarað síðdegis í gær með því að boða til fundar í Stjórnarráðinu með hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh., sem reyndist sögulegur fundur og ég mun segja svolítið nánar frá á eftir, en um alvöruviðræður á grundvelli einróma till. fulltrúa launþegasamtaka og þriggja stjórnarandstöðuflokka var ekki að ræða af hálfu hæstv. ríkisstj. og að því mun ég koma síðar.

Eins og greinilega kemur fram í áliti verðbólgunefndarinnar setti formaður nefndarinnar, forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar, fram fimm valkosti fyrir nm. til að velja á milli. Fyrsti kosturinn var fólginn í því að gera ekki neitt. Enginn nm. taldi koma til greina að loka augunum og láta svo sem um engan efnahagsvanda væri að ræða. En hann benti á fjórar aðrar færar leiðir sem hann nefndi leið 2–5.

Hann benti á leið, afleiðina svokölluðu, sem hann nefndi samdráttar- og niðurfærsluleið, sem var á því byggð að kjarasamningar héldust óbreyttir. Ég vek sérstaka athygli á þessu, að leið 2 í áliti verðbólgunefndarinnar, sem formaðurinn nefndi samdráttar- og niðurfærsluleið, var talin samrýmast því, að gildandi kjarasamningar héldust óbreyttir. Ég mun lýsa því nánar síðar.

Þriðja leiðin var svonefnd launastöðvunarleið, fjórða leiðin var svonefnd gengislækkunarleið og fimmta leiðin var það sem hann nefndi málamiðlunarleið. Allar þessar þrjár síðastnefndu leiðir, launastöðvunarleiðin, gengislækkunarleiðin og málamiðlunarleiðin, fólu í sér að kjarasamningar væru skertir. M. ö. o.: formaður nefndarinnar, helsti sérfræðingur ríkisstj. í efnahagsmálum, benti á fjórar færar leiðir. Ein þeirra samrýmist því, að kjarasamningar haldist, þrjár þeirra krefjast þess, að kjarasamningum verði breytt.

Af því að það er flókin lesning, sem fólgin er í lýsingu leiðanna í þessari þykku bók sem þm. hafa fyrir framan sig, þá skal ég reyna að einfalda málið.

Fyrst lýsi ég kjarnanum í leið 2, þ. e. a. s. samdráttar- og niðurfærsluleiðinni, þeirri leið sem helsti efnahagssérfræðingur Íslendinga taldi vera færa og geta samrýmst óbreyttum samningum. Ég skal taka það fram, að þá var gert ráð fyrir því, að gengið yrði áður að lækka um 10% og hefur nú lækkað um 15% frá áramótum. En fjárhagslegur kjarni í samdráttar- og niðurfærsluleiðinni var sá, að vörugjald væri lækkað um helming, sem hefði kostað 3400 millj. kr., niðurgreiðslur yrðu auknar um 1000 millj., rekstrargjöld ríkisins yrðu lækkuð um 1000 millj., framkvæmdir ríkisins yrðu minnkaðar um 2000 millj., framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga yrði lækkað um 1900 millj., útsvörin hækkuð um 1% sem gæfi 1900 millj., tekjuskattur ríkisins yrði hækkaður um 1700 millj. og tekjuskattur á félögum eða skyldusparnaður á félögum yrði hækkaður um 600 millj. Með þessu móti hefði efnahagsdæmið gengið upp að dómi formanns verðbólgunefndar og forstöðumanns Þjóðhagsstofnunar. Ég endurtek: að undangenginni 10% gengislækkun, en að óbreyttum gildandi kjarasamningum.

Þriðja leiðin, sem hann nefndi og skírði launastöðvunarleið, fól það í sér, að allar kauphækkanir yrðu bannaðar út árið. Þá þyrfti gengislækkun, var sagt, ekki að nema nema 8%, og jafnframt var gert ráð fyrir aukningu niðurgreiðslna sem næmi 1000 millj. kr. eins og í annarri leiðinni. Enginn í verðbólgunefnd mælti með þessari launastöðvunarleið. Það var enginn fulltrúi sem mælti með því, að launahækkanir yrðu alfarið bannaðar út árið.

Fjórðu leiðina nefndi formaður nefndarinnar gengislækkunarleiðina. Í henni fólst í aðalatriðum það, að gengið yrði lækkað um 20%, en hins vegar yrðu niðurgreiðslur auknar um 1900 millj., næstum helmingi meira en í fyrri leiðunum, en aðeins yrði um 1000 millj. kr. lækkun útgjalda ríkissjóðs að ræða. Jafnframt var vegna hinnar miklu gengislækkunar gert ráð fyrir ýmsum hliðarráðstöfunum: hækkun á lífeyrisbótum, hækkun tekjutryggingar o. s. frv. Það mælti heldur enginn af fulltrúum í verðbólgunefnd með þessari leið.

