13.02.1978
Neðri deild: 55. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2287 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Ég hlýt að byrja á því að vekja athygli á að í dag, á þessum drottins degi, áður en 2. umr. um þetta frv. hófst, gerðist dálitið svipað og gerðist daginn sem 1. umr. hófst, en að því vék ég við 1. umr. Hún fór sem kunnugt er fram á föstudaginn var. En tveimur dögum áður hafði verðbólgunefndin svokallaða lokið störfum sínum. Fulltrúar stjórnarflokkanna í verðbólgunefndinni og þeir embættismenn ríkisins, sem þar sátu, höfðu mælt með ákveðnum valkosti af þeim sem formaður nefndarinnar og forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar hafði lýst og allir þm. hafa nú kynnt sér í riti verðbólgunefndarinnar sem kallað er Verðbólguvandinn.

Kjarninn í þeim ráðstöfunum, sem fulltrúar stjórnarflokkanna í n. og embættismennirnir lögðu til, var, eins og öllum þm. og þjóðinni yfirleitt er nú væntanlega kunnugt, að helminga skyldi allar verðlagsuppbætur, að helmingurinn af vörugjaldi skyldi felldur niður, það lækkað úr 18% í 9%, niðurgreiðslur lækkaðar um 1900 millj. kr. og gerðar nokkrar ráðstafanir í félagsmálum. Þetta var kjarninn í þeirri leið sem fulltrúar stjórnarflokkanna og embættismennirnir í verðbólgunefndinni mæltu með um hádegið á miðvikudaginn var. En það kom í ljós eftir hádegið, að ráðh. höfðu, meðan nm. voru að undirskrifa verðbólguálitið, setið á fundi og verið að undirbúa allt aðrar ráðstafanir, verið að semja frv., sem hljóðaði allt öðruvísi en þær till. sem verið var að skrifa undir í Þórshamri.

Eini ljósi punkturinn í því, sem ríkisstj. gerði þennan morgun, og það hefur hún líklega verið að gera næstu einn–tvo dagana áður, var að það voru teknar ákvarðanir um nokkrar bætur handa lægst launaða fólkinu. Það er satt að segja það eina af viti sem ríkisstj. hefur gert undanfarna daga, undanfarnar vikur og undanfarna mánuði, og er sjálfsagt að þakka það. En vörugjaldið átti ekki að lækka úr 18% í 9%, það átti að lækka úr 18% í 16%, eftir því sem ráðh. voru að bollaleggja. Niðurgreiðslurnar áttu ekki að lækka um 1900 millj, samkv. hugmyndum ráðh., heldur aðeins um 1300 millj. En þetta var allt saman hégómi hjá því sem reyndist rúsínan í pylsuendanum, en það var að ráðh, voru, þennan sama morgun og verðbólgunefndin var að ljúka störfum, að ráðgera að gerbreyta innihaldi frv., sem búið var að vera í undirbúningi í marga mánuði í verðbólgunefndinni, m. ö. o. að í stað þess að helminga vísitöluuppbæturnar, þá skyldu áhrif allra óhreinna skatta tekin út úr vísitölunni án þess þó að kveða um leið skýrt á um það, að áhrif niðurgreiðslna skyldu tekin út úr vísitölunni. Þannig var gengið frá frv. síðdegis á miðvikudag og það undirbúið til prentunar. En þá tók ríkisstj. upp á því þennan dag að ræða við stjórnir ASÍ og BSRB svo sem frægt er orðið, og hélt með þeim sögulegan fund sem lauk með ósköpum. Í framhaldi af þeim ósköpum urðu ráðh. hræddir við það, sem þeir höfðu verið að ráðgera um morguninn, og ákváðu að breyta til, þ. e. a. s. að hætta ekki við að helminga vísitöluuppbæturnar og breyta vísitölugrundvellinum í staðinn strax, heldur ákváðu að hafa frv. þannig að vísitöluuppbæturnar skyldu felldar niður út árið, en um áramótin næstu skyldi vísitölugrundvellinum breytt með lögum, án þess að hafa rætt þetta eða gert nokkra tilraun til þess að ræða þetta við launþegasamtökin. Þó er ráðh. jafnljóst og okkur öllum hinum þm., að það hefur aldrei áður verið gerð breyting á vísitölugrundvellinum, hvorki með frjálsum samningum né heldur með löggjöf, nema að undangengnu vandlegu samráði við launþegasamtökin.

Þetta varð til þess, að 1. umr. seinkaði um heilan dag, þessi hringsnúningur ríkisstj., í fyrsta lagi fyrirætlanir um að breyta till. frá því sem ráðgert hafði verið á undanförnum vikum og fulltrúar í verðbólgunefnd undirskrifuðu um hádegi á miðvikudag, og síðan var horfið frá þessu aftur að hálfu leyti, með þeim árangri, að í stað þess að frv. væri útbýtt kl. 2 síðdegis, eins og lofað hafði verið, var því útbýtt eftir miðnætti þetta sama kvöld.

