13.02.1978
Neðri deild: 55. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2310 í B-deild Alþingistíðinda. (1767)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Fleyg urðu á sínum tíma þau ummæli sem Winston Churchill viðhafði um breska orrustuflugmenn. Það var undir lok orrustunnar um Bretland í síðustu heimsstyrjöld sem hann mælti: „Aldrei hafa jafnmargir átt jafnfáum jafnmikið að þakka.“ Sjálfsagt er það í stíl við þessi orð Churchills sem nú er það almennt viðkvæði hér í borginni, að aldrei hafi jafnstór þingmeirihl. og nú ræður hér á Alþ. gert jafnmörg og jafnstór axarsköft á jafnskömmum tíma. Ég mun ekki freista þess í tiltölulega stuttri ræðu um miðja nótt að fara að rekja í einstökum atriðum þriggja og hálfs árs hrakfallasögu hæstv. núv. ríkisstj., — hrakfallasögu að því er varðar flest helstu stefnumál hennar. Á fátt eitt vil ég þó drepa, sem varpar nokkru ljósi á það, hvernig nú er komið og hverjir það eru sem bera á því ábyrgð. En áður en ég v!k að því langar mig til að beina fáeinum orðum til hæstv. menntmrh. sérstaklega sem heiðraði þennan sal með nærveru sinni í 5 mínútur. Annars er það svo, að því er mér virðist, að fyrir utan hæstv. varaforseta og þá hæstv. menntmrh. virðist allur Framsfl. sofa svefni hinna réttlátu í nótt.

Ég vil víkja þeim orðum sérstaklega til hæstv. menntmrh., hvort ekki hafi í sambandi við þessa gengisfellingu, sem nú er orðin staðreynd, neitt verið hugað að málefnum íslenskra námsmanna erlendis. Það er nú svo, að þeir verða í verulegum mæli að treysta á lán frá íslenska ríkinu til þess að sjá sér farborða og geta haldið áfram námi. Gengislækkanir hafa alltaf komið illa við íslenska námsmenn erlendis. (Gripið fram i: Ráðh. er kominn.) Já, mér þykir vænt um að hæstv. menntmrh. skuli heyra mál mitt. Ég var að ræða um þann vanda sem íslenskum námsmönnum erlendis er búinn við þessa nýjustu gengislækkun.

Gengislækkanir hafa alltaf komið illa við námsmenn erlendis, þó misjafnlega og þá gjarnan eftir því hvernig á hefur staðið og þá m. a. hvenær árs gengisfelling hefur átt sér stað. Slík gengisfelling hefur minni áhrif á hag námsmanna þegar hún gerist seint á skólatímabili eða skömmu áður en upphæð lána næsta tímabils er ákveðin við fjárlagaafgreiðslu. En þegar slík gengisfelling, eins og nú hefur átt sér stað, er framkvæmd tiltölulega skömmu eftir fjárlagaafgreiðslu — og fjárlagaafgreiðslu af því tagi að því er varðar Lánasjóð námsmanna að þar var allt klippt og skorið og í allra knappasta lagi, þá er þetta býsna alvarlegt mál. Mér er um það kunnugt, að það er hið mesta áhyggjuefni námsmanna og aðstandenda þeirra margra, hvernig með verður farið í sambandi við lánamál þeirra. Þegar tekið er tillit til þess, að ekki er aðeins um að ræða þá 15% gengisfellingu, sem nú var formlega ákveðin, heldur bætist þar við það gengissig sem orðið hefur síðan fjárlög voru afgreidd eða sú upphæð ákveðin, sem Lánasjóður skyldi fá á fjárlögum, þá gefur auga leið að hér er um býsna alvarlegt mál að ræða. Ég vænti þess, að hæstv. menntmrh. hafi annaðhvort þegar hugað að þessu máli eða muni gera það og námsmenn fái einhverja umtalsverða leiðréttingu sinna mála. Það er ljóst, ekki síst eftir að fjárlög höfðu verið afgreidd þannig að fjárveitingar til lánasjóðsins voru í algeru lágmarki, að menn þola ekki allt að 20% gengisfall á örskömmum tíma. Þess vegna spyr ég hvort ekki verði eitthvað gert til leiðréttingar þessu.