Fimmtu og síðustu leiðina, sem formaður verðbólgunefndarinnar setti fram og lýst er í bókinni, nefndi hann málamiðlunarleið. Af henni voru að vísu þrjú afbrigði, en til þess að gera málið einfalt skal ég lýsa í stuttu máli því afbrigðinu sem valið var af hálfu fulltrúa stjórnarflokkanna í verðbólgunefndinni og þeirra sérfræðinga sem þar áttu sæti. Forsenda þeirrar leiðar var sú, að gengið yrði lækkað um 15% frá áramótum eða 13% frá deginum í fyrradag þegar gengið var lækkað um 13%. Það er í raun og veru sama gengislækkunarforsendan sem þessi fimmta leið, þessi málamiðlun, byggir á og sú sem ríkisstj. eða Seðlabankinn hefur þegar framkvæmt. Að öðru leyti er það kjarni þessarar leiðar, að vísitöluuppbót skuli skert um helming út árið, ég legg á það áherslu: út árið, m. ö. o.: skuli ekki hrófla við umsömdum grunnkaupshækkunum, en vísitölubætur skuli skertar um helming út þetta ár, til ársloka 1978. Við munum síðar sjá hversu mikla þýðingu þetta hefur.

Í þessari leið var gert ráð fyrir lækkun vörugjaldsins um helming, sem nemur 3400 millj. kr., þ. e. a. s. minnkaðar álögur á almenning um helming, sem nemur 3400 millj. kr. Hins vegar var aðeins gert ráð fyrir 2000 millj. kr. minnkun framkvæmda í stað allt að 5000 millj. kr. minnkun framkvæmda í annarri leiðinni, þ. e. a. s. samdráttar- og niðurfærsluleiðinni. Og að síðustu var gert ráð fyrir ýmsum hliðarráðstöfunum. Niðurgreiðslurnar áttu að lækka um 1900 millj. kr., það átti að auka tryggingabætur og gera nokkrar aðrar ráðstafanir í félagsmálum. Þetta var sú leið, þessi málamiðlunarleið sem nú hefur verið lýst, sem fjórir fulltrúar stjórnarflokkanna og allir sérfræðingar ríkisstj. í verðbólgunefnd mæltu með að farin yrði. Ég gat ekki lýst fylgi mínu við að þessi leið yrði farin, og var því að sjálfsögðu aðili að till. fulltrúa launþegasamtakanna og stjórnarandstöðuflokkanna um þá leið sem þeir lögðu til og buðu samningaviðræður um. Ég legg áherslu á að í því plaggi, sem birt er í áliti verðbólgunefndarinnar og sent var ríkisstj. á sama klukkutímanum og það var undirskrifað, fólust engir úrslitakostir. Það var borið fram sem umræðugrundvöllur milli launþegasamtaka og ríkisvalds. Því var ekki ansað og því er nú að fara sem fara mun og ég mun enn frekar víkja að síðar.

Mér bauð í grun að ríkisstj. mundi hundsa þessar till., sem þarna var um að ræða, og því þótti mér rétt að gera sérstakan fyrirvara þegar gengið var frá nál. verðbólgunefndarinnar. Ég gerði skriflegan fyrirvara sem fjölritaður er í bókinni sem þarna er um að ræða. Efni þess fyrirvara er að ef ríkisstj. teldi ekki þær hugmyndir, sem þarna eru fram settar, aðgengilegar, sem hún ekki taldi, þá mælti ég með því, að leiðin, sem formaður nefndarinnar hafði kallað samdráttar- og niðurfærsluleið og ég er búinn að lýsa, yrði farin, vegna þess að hún var talin samrýmast óóbreyttum samningum, að vísu með þeirri breytingu að í stað hækkunar tekjuskatts og útsvars hjá einstaklingum kæmi heimild til sveitarfélaga til þess að hækka aðstöðugjöld eða draga úr framkvæmdum að öðrum kosti. Leiðin yrði auðvitað jafnframkvæmanleg hvaðan sem peningarnir koma, hvort sem þeir koma úr vasa launþeganna, eins og formaðurinn hafði gert ráð fyrir, eða frá fyrirtækjum, sem eru skattfrjáls eða hafa mikla veltu og ættu því að geta þolað aðstöðugjald, eða þeir yrðu skattlagðir með þeim hætti, ef sveitarfélögin teldu ekki fært að hækka aðstöðugjöld, að draga einfaldlega úr framkvæmdum, eins og ríkinu bæri að sjálfsögðu að gera. Þessi brtt. mín við samdráttar- og niðurfærsluleiðina gerir hana þannig að engu leyti óframkvæmanlegri en hún var í till. forstöðumanns Þjóðhagsstofnunarinnar og hefði hún því verið framkvæmanleg samtímis því að samningar væru óbreyttir og gengið væri lækkað um aðeins 10%.