Það undarlega gerist, að dálítið svipað á sér stað í dag. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. var á fundi í morgun kl. 10. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar vorum satt að segja undir það búnir, að fundinum lyki fyrir hádegi, og vorum búnir að undirbúa afstöðu okkar, samræma okkar sjónarmið og undirbúa nál. Þá kemur í ljós að meiri hl. n., fulltrúar hv. stjórnarflokka, er ekki tilbúinn að ljúka nefndarstörfum, en ráðgera hlé, að vísu með feimnissvip, hálfskömmustulegir í framan, að það skuli standa á þeim að afgreiða málið úr n. í hendur hv. þd. Þegar við spyrjum hverju þetta sæti, hverju var þá svarað? Ríkisstj. situr á fundi og hún er að ræða hugsanlegar breytingar á frv. Við getum ekki tekið afstöðu fyrr en við vitum hvað ríkisstj. er að hugsa eða hvað hún ætlar sér að gera. (Gripið fram í: Þú þekkir þessa leið.) Nei, svona háðulega datt okkur í viðreisnarstjórninni aldrei í hug að leika okkar stuðningsmenn. Okkur, sem sátum í viðreisnarstjórninni svokölluðu, ég segi það aftur, okkur datt aldrei í hug að leika okkar stuðningsmenn með jafnháðulegum hætti og núv. ríkisstj. leikur sína stuðningsmenn, eins og kemur fram í þessu. M, ö. o.: þeir vita ekkert hvaða skoðun þeir eiga að hafa, ekki nokkurn skapaðan hlut, fyrr en þeir eru búnir að frétta af því í símtali eða samtali ofan úr stjórnarráði hvað ráðh. vilja láta þá meina.

Svo kemur í ljós þegar klukkan er orðin 12, þá er búið að boða fundinn, að þeir hafa engin boð fengið. Í staðinn fyrir að segja okkur hvaða skoðun þeir hafi bjóða þeir okkur súpu og brauð. Við þáðum súpuna og brauðið, en þótti miklu miður að fá ekkert að vita hvað ríkisstj. hefði sagt nm. að þeir ættu að meina. (Gripið fram í: Gleymdu ekki eggjunum.) Nei, það vil ég ekki, það fylgdu egg með líka. En við fórum heim án þess að fá nokkurn hlut um það að vita, hver væri skoðun ríkisstj. eða hver væri skoðun meiri hl. fjh: og viðskn. Svo þegar við komum hingað kl. 2 fréttum við að það hafi verið boðaðir fundir í stjórnarflokkunum báðum og þeir standa í 2 tíma, svo eitthvað hefur verið um að tala. Það sem fréttist svo eftir á, eftir þessa fundi, — allt fréttist í þessum þingsölum, — það sem við fréttum að hefði gerst á þessum fundum var að þær hugmyndir hefðu komið upp í ríkisstj. um morguninn og í stjórnarflokkunum síðdegis í dag að taka hina umdeildu og illræmdu 3. gr. út úr frv., m. ö. o. að hætta við þá aðför að launþegasamtökunum að breyta vísitölugrundvellinum með lögum. Sem betur fer er einhver svo réttlátur innan stjórnarflokkanna að finna að þetta var óhæfa, sú hugmynd var óhæfa að setja 3. gr. inn í frv. Einhverjir munu það líka hafa verið sem sögðu: Ef á ekki að taka greinina alveg út, þá er þó skárra að bæta inn í hana ákvæði um að ekki aðeins óbeinu skattarnir skuli hverfa úr vísitölunni, heldur niðurgreiðslurnar líka, og auðvitað er það rétt. Það er þó skömminni skárra að taka skýrt fram, að ekki sé hægt að leika þann hókus-pókus að hækka söluskatt um eitt stig án þess að það verki til hækkunar á vísitölu og kaupgjaldi, en hækka svo niðurgreiðslur með tekju- og söluskattshækkuninni sem því svarar og láta þær lækka vísitöluna og kaupgjaldið. Það hefði verið skárra að segja skýrum stöfum í frv. sjálfu að þetta ætlaði ríkisstj. sér ekki að gera.

Niðurstaðan eftir tveggja klst. rifrildi í báðum þingflokkum var sú að gera engar breytingar á frv. En þetta millistig í öllu saman, sem minnir á millistigið eftir miðja s. l. viku, varð til þess, að í stað þess að umr. byrjaði kl. 2 í dag, eins og búið var að gera ráð fyrir, þá byrjaði hún ekki fyrr en í kvöld. Og þetta er áreiðanlega einsdæmi, að í stóru máli hringli ríkisstj. þannig með sína menn og tefli þeim fram og til baka fyrir 1. umr. og tefji málið í heilan dag og fyrir 2. umr. tefji þeir málið aftur í heilan dag. Guð veit hvað skeður á morgun, áður en 3. umr. á að fara fram. Það getur verið að umr. verði frestað ef ríkisstj. skyldi detta eitthvað í hug eða hún færi enn á ný að hringla í málinu. Við skulum vona að svo fari ekki. En óneitanlega er þetta í hæsta máta ekki bara spaugilegt, heldur í raun og veru líka hörmulegt, að ríkisstj. skuli vera svona hikandi, svona stefnulaus, svona viljalaus, vita svo litið um hvað hún sjálf raunverulega vill, að ég nú ekki tali um, að fylgismenn hennar í n. og þd. yfirleitt skuli vera þess háttar leikbrúður að láta fara svona með sig.

Niðurstaðan er sem sagt sú, að frv. er óbreytt frá því það var lagt fram við 1. umr. Í því eru verulegar breytingar frá því sem gert var ráð fyrir af hálfu fulltrúa ríkisstj. í verðbólgunefndinni, en í frv. er enn þá hin illræmda og rangláta 3. gr., sem breytir vísitölugrundvellinum án þess að nokkurt samráð hafi verið haft við launþegasamtökin. Ég endurtek, að slíkt hefur aldrei gerst áður.