Hv. 5. þm. Reykn., Ólafur G. Einarsson, frsm. meiri hl. í þessu máli, flutti hér sína sérkennilegu og sérstöku útgáfu af sögu vinstri stjórnarinnar sem sat hér 1971–1974. Því miður var það svo, að hv. þm. féll í þá freistni, sem henti m. a. einn brennumanninn úr Njálsbrennu forðum, að „hann ló víða frá“. Því miður var býsna mörgu öfugt snúið í þessari sagnfræði þm. og borið eitt og annað á borð sem er margbúið að reka öfugt jafnt ofan í þennan hv, þm. sem og aðra þm. Sjálfstfl. sem verið hafa með svipaða sagnfræði. Það er e. t. v. aukaatriði, að þessi tillærði ósannindabálkur hv. þm. og fleiri þm. úr Sjálfstæðisherbúðum virðist vera alveg sérstök, heiftarleg og býsna illvíg árás á samstarfsaðilann, Framsfl., og þó einkum á formann flokksins og fyrrv. forsrh., Ólaf Jóhannesson. Að vísu var vakin á því athygli í umr. fyrr í kvöld, að nú í seinni tíð eru fleiri en þm, úr Sjálfstfl. sem iðka þessa einkennilegu sagnfræði um vinstri stjórnina. Var þar til nefndur ritstjóri Tímans, Þórarinn alþm. Þórarinsson. Þetta er að vissu leyti rétt. Ég man að fyrstu mánuðina eftir að þessi stjórn var mynduð skrifaði hann öðru hvoru leiðara til að rétta hlut vinstri stjórnarinnar og skýra frá gerðum hennar þegar samstarfsflokkarnir úr Sjálfstfl. hölluðu þar réttu máli. En í seinni tíð virðist hv. þm. Þórarinn Þórarinsson vera kominn á alveg sömu línu og hv. þm. Ólafur G. Einarsson og Morgunblaðið, að það er í rauninni eins og hæstv. viðskrh. og hæstv. fyrrv. forsrh., Ólafur Jóhannesson, heyri það nú öðru hvoru úr sínu heimilisblaði, að þetta hafi verið heldur slök stjórn. Raunar kemur það nú gjarnan fyrir í þessum leiðurum hv. þm. Þórarins Þórarinssonar, að hann virðist vera alveg búinn að gleyma því, að í þessari stjórn hafi nokkrir menn setíð aðrir en Lúðvík Jósepsson og Magnús Kjartansson. Það voru þó þrír framsóknarmenn í stjórninni, ef ég man rétt.

Eitt af því, sem hv. 5. þm. Reykn., frsm. meiri hl., lét sér um munn fara, var sú staðhæfing, að vinstri stjórnin hefði sett met í verðbólgu. Þetta er að sjálfsögðu algerlega rangt. Verðbólga þau þrjú ár, sem hægt var að segja, að vinstri stjórnin stjórnaði og hefði til þess þingmeirihl., mun hafa verið innan við 20% að meðaltali á ári. Þetta er að vísu of mikil verðbólga, því skal ekki neitað. En metið, það er enginn efi á því hver á það. Það er núv. hæstv. ríkisstj. Því er svo að sjálfsögðu gleymt, þegar verið er að ræða um vinstri stjórnina, að tvennt átti ríkan þátt í því að ekki tókst að hemja verðbólgu betur en þó var gert á vinstristjórnarárunum. Annars vegar voru miklar hækkanir á erlendum vörum, þ, á m. margföldun olíuverðs og tvöföldun eða jafnvel margföldun ýmissa annarra mikilvægra vara. Hitt var Vestmannaeyjagosið, sem hafði óneitanlega mjög veruleg verðbólguáhrif.