Ég get ekki undirstrikað nógu sterklega, að aðalráðunautur ríkisstj. hefur lýst í þessari bók leið sem hægt væri að fara og sigrast á efnahagsvandanum samfara aðeins 10% lækkun á gengi og óbreyttum kjarasamningum, að vísu með þeim hætti að ríkið yrði að minnka umsvif sín mjög verulega, spara í rekstri sínum og skera niður framkvæmdir sínar. En það hefur verið margítrekuð stefna launþegasamtakanna í ályktunum, bæði Alþýðusambandsins og ekki siður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, að það, sem nú bæri hvað brýnasta nauðsyn til, væri að ríkið sparaði í sínum rekstri og ekki síður að það sparaði í sínum framkvæmdum. Hafi verið hægt að auka framkvæmdir í síðustu fjárl. eins og gert var, þá ætti að vera hægt að draga úr þeim aftur.

Þangað til fyrir tveim dögum voru allir í góðri trú um að sú leið, sem forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar hafði nefnt málamiðlunarleið, yrði farin. Ég er búinn að lýsa því í grundvallaratriðum í eins einföldu máli og hægt er að gera, í hverju hún hafi verið fólgin. Það var á miðvikudagsmorgni fyrir tveim dögum, sem fulltrúar stjórnarflokkanna í verðbólgunefndinni og sérfræðingar ríkisstj. þar skrifuðu undir meðmæli með þessari málamiðlunarleið með hátíðarsvip, ekki vantaði það, og það leyndi sér ekki að þeim datt ekki annað í hug, frekar en okkur hinum, en þetta væri leiðin sem ríkisstj. mundi fara, — hún hefði bara verið að biða eftir meðmælum stuðningsmanna sinna í verðbólgunefndinni og sérfræðinga sinna í verðbólgunefndinni með að þessi leið yrði farin. En það átti eftir að koma í ljós, að á þeirri stundu um hádegisbilið sem þeir voru að undirskrifa meðmæli með málamiðlunarleiðinni, sem allir vita nú hvað felst í, á þeirri stundu var eitthvað að gerast uppi í stjórnarráði. Ráðh. sátu samtímis á fundi og núna er komið í ljós að þar var að gerast allt annað en gerðist með fulltrúum ríkisstj. og sérfræðingunum hér niðri í Alþ. — allt annað.

Það er núna komið í ljós, að innan ríkisstj. voru á þessum morgni, í fyrradag, komnar upp stórdeilur um það, hver skyldi vera stefna ríkisstj. í efnahagsmálum. Auðvitað eru ekki fyrir hendi nú, og verða líklega ekki fyrr en einhver núv. ráðh. fer að skrifa æviminningar sínar, öruggar heimildir um hvað í raun og veru var að gerast á ráðherrafundinum á miðvikudagsmorgun. Um það eru að sjálfsögðu engar öruggar fregnir. En nú er komið á daginn, það kom á daginn tveim dögum seinna, að þar var í alvöru farið að ræða alveg nýja leið út úr efnahagsvandanum, leið sem að vísu hefur verið nefnd áður í lauslegum samtölum við launþegasamtökin, en þó með þeim hætti, að enginn tók það alvarlega, að þarna gæti verið um alvöruafbrigði að ræða frá þeirri leið sem verðbólgunefndin hafði starfað að og stefnt að — fulltrúar ríkisstj. og sérfræðingarnir þar — um margra vikna skeið. Þessi nýja hugmynd, sem var komin upp í ríkisstj. og var verið að ræða þar í römmustu alvöru og að því er mig grunar í miklum deilutón, í miklum hitatón, þannig að menn munu á engan hátt hafa verið sammála, var sú, að í stað skerðingar vísitölubótanna um helming, sem var grundvallaratriði í málamiðlunarleið verðbólgunefndarinnar, skyldi taka áhrif óbeinna skatta út úr vísitölunni samfara smávægilegri tryggingu gegn launaskerðingu alls lægst launaða launafólksins.

