13.02.1978
Neðri deild: 55. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2326 í B-deild Alþingistíðinda. (1769)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Þegar hefur verið talað bæði lengi og mikið og í svo langan tíma og í svo mörgum orðum fer ekki hjá því að minnst hafi verið á flest efnisatriði sem máli skipta varðandi það frv. sem hér liggur fyrir. Þess vegnar er varla hægt að flytja hér langt mál án þess að um nokkrar endurtekningar verði að ræða. Ég vil hins vegar reyna að stytta mál mitt, ekki síst með tilliti til þess að liðið er langt fram á nýjan dag og fólk orðið að vonum þreytt að hlýða á svo mikinn málflutning.

Það, sem hefur vakið einna mesta athygli mína í sambandi við meðferð málsins hér og það, hvernig talað hefur verið fyrir því, er kannske ekki fyrst og fremst þær orðaskylmingar, sem hér hafa farið fram, eða þær röksemdir, sem menn hafa flutt fyrir máli sínu, hver með sínum hætti og lagi, eftir þeim skoðunum sem þeir hafa í því efni sem hér hefur verið flutt. En það er fyrst og fremst það, að málsvarar gengisfellingarstefnu ríkisstj. hafa að mínum dómi verið ansi hressir og jafnvel býsna borubrattir hér í kvöld, þrátt fyrir það að kjarni þessa máls sé ný kollsteypa í efnahagsmálum og nýgerðir kjarasamningar brotnir með riftun verðbótaákvæða og áhrif 15% hækkunar erlends gjaldeyris sem kemur öll út í verðlagið áður en við er litíð og veldur 10–12% rýrnun vinnulauna miðað við samninga sem blekið er varla þornað á.

Einn allra glaðbeittasti talsmaður þessarar nýju stefnu, sem þó er gömul í þessum sömu herbúðum, lýsti mikilli vandlætingu sinni á skilningsleysi okkar stjórnarandstæðinga á ágæti þessara ráðstafana og vantrú okkar á að þær væru lokabragðið í glímunni við verðbólguna. Sannleikurinn er hins vegar sá, að með þessari stórkostlegu árás á verkalýðsstéttirnar, sem hlýst af gengisfellingunni og skerðingu verðbótaákvæðanna, er ekki meira unnið en svo, þótt allt gengi eins og til er ætlast, að verðbólguhraðinn minnkar aðeins úr 40% á ári í 36–37% á ári. Þetta er allt sem vinnst. Þó búast raunar fæstir við að verðbólguhraðinn dragist einu sinni svona litið niður eins og sagt er, heldur verði verðbólguhraðinn á árinu að meðaltali um eða yfir 40%. Hv. þm. Ólafur G. Einarsson sá enga aðra leið en þessa, þrátt fyrir að þessi leið sé auðvitað margreynd og það sýni síg og hefur sýnt sig hvað eftir annað að hún dugar ekki. Þrátt fyrir þetta gat hv. þm. Ólafur G. Einarsson enga aðra leið séð en að fella krónuna og skerða kaupið. Hann lagði sérstaka áherslu á það, að þetta væri nú ekki annað en það sem vinstri stjórnin hefði gert, hún hefði lækkað gengið þrisvar. Hann gleymdi samt að minnast á gengishækkunina okkar vinstristjórnarmanna. Hann gleymdi einnig að geta þess, hversu mikil gengislækkunin var eða þær gengislækkanir sem við gripum til — og Alþb: menn að vísu nauðugir — á tímum vinstristjórnarinnar. (Gripið fram í.) Gengisfellingarnar voru samtals um u. þ. h. 11%. Dollarinn hækkaði úr u. þ. b. 84 kr. 98 eða 96 kr. á tímabilinu. En í stjórnartíð núv. ríkisstj. hefur gengið ekki hækkað um 11%. Það hefur hækkað um tæp 160%. (Menntmrh.: Er ekki tími til að taka í taumana?) Það er nú það, hæstv. ráðh. spyr, hvort það sé ekki tími til að taka í taumana. En það er að mínum dómi of seint, því að fyrsta verk hæstv. ríkisstj. var að slíta taumana út úr verðbólguhrossinu sem þeir hafa nú riðið taumlaust hátt á fjórða ár. (Gripið fram í.) Gengisfellingin var ekki 11%, hún var tæplega 160% á stjórnartíma þessara herra, eða 15 sinnum meiri en gengisfellingin á vinstristjórnarárunum. Þetta finnst hv. þm. Ólafi G. Einarssyni sambærilegt, og vegna þess að við hefðum líka notað gengisfellingu, þá þykir það fullafsakanlegt þó að þeir ráðist nú enn einu sinni í stórfellda gengisfellingu ofan á allar hinar, sem fyrr eru komnar, og það stöðuga gengissig, sem átt hefur sér stað síðan þeir tóku við stjórn þessa lands. En þeir hafa fellt gengið — ekki um 11%, eins og við gerðum, heldur um 160%, þ. e. a. s. ef miðað er við dollar. Ef tekið er mið af öðrum gjaldmiðli, t. d. svissneska frankanum, vestur-þýska markinu eða sterlingspundinu, þá er þetta hlutfall auðvitað miklu óhagstæðara þessari ríkisstj. en hér hefur verið nefnt. Hér er aðeins miðað við dollar sem sjálfur hefur sigið mjög mikið á þessum tíma. En þrátt fyrir þetta var, eins og ég sagði, hv. þm. Ólafur G. Einarsson hinn brattasti og hann kættist raunar yfir því að hafa átt sinn þátt og drjúgan þátt í þessum myndarlega kollhnís. Þessi hv. þm. virðist alls ekki hafa tekið eftir allsherjarmótmælum samtaka hinna vinnandi stétta í landinu. Kannske metur þessi hv. þm. meira fagnaðarlæti innflytjenda og braskara í þjóðfélaginu sem fitna við hverja gengisfellingu eins og púkinn á loftbitanum við hvert blótsyrði hér áður fyrr.