Það er rétt að það komi fram hér, að fulltrúar frá stjórn Alþýðusambands Íslands og BSRB áttu viðræður við okkur hv. þm. Lúðvík Jósepsson, fulltrúa minnihlutaflokkanna í fjh: og viðskn., og báðu okkur að koma á framfæri þeim upplýsingum, að BSRB boðaði til landsfundar, fundur með formönnum allra BSRB-félaga um allt land, á morgun og miðvikudag, sem kannske dragist fram til fimmtudags, og þessi samtök, þessi voldugu samtök launþega, sem í eru um 60 þús. manns, óskuðu eindregið eftir að Alþ. afgreiddi þetta mál ekki endanlega áður en þessir landsfundir hefðu getað látið í ljós sína skoðun á málinu. Þeirri ósk komum við að sjálfsögðu á framfæri við hæstv. forsrh. strax kl. 2 í dag þegar við komum hingað til þingfundar.

Það er líka rétt að láta það koma fram, að meiri hl. stjórnarflokkanna í fjh.- og viðskn. neitaði því í dag að senda frv. til umsagnar stjórnar ASÍ og BSRB. M. ö. o.: fulltrúar stjórnarflokkanna í n. höfðu engan áhuga á því að vita hvaða skoðun þessi fjölmennustu launþegasamtök landsins hefðu á frv. í heild og hinum einstökum greinum. Það er að vísu rétt, að hvor tveggja samtökin hafa mótmælt frv. Engu að síður gat vel verið og ekki nema eðlilegt að þeim væri veittur venjulegur réttur til umsagnar um einstök ákvæði frv. Nei, þeim var neitað um þennan rétt, og till. okkar stjórnarandstöðufulltrúa í n. um þetta efni var felld á fundi síðdegis í dag, sem er í hæsta máta óvenjulegt.

Formaður n. og frsm., hv. þm. Ólafur G. Einarsson, ræddi í framsöguræðu sinni nokkuð till. okkar fimmmenninganna, þ. e. a, s. fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna og fulltrúa ASÍ og BSRB í verðbólgunefndinni, og hafði sitthvað út á þá tillögugerð að setja. Hv. frsm. minni hl. hefur þegar svarað þessari gagnrýni í öllum meginatriðum og rakið till. okkar fimmmenninganna, svo ég sé enga ástæðu til að lengja mál mitt með að endurtaka þær röksemdir, en vitna til þeirra. Hins vegar gerði hv. þm. Ólafur G. Einarsson sérbókun mína í verðbólgunefndinni varðandi skyndiúrræðin, sem prentuð eru sem fskj. 4 með skýrslu verðbólgunefndarinnar, að sérstöku umræðuefni. Þess vegna tel ég rétt að fara um það nokkrum orðum eða rökstyðja nokkru frekar þá skoðun mína, að ef ekki hefði getað náðst samkomulag um till. okkar fimmmenninganna, þá teldi ég leið 2, samdráttar- og niðurfærsluleiðina, í hugmyndum forstöðumanns Þjóðhagsstofnunar vera þá leið sem miklu betra og vænlegra væri að fara heldur en þá leið sem meiri hl. vildi fara. Þetta væri varatill. af minni hálfu, sem hefði þann kost, sem við allir fimmmenningarnir lögðum megináherslu á, að samningarnir gætu haldist, að þeim þyrfti ekki að rifta.

En áður en ég vík að þessari gagnrýni Ólafs G. Einarssonar á viðhorf mitt langar mig til að víkja nokkrum orðum að honum og stöðu hans í málinu öllu, því hún er satt að segja þannig að ég beinlínis vorkenni þeim staka sómamanni sem Ólafur G. Einarsson er, því að hann hefur lent í afar kostulegri aðstöðu. Má ég minna á hvað hann sagði og vildi á miðvikudaginn var. Um hádegisbilið á miðvikudaginn var vildi hann lækka vörugjaldið um helming, úr 18% í 9%. Hvað vill hann nú á mánudegi? Nú vill hann lækka úr 18% í 16%. Svona rækilega hefur hann skipt um skoðun í þessu máli. Hvað vildi hann lækka niðurgreiðslurnar á miðvikudaginn var? Þá taldi hann sjálfsagt og rétt og nauðsynlegt og hægt að lækka niðurgreiðslurnar um 1900 millj. kr. á þessu ári. Hvað vill hann nú, þegar kominn er mánudagur? Þá vill hann lækka þær um 1300 millj. Á miðvikudaginn var vildi Ólafur G. Einarsson, hv. þm., draga úr framkvæmdaframlögum á fjárlögum og í lánsfjáráætluninni um 2000 millj. kr. Nú má ekki lækka þessi framlög um neitt. Það er ekki skylt að 1ækka þau um krónu samkv. frv. Hins vegar er gert ráð fyrir að heimilt sé að lækka þau um helminginn af því, sem hann sagði nauðsynlegt að lækka þau á miðvikudaginn var, þ. e. a. s. um 1000 millj. kr. Og nú verður ekki komist hjá því að spyrja: Hefur hv. þm. Ólafur G. Einarsson virkilega skipt svona rækilega um skoðun frá því á miðvikudaginn og þangað til í dag, á fáeinum dögum, eða hefur honum verið skipað að skipta um skoðun? Hver er raunverulega skoðun hv. þm. Ólafs G. Einarssonar í þessum efnum? Er það miðvikudagsskoðunin, sem stendur hér í verðbólgunál., nefndarálitinu, eða er það mánudagsskoðunin, sem stendur í nál. sem var útbýtt í dag? Hvort er skoðun hv. þm.? Ekki getur hann haft tvær gerólíkar skoðanir á málinu, það samrýmist ekki (Gripið fram i.) Það skyldi nú ekki vera að það væri hvorugt, og það svo sem kemur heim og saman við það, að hér er um stakan sómamann að ræða sem er vís til þess að hafa miklu, miklu skynsamlegri skoðun en miðvikudagsskoðunin hans og mánudagsskoðunin hans eru. Ef hæstv. fjmrh. væri staddur hérna þá mundi ég nú spyrja: Er þetta hægt, Matthías? Mér finnst þetta ekki vera hægt, og þess vegna fannst mér satt að segja að hefði verið hyggilegra fyrir hv. þm. Ólaf G. Einarsson að fara svolítið varlega, fara svolítið hægar í sakirnar þegar hann fór að tala um afstöðu mína og stuðning minn við samdráttar- og niðurfærsluleiðina, sem varatillögu.

