13.02.1978
Neðri deild: 55. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2305 í B-deild Alþingistíðinda. (1766)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Áður en ég hef mál mitt yfir 57 tómum stólum þm. hér í þingsalnum kemst ég ekki hjá því að víta einu sinni enn þau vinnubrögð sem höfð eru í frammi við meðferð þessa máls. Ríkisstj. hefur ætlað sjálfri sér og stjórnarflokkunum eðlilegan vinnutíma á daginn til að þrátta um hvað hún eigi að gera eða gera ekki í þessu máli, en svo fáum við nóttina til hinnar almennu umr. hér í d. Ég gæti sagt: svo fær stjórnarandstaðan nóttina til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Það getur varla mikilvægari mál en það sem við fjöllum nú um, og kemur varla frv. fyrir þetta þing eða önnur sem fleiri landsmenn snertir. Það ber að þakka sem gert er, og ég vil því láta í ljós ánægju mína yfir því, að flm. og verjandi málsins, hæstv. forsrh. er hér enn, en ekki er hátt risið á félögum hans, sérstaklega samstarfsflokknum, því að á sama tíma og deilt er hér alla nóttina og hv. frsm. n. verður að sitja eins og skotspónn fyrir gagnrýni þm. sofa ráðh. Framsfl., væntanlega værum svefni og við skulum vona að þá dreymi vel. Það er að vísu ekkert nýtt í slíku máli sem þessu að stjórnarþm. segi lítið sem ekki neitt. Utan ráðh. og frsm. hygg ég að aðeins einn stjórnarþm, hafi látið í ljós skoðun á málinu. Þetta þekkjum við vel sem höfum starfað í þessu húsi lengi, og það eru því miður fyrirskipanir ríkisstj. til sinna stuðningsmanna að halda sér saman og tefja ekki málin, jafnvel ekki þegar öll nóttin er til umráða.

Annað atriði, sem mér finnst óhjákvæmilegt að láta í ljós viðurkenningu í sambandi við, er að verkalýðsdeild Sjálfstfl, er 100% mætt. Hitt þykir mér lakara, að hún hefur enn þá ekki látið heyra í sér eða sagt aukatekið orð. Stingur það nokkuð í stúf við þær ályktanir og skoðanir, sem rignt hefur yfir okkur frá verkalýðsfélögum og öðrum launþegafélögum í öllum stéttum víðs vegar um landið. E. t. v. er þetta dæmi um hvaða tilgangi það þjónar, sem mikið var talað um í sambandi við prófkjör Sjálfstfl. í Reykjavík, að kjósa verkalýðsforingja til þingsetu fyrir Sjálfstfl. Það er ekki hægt að taka þögn þeirra sem annað en samþykki við það sem verið er að gera.

Samkv. lögum og venjum hér á Íslandi eiga ýmsir aðilar í efnahagslífinu að semja sín á milli um veigamikla þætti tekjuskiptingar með þjóðinni. Þetta á ekki síst við um sjálft kaupgjaldið, en það á líka við um fiskverðið og um landbúnaðarverðið. Til viðbótar við aðila sjálfa kemur ríkisvaldið við þessa sögu og er eins konar oddaaðili eða í vinnudeilum sáttasemjari, og á síðari árum hefur það viðgengist í vaxandi mæli og verið talið nauðsynlegt að ríkisstj. væri allt að því þátttakandi í a. m. k. kaupgjaldssamningum, ef ekki líka samningum um fiskverð og landbúnaðarverð. Við skulum gera okkur grein fyrir þessari heildarmynd. Þetta er hluti af stjórnkerfi okkar og þó að svo fari að það hrikti í húsum öðru hverju, þegar harðar ákvarðanir eru teknar, ekki síst þegar pólitískt vald á Alþ. er notað til þess að brjóta niður það samkomulag sem aðilar ná, þarf engan að undra og það er ekki þar fyrir ástæða til að vera með stóryrði um að Alþ. sé óþarft og það séu Alþýðusambandið og BSRB sem ætti sér að stjórna landinu. Þetta er hrein fjarstæða, algerlega út í hött. Er rétt að menn geri sér grein fyrir að stjórnkerfið gerir ráð fyrir að ákvarðanir eins og kaupgjald, fiskverð og landbúnaðarverð séu teknar af viðkomandi aðilum, og ríkisvaldið á að virða það samkomulag sem næst, enda þótt því sé ætlað að koma til, ef samkomulag næst ekki. Á þessu er mikill munur. Við verðum því að taka því af skynsemi og sanngirni þegar samningsaðilar um kaupgjald mótmæla harðlega, ekki síst þegar aðeins eru þrír mánuðir síðan sjálft ríkið undirskrifaði samninga við alla starfsmenn sína, en beitir nú meiri hl. sínum á Alþ. til að ónýta þá samninga og taka til baka hluta af því sem launþegum var þá veitt.