Hv. 2. þm. Austurl. er að vísu búinn í ræðu sinni hér í kvöld að gera málflutningi frsm. meiri hl. það mikil skil, að e. t. v. er ekki verulega á það bætandi. Þó vil ég segja það, að það er e. t. v. skiljanlegt og skýranlegt, að hv. þm. varð dálitið úrillur í sinni framsögu, því að það er búið að leggja á hann ýmislegt nú hina síðustu daga. M. a. er ljóst, að heldur lítið tillit hefur verið tekið til tillagna hans og félaga hans í verðbólgunefndinni, þeirra sexmenninga, sem á þriðjudag og miðvikudag skiluðu af sér miklu starfi og gerðu ákveðnar till. Hann var einn í röð þessara manna. Þeir bentu á hvorki meira né minna en fimm valkosti, höfnuðu að vísu hinum fyrsta, þ. e. a. s. að gera ekki neitt, en töldu alla hina fjóra hugsanlega og mæltu alveg sérstaklega með að fimmti valkosturinn yrði valinn. En það var nú ekki aldeilis að þetta væri gert. Hæstv. ríkisstj. tók ekki meira tillit til þessa starfs eða tillagna þeirra sérstöku fulltrúa, sem hún átti í verðbólgunefndinni, en það, að hún hafnaði í raun og veru algerlega öllum þeim leiðum, hverri um sig, sem þessi nefndarhluti lagði til. Í staðinn var eitt hrifsað héðan og annað þaðan og síðan búið til það frv. sem hv. þm. Ólafur G. Einarsson hefur nú orðið að fallast á og orðið að mæla fyrir. Er þá e. t. v. ekki óeðlilegt þó að heldur reyndist vera þungt í honum þegar hann þurfti að stiga þau skref og mæla þau orð, sem hann taldi sig þurfa að gera hér í kvöld.

Hv. þm., Ólafur G. Einarsson, gerir sér það áreiðanlega ljóst, hann er það glöggur maður, að ekki er sérlega gæfulegt að ætla að berja fram í krafti þingmeirihl. löggjöf sem alveg tvímælalaust kallar fram slíkt óvissu- og hættuástand á vinnumarkaði að enginn veit í dag til hversu alvarlegra tíðinda kann að draga. Hv. þm. Ólafur G. Einarsson er það vaskur maður, að hann á ekki að láta flokksbræður sína þrýsta sér til að fara með útúrsnúninga og rangar staðhæfingar, jafnvel þó að hann hafi talið sig verða að taka að sér að verja slæman málstað fyrir stjórnina sína.

Eitt af því, sem hv. 5. þm. Reykn. fullyrti í sinni ræðu, var að vinstri stjórnin hefði framkvæmt þrjár gengisfellingar, og hann notaði það til að reyna að réttlæta allar þær gengisfellingar sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur yfir okkur kallað. Sannleikurinn er sá, að gengið lækkaði tiltölulega lítið í tíð vinstri stjórnarinnar. Ef ég man rétt mun það hafa lækkað samtals um 11 eða 12% á þeim stjórnarferli. En hvað hefur gerst í tíð núv. ríkisstj.? Það er vitað og margupplýst, að það er ekkert smáræði. Dollarinn t. a. m. hefur hækkað úr 98 kr. í 255 kr. Þetta mun vera yfir 150% gengislækkun. Þetta er eitt af þeim mörgu ömurlegu metum sem þessi hæstv, ríkisstj. hefur sett. Hv. þm. Ólafur G. Einarsson á að hafa alla burði til að neita því, jafnvel þótt hann sem formaður í n. verði að taka að sér heldur leiðinlegt verk, að ata sig út með því að gripa til leiðinlegra rangfærslna eða hreinna ósanninda í málflutningi sínum.

Menn muna það, að um það leyti sem vinstri stjórnin var að fara frá deildu fulltrúar Sjálfstfl. hart á þá ríkisstj. fyrir verðbólguna sem þá ríkti fyrir, að hafa ekki komið í veg fyrir hana. Þó var það svo, að þegar verðbólguvöxturinn var að verða geigvænlega mikill, þegar kom fram á árið 1974, þá lokuðu sjálfstæðismenn öllum leiðum og raunar stjórnarandstaðan öll. Hún var ekki til viðræðu um neinar varnaraðgerðir í samþandi við þá atburði sem gerðust varið 1974. Þess vegna hlýtur verulegur hluti ábyrgðarinnar á þeim verðbólguvexti, sem varð á því ári öllu, að falla í skaut Sjálfstfl., þess flokks, sem á fyrri hluta árs kom í veg fyrir að hægt væri að framkvæma þær varnaraðgerðir, sem allir vissu þó að voru nauðsynlegar, og var síðan stjórnarforustuflokkur seinni hluta ársins.