Þessi hugmynd var komin upp. Það er núna komið í ljós, að hún var komin upp og um hana stóðu og voru hafnar stórdeilur í ríkisstj. á miðvikudagsmorgni. Þessi hugmynd er alkunn. Hún hefur margoft verið rædd meðal íslenskra sérfræðinga, meðal íslenskra stjórnmálamanna og innan íslenskra stéttarfélaga. Hún er nefnd í bók verðbólgunefndarinnar sem eitt af framtíðar­ verkefnunum í íslenskum efnahagsmálum, að könnuð verði þessi leið, áhrif hennar og þá auðvitað rædd hugsanleg framkvæmd hennar við launþegasamtökin. En í verðbólgunefndinni hafði þessi leið aldrei verið rædd sem hugsanlegt úrræði í skyndiráðstöfunum, sem allir vissu að þyrfti að grípa til nú í þessum mánuði, og hefur aldrei verið nefnd í verðbólgunefndinni sem hugsanlegur þáttur í skyndiráðstöfunum sem búíð var að boða, að grípa þyrfti til í febrúarmánuði. Hins vegar var verið að ræða hana í ríkisstj., en ríkisstj. sýndi ekki fulltrúum sínum í verðbólgunefndinni þann sóma að skýra þeim frá því. Sérfræðingarnir höfðu ekki hugmynd um að verið væri að rífast um þessa leið við Lækjartorg, í stjórnarráðshúsinu þar. Þess vegna er það, að fulltrúar stjórnarflokkanna fjórir og sérfræðingarnir skrifuðu undir um tólfleytið með miklum hátíðarbrag, allir í góðri trú, allir með sælubros á vör og í góðri trú um það, að þar væru þeir búnir að afhenda ríkisstj. þá lausn sem hún að sjálfsögðu mundi framfylgja. En mér sýnist öll þróun mála benda til þess, að þegar um hádegið á miðvikudaginn var hafi bæði stjórnmálamennirnir í nefndinni, fulltrúar stjórnarflokkanna, og sérfræðingarnir fengið að vita að eitthvað nýtt væri komið á daginn í ríkisstj. Það getur varla verið tilviljun, að allir þessir menn földu sig fyrir fjölmiðlum allan seinni hluta miðvikudags. Útvarpið reyndi að ná í þá, sjónvarpið reyndi að ná í þá, það tókst ekki. Sumir þessara manna eru kunnari fyrir annað en hlédrægni þegar útvarp og sjónvarp hafa viljað við þá tala, það er alveg óhætt að fullyrða það. En hvernig sem á því stóð, þegar fréttatími útvarpsins byrjaði kl. 7 og sjónvarpsins kl. 8, þá var skýrt frá því í báðum þessum fjölmiðlum að gersamlega væri ómögulegt að komast í nokkurt samband við nokkurn fulltrúa stjórnarflokkanna í verðbólgunefndinni né nokkurn af sérfræðingunum þar, nema formaðurinn, sem eins og hvert annað fórnarlamb varð að fórna sér í þessu sambandi og koma fram í sjónvarpsviðtali.

Þessi nýja stefna, þessi nýja hugmynd, að breyta skerðingu vísitöluuppbótanna í breytingu á vísitölugrundvellinum sjálfum, er gömul. En hvernig og með hverjum hætti það hefur gerst, að henni skýtur skyndilega upp í ríkisstj. á síðustu dögunum áður en efnahagsráðstafanir eru lagðar fram, verður sagan að leiða í ljós. Hér í þingsölunum var í nótt altalað að þetta væri fyrst og fremst hugmynd framsóknarráðherranna, þetta væri krafa framsóknarráðherranna. Auðvitað hlaut öllum að vera ljóst, að það var ósvifni af stærstu og grófustu tegund í garð launþegasamtaka að byrja að ræða breytingu á vísitölugrundvellinum nokkrum dögum áður en frv. hafði verið boðað hér á Alþ., því að allir vita að samsetning vísitölugrundvallarins er eitt viðkvæmasta samningsatriði milli launþegasamtaka og atvinnurekenda og það hefur aldrei gerst áður, að hugmyndir hafi verið settar fram um breytingar á vísitölugrundvellinum nema að undangengnum langvarandi og ítarlegum umr. á milli launþegasamtaka, vinnuveitenda og ríkisvalds. Þess er skemmst að minnast, að þegar verðbreytingar á áfengi og tóbaki voru teknar út úr grundvellinum, á tímum vinstri stjórnarinnar, sem var sjálfsögð ráðstöfun og ég fyrir mitt leyti var fylgjandi á sínum tíma og skil þessa hugmynd að vissu leyti, þá gerðist það ekki fyrr en að undangengnum margra vikna viðræðum milli þessara þriggja aðila, þ. e. a. s. launþegasamtaka, vinnuveitenda og ríkisvalds. Nú gerist það allt í einu tveim dögum áður en stjfrv. hefur verið boðað um efnahagsráðstafanir, að í alvöru er farið að ræða um að gerbreyta vísitölugrundvellinum. Það skiptir engu máli í þessu sambandi hvort breytingin er skynsamleg eða óskynsamleg — ekki nokkru minnsta máli. Það, sem skiptir máli, er að ríkisstj. fer að ræða lagabreytingu á einu viðkvæmasta samningsmáli launþegasamtakanna við atvinnurekendur án þess að hafa sagt fulltrúum launþegasamtakanna frá því. Og það verð ég að segja, að það líkist mest ráðh. Framsfl. að hugsa svona, því að alkunna er að þeir kæra sig ekki um samráð við samtök launþeganna, telja þau ekki aðeins óþörf, heldur jafnvel beinlínis skaðleg.