Allir menn eru í orði sammála um þörfina á samstarfi milli ríkisvaldsins annars vegar og þeirra aðila, sem standa að samkomulagi, launþega og atvinnurekenda, á vinnumarkaðnum. Þetta eru ekki ný sannindi. Fyrir einum áratug var reynt að festa þetta í ákveðinni stofnun sem hlaut nafnið Hagráð. Sú tilraun mistókst, vafalaust af því að það var ekki rétt að henni staðið. Hagráð var allt of stórt og þungt í vöfum. Nú liggur fyrir álit verðbólgunefndar sem búin er að starfa að verkefni sínu í rúmlega ár, og eitt meginatriðið, sem hún leggur til, er að sett verði upp samstarfsnefnd ríkisvaldsins, launþegasamtaka og atvinnurekendasamtaka. Um þetta eru allir nm. sammála. Þetta eru síðustu orðin í skýrslunni. Hæstv. forsrh. tók þau upp í ræðu sinni og tók undir þessa till. verðbólgunefndar. En hvernig hefur ríkisstj. komið fram í þessu máli? Eru gerðir hennar í nokkru samræmi við þennan almenna vilja um samráð sem fram hefur komið á svo mörgum sviðum? Því miður hefur ríkisstj. sýnt í þessu máli þveröfuga framkomu við það sem þyrfti að vera til þess að koma á eða stuðla að því samstarfi sem allir eru sammála um að sé þjóðfélaginu lífsnauðsyn.

Skömmu áður en mál þetta komst á dagskrá upplýsti forsrh, að hann hefði átt örfá óformleg viðtöl við forustumenn launþegasamtakanna. Það var ekki fyrr en á elleftu stundu að formenn Alþýðusambandsins og BSRB voru boðaðir á fund með ráðh, í fundarsal ríkisstj. Þegar þessir forustumenn voru þangað kallaðir töldu menn sig hafa ekki aðeins munnlega vitneskju, heldur beinlínis undirskrifað í áliti verðbólgunefndar, að um fjóra kosti sé að ræða til lausnar á þeim skammtímavanda sem blasir við. Það var vitað að fulltrúar ríkisstj. í þessari n. vildu fara þá leiðina sem kölluð var 5 B. En á síðustu stundu sneri ríkisstj, við og hafnaði öllum leiðunum, en dró út úr erminni algerlega nýja leið.

Ríkisstj. vildi sem sagt ekki leið 2, ekki leið 3, ekki 4. leið, ekki 5. leið, en eigum við ekki að kalla það óleið sem hún valdi sér? Hún fleygði fram nýju stórmáli um að óbeinir skattar skuli út úr vísitölunni og mátti þó vita að það mál er þess eðlis að slík meðferð á því hlaut að vekja harðar deilur og vandræði. Þetta er veigamikið mál og hefði þurft að hafa verulegan og langan aðdraganda að því að fara inn á þetta svið, og það hefði aldrei átt að gerast nema með samkomulagi aðila. Ég vil leyfa mér að fullyrða að það sé engin ástæða til annars en ætta að eitthvert slíkt samkomulag hefði getað náðst, ef rétt hefði verið að farið og tími hefði verið til. En þessu máli var fleygt fram á þann hátt, að forustumenn ASÍ og BSRB gripu til þeirra einstæðu viðbragða að standa upp og ganga út af fundi ríkisstj. Meðferð ríkisstj. á þessu var eins og vísvitandi ögrun við launþega.

Mikið hefur verið um það talað í þessum umr., hvað hafi raunverulega gerst, svo furðulegir hafa þessir atburðir allir verið. Nú veit meiri hl. þm., stjórnarsinnar, að sjálfsögðu meira eða minna um hvað gerðist. En við hinir erum í þeirri aðstöðu, að fyrir utan smáfréttir, sem berast um króka og kima þessa húss, verðum við að beita tilgátum. Og tilgátur okkar hljóta að beinast í þá átt, að hér hafi átt sér stað og standi kannske enn þá yfir valdatafl á milli stjórnarflokkanna. Það er skoðun fjölmargra þm., þ. á m. nokkurra sem hafa þjónað undir formanni Framsfl. í ríkisstj. og ættu að þekkja nokkuð til fyrrv. húsbónda síns, að mál þetta beri öll einkenni þess að vera fyrst og fremst frá honum runnið. Og það er freistandi að spyrja, hvort það sé ekki rétt og hvort Framsfl. hafi ekki í þessum lokasviptingum, sem eru honum miklu líkari heldur en t. d. hæstv. forsrh., knúið vilja sinn fram. M. ö. o.: það er Framsfl., ráðh. sem sofa, — allir nema einn og veri hann velkominn í salinn, — sem mótuðu þessa stefnu. Sjálfstfl. beygði sig undir hana. Við þessar aðstæður þarf engan að undra þó að Framsfl. komi því um leið að, að hann ætli að stjórna annað kjörtímabil, en það er almenn túlkun manna á 3. gr. Hví skyldu þeir ekki gera það, þegar þeir komast upp með annað eins og þetta, og er þetta líklega ekki einsdæmi? Tilgátur eru um það, hvað formaður Framsfl, kunni að hafa ætlað sér annað en að sýna vald sitt og mátt. Var það ætlun hans að reyna að sprengja stjórnina á þessu og standa sjálfur uppi með hin nýju úrræði sem hann dró fram úr erminni, veifa þeim framan í þjóðina og segja: Sjáið þið, það er ég sem hef úrræðin og vil stjórna. Það eru hinir sem hlaupa burt. — Af hverju koma menn með tilgátu eins og þessa? Það er vegna þess að þetta er svo líkt atburðum sem hafa gerst áður. Þetta er svo líkt hlutverki sem formaður Framsfl. hefur leikið áður. Hann dreymir sem sagt um það, ef þessi tilgáta er rétt, að endurtaka leikinn frá vorinu 1974.