Sú stjórn, sem mynduð var eftir mitt ár 1971, stjórn Geirs Hallgrímssonar, lýsti því sem höfuðviðfangefni sínu að koma á jafnvægi í efnahagsmálum. Fyrsta og stærsta verkefnið átti að vera það að vinna bug á verðbólgunni. Ríkisstj. lýsti því yfir sem markmiði sínu að koma verðbólguvextinum niður í 15% á tveimur árum. Um það þarf ekki að hafa mörg orð, hvernig til tókst. Það er alkunnugt, að þessi hæstv. ríkisstj. hefur í verðbólgumálunum sett það met sem vonandi verður aldrei slegið. Hinar síendurteknu gengislækkanir og gengissig eru dæmi um það, hvernig þessi hæstv. ríkisstj. hefur staðið að málum. Á valdaferli hennar, tæplega hálfu fjórða ári, hefur verð dollarans, miðað við íslenska krónu, hækkað um 157%, eins og ég sagði áðan. Í staðinn fyrir að einn dollar var jafngildi 98 kr. þegar ríkisstj. tók við völdum, þá er hann nú jafngildi 255 kr. Áhrif gengislækkunar- og verðþenslustefnunnar á öllum sviðum hafa síðan orðið þau, að á valdaferli þessarar stjórnar hefur verðlag í landinu meira en þrefaldast. Framfærsluvísitalan hefur á þessum einstæða valdaferli, á tæplega hálfu fjórða ári, hækkað úr tæplega 300 stigum í 934 stig, og nú hefur verið bætt við enn einni gengisfellingunni um 15%. Jafnframt á nú að slíta í sundur og ómerkja þá kjarasamninga sem í gildi eru, ekki aðeins kjarasamninga milli verklýðshreyfingarinnar og viðsemjenda hennar, heldur einnig þá samninga sem hæstv. fjmrh. undirritaði við opinbera starfsmenn fyrir þremur mánuðum, — samninga sem hann undirritaði að sjálfsögðu fyrir hönd ríkisstj. allrar. Þetta er gert til þess að ná árangri í baráttunni við verðbólguna. Samkvæmt mati ríkisstj. verður árangurinn af öllu þessu sá, að meðal`alsverðlagshækkanir á árinu 1978 verða 37% í stað 40%, ef ekkert hefði verið að gert. Til þess að ná þessu fram, ekki meira en þetta virðist vera, á jafnvel að fara út í heiftarlegt stríð við flestar, ef ekki allar launastéttir þessa lands. Maður verður satt að segja býsna hissa á því, að þeim mönnum, ágætum mönnum hverjum um sig, sem skipa ríkisstj. og þingmeirihluta, virðist stundum varla sjálfrátt þegar þeir koma allir saman og leggja á ráðin sameiginlega.

Það hefur verið rætt svo mikið af öðrum ræðumönnum úr stjórnarandstöðu, hvernig sú framkoma ríkisstj. við launþegasamtökin hlýtur að vera sem nú blasir við, að ég ætla ekki að fara langt út í þá sálma. Þó vil ég nefna tvö atriði eða svo.