Svo fór þó, að ráðherrarnir sáu sitt óvænna, hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh., og boðuðu fulltrúa ASÍ og BSRB á fund sinn kl. 6 síðdegis í gær. Og þá hófst sögulegur fundur. Tilefnið átti að heita að vera það að ræða samþykkt fimmmenninganna í verðbólgunefndinni, fulltrúa launþegasamtakanna og fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna. Það var sagt vera tilefnið. En engar umr. fóru fram um það. Í staðinn skýrðu þessir tveir ráðh. frá því, að upp væri komin sú hugmynd í ríkisstj., að í stað þess að helminga verðbæturnar skyldi vísitölugrundvellinum breytt þannig, að óbeinir skattar hefðu engin áhrif á hann. Og þetta átti að vera í frv., sem búið var að boða að lagt yrði fram síðdegis í gær ! Það var ekki lagt fram fyrr en kl. 6 af eðlilegum ástæðum, því að svo smekklaus var stjórnin ekki að leggja það fram án þess að hafa til málamynda talað við fulltrúa ASÍ og BSRB, sem hún gerði kl. 6. Þegar lesturinn byrjaði yfir forseta ASÍ og forseta BSRB, að ríkisstj. væri í alvöru að tala um að breyta strax vísitölugrundvellinum þannig, að óbeinir skattar hefðu þar engin áhrif, þá stóðu fulltrúar launþegasamtakanna upp, gengu út og skelltu á eftir sér. Þá fór að fara um kempurnar sem sátu eftir í stjórnarráðinu — fór aldeilis að fara um þær. Nú sáu þeir að líklega hefðu þeir verið að gera einhverja vitleysu. Það má mikið vera, ef þeir hafa ekki farið að kenna hvor öðrum um að bera ábyrgð á vitleysunni. (Forsrh.: Ekki heyrði ég neinn hurðarskell.) Jæja, þá hefur þú verið eitthvað lamaður eftir viðræðurnar, því að ábyggilegt er að hurðunum var lokað fast. (Gripið fram í.) Nei, nei, en ég hef góðar heimildir fyrir þessu. En hvort sem um hurðarskell hefur verið að ræða eða ekki, þá hafði útgangan sín áhrif, því að hæstv. ráðh. tóku plaggið sem komið var í prentun — ég hef líka góðar heimildir fyrir því, þeir létu sækja próförkina upp í prentsmiðju og veltu henni á milli sín og breyttu. Þeir breyttu frv. í það form, að till. verðbólgunefndarinnar um skerðingu vísitölubótanna skyldi haldast í 12 mánuði, m. a. s. skyldi hún haldast út árið, en 1. jan. á næsta ári skyldi hugmyndin um að taka alla óbeina skatta út úr vísitölunni koma til framkvæmda. Það er söguleg staðreynd, að þessi breyting var gerð eftir að fulltrúar ASÍ og BSRB gengu út úr stjórnarráðshúsinu. Við skulum láta það liggja á milli hluta, hversu fast hurðin hafi skollið, það skiptir minna máli í þessu sambandi, en hitt er staðreynd, að eftir þennan fund var frv. breytt. Það veit hver einasti þm. hér í salnum, að sú var ástæðan til þess, að frv. var ekki útbýtt kl. níu, eins og búið var að lofa, heldur klukkan að ganga eitt. Það þurfti að breyta frv. og þess vegna kom það ekki á borð okkar þm. fyrr en klukkan að ganga eitt í nótt sem leið.