Ýmsar aðrar tilgátur kunna að koma fram, en ég skal ekki fara lengra út í það, þó að í raun og veru kunni að vera um kjarna málsins að ræða, vitneskjuna um það, hvað raunverulega gerðist í ríkisstj., hvað olli því, að framkoma hennar í þessu máli var með þeim endemum, sem fram hefur komið og hraut algerlega í bága við margyfirlýsta trú ráðamanna bæði í stjórnarflokkunum og stjórnarandstöðuflokkunum þess efnis, að samstarf milli ríkisstj. annars vegar og aðila vinnumarkaðarins hins vegar sé lífsnauðsyn. Framferði ríkisstj., framkoma hennar gagnvart launþegasamtökunum, umskiptin sem urðu á till., að fleygja fyrir borð að mestu leyti heils árs starfi fjölmennrar n. ágætra og sérfróðra manna, eru aðgerðir sem hljóta að vekja furðu á pólitískum vettvangi. Þetta hefur verið og er pólitískt glæfraspil. Þetta er olía á eld sundrungar og átaka í landinu á tímum þegar við hefðum þurft stéttarfrið. Þegar við hefðum einu sinni þurft að finna það, að raunverulegir ráðamenn þjóðarinnar, sjálfstæðismenn. fylgdu hinu gamla slagorði sínu og reyndu að vinna að því að stétt stæði með stétt. Þá fleygja þeir framan í launþegasamtökin þessum úrræðum á þennan furðulega hátt, að það getur ekki orðið til annars en að brjóta niður möguleika á stéttafriði. Þetta er ógæfa sem er þjóðinni til tjóns. Þetta er tvímælalaust mesta glappaskot í stjórn landsins a. m. k. síðasta kjörtímabil.

Í till. verðbólgunefndarinnar eru ekki aðeins hugmyndir um bráðabirgðalausn á þeim vanda sem við stöndum nú andspænis, heldur er meiri hluti skýrslunnar um það, hvað valdi hinum stöðugu verðbólguvandræðum Íslendinga svo og hvaða leiðir þurfi að fara til að komast út úr þessum vanda. Í framsöguræðu sinni vék hæstv. forsrh. undir lokin að nokkrum þessara leiða, sem ég hygg að menn í verðbólgunefnd hafi verið að mestu leyti sammála um í grundvallaratriðum, með örfáum undantekningum. Í þessu sambandi er ástæða til að beina nokkrum spurningum til hæstv. forsrh. í sambandi við það, þegar hann í hinum besta ásetningi telur upp meginúrræði sem nú þurfi að gripa til. Þar er efst á blaði hjá honum margnefndir jöfnunarsjóðir í sjávarútvegi sem hafi verið misnotaður og þurfi að gera öflugri. En þá vaknar spurningin: Af hverju hefur ríkisstj. ekki gert neitt slíkt undanfarin fjögur ár sem hún hefur setið við völd? Hvers vegna er hún að taka þetta upp eins og það sé einhver nýr sannleikur, rétt áður en kjörtímabili hennar lýkur? Þessir sjóðir voru settir á í tíð viðreisnarstjórnarinnar, að ég hygg þegar Emil Jónsson var sjútvrh., og tilgangur þeirra er öllum mönnum ljós sem eitthvað hugsa um þessi mál. En samt hefur ríkisstj. snúið þessu öllu við, misnotað sjóðina og talar nú um það sem einhvern nýjan sannleika, að það þurfi að bæta úr þessu.

Hæstv. forsrh. talar um styrkari fjárfestingarstjórn með samræmingu útlánakjara. Er þetta eitthvað nýtt? Af hverju hefur ríkisstj. ekki stuðlað að þessu og gert þetta undanfarin fjögur ár? Hvað hefur hún verið að gera?

Það er talað um traustari fjármálastjórn, og höfum við þó heyrt sönginn um það ár eftir ár, hvað fjármálastjórnin væri óskaplega traust, þó að það hafi stundum komið í ljós eftir áramótin að það varð þrátt fyrir allt töluverður halli á búskapnum og prentunarstarfsemin, sem Seðlabankinn er látinn stunda fyrir ríkisstj., hefur aukist. Að tala um þetta núna eins og eitthvert nýtt úrræði sem við höfum þurft að hafa á annan tug sérfræðinga í heilt ár til að finna, það er nánast broslegt. Hvað hefur ríkisstj. verið að gera undanfarin fjögur ár?

Það er talað um samræmdar tekjuákvarðanir og launasamninga. Jú, þetta er úrræðið, það á að setja upp n. til að hafa samráð, eins og ég gat um áður. En af hverju hefur það ekki verið gert í fjögur ár, og af hverju tekur ríkisstj. á móti formlegum till. verðbólgunefndar með því að sparka í andlitið á launþegasamtökunum?

Það er talað um bætta skipan verðlagseftirlits í ræðu hæstv. forsrh. Þessu var lofað í upphafi, alveg eins og lofað var stórbreytingum til batnaðar á skattakerfi. En ekkert af þessu hefur gerst. Það hefur ekkert gerst. Sagan mun segja um vinstri stjórnina, að það gerðist ýmislegt, að vísu umdeilanlegt. En hjá núv. stjórn er eins og ekkert af því, sem hún ætlar sér, gerist. Og nú rétt fyrir kosningar að fjögurra ára stjórn liðinni, er þetta sakleysislega flutt af hæstv. ráðh. og prentað í Morgunblaðinu sem nýr sannleikur, nýr boðskapur, en eru meginatriði sem mönnum hafa verið ljós í langan tíma.

Það er sorglegt að líta yfir kjörtímabilið sem nú er senn á enda. Núv. ríkisstj. kom til valda á tímum vægrar kreppu, en þó nokkuð erfiðrar miðað við okkar aðstæður. Allt kjörtímabilið hefur ástand í efnahagsmálum verið að batna. Samt sem áður byrjaði hún feril sinn á því að lofa að verðbólgan skyldi a einu ári fara niður í 15%. En eftir heilt kjörtímabil er viðurkennt að horfur séu á 40% verðbólgu á þessu ári og með núverandi aðgerðum kunni að vera hægt að koma henni niður í 36%.

Eftir fjögurra ára kjörtímabil ber þjóðin meiri erlenda skuldabyrði en nokkru sinni í sögunni, og allar horfur eru á því að kynslóð okkar muni velta yfir á börnin þungum skuldaböggum. Eftir fjögurra ára setu þessarar stjórnar er verðbólgubrask í landinu í hámarki, svo að yfirgengur allt sem við höfum áður séð, og er þó langt til jafnað. Eftir fjögurra ára stjórn þessarar ríkisstj, er ótti þjóðarinnar við efnahagslega framtíð sína og efnahagslegt sjálfstæði meiri en nokkru sinni. Þess vegna má færa líkur að því, að grundvöllur sé fyrir skynsamlegum aðgerðum sem byggðar væru á að reyna að sameina þjóðina, en ekki sundra henni. Það hefði átt að færa okkur verulega fram á veg í baráttu við vandamálin. En núv. ríkisstj. hefur forklúðrað þessu tækifæri og gert samkomulag stéttanna verra en það hefur verið árum saman. Fjárfestingin í landinu hefur aldrei verið fráleitari heldur en hún er í dag. Spillingin og verðbólgugróðinn hafa aldrei verið meiri. Ég held að því miður muni þetta verða talin ógæfustjórn sem ekki tókst að ráða við neitt af þeim verulegu vandamálum sem hún hafði við að glíma, að undanteknu landhelgismálinu, þó að engin afsökun sé fyrir því að glopra svo að segja öllu öðru niður.

Svo að ég láti ekki mitt eftir liggja í að skjóta á minn ágæta vin og hv. samþm. Ólaf G. Einarsson, finnst mér það verðug eftirmæli eftir þessa ríkisstj., sem hann viðhafði í lok ræðu sinnar í kvöld, þegar hann sagði að þetta frv. væri „fyrsta skrefið til að ráðast skipulega gegn verðbólgunni“. Það var tími til kominn fyrir ríkisstj. á Íslandi, sem hefur búið við 30–50% verðbólgu heilt kjörtímabil, að hún færi síðustu daga kjörtímabilsins að stíga fyrsta raunverulega skrefið gegn verðbólgu. En hvílíkt skref !