Hæstv. ríkisstj. þóttist vera að greiða fyrir samningum á s. l. sumri, og mönnum sýndist svo sem hún hefði uppi ýmsa tilburði til þess. M. a. var þá loforð um það gefið til að greiða fyrir samningum, að skattalækkanir skyldu framkvæmdar sérstaklega snertandi hinar lægri tekjur, — skattalækkanir sem næmu a. m. k. 2 milljörðum kr. Nú skyldi ríkisstj. sýna bæði veglyndi og áhuga á því að greiða fyrir samningum. Þetta fór síðan fram, og má segja að við þetta væri staðið í orði kveðnu. Það var býsna hreykin hæstv. ríkisstj. sem var að sýna það á haustdögum, að hún ætlaði ekki aldeilis að bregðast þessu loforði sínu. En hvað gerðist síðan við fjárlagaafgreiðsluna og eftir hana? Í fyrsta lagi gerðist það, að með því að nota nýjar viðmiðunarreglur við ákvörðun skattvísitölu, þ. e. með því að nota framfærsluvísitölu í stað breytingar á meðallaunum, eins og gert hafði verið áður, náði ríkisstj. sér í 1800–2000 millj. kr. auknar skatttekjur í ríkissjóð á þessu ári. Í öðru lagi voru svo teknar til baka af launafólki um 2000 millj. kr. með því að tvöfalda sjúkratryggingagjaldið, en það leggst á sama skattstofn og útsvar og nær því til allra gjaldenda að heita má. Það var veitt af nokkru örlæti með annarri hendinni, en tekið síðan tvöfalt með hinni.

Nú er að því komið, að það er staðhæft að gera þurfi margvíslegar ráðstafanir vegna þess að kaupið sé allt of hátt. Það er fróðlegt að rifja upp í stuttu máli hvað hefur gerst á þeim ferli þessarar ríkisstj. þegar kaup hækkaði lítið að krónutölu og kaupmátturinn annaðhvort stóð í stað eða minnkaði. Árið 1976 er býsna glöggt dæmi um þetta. Samkvæmt opinberum skýrslum hækkaði útflutningsverð sjávarafurða það ár að meðaltali í dollurum um 19% og meðalverð alls útflutnings hækkaði um 18% í erlendri mynt. Magn vöruútflutnings jókst um 16% þetta ár og heildarverðmæti útflutningsins jókst um hvorki meira né minna en 34%. Hver var hlutur launþega í þessum stórauknu þjóðartekjum á árinu 1976? Samkv. opinberum skýrslum minnkaði kaupmáttur launataxta verkafólks og iðnaðarmanna um 4.5% á þessu ári. Þó jukust þjóðartekjur á mann um 4–5%. Þess skal að vísu getið, að með enn auknu vinnuframlagi og með auknum yfirborgunum umfram hina lágu kauptaxta munu ráðstöfunartekjur heimilanna að vísu hafa haldið kaupmætti frá fyrra ári, en þó engan veginn í hlutfalli við aukningu þjóðartekna.

Það er því sama hvernig á málið er litið. Bætt viðskiptakjör og stóraukin verðmætasköpun launafólks lenti þetta ár að mestum hluta hjá öðrum en launafólkinu sjálfu. Það er líka eftirtektarvert, að þetta ár, 1976, þegar allur útflutningur, eins og ég sagði áðan, hækkaði að meðaltali um 18%, þá var gengi íslensku krónunnar lækkað eða látið síga um 13%. Áætla má að sú aðgerð ein hafi hækkað verð á innflutningi landsmanna í íslenskum krónum talið um 9 milljarða á heilu ári. Ofan á þá upphæð bættust síðan býsna riflegar fúlgur, svo sem tollar, vörugjald, álagning í heildsölu og smásölu og loks 20% söluskattur sem leggst ofan á alla þessa súpu. Það mun því óhætt að fullyrða að á þessu ári, þegar kaupmáttur launataxta verkafólks lækkaði, hafi sú gengislækkun, sem framkvæmd var, samtímis verulega bættum viðskiptakjörum og auknu útflutningsmagni haft í för með sér allt að 18–20 milljarða kr. hækkun verðlags í landinu þegar allt er talið. Og svo eru ráðamenn jafnvel að furða sig á því, að við skulum búa við óðaverðbólgu, og staðhæfa jafnvel blygðunarlaust að kaupskrúfupólitík verkalýðsins eigi mesta sök á þessu.

Þetta ár, 1976, er dæmigert um verðbólgustefnu hæstv. núv. ríkisstj. Það ár er verðbólgan 32%. Þó er það svo ljóst sem verða má, að það ár er orsakanna ekki að leita í því, að launafólk hafi fengið í sinn hlut of mikið af afrakstri þjóðarbúsins. Eins og ég hef sagt áður, kauptaxtar rýrnuðu, menn fengu minna að raungildi fyrir dagvinnu ef greitt var samkvæmt taxta, þrátt fyrir verulega bætt ytri skilyrði. Það var haldið áfram að fella gengið, og svo miklu var varpað á verðbólgubálið að verðbólga reyndist 32%.