Um þá hugmynd að taka óbeina skatta út úr vísítölunni má vel ræða frá mínu sjónarmiði. Þetta kerfi gildir í Danmörku og hefur ýmsa kosti sérstaklega með hliðsjón af því, að almennt vísitölukerfi hefur ýmsa ókosti, og hjá öllum þjóðum, sem við vísitölukerfi búa, eru uppi ýmsar hugmyndir um hvernig því megi breyta til batnaðar. En ég vek athygli á því, að það, sem ríkisstj, leggur til, er ekki það sama sem gildir í Danmörku. Þar gildir sú regla, að hvorki óbeinir skattar né niðurgreiðslur hafa áhrif á vísitöluna, hvorki breytingar á óbeinum sköttum né niðurgreiðslum hafa áhrif til breytinga á þeirri vísitölu sem launabætur í Danmörku eru miðaðar við. Hér leggur ríkisstj. til að eingöngu breytingar á óbeinum sköttum skuli ekki hafa áhrif til lækkunar á vísitölunni, en hins vegar ekki að aukning niðurgreiðslna skuli hafa áhrif til breytinga á henni. M. ö. o.: ef frv. er tekið bókstaflega eftir orðanna hljóðan, þá gæti ríkisstj. hækkað söluskatt um eitt stig og fengið af því ómældar tekjur án þess að það hefði nokkur áhríf á vísitölu til kauphækkunar, en notað svo tekjuhækkunina til aukinna niðurgreiðslna, sem mundu þá auðvitað valda því, að vísitalan lækkaði og kaupið lækkaði. Þetta er bragð sem hægt væri að beita samkv. orðanna hljóðan í frv. Við þessu bragði hefur danski löggjafinn séð. Hann bannar þetta, eða réttara sagt: hann gerir að jafnri skyldu að taka óbeinu skattana út úr vísitölunni, breytingar á þeim, og breytingar á niðurgreiðslum jafnframt. Þess er að vísu getið í grg. með frv., að ríkisstj, sé ljóst að þessi vandi sér fyrir hendi. Líklega hefur henni ekki verið orðið það ljóst fyrr en rétt þegar hún setti frv. í prentun í gærkvöld, verið bent á það síðar, og það hafi ekki tekist að breyta frv. sjálfu þannig til viðbótar, því að nóg þótti að gera hina breytinguna. Hins vegar er alltaf hægt að skjóta nokkrum orðum inn í grg. og það hefur verið gert. En orð í grg. jafngilda ekki lagabókstaf. Lagabókstafurinn er hinsegin. 1. jan. 1978 á að taka óbeinu skattana út, en það er engin skylda að taka niðurgreiðslurnar út, og í því felst stórkostleg hætta fyrir launþegana, ef framkvæmd slíkra laga er í höndum á fjandsamlegri ríkisstj.

En breytingarnar, sem hæstv. ríkisstj, hefur gert á till. flokksbræðra sinna og embættismanna í verðbólgunefndinni, eru enn þá meiri en þetta. Ríkisstj. hefur ekki látið við það eitt sitja að taka inn í frv. atriði sem aldrei var nefnt í verðbólgunefndinni og verkalýðshreyfingin eða launþegasamtökin hljóta að taka með hinum mesta fjandskap, þ. e. a. s. breytingu án samráðs á sjálfum grundvellinum. Hún hefur gert meira. Í till. verðbólgunefndarinnar var gert ráð fyrir helmingslækkun á vörugjaldi, þ. e. a s. lækkun á byrðum almennings um 3400 millj. Í þessu frv. er gert ráð fyrir 2% lækkun á vörugjaldinu, þ. e. a s að lækka byrðar á almenningi um 720 millj. kr., og ekki bara þetta: Það er dregið úr niðurgreiðslunum. Formaður verðbólgunefndar, fulltrúar stjórnarflokkanna og sérfræðingarnir höfðu gert ráð fyrir því, að niðurgreiðslurnar yrðu auknar um 1900 millj. kr. Hvað gerir ríkisstj, í þessum till.? Hún áætlar þær 1000 millj. Hún lækkar niðurgreiðslurnar um helming, hvorki meira né minna, sem er auðvitað baggi á almenning miðað við það sem verðbólgunefndin hafði gert ráð fyrir. Það, sem líka skiptir miklu máli, er að lækkun framkvæmdaútgjalda er engin í frv. M. ö, o.: ríkisstj. ætlar sér ekkert að minnka sínar framkvæmdir, sín umsvif. Það er aðeins veitt heimild til þess að spara 1000 millj. kr. í rekstri eða fjárfestingu, og það má geta sér til hvort hún hugsar að nota heimildina eða nota hana ekki. M. ö. o.: það er vanrækt eitt grundvallaratriði, sem allir sérfróðir menn í efnahagsmálum og bæði stóru launþegasamtökin hafa lagt megináherslu á að eigi að vera eitt aðalatriðið í efnahagsaðgerðum, að ríkisvaldið dragi úr umsvifum sínum, minnki fjárfestingu sína og spari í rekstri sínum. Þetta er fellt niður í frv, ríkisstj. Þetta er auðvitað veigamikill þáttur í þeim hugmyndum sem forstjóri Þjóðhagsstofnunar, fjórir stjórnarsinnar og aðrir sérfræðingar í verðbólgunefndinni höfðu lagt til og meira að segja lagt áherslu á. En ríkisstj. hugsar öðruvísi: Jú, jú, ríkið ætlar ekkert að spara, en almenningur skal knúinn til þess að spara. — Um leið og almenningur er knúinn til að spara segir ríkisstj.: Nei, ég sker ekki niður krónu, hvorki í rekstri né heldur í fjárfestingu, hvað vitlaus sem fjárfestingin annars kann að vera.