Hv. þm. sagði ekki söguna alla um það, hvað ég segi raunverulega í þessum fyrirvara. Þess vegna leyfi ég mér að lesa það — það er örstutt — sem ég segi í raun og veru, með leyfi hæstv. forseta. Ég segi í seinni hluta fskj.:

„Varðandi hugmyndir þær, sem settar eru fram í 3. kafla um efnahagsráðstafanir nú, er ég aðili að framangreindum tillögum“ — þ. e. a. s. till. fimmmenninganna — „og tel ríkisstj. eiga þegar í stað að taka upp viðræður við aðila vinnumarkaðarins og bændasamtakanna á þeim grundvelli.

Ef ekki næst samstaða um þessar ráðstafanir, en í ljós kæmi, að ríkisstj. vildi virða gerða kjarasamninga, m. a. með því að draga úr rekstrarútgjöldum ríkisins og opinberum framkvæmdum, eins og gert er ráð fyrir í dæmi 2 í 3. kafla“ — þ. e. a. s. samdráttar- og niðurfærsluleið „og ef bændasamtökin gætu ekki fallist á lækkun útflutningsbóta“ — sem við höfum lagt til fimmmenningarnir — „mæli ég með því, að framkvæmdar verði þær aðgerðir, sem eru í dæmi 2, með þeirri breytingu“ — þessu sleppti hv. þm. — „með þeirri breytingu, að í stað tekjuskattshækkunar og útsvarshækkunar komi heimild til sveitarfélaga til þess að hækka aðstöðugjald á atvinnurekstur, enda gætu þau dregið úr framkvæmdum sínum, ef þau telja hækkun aðstöðugjaldanna varhugaverða:

Hv. þm. vitnaði til þess, að formaður n. hefði vakið athygli á því, að talsvert væri þrengt að hag atvinnuveganna ef þessi leið væri farin. Þetta er vissulega rétt. Hann tók það fram og mér hefur auðvitað allar götur verið ljóst, að ef þessi leið yrði farin yrði hagur atvinnuveganna talsvert þrengri en hann hefði orðið með því að fara leiðina sem stjórnmálaflokkafulltrúarnir og embættismennirnir í verðbólgunefnd mæltu með, hvað þá ef sú leið yrði farin sem ríkisstj. leggur nú til að farin verði. En ég vil í því sambandi leggja sérstaka áherslu á það, sem höfundur skýrslunnar, forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar, segir um þessa leið, og vekja athygli á því, að hann taldi hana samrýmast óbreyttum kjarasamningum, en jafnframt sagði hann, eins og raunar hv. þm. las, ég vil lesa það aftur til þess að vekja á því sérstaka athygli, með leyfi hæstv. forseta:

„Árangurinn við að lækka verðbólgu á árinu 1978 yrði næsta lítill, en hins vegar kynni þessi leið að koma á betra jafnvægi á milli heildarframboðs og eftirspurnar í hagkerfinu þegar fram í sækti og leggja þar með grunn að hjöðnun verðbólgu:

M. ö. o.: það er hægt samkv. dómi þessa færasta efnahagssérfræðings landsins og reyndasta, að vernda samningana og jafnframt koma á betra jafnvægi milli heildarframboðs og eftirspurnar í hagkerfinu þegar fram í sækti og leggja þar með grunn að hjöðnun verðbólgu. Er það ekki einmitt þetta sem allir hugsandi og ábyrgir menn vilja? Menn vilja með ráðstöfunum leggja grunn að hjöðnun verðbólgu í framtíðinni. Það skiptir ekki mestu máli hvað skeður á árinu 1978, það skiptir mestu máli hvað skeður á næstu 3–4–5 árum. Það skiptir meira máli heldur en hitt, að bjarga sér nú með skyndiráðstöfunum yfir nokkra mánuði. Ég geri mér ljóst að hagur atvinnuveganna hefði orðið þrengri, en hagur launþeganna yrði betri. Það, sem um var að ræða, var að velja á milli þess að þrengja að launþegunum — það var leiðin sem Ólafur G. Einarsson vildi á miðvikudag og vill enn í dag þrengja hag launþeganna eða þrengja nokkuð hag atvinnuveganna í landinu, sem ég tel að megi gera eftir að þeir hafa fengið 15% gengislækkun frá áramótum, þ. e. a. s. 13% gengislækkun fyrir nokkrum dögum, sem samsvarar um það bil 15% frá áramótum. En hitt er rétt, að gengislækkunin í þessari leið, sem ég er hér að mæla með sem varatill., var aðeins 10%. Það hefði verið hægt, eins og forstöðumaðurinn sagði, að tryggja hag atvinnuveganna betur með því að hafa gengislækkunina 10–12%. Þá hefði hagur þeirra orðið mjög góður, en þá hefði aftur á móti hagur launþega orðið heldur þrengri, og þess vegna var það sem hann taldi 10% gengislækkun mögulega. Ég er ekki að segja að forstöðumaðurinn hafi talið hana æskilega, hann mælti að sjálfsögðu með annarri leið, en hann taldi hana mögulega og það var í mínum augum mergurinn málsins.