Framkoma gagnvart launþegasamtökunum sem framlagning þessa frv. og öll vinnubrögð í sambandi við undirbúning þess síðustu dagana er með þeim hætti, að þar hæfa sennilega ekki nema stór orð, og það er eðlilegt að þau séu viðhöfð. Ég ætla samt að stilla mig sem mest um að viðhafa um þetta mjög stór orð. Þó verð ég að segja það, að ekki er annað sýnna en að bæði sjálf s`efna hæstv. ríkisstj. og jafnframt og e. t. v. ekki síður ógæfuleg framkoma hennar sé að hleypa öllu í illleysanlegan eða jafnvel óleysanlegan hnút, sé að knýja fram gagnaðgerðir sem enginn veit til hvers kunna að leiða. Í stað friðar á vinnumarkaði út þetta ár, sem margir höfðu gert sér vonir um eftir þá samninga sem gerðir voru á síðasta ári, eru nú ófriðarblikur að hrannast á loft. Áskoranir um uppsögn samninga dynja yfir, og það er ekki aðeins Alþýðusamband Íslands, það er Sjómannasambandið, það er Farmanna- og fiskimannasambandið, sem hvetja sín sambandsfélög til að segja upp samningum. Það er þess vegna ekki líklegt þessa stundina og raunar mjög ólíklegt að harkalegar og lítt skiljanlegar ákvarðanir ríkisstj, í sambandi við þetta mál komi nokkru jákvæðu til leiðar, heldur mun því miður verða um hið gagnstæða að ræða.

Það er sagt að þetta frv., sem hér er flutt í tengslum við eða eftir þá gengisfellingu sem þegar er orðin, eigi að vera stoð fyrir atvinnuvegina. Ég held að það leiki ákaflega mikill vafi á því, að sú stoð verði nokkur, þegar það er haft í huga hvaða dilk slík framkoma sem hér er um að ræða á eftir að draga á eftir sér.

Það er sagt að þessar ráðstafanir eigi að draga úr verðbólgunni, að vísu ekki mikið, en lítið eitt. Ekki er sennilegt að svo verði, eins og allt er í pottinn búið.

Hv. þm. Ólafur G. Einarsson, frsm. meiri hl. n., lagði á það áherslu, að ýmsar hliðarráðstafanir fylgdu gengisfellingunni og þeim ákvæðum í þessu frv. sem segja mætti að væru öndverð og erfið fyrir launþegahreyfinguna. Jú, það er rétt, það á að lækka vöruverð um nokkra upphæð, — eru það ekki einir 2 milljarðar? Þetta er töluverð fjárhæð, er ekki svo? En hvað hækkar 15% gengisfelling verðlag í landinu í íslenskum krónum talið? Verðmæti innflutnings mun hafa verið 120 milljarðar 1977. Segjum að það verði sama upphæð. Verðmæti innflutnings hækkar þá um 18 milljarða beinlínis vegna gengisfellingarinnar. Við það bætast síðan tollar, vörugjald, verslunarálagning og síðan kemur söluskatturinn ofan a allt saman, þannig að í heild er hér um um að ræða líklega 30–35 milljarða hækkun innflutningsverðs í íslenskum krónum talið. Svo koma hinir vísu landsfeður og segja — og talsmaður þeirra belgir sig dálitíð út þegar hann leggur áhersla á þetta: Við ætlum að lækka vöruverðið um eina tvo milljarða. — Að vísu eru þeir búnir að hækka það áður um 35 milljarða eða svo. Þetta er nú ráðsnilld í lagi.