Í því sambandi, sem hér er um að ræða, er það í mínum augum aðalatriði að ríkisstj. hefur lagt til í lagafrv. breytingu á sjálfum vísitölugrundvellinum án þess að hafa um það nokkurt samráð við launþegasamtökin. Slíkt er auðvitað algerlega ófyrirgefanlegt. Þetta eru vinnubrögð sem aldrei fyrr hafa tíðkast í samskiptum launþegasamtaka við ríkisvald. Sagan, eins og ég sagði áðan, verður að leiða í ljós hver á upptökin að slíku óheillaspori, slíkri óheillastefnu í samskiptum ríkisvalds og launþegasamtaka. Ég endurtek: Ég á með þessu ekki við það, að í sjálfu sér hljóti slík breyting að vera óeðlileg. Vísitölukerfið er gallað og hugsa má sér ýmis form á útreikningi vísitölu. Það mætti jafnvel skipta alveg um grundvöll, hætta að reikna út verðlagsvísitölu og taka upp vísitölu breytinga á þjóðartekjum sem viðmiðunargrundvöll í sambandi við launaákvörðun. Þarna eru margir möguleikar og allir sérfræðingar þekkja marga möguleika í þessum efnum. En það er skylda pólitískra stjórnvalda að láta sér ekki detta í hug að lögbjóða eitt eða neitt í þessu sambandi án samráðs við launþegasamtökin sjálf, og það er mergurinn málsins.

Það, sem hefur gerst með einhverjum dularfullum hætti á undanförnum 2–3 dögum, er að þessi hugmynd hefur komið upp og með alveg óskiljanlegum hætti hefur hún sigrað í hæstv. ríkisstj. Kannske fáum við aldrei að vita hver átti hugmyndina að þessum ruddaskap. En hitt er vitað, að Framsfl. vill ekkert samráð við launþegasamtökin, eins og ég gat um áðan, og þess er skemmst að minnast, að formaður Framsfl. sagði í sjónvarpsviðtali sem meiri hl. þjóðarinnar hefur eflaust horft á: Þeir, þ. e. forustumenn launþegasamtakanna, vilja ekkert láta tala við sig. — Þetta gæti bent til þess, hvar höfundarrétturinn að þessum ósköpum í raun og veru liggur.

Ég þarf naumast að taka það fram, herra forseti, að þingflokkur Alþfl. er algerlega andvígur þeim ráðstöfunum, sem felast í frv., og mun beita sér gegn þeim með öllum mögulegum ráðum.

En máli mínu vil ég ljúka með því að lesa samþykkt sem mér var að berast frá miðstjórnarfundi Alþýðusambands Íslands og var samþykkt með atkv. allra fundarmanna. Fundurinn var haldinn og honum lauk nú fyrir rúmum hálftíma eða þrem kortérum. Þar var ákveðið að efna til ráðstefnu formanna allra verkalýðsfélaga ASÍ n. k. miðvikudag, en á fundi miðstjórnar, sem gerði þessa ályktun, voru einnig formenn landssambanda innan ASÍ. Ályktunin, sem miðstjórn ASÍ samþykkti með atkv, allra fundarmanna, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta og lýk ég orðum mínum með því að lesa hana. Hér gefur að heyra fyrstu viðbrögð Alþýðusambands Íslands við þeim ofbeldisaðgerðum af hálfu ríkisstj. sem boðuð eru í þessu frv. sem hér er til umr. Ályktunin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Kjarasamningar verkalýðssamtakanna og atvinnurekenda frá 22, júní s. l. fólu í sér verulega endurheimt kaupmáttar launa eftir þriggja ára kjaraskerðingar sem knúnar höfðu verið fram af atvinnurekendum og ríkisvaldi.