Ég játa fúslega að samkv. þessum ráðstöfunum hefði hagur atvinnuveganna orðið þrengri en samkv. till. frá því á miðvikudaginn og frv. í dag. En spurningin er: Hefði hann orðið of þröngur? Í þessari merku skýrslu eru upplýsingar sem svara þessu. En áður en ég kem að upplýsingum um hag atvinnuveganna vil ég víkja að því, hver breyting hefði orðið á kauptöxtum. Samkv. till. Ólafs G. Einarssonar á miðvikudaginn og stjórnarflokkanna á miðvikudaginn var hefði kaupmáttur frá fjórða ársfjórðungi 1977 til fjórða ársfjórðungs 1978 rýrnað um 2%. Samkv. samdráttar- og niðurfærsluleiðinni hefði hann vaxið um 6%. Þetta lýtur að launþegunum. Þegar talað er um ráðstöfunartekjur á mann, þá hefði meðaltal 1978 orðið samkv. leiðinni, sem ég mælti með sem varaleið, orðið 51/2% meira en í fyrra, en samkv. leiðinni, sem formaður n., Ólafur G. Einarsson, mælti með, 11/2% meira. Vísitala kauptaxtanna hefði samkv. till. hans orðið 91 miðað við 100 1974, en samkv. till., sem ég mælti með sem varatill., hefði vísitalan orðið 97 á þessu ári miðað við 100 1974. Vísitala ráðstöfunartekna á mann hefði orðið 100, þ. e. óbreytt, samkv. till. Ólafs G. Einarssonar o. fl., en hefði orðið 104, aukist um 4%, samkv. till. sem ég mælti með. Þetta lýtur að launþegunum. Það var þessi bati kjara launþeganna, miðað við till. meiri hl. í nefndinni eða stjórnarflokkanna og embættismannanna, sem ég taldi skera úr um það, að ég vildi helst mæla með þessari leið sem varaleið í stað þeirrar stefnu sem þeir tóku. Þá er spurningin: Hefði hag atvinnuveganna verið ofboðið með þessum hætti? Upplýsingar um það eru á bls. 119 í skýrslunni.

Hvað þýðir það fyrir hag alls sjávarútvegsins? Ef tekið er allt árið 1978, þá er reiknað með brúttóhagnaði af fob: verði í samdráttar- og niðurfærsluleiðinni sem nemi 7.7%, en í till. Ólafs G. Einarssonar og hans félaga í verðbólgunefndinni var reiknað með brúttóhagnaði sem nam 6.1%, minni hagnaði en í leiðinni sem ég mælti með sem varaleið, ef miðað er við sjávarútveginn allt árið. (Gripið fram í.) Það er rétt, nú ætla ég að koma að því. Það gildir hins vegar ekki um vetrarvertíðina eina. Á henni hefði orðið helmingi meiri hagnaður, eða 6.5% af fob-verði miðað við 3% samkv. þeirri leið sem ég mælti með. Um þorskvinnsluna gildir það, að hagnaður samkv. till. stjórnarflokkanna í verðbólgunefndinni hefði orðið 3.5% af fob-verði, en 2% samkv. leiðinni sem ég mælti með. Í þorskveiðum í heild hefði hagnaðurinn orðið 4.7% samkv. leið stjórnarflokkanna, en 8.8% samkv. þeirri leið sem ég mælti með. Í öllum tilfellum er um hagnað að ræða, í sumum tilvikum meiri, í sumum tilvikum minni en samkv. þeim ráðstöfunum sem stjórnarfulltrúarnir í verðbólgunefnd mæltu með. En ég legg áherslu á það, að alls staðar er um hagnað að ræða, það er hvergi um hallarekstur að ræða. Það skiptir í mínum augum algjörlega sköpum.

Ef við tökum iðnaðinn, aðalatvinnuveg þjóðarinnar, þá er útkoman ákaflega svipuð. Þar er líka um hagnað að ræða. Brúttóhagnaður sem hundraðshluti af tekjum var samkv. leið stjórnarflokkanna í verðbólgunefndinni 5.6%, samkv. leiðinni, sem ég mælti með, 5.7%, svo að segja sama niðurstaða.

En áhrifin voru allt önnur á afkomu ríkissjóðs, og þar er kannske skýringin á því, af hverju þeir völdu þá leið sem gert var. Till. þeirra í verðbólgunefndinni áttu að skila ríkissjóði 3.7 milljarða tekjuafgangi, en samkv. leiðinni sem ég mælti með sem varatill. aðeins 0.5 milljarða tekjuafgangi. Það er hins vegar rétt, að samkv. leiðinni, sem ég mælti með, var gert ráð fyrir að um algjöran jöfnuð yrði að ræða í viðskiptum þjóðarinnar, ekki halla, en ekki heldur hagnað. En þeir stefndu að 5 milljarða afgangi í viðskiptum þjóðarinnar við útlönd. Það hefur auðvitað sín áhrif og stendur í nánum tengslum við aukinn kaupmátt launþeganna og afkomu útflutningsatvinnuveganna.