Við alþm. fennum á dögunum á borðin bækling eða bók frá þeirri verðbólgunefnd sem starfað hefur alllengi og nú hefur skilað af sér. Margvíslegur fróðleikur er festur á blöð í þessari skýrslu verðbólgunefndar eða skýrslu formanns hennar, eins og sumir segja að sé e. t. v. meira réttnefni. Þar eru að sjálfsögðu ýmsar umdeilanlegar staðhæfingar, en hitt er ótvírætt, að þar eru líka margvíslegar upplýsingar og gagnlegar ábendingar og tillögur í ýmsum efnum. Hinn glöggi og starfhæfi nefndarformaður, forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar, eða n., ef svo er, segir eitt og annað í þessari skýrslu sem hæstv. ríkisstj. hefði þurft að átta sig betur á en hún virðist hafa gert áður en hún anaði út í þá ófæru sem hún er farin út í með því frv. sem hér er til umr.

Ég ætla aðeins að minna á eitt atriði í þessari skýrslu, en það atriði er ákaflega veigamikið. Það er þetta: Á það er bent í skýrslunni, að útilokað sé að ná tökum á efnahagsvanda þjóðarinnar án samstarfs og án ákveðins trúnaðar milli ríkisstj. og Alþ. annars vegar og launþegasamtakanna í landinu hins vegar. Töluvert hefur allt frá upphafi ferils þessarar ríkisstj. skort á að slíkt samstarf og slíkur trúnaður væri fyrir hendi. Þó hafa stjórnvöld alltaf annað veifið sýnt nokkra tilburði til þess að taka tillit til hinna stóru og öflugu launþegasamtaka, en nú virðist öllu slíku lokið.

Á síðasta skeiði þessarar ríkisstj, ákveðnar hún og þykist hafa efni á að rjúfa með öllu það litla traust sem hluti launþega og einhverjir forsvarsmenn samtaka þeirra kunna að hafa haft á þessari ríkisstjórn. Það sýna aðgerðirnar nú og aðferðin sem er viðhöfð. Furðulegast í öllum þeim málatilbúnaði er þó e. t. v. 3. gr. þess frv. sem hér er til umr., þar sem eru ákvæði sem eiga að taka gildi frá næstu áramótum, ákvæði sem að dómi fulltrúa launþega geta gert að engu alla samningagerð um vísitölu, geta fært ríkisstj. fullt vald til að hrifsa til baka allar kjarabætur með einu pennastriki, ákvæði sem veitir stjórnvöldum sjálfdæmi um að skammta launþegum kaup og kjör, hvað sem öllum launasamningum liður. Þetta ákvæði um að óbeinir skattar, eins og söluskattur, vörugjald og tollar, skuli ekki hafa áhrif á verðbólguáhrif kjarasamninga á, eins og margsagt hefur verið, að koma til framkvæmda um næstu áramót. Sumir telja að þetta ákvæði hafi upphaflega átt að koma fram strax, en hæstv, ríkisstj. hafi heykst á því vegna harðra viðbragða fulltrúa launafólks. En þetta ákvæði stendur þó þarna í frv. og það á að koma til framkvæmda eftir tæpt ár. Hvers vegna stendur það þarna? Er það, eins og sumir telja, yfirlýsing um áframhaldandi stjórnarsamstarf þessara tveggja flokka, Sjálfstfl. og Framsfl., eftir kosningar, verði þess auðið, og er það þá jafnframt yfirlýsing um þá stefnu sem þá skuli fylgt gagnvart launafólki? Þannig er þetta skilið, og það er vissulega erfitt að leggja í þetta ákvæði annan skilning en þennan. En þá, ef þetta er réttur skilningur, veit launamaðurinn í dag enn þá betur en áður hvers er að vænta af ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. auðnist henni að ganga í endurnýjun lífdaga eftir kosningar. Stendur ekki einhvers staðar í Úlfarsrimum, þegar Skjaldvör tröllkona kom til bardagans afturgengin, eitthvað á þá lund, að hún væri hálfu verri en áður? Ekkert bendir til þess, að hæstv. ríkisstj, ætli að breyta um stefnu gagnvart launþegum, heldur bendir allt til þess að hún ætli að herða þá stefnu sem upp hefur verið tekin nú. Hún virðist ekkert hafa lært af reynslu síðustu missira. En vera kann að launþegarnir í landinu verði reynslunni ríkari. Mér þætti það ekki ólíklegt, en læt alla spádóma um það eiga sig. Það kemur í ljós og það heldur fyrr en seinna.