Hæstv. forsrh. virtist ekki aðeins hress, þegar hann mælti fyrir ósómanum við 1. umr, þessa máls, það, sem skein út úr ekki aðeins andliti hans, heldur einnig orðum, var það, að nú hefði hann fundið leiðina — hann hefði loksins fundið réttu leiðina, nú væri gengisfellingum lokið á Íslandi, nú væri málinu bjargað. Hver skyldi nú trúa þessu, þegar tekið er mið af því sem ég rakti áðan?

Hann gerði þá skyssu, hæstv. forsrh., að minnast á stefnuræðu sína frá því s. l. haust, Hann hefði að mínum dómi fremur átt að lesa nú úr sinni fyrstu stefnuræðu, sem hann flutti haustið 1974, og leyfa þingheimi að heyra að nú yrði verðbólgan hamin, a. m. k. færi hún ekki yfir 15% markið, að því væri stefnt, þetta væri fyrsta og helsta baráttumálið. Efnahagsstefnan átti að vera aðhaldsstefna. Fjárlögum skyldi haldið í skefjum, skuldir við útlönd lækkaðar og skuldir ríkis við Seðlabanka skornar niður við trog. En hvernig tókst þetta? Hvernig tókst hæstv. forsrh. að efna þetta loforð? Loforðin voru fleiri, en ég vil ekki eyða tímanum í að telja þau öll upp, því að sannleikurinn er sá, að hæstv, ríkisstj. hefur unnið það afrek að svíkja meira en hún lofaði. Og hverjar hafa efndirnar þá verið?

Í stað þess að draga verðbólguna niður í 15% markið hefur hún verið meiri en nokkru sinni fyrr og enn er stefnt í nýjan hring í þessu verðbólgukapphlaupi. Og fyrst við minntumst á verðbólguhrossið áðan, þá er kannske rétt að halda aðeins áfram þeirri samlíkingu. Það skokkaði í rólegheitum með þó nokkru taumhaldi. Þetta verðbólguhross hefur nú breyst í ófreskju sem veður taumlaust fram, enda er, eins og ég sagði áðan, beislinu sleppt og það eina, sem notað er á skepnuna, eru sporarnir, gjöf frá heildsölum og bröskurum í þessu landi.