M. ö. o.: það stendur og mun standa algjörlega óhrakið, að það var til og er til leið sem að dómi okkar færustu sérfræðinga hefði verið hægt að fara samtímis því að varðveita kjarasamningana og það hefði verið hægt að láta launþega njóta nokkurrar tekjubótar í stað tekjuskerðingar, sem ríkisstj. nú leggur til. Og það, sem ég vil leggja sérstaka áherslu á, er að þetta hefði verið hægt án þess að stefna rekstri atvinnuveganna í hættu, án þess að framkalla tap hjá atvinnuvegunum og þar með auðvitað engin hætta á atvinnuleysi. Þetta voru atriðin sem ollu því, að ég hikaði ekki við að mæla með samdráttar- og niðurfærsluleiðinni sem varaleið, ef ekki tækist samkomulag um þær víðtæku ráðstafanir sem við fimmmenningarnir vorum fyrst og fremst sammála um að mæla með.

Að síðustu vil ég svo vekja athygli á því, að það er einkennandi fyrir málflutning stjórnarflokkanna og hæstv. ríkisstj, í þessum mikilvægu umr., að þeir segja ekkert um framtíðina, þeir segja ekkert um hver eigi að vera meginverkefnin á sviði efnahagsmála í framtíðinni. Þeir tala eingöngu um þessar ráðstafanir sem öllum er ljóst að eru bráðabirgðaráðstafanir, eru ekki hugsaðar nema til bráðabirgða, til þess að gilda út þetta ár, þó að vísu eigi að taka gildi í byrjun næsta árs vanhugsuð breyting, sem snertir framtíðina. Það eina, sem þeir hafa um framtíðina að segja, er að breyta með lögum vísitölugrundvellinum án samráðs við launþegasamtökin. Annað hefur ekki heyrst um framtíðarstefnuna í efnahagsmálum, hver hún skuli vera. Ég hef fyrir nokkrum dögum lýst hér því óskaplega ófremdarástandi sem nú ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar: hallareksturinn hjá útflutningsatvinnuvegunum, viðskiptahallanum við útlönd, hallanum hjá ríkissjóði, skuldasöfnuninni við útlönd. Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frekar, því ég er nýbúinn að ræða það úr þessum ræðustól. En allt þetta eru afleiðingar af rangri stefnu í langan tíma, af margra ára rangri stefnu í efnahagsmálum, og það verður ekki leiðrétt nú í febrúarmánuði 1978 með bráðabirgðaráðstöfunum sem eiga að gilda út árið 1978.

Ég endurtek um ófremdarástandið núna, sem vissulega er mikið og gerir nauðsynlegar einhverjar bráðabirgðaráðstafanir, að þar er um margra ára syndir að ræða. Orsökin er ekki sú, að árið í fyrra hafi verið eitthvert vandræðaár. Því fer víðs fjarri. Ég ætla að minna á nokkrar staðreyndir í því sambandi.

Í fyrra voru þjóðartekjurnar 43% hærri en þær voru 1970, en þjóðarútgjöldin voru hvorki meira né minna en 49% hærri en þau voru 1970. Þetta er e. t. v. eitt skýrasta dæmið um óráðssíuna sem einkennt hefur stjórn efnahagsmála á undanförnum árum, að það hefur sífellt verið ráðstafað meiru en aflað var. Ríkisstj. hefur haft forustu um að notað væri meira en framleiðslunni nam. Það er einkennandi, að einkaneyslan var í fyrra 42% meiri en hún var 1970, en samneyslan aftur á móti ekki nema 37% meiri en í fyrra. M, ö. o.: samneyslan hefur síðan 1970 vaxið minna en einkaneyslan. Þetta segir sína sögu um raunverulegan kjarna í stefnu hæstv. ríkisstj.

En hvernig stendur á því, að þjóðarútgjöldin hafa vaxið svona miklu meira en sjálf þjóðarframleiðslan? Í hverju er umframeyðslan fólgin? Í hverju liggur óráðsían? Hún liggur í því, að fjarfestingin — hvað skyldi hún hafa verið miklu hærri í fyrra heldur en 1970? Hún var 72% hærri. Hún hefur vaxið um 72% á 7 árum. Geta menn svo búist við því, að hér sé allt í lagi, þegar svona er haldið á málum? Þetta er auðvitað ein meginástæðan fyrir því, að hér hefur bókstaflega allt farið úrskeiðis. Það stenst ekkert þjóðfélag svona gífurlega aukningu fjárfestingar á fáeinum árum. Og það má ekki á milli sjá hvar aukningin hefur verið meiri: í atvinnuvegunum eða opinberum framkvæmdum. Hún jókst á sviði atvinnuveganna um 73%, og opinberar framkvæmdir jukust um 72%. Ríkið hefur ekki verið eftirbátur einkafyrirtækjanna að því er snertir aukningu framkvæmda.

Hækkun vísitölunnar var í fyrra, miðað við árið þar á undan, 31%. Auðvitað er þetta ógnvekjandi tala. Í því sambandi verður þó að líta á það, að það var sérstakt góðæri í fyrra. Útflutningstekjurnar jukust í erlendri mynt um 30% í fyrra, og það hefði átt að geta stuðlað að því, að ekki hefði allt keyrst um koll, jafnvel þó að vísitalan hækkaði um 31%. Viðskiptakjörin bötnuðu í fyrra um 10%. M. ö, o.: hækkun innflutningsverðlags var mun minni en hækkun útflutningsverðlagsins. Árið 1977 var því einstakt góðæri. Í lok ársins 1977 er ástandið samt sem áður þannig, að sjávarútvegurinn er rekinn með stórkostlegum halla, við söfnum skuldum erlendis, það er viðskiptahalli, ríkið er rekið með halla, Seðlabankinn prentar seðla og útdeilir fyrir ekki neitt. Það er ekki harðæri á árinu 1977 að kenna.