Með samningunum var stefnt að 7–8% kaupmáttaraukningu á árinu 1977 miðað við fyrra ár og nokkurri aukningu á þessu ári. Á þeim grundvelli átti fullur friður að vera tryggður á hinum almenna vinnumarkaði í 16 mánuði eða fram undir árslok 1978. Nú hefur það samt sem áður gerst, að ríkisstj. með atvinnurekendavaldið að bakhjarli hefur, áður en samningstími er hálfnaður, rift samningunum í grundvallaratriðum með skerðingu verðbótaákvæða þeirra og mikilli gengisfellingu og að nýju teflt friði á vinnumarkaðinum í voða.

Ástæður þessara harkalegu aðgerða eru sagðar þær, að óbreyttir kjarasamningar mundu leiða til efnahagsöngþveitis og stöðvunar í atvinnulífinu. Hið sanna er, að orsakir vandans nú eru fyrst og fremst röng efnahagsstefna sem leitt hefur til stóraukinnar verðbólgu og örðugleika í einstökum greinum atvinnurekstrar. En í stað þess að breyta um þá stefnu, sem leitt hefur til ófarnaðarins, er nú einfarið valin sú óheillaleið að ráðast á launakjör almennings, rifta gerðum og gildum kjarasamningum og kasta þannig stríðshanskanum gegn verkalýðsstéttinni og samtökum hennar.

Það er staðfest álit miðstjórnar Alþýðusambands Íslands, að það sé frumskylda stjórnvalda að halda í heiðri löglega gerða kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins og haga efnahagslegum aðgerðum sínum í samræmi við það og að slíkt sé ekki aðeins skylt, heldur og fullkomlega fært nú, þrátt fyrir þau stórfelldu mistök sem gerð hafa verið og ríkisvaldið ber ábyrgð á. En um þessi efni hefur Alþýðusambandið ásamt BSRB og fulltrúum þriggja stjórnmálaflokka lagt fram ítarlegar og raunhæfar till.

Með þeirri aðför ríkisvaldsins, sem nú er gerð að kjarasamningum og launakjörum og studd er af atvinnurekendum, er með öllu rofið það lágmarkstraust sem ríkja verður í allri sambúð launþegasamtakanna annars vegar og samtaka atvinnurekenda hins vegar, ef friður á að geta ríkt í atvinnulífinu og farsæl lausn efnahags- og kjaramála á að vera möguleg. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsir því allri ábyrgð í þessum efnum á hendur ríkisstj. og atvinnurekendum. Í annan stað er að því stefnt með aðgerðum þessum að skerða launakjör svo á þessu ári, að þau lækki í raun fram til ársloka þessa árs mjög verulega niður fyrir meðaltal s. l. árs og trúlega um 9% frá ársbyrjun til ársloka. Og þetta er gert þrátt fyrir að allar forsendur, sem fyrir lágu við gerð kjarasamninganna, hafa ekki einasta staðist, heldur hafa bæði ytri aðstæður og aukning þjóðartekna umfram áætlanir við samningsgerðina batnað til muna og rennt styrkari stoðum undir möguleika þjóðarbúsins sem heildar til að standa heiðarlega við gerða samninga.

Við þær aðstæður, sem nú hafa skapast, eiga verkalýðssamtökin þann kost einan að hefja nú þegar öflugan undirbúning fyrir rétti sínum og hagsmunum, fyrir fullu gildi kjarasamninga sinna. Sem fyrsta skref í þá átt ber þegar í stað að segja upp kaupliðum allra kjarasamninga, sbr. 9. og 10. gr. rammasamnings frá 22. júní 1977, og beinir miðstjórnin því til allra sambandsfélaga sinna að bregða skjótt við og ganga frá uppsögninni svo snemma að hún verði alls staðar tilkynnt fyrir 1 mars. Um allar frekari aðgerðir í þeirri baráttu, sem nú er óhjákvæmileg, mun miðstjórnin beita sér fyrir nauðsynlegu samráði við og milli aðildarsamtakanna og við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja.

Þá lýsir miðstjórnin því yfir, að hún telur að með því að allar heiðarlegar leikreglur varðandi sambúð verkalýðssamtakanna og atvinnurekenda og ríkisvaldsins eru þverbrotnar með fyrirhugaðri lagasetningu, að verkalýðsfélögin og allir einstaklingar innan þeirra séu siðferðilega óbundnir af þeim ólögum sem ríkisvaldið hyggst nú setja.“

Með lestri þessarar samþykktar miðstjórnar Alþýðusambandsins, gerðri fyrir klukkustund, lýk ég máli mínu.