Verðbólgan er fyrst og fremst öllum heilbrigðum rekstri í landinu í óhag, svo ekki sé minnst á það stóra mál, að með slíkri verðbólgu er sífellt verið að færa til fjármagn í þjóðfélaginu frá hinum efnaminni til hinna efnameiri.

Hvað varðar loforðið um fjárlög ríkisins, að halda hækkun á þeim í skefjum, þá vita nú flestir hvernig það er komið. Fjárl. núna fóru upp í 140 milljarða kr. Þan hafa sem sagt margfaldast á þessum tæplega fjórum árum. Þó voru síðustu fjárlög vinstri stjórnarinnar um 29 millj. kr., minnir mig hafi verið. Sama er að segja um skuldirnar við útlönd. Þær voru 29 milljarðar kr, í lok vinstristjórnartímans, en eru núna eftir þessa gengisfellingu komnar yfir 155 millj. kr. Staðan við Seðlabankann, sem þótti alveg óguðlega slæm þegar vinstri stjórnin lét af störfum, hefur tífaldast eða meira en það og er nú komin í 15 milljarða kr. um s. l. áramót.

Sannleikurinn er sá, að allt hefur brugðist í þeirri stefnu sem hæstv. forsrh. boðaði haustið 1974. Þegar ríkisstj. hefur gefist upp á að framfylgja þeirri stefnu sem hún boðar og þar sem allt hefur mistekist og farið úr böndunum, þá á slík ríkisstj. að segja af sér. Það er gert í öllum venjulegum þingræðislöndum. En hún lafir, þó að varla sé hægt að tala um líf í stjórninni á þessum dögum.

Í ræðu hæstv. forsrh. nú við 1. umr. talaði hann að sjálfsögðu um þann vanda sem við er að glíma. Kannske er það ekki meginmálið hvaða leiðir eru valdar til að glíma við þann vanda. Auðvitað má fara misjafnlega að því. Það getur komið misjafnlega hart niður á fólkinu í landinu og haft misjafnlega slæmar afleiðingar. Það er við mikinn vanda að etja, því neitar enginn maður sem hefur augun opin, og þær till., sem við komum með í sambandi við niðurfærslu verðlags í minni hl., duga engan veginn til þess að leysa allan þann vanda sem við stöndum frammi fyrir. Höfuðspurningin er í raun og veru: Hvernig stendur á því að við stöndum frammi fyrir þessum vanda? Af hverju skapast alltaf þessi sami vandi aftur og aftur? Okkur er nú orðið ljóst, þeim, sem fylgst hafa með þessu í mörg ár, að þessi gengislækkunaraðferð og þessi sífellda hringrás dugar ekki lengur. Þess vegna er þetta röng stefna. En aðalspurningin er: Hvernig stendur á því, að þessi vandi kemur í sífellu upp á nýjan leik?

En þegar hæstv. forsrh, stóð hér keikur í ræðustólnum, hinu glaðasti, þegar hann flutti sitt mál, lét hann eins og þessi vandi kæmi honum á óvart. A. m. k. var alls ekki að heyra á hæstv. forsrh., að honum dytti í hug að hans stjórn og hans stefna ætti þar nokkra sök á. En það er augljóst, að ríkisstj. hefur alla sína stjórnartíð haldið svo á öllum efnahagsmálum, að það fór ekki hjá því, hvernig sem áraði og hversu vel sem gengi, að það hlaut að enda í einni kollsteypunni enn. Þar hefur ríkisstj. svikist um að stjórna, og hefði það þótt skrýtið fyrir allmörgum árum að halda því fram, að núv. hæstv, forsrh., Geir Hallgrímsson, væri einn alharðasti stjórnleysingi á Íslandi, því að ríkisstj. hefur ekki gert tilraun til að hafa neina stjórnartauma í höndum sér og látið skeika að sköpuðu í þessum efnum.

Hæstv, forsrh, minntist m. a. á það í ræðu sinni, að hann bæri mikla umhyggju fyrir sparifjáreigendum og væri nauðsynlegt að hækka vextina enn til að tryggja þeirra hag. En þessi gengisfelling, 15% gengisfelling ein, hefur skert spariféð í landinu um jafnháa prósentu og hefur tekið fyrir fram alla vaxtahækkunina, sem þessir sparifjáreigendur hefðu getað fengið, og miklu meira en það. Þetta er hin raunverulega umhyggja fyrir sparifjáreigendum. Með þessum háu vöxtum er verið að reyna að blekkja fólk til þess að leggja fé inn í bankana, en síðar er grípið til gengisfellingar sem tekur af þeim alla vextina og miklu meira en það. Þar á ofan bætist, að það verður ekkert hægara fyrir hinn vinnandi mann í landinu að spara eftir að kaupgetan lækkar um 10–12% við þessar efnahagsráðstafanir. Það leggst allt á eitt. Gengisfellingin hirðir vextina, og kauplækkunin gerir það að verkum, að þeir geta ekki sparað. Þarna er umhyggjan í raun, hversu fagurlega sem menn tala úr þessum ræðustól. Þannig kemur þessi vaxtahækkun þessu fólki alls ekki til góða, og ég kem raunar alls ekki auga á það, hverjum þessi vaxtahækkun getur komið til góða. Vegna þess að hér í salnum er nú hv. 1. ambassador Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna hér á Alþ., þá væri hægt að beina þeirri spurningu til hans, hvort hann telji að þessi vaxtahækkun komi framleiðsluatvinnuvegunum til góða. Ég þarf ekki að biða eftir svari. Það vita allir, að ofsavextir af þessu tagi koma rannar í veg fyrir allan heilbrigðan rekstur í landinu.

Sjómenn og útgerðarmenn fengu fyrir skömmu 13% hækkun á fiskverði. Það var þeirra kauphækkun. Almennt kaupgjald í landinu hækkaði milli 50 og 60% á s. l. ári. Sjómenn fengu að vísu fiskverðshækkun á miðju s. l. ári, en fiskverðshækkunin núna eftir áramótin nam 13%. Þessi hækkun átti að vera þeirra kauphækkun og var ekki í neinum takt við þá kauphækkun sem hafði orðið hjá öðrum launþegum í landinu. Þetta fiskverð átti einnig að reyna að fleyta útgerðinni áfram, sem eins og allir vita gengur afar misjafnlega eftir skipastærðum, gerðum og fiskveiðiaðferðum o. s. frv. Við þessa gengisfellingu, sem nú er gripið til, er þessi hækkun auðvitað hirt strax af sjómönnum eða svo til öll. Sú kjaraskerðing, sem þeir verða fyrir vegna þessara laga, sem nú er verið að tala um, og þess frv., sem nú er verið að ræða hér um, þá er þessi kauphækkun raunar öll saman runnin út í sandinn. Þeir hafa sjálfsagt ekki fengið neina leiðréttingu. Ég vil leyfa mér að spyrja — hér eru menn úr öllum hornum þjóðfélagsins, útgerðarstjórar og togaraeigendur: Kemur þessi gengisfelling útgerðinni til góða og þá með hverjum hætti? Útgerðin þarf á mjög miklum rekstrarvörum að halda sem keyptar eru frá útlöndum fyrir erlendan gjaldeyri, Allar þessar rekstrarvörur hækka um 15% a. m. k, Það er olían, sem er nógu dýr fyrir, það eru veiðarfærin af öllu tagi og tæki, viðhald, lagfæringar, breytingar, lengingar, byggingar o. s. frv., en síðast, en ekki síst hækka skuldir útgerðarinnar sem eru að langmestu leyti gengistryggðar. Á móti kemur, ég skal viðurkenna það, — á móti kemur hluti þeirra úr gengishagnaðarsjóði. Úr gengishagnaðarsjóði eiga 65% að renna í Verðjöfnunarsjóð. Afgangurinn, 35%, skiptist milli fiskvinnslu og útgerðar. Af þessum afgangi á útgerðin að fá til þess að standa undir hækkun vegna erlendra lána 57%, og menn geta reiknað 57% af 35, það gerir 19.55%. Það er aðeins innan við 20% af gengishagnaðarsjóði sem fer til þess að bæta útgerðinni stórhækkaðar skuldir vegna hækkunar á erlendum gjaldeyri. Það dugar auðvitað engan veginn. Hvar er þá gróði útgerðarinnar vegna gengisfellingarinnar? Hann er hvergi. Allt er þetta á eina bókina lært. Gróðinn af þessum ráðstöfunum finnst ekki. Svona mætti auðvitað miklu lengur telja. En ég vil benda á það, að í því ágæta kveri, sem við alþm. höfum hér á borðum okkar, sem heitir því skemmtilega nafni: Verðbólguvandinn, eru m. a. — ég segi: þar eru m. a. eftirtalin atriði sem eru talin valda sérstaklega verðbólgu: Það er gengislækkunaraðferðin. Það eru of háir vextir. Það eru miklar erlendar lántökur, þ. e. a. s. innflutningur erlends fjármagns. Það er óhóflega mikil fjárfesting í landinu, og vitað er að næstum helmingur fjárfestingar í landinu er runnin frá útlöndum og það er fjárfesting sem skilar ekki arði. — Þetta má vera hverjum manni ljóst. Þarna er þetta talið upp í bókinni. Þetta er verðbólguhvetjandi. Einmitt þetta hefur ríkisstj. gert. Þetta hefur hún lagt áherslu á, allt sem eflir verðbólguna. Kannske sjá menn þetta ekki kannske gera þeir það viljandi eða þá þeir geta með engu móti komið auga á nokkra aðra leið en þessa, og það væri aldeilis voðalegt, því að með þessu áframhaldi á nýju kjörtímabili með þessum sömu stjórnarherrum og sama gengi verður erlendur gjaldeyrir orðinn fjórum sinnum dýrari en nú er. Hann hefur þrefaldast á þremur árum og fjórfaldast sjálfsagt á næstu fjórum árum. Dollarinn ætti þá samkv. því að vera farinn að nálgast þúsund kr. Það er þess vegna augljóst, að við þessar aðferðir getum við ekki haldið okkur. Það þarf að grípa til allt annarra ráðstafana.

Við höfum minnst hér á niðurfærsluleið, að færa niður verðlag, og það er nefnt í nokkrum greinum, nokkurs konar tilraun til smáskammtalækninga á verðbólguvandanum, að reyna að færa verðbólguna niður með þeim hætti. Það er sem sagt verið að reyna að gera eitthvað annað en að hlaupa alltaf sama vitlausa hringinn. Ég skal ekki leggja mat á það, hvort allir þessir liðir eru það besta, sem hægt er að fá, og hvort þeir eru rétt út reiknaðir og hvort ekki hefði mátt sleppa sumum og breyta öðrum. Ég er ekki alveg sammála um þessa uppstillingu sem þarna er. Þar er ýmislegt sem orkar tvímælis í mínum augum, og ég hirði ekki um að fara að nefna það, það er nægur tími til þess síðar. En þetta var þó tilraun af okkar hálfu. Það getur enginn neitað því, að þarna er verið að benda á leið sem óneitanlega getur hægt á verðbólgunni. Það hafa verið umræður hér um einstaka þætti, eins og t. d. að leggja nýjan veltuskatt á fyrirtæki í landinu. Það er hægt að haga því með ýmsum hætti, en að mínum dómi er rétt að gera það a. m, k. við þau fyrirtæki sem velta gífurlegum fjármunum, hundruðum milljarða á ári, til þess að þau greiði nú einu sinni skatt sem sloppið hafa algerlega við það á undanförnum árum. En þegar hér er talað um niðurfærsluleið, þá þarf maður ekki annað en að líta augnablik á hæstv. ráðh., svo ég tali nú ekki um hv. yfirmann fjh.- og viðskn., hinn sanntrúaða Ólaf G. Einarsson, hv, þm. Þá kemur bara meðaumkunarbros í munnvikið og jafnvel bæði á þessum mönnum, hvers konar vitleysa sé þarna á ferðinni. Það má sem sagt ekki minnast á nokkurn skapaðan hlut annan en að það eina, sem rétt sé að gera, sé að fara í nýja kollsteypu með nýrri gengisfellingu. Það er ekki von að vel fari, þegar menn geta ekki einu sinni hlustað á þegar verið er að reyna að rökstyðja aðrar leiðir heldur en þessa vitlausu leið, sem allir vita að er vitlaus vegna þess að hún hefur alltaf mistekist.