Ófremdarástandið nú er, eins og ég sagði áðan, afleiðing margra ára syndaferils. Það, sem hefur verið rangt í efnahagsstefnunni mörg undanfarin ár, er í fyrsta lagi of mikil fjárfesting — og þó kannske ekki fyrst og fremst of mikil fjárfesting, heldur röng, óarðbær fjárfesting. Það er höfuðsyndin sem drýgð hefur verið, að festir hafa verið milljarðar kr. í framkvæmdum sem allir áttu að geta séð að geta engan ávöxt borið. Þetta er höfuðsynd þessa áratugs á sviði efnahagsmála.

Í öðru lagi hefur verið stórkostlegur halli á ríkisbúskapnum og það hefur átt sinn þátt í hinni gífurlegu verðbólgu ásamt hinni of miklu og óarðbæru fjárfestingu.

Það hefur ekki tekist að mynda neina samræmda stefnu í launamálum, en það verður ekki gert án náins samráðs ríkisvalds annars vegar og aðila vinnumarkaðarins hins vegar.

Fjórða atriðið, sem hefur verið ranggert á undanförnum árum, er misnotkun Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Hann hefur, í stað þess að sporna gegn verðbólgu, verið notaður þannig, honum hefur verið stjórnað þannig, að hann hefur kynt undir verðbólgu. Samtímis því sem verðlag erlendis hefur verið að hækka og samkv. reglum Verðjöfnunarsjóðsins hefðu því átt að greiðast í hann 3/4 hlutar af verðhækkuninni hafa greiðslur úr honum verið auknar með opinberu tilstilli, vegna þess að viðmiðunarverðið, sem ákveðið er af stjórn sjóðsins með samþykki sjútvrh., sýnist vera hækkað í kjölfar kostnaðarhækkana innanlands og hækkað meira í sumum tilfellum heldur en erlendu verðhækkuninni nam. M. ö. o.: Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins, sem er eitt merkasta hagstjórnartæki, sem komið hefur verið upp á undanförnum áratug og átti að verka til jöfnunar á verðsveiflur og þar með draga úr verðbólgu eða hvata til verðbólgu innanlands, hefur verið misnotaður þannig, honum hefur verið ranglega stjórnað þannig, að hann hefur ýtt undir verðbólgu með því að greiða úr honum stórfé samtímis því sem verðlag var að hækka erlendis.

Í fimmta og síðasta lagi vil ég nefna alranga stefnu í landbúnaðarmálum, sem að vísu er ekki allra síðustu ára fyrirbæri, heldur orðin áratugagömul, en hefur gengið sér algerlega til húðar, eins og merkur bóndi sagði í útvarpserindi um daginn og veginn í kvöld. Það er ánægjulegt að heyra slíkt úr munni greinds bónda, að landbúnaðarstefnan hafi gengið sér gersamlega til húðar, eins og sést t. d. á því tvennu, að skattgreiðendur í landinu þurfa að borga erlendum neytendum 3000 millj. kr. fyrir að borða íslenskar landbúnaðarvörur og bændur eru þrátt fyrir allt þetta tekjulægsta stéttin í landinu. Þrátt fyrir stórkostlegar útflutningsbætur, stórkostlegar niðurgreiðslur, mjög hækkuð lán til gífurlegrar fjárfestingar, þá eru bændur tekjulægsta stéttin á landinu. Er hægt að fella þyngri dóm um landbúnaðarstefnuna en felst í þessum staðreyndum?

Þrátt fyrir það að þessi ranga stefna í fjárfestingarmálum ætti að vera hverjum hugsandi Íslendingi ljós er hér efnt til umr. af hálfu ríkisstj. um mikilvægar efnahagsráðstafanir og ekki á það minnst, í hverju hin ranga stefna undanfarandi ára hafi verið fólgin, sú ranga stefna sem leitt hefur til ægilegs ófremdarástands í dag. Það er ekki sagt orð um það, hvernig þessari stefnu eigi að beita í framtíðinni, hvernig eigi að leggja grundvöll að efnahagsþróun sem geti tryggt fulla atvinnu, án þess þó að efnt sé til óviðráðanlegrar verðbólgu, og tryggt framleiðni og varanlegar og tryggar kjarabætur sem ekki séu fólgnar í auknum fjölda krónupeninga, heldur raunverulega auknum kaupmætti teknanna. Nei, talsmönnum hæstv. ríkisstj. þykir ekki taka því að ræða um þetta. Það má segja að í því felist að vissu leyti nokkur kaldhæðni, að það skuli vera þm. stjórnarandstöðuflokks sem vekur athygli á því við þessar umr., að það er nauðsynlegt að leggja grundvöll að gerbreyttri grundvallarstefnu í efnahagsmálum. Það er nauðsynlegt að leggja grundvöll að gerbreyttri stefnu í efnahagsmálum ef okkur á að takast að komast út úr verðbólguhringiðunni eða okkur á að takast að tryggja varanlega trausta og stöðuga atvinnu og tryggja að hægt sé að reka fyrirtæki á Íslandi með sæmilegri og tryggri afkomu. Það er nánast neyðarlegt, að það skuli þurfa að falla í hlut stjórnarandstöðuþm. að benda á til hvaða grundvallarframtíðarráðstafana þurfi að gripa. En í því sambandi langar mig til að nefna fimm atriði, sem ég tel þurfa að vera grundvallaratriði í mótun nýrrar efnahagsstefnu.

Í fyrsta lagi þarf að leggja áherslu á að móta tekjustefnu í samráði við samtök vinnumarkaðsins. Með öðru móti verður ekki komið í veg fyrir áframhaldandi verðbólgu. Það þarf að nást heils hugar samvinna milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins um slíka almenna tekjustefnu sem tryggi stöðugan vaxandi kaupmátt launa í kjölfar vaxandi þjóðartekna, ef um slíkt ástand er að ræða, án þess að samhliða sé um verðbólgu að ræða.

Í öðru lagi tel ég nauðsynlegt að árlega séu samdar nákvæmar þjóðhags- og framkvæmdaáætlanir sem hafi hliðsjón af þjóðhagslegum markmiðum, sem taki tillit til þess, með hverjum hætti traustastur grundvöllur verði lagður að heilbrigðu atvinnulífi í landinu og hvernig réttlátt sé og skynsamlegt að skipta þeim tekjum, sem þjóðin hefur til ráðstöfunar, milli neyslu annars vegar og arðbærrar fjárfestingar hins vegar, m. ö. o. að koma í veg fyrir það, sem átt hefur sér stað undanfarið, að fjárfestingin gleypi of mikinn hluta af ráðstöfunartekjum þjóðarinnar og að allt of mikill hluti fjárfestingarinnar gangi til óarðbærra framkvæmda, því að það er sóun sem fyrr eða síðar bitnar á neyslunni. En því aðeins er hægt að tryggja slíkt skynsamlegt hlutfall á milli neyslu annars vegar og arðbærrar fjárfestingar hins vegar, að gerðar séu fyrir fram árlegar þjóðhags- og framkvæmdaáætlanir sem síðan séu framkvæmdar, en ekki farið á snið við, eins og átt hefur sér stað um þær lánsfjáráætlanir sem ríkisstj. hefur samið á undanförnum árum og ekki hafa verið framkvæmdar, þ. e. a. s. farið hefur verið langt fram úr þeim.

Í þriðja lagi vil ég nefna nauðsyn á samræmdri stefnu í fjármálum: peningamálum, gengismálum og lánamálum. Það þarf að vera um að ræða náið samstarf, mér liggur við að segja náið mánaðarlegt samstarf á milli fjmrn. í fyrsta lagi, Seðlabankans í öðru lagi, viðskiptabankanna í þriðja lagi og stjórnar fjárfestingarlánastofnana í fjórða lagi. En sú hefur verið reynslan, að þessir fjórir aðilar hafa oft og einatt haldið sinn í hverja áttina. Fjmrn. hefur ekki vitað hvað bankarnir voru að gera, bankarnir ekki vitað hvað fjmrn, var að gera, Seðlabankinn hefur ekki vitað nógu vel, hvað stjórnir fjárfestingarlánasjóðanna voru að gera, og þær hafa haldið sína braut án þess að spyrja kóng eða klerk, fjmrn., Seðlabanka og auðvitað ekki víðskiptaþanka. Á þessu þarf að verða endir. Allir þessir fjórir aðilar, sem stjórna peningamálakerfi þjóðarinnar, þurfa að vinna saman og samræma stefnu sína.

Í fjórða lagi vil ég nefna nauðsyn þess að endurskoða frá grunni allt félagsmálakerfi þjóðarinnar og gera vissar grundvallarbreytingar á tryggingakerfinu og heilsugæslunni, þ. e. a. s. að gera tryggingakerfið og heilsugæsluna að einu samfelldu heildarfélagsmálakerfi sem lúti einni stjórn og þar sem tryggingar og heilsugæsla séu í raun og veru skoðaðar sem tvær hliðar á sama hlutnum, þ. e. a. s. á stuðningi við þá sem ekki geta gengið óstuddir í þjóðfélaginu. Þann stuðning þarf að samræma og samhæfa. Þá fyrst kemur hann að því gagni sem hann getur komið, auk þess sem framkvæmd hans verður þá mun hagkvæmari og ódýrari en nú á sér stað.

Í fimmta og síðasta lagi vil ég nefna nauðsyn þess að komið verði á fót samvinnunefnd ríkisins og aðila vinnumarkaðarins til þess að tryggja að um samræmda stefnu verði að ræða á tekjusviðinu varðandi samningu þjóðhags- og framkvæmdaáætlana, varðandi samræmingu stefnunnar í fjármálum og peninga-, gengis- og lánamálum og varðandi samræmingu eða heildarstjórn á tryggingakerfinu og heilsugæslukerfinu og sjúkraþjónustunni. Þessi samvinnunefnd ríkisins og aðila vinnumarkaðarins gæti verið lykillinn að því, að það tækist ekki aðeins vinnufriður, heldur starfsfriður almennt í þjóðfélaginu, en á því ríður okkur kannske meira en mörgu öðru. Þetta tel ég eiga að vera og þurfa að vera kjarninn í mótun nýrrar stefnu í efnahagsmálum og tel nauðsynlegt að þetta komi fram í sambandi við umr, um þetta mál. Framtíðin má ekki dæma þann dóm um Alþingi Íslendinga, að ræddar skuli hafa verið ítarlegar ráðstafanir í efnahagsmálum í febr. 1978, eins og ástandið er í efnahagsmálum þjóðarinnar í dag, án þess að nokkur þm. nefni það, hvað hefur farið aflaga um langt skeið og hvað þurfi að gera til þess að leggja traustan grundvöll að framtíðinni. Þess vegna taldi ég nauðsynlegt að benda á þessi meginatriði í nauðsynlegri framtíðarstefnu í efnahagsmálum Íslendinga.