13.02.1978
Neðri deild: 55. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2334 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Í sjálfu sér væri eðlilegt, miðað við önnur viðbrögð þeirra sem teljast til stuðningsmanna ríkisstj., að gera ekki annað hér en að þegja í stað þess að svara persónulegum spurningum sem til mín var beint af hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, hv. 8. landsk. þm. En þar sem búið er að ræða þetta mál svo vítt og breitt sem raun ber vitni um hér í þingsalnum, þá sé ég í sjálfu sér ekki ástæðu til annars en að taka nokkurn þátt í þeim umr., m. a. vegna þess, að við erum búnir að sjálfsögðu að ræða þetta fram og aftur í þingflokkum stjórnarflokkanna, og einnig vegna þess, að ég er á margan hátt og í mörgum atriðum sammála þeim hv. þm. sem hafa talað hér úr röðum stjórnarandstöðunnar, t. d. hv. síðasta ræðumanni, sem benti réttilega á að það væri ansi hart við það að búa, ekki ár eftir ár og ekki stjórn eftir stjórn, heldur áratugum saman, að lausnir í efnahagsvanda gengju alltaf að lokum í eina átt, sem þó má kalla tvískipta, þ. e. til kaupbindingar eða kauplækkunar. Þessi staðreynd í sögu allra ríkisstj. hér á Íslandi minnir ósjálfrátt á söguna úr einræðisríkinu, hvar notuð var sú aðferð við aftökur að setja þá, sem átti að lífláta, í rafmagnsstól. Einn sat í slíkum stól og beið aftöku sinnar þegar aftökumeistarinn kom til hans og sagði við hann: „Við ætlum að sjálfsögðu að veita þér þína síðustu ósk. Hvort viltu riðstraum eða jafnstraum?“ Það má segja, að verkalýðshreyfingin íslenska hafi oft staðið frammi fyrir því að svara þessari spurningu: Viltu jafnstraum eða riðstraum?

Andstæðan við þetta er svo aftur á móti fullyrðingar þessara sömu manna hér í nótt um það, að þeir hafi lagt fram till., og vitna til þeirra og annarra tillagna sinna eins og þar sé um að ræða gagnverkandi júdóbrögð í efnahagsmálum. Nú kemur það fram skýrt og skorinort, að það, sem vitnað er til, hafi verið sett fram sem dæmi um „hugsanleg úrræði til þess að hamla gegn verðbólgu á þessu ári“, eins og segir orðrétt í því nál. verðbólgunefndar sem okkur var afhent fyrir nokkru. Og allar þær leiðir, sem þar er bent á, eru aðeins bráðabirgðaleiðir. Í þeim öllum felst einhver skerðing kaupmáttar. Í þeim öllum felst líka einhver gengislækkun. Þessar fjórar leiðir, sem getið er um á bls. 10, þar er valinn úr öllum till, einhver lítill hluti og farin svokölluð málamiðlunarleið. Stjórnarandstaðan hefur ekki komið með neinar till. til frambúðarlausnar þess vanda sem við er að glíma og hefur verið glímt við hér á Íslandi í sambandi við verðbólguvandamálin. Það má helst heita að það hafi komið frá hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni, sem benti á fimm atriði sem hann teldi nauðsynlegt að koma í framkvæmd til þess að ráðast gegn eða leggja grunn að hjöðnun verðbólgu á næstu 2–3 árum, þ. á m. var eitt atriði um að gera þyrfti enn ítarlegri þjóðhags- og framkvæmdaáætlanir en gerðar hefðu verið á undanförnum árum og áratugum. Hvernig lýsti hv. síðasti ræðumaður, Garðar Sigurðsson, slíkri áætlunargerð? Hann sagði að Framkvæmdastofnunin og Seðlabankinn, að mér skildist einnig, hauguðu upp slíkum skýrslum og áætlunum, sem væru ekki til annars en að setja á sorphaugana, og benti sérstaklega á til samanburðar við mikilvirkni í þessu efni hjá Framkvæmdastofnuninni afköst Nóbelsskáldsins.

Það mætti auðvitað ræða ítarlega eitt og annað, sem hér hefur verið sagt í kvöld, og finna að því, miðað við það að ég er enn þá stjórnarstuðningsmaður, þótt ég styðji að sjálfsögðu ekki núv. ríkisstj. í öllum málum og muni ekki gera nú að öllu leyti frekar en oft áður. Hins vegar finnst mér nokkuð stórt upp í sig tekið þegar hv. þm., formaður Alþfl., Benedikt Gröndal, fer að bera okkur á brýn, þm. í stjórnarstuðningsflokkunum, að við höfum haft fyrirskipun um að halda kjafti, eins og hann orðaði það svo kurteislega. Nú minnist ég þess vel, þegar við sátum hér saman á hinum góðu, gömlu viðreisnarárum, að við supum þá marga fjöruna saman og hann var þá ekki alltaf með tvo utanborðsmótora í munnvikunum þegar þurfti að tala um efnahagsmál eða aðgerðir gegn verkalýðshreyfingunni, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson var með hér áðan. Hann gat vel haft sinn rennilás í lagi þá eins og við teljumst hafa nú.

Þeir hv. stjórnarandstæðinga, sem hér hafa talað í kvöld, eru að mínu mati allir gegnir og góðir menn. Hins vegar eru meðal þeirra þeir sem kannske koma hvað mestu óorði á Alþ., ekki vegna kaupupphæðar alþm., heldur vegna dómadagsumr. eins og hér hafa átt sér stað við þessa umr. Ég endurtek: þetta eru hinir gegnustu menn þegar þeir eru búnir að skera af sér þá pólitísku kryppu sem þeir bera hér í þingsölum. Ég endurtek enn: þetta eru menn sem sjálfsagt vilja vel, ég er ekki í nokkrum vafa um það. En þeir eru hins vegar, því miður, of oft á rangri leið. Það er t. d. eftirtektarvert, að hér er talin hin versta goðgá að staldra við á óheillabraut, sem við hljótum að vera komnir á þegar kaupgjald hækkar á einu ári í jafnmiklum mæli og raun ber vitni um. Nú ætla ég ekki að fara að kenna einum eða neinum um af hverju það hafi verið. Það átti sína orsök af hverju var sótt eftir svona mikilli kauphækkun. Það var m. a. vegna hinnar gegndarlausu verðbólgu sem á undan var gengin. Það var ein ástæðan. En það sjá auðvitað allir, að þegar stjórn jafnaðarmanna í Bretlandi setur algert bann við að fram úr 10% kauphækkun sé farið, m. a. með þeim afleiðingum sem við höfum lesið um og fylgst með í sambandi við slökkviliðsmennina í Bretlandi, meðan þeir þar telja sig þurfa að staldra við 10%, þá þarf