Herra forseti. Ég hef nú talað miklu lengur en ég ætlaði mér. En varla er hægt að skilja svo við þetta mál, að ekki sé minnst á eitthvað af því sem væri hægt að laga í þessu þjóðfélagi, þó að mér detti ekki í hug að ætla að setja á örfáum mínútum hér fram það sem gæti kallast ný kenning eða ný hagfræði, Það er nóg af þessari lærðu hagfræði komið til okkar á undanförnum vikum. En ég held að það megi vera augljóst mál, að í svo litlu þjóðfélagi, með liðlega 200 þús. íbúum, þar sem kannske innan við helmingurinn er vinnandi eða kannske liðlega helmingurinn, þar er yfirbyggingin á þjóðfélaginu orðin allt of stór. Ég held að það sé ljóst, bara ef maður vill sjá það. Það væri gaman að athuga hversu marga menn þarf í verslun í útlöndum á hverjar 100 þúsund hræður. Ætli þeir séu ekki mörgum sinnum færri en hér gerist? Auðvitað þurfa þeir að vera fleiri hér, vegna þess að landið er stórt og byggðin dreifð, en þeir þurfa ekki að vera mörgum sinnum fleiri en gerist annars staðar, Það er ekki nokkur vafi á því, að það er hægt að komast af með færri innflytjendur í landinu heldur en á milli 1 og 2 þúsund. Það er þó vitað mál og upplýst úr opinberum plöggum, að það eru milli 1500 og 2000 manns á Íslandi sem fá umboðslaun fyrir innflutning. Það af þessum umboðslaunum, sem skilar sér til banka, er meira en 2.5 milljarðar kr. og dugar til að borga 1500 verkamönnum kaup, umboðslaunin ein. Það eru margir fleiri í þjóðfélaginu, sem geta skammtað sér kaup, heldur en þessir menn og það riflegt, og það þarf enginn að segja mér að nú verði þeir fyrir kjaraskerðingu sem þannig stendur á um. Þeir fá kauphækkun þegar almenningur verður fyrir kjaraskerðingu.

Ég er alveg sannfærður um það, að eins og það eru alltof margir sem stunda þessa iðju, að flytja inn vörur til landsins, þá eru einnig allt of margir, sem eru að gutla í smásöluverslun hér á Íslandi. Það mætti svo sannarlega fækka um mjög margt fólk í þessum greinum. Við vitum að starfsmenn banka, sparisjóða og allra sjóða í landinu eru næstum eins margir og þeir sem stunda sjó hér á Íslandi. Það þarf enginn að segja mér að það þurfi svo margt fólk til að sinna þessum verkefnum. Við erum með sjö banka. Ég er viss um, að okkur dygðu tveir. Og það bankamálafrv., sem hv. 2. þm. Austurl. hefur nú lagt fram, er svo sannarlega spor í áttina, en þó ekki nálægt því nóg. Að mínum dómi væri hægt að fækka þarna um geysilega margt fólk og nota það húsnæði, sem losnaði við það, til þess að koma í veg fyrir að þurfa að byggja á næstu árum skrifstofuhúsnæði af þessu tagi í landinu.

Það er ofvöxtur í alls konar stofnunum hér í þjóðfélaginu. Það er ofvöxtur að mínum dómi í Framkvæmdastofnun, sem sendir frá sér fleiri bækur á ári en Halldór Laxness hefur gert alla sína ævi, um alls konar fræði, athuganir og áætlanir, sem síðan fara yfirleitt beint í ruslakörfuna. Þessi stofnun er að mínum dómi orðin alltof stór, svo að ekki sé talað um Seðlabankann með hátt á annað hundrað manns í vinnu. Það eru 20 tryggingafélög í landinu í staðinn fyrir að við gætum með sóma komist af með eins og þrjú stykki. Þarna er yfirfjárfest og þarna er allt of margt fólk að störfum. Og þegar allt er lagt saman, það hef ég að vísu ekki gert, þá er ég sannfærður um að þarna eru þúsundir manna í vinnu sem gæti verið leyst af hendi hjá öðrum án þess að það sæist högg á vatni, það þyrfti að bæta við sig nokkurri yfirvinnu. Það eru sem sagt mörg þúsund manns í vinnu í þessu landi sem taka kaup í peningum fyrir að gera í rauninni ekki neitt. Það er auðvitað að puða, þetta blessað fólk, allan daginn, en miklu færri gætu séð um þetta. Það kaup, sem þessu fólki er borgað, skapar hluta af umframeftirspurn, eins og það er kallað, og bak við þessa peninga er ekki framleiðsla og ekki raunveruleg verðmæti, en fyrir þá er samt hægt að kaupa dollara og gull. Þarna er einn þátturinn af umframeftirspurninni og einnig hjá þeim aðilum sem ég nefndi áðan og væri hægt að draga mikið úr.

Það er að mínum dómi háskaleg stefna að kaupa ár eftir ár sífellt miklu meira frá útlöndum heldur en við getum borgað með okkar framleiðslu. Þarna þarf vissulega að taka í taumana. En þá koma upp menn og segja: Þá koma biðraðirnar og skömmtunarseðlarnir o. s. frv. Ég held að þess þurfi ekki. Við getum bara ósköp einfaldlega sagt: Við kaupum bara meðan við eigum peninga fyrir því, en ekki lengur. Það dugar ekki um áraraðir að kaupa fyrir gífurlegar upphæðir meira en við eigum sjálfir af peningum og safna þar með skuldum erlendis til eyðslu innanlands.

Það mætti auðvitað nefna mörg dæmi um það, hversu vitlaust við höfum fjárfest í þessu landi. Það sér hver maður og er enginn ágreiningur um auðvitað, að hér hefur fjárfesting verið óhóflega mikil og fjárfesting í þjóðfélaginu í heild nemur nú á þessu ári á annað hundrað milljarða kr. Þetta er allt of mikið að mínum dómi. Og mikið af þessari fjárfestingu er fjárfesting sem skilar ekki neinum arði. Hlutfallið á milli arðbærrar og óarðbærrar fjárfestingar í landinu er hér öfugt við það sem alls staðar annars staðar gerist. Það getur varla verið að svo klókir peningamenn eins og t. d. Vestur-Þjóðverjar og aðrir slíkir, þar sem þetta hlutfall er þveröfugt, hafi rangt fyrir sér, eins og þeim gengur þó þokkalega í sínum efnahagsmálum, Ég tel að þarna þurfi að snúa blaðinu við, ekki aðeins í sambandi við þessi fjárfestingarmál, heldur að snúa við hlutfallinu milli þess vinnuafls, sem er í þjónustugreinum, og þess vinnuafls, sem er í framleiðslugreinum. Á næstu árum þurfum við að leggja vaxandi áherslu á það og nota sífellt meira fjármagn til þess að láta í þær greinar, sem skapa okkur verðmæti, og til þess að efla framleiðslugreinarnar í landinu.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð miklu fleiri. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð miklu fleiri. Ég vil þó að lokum segja það, að þó um það megi deila nú, hvaða aðferð hafi verið best að nota í sambandi við þá röskun sem hefur orðið í hagkerfinu nú á síðustu mánuðum, þá tel ég að þessi gengislækkunarleið, sem við höfum fylgt allt of lengi., sé röng og við séum aðeins einu sinni enn að endurtaka það sem hefur sannast að dugar ekki. Það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn, eins og þar stendur, og þess vegna mun ég leggja til að þetta frv. verði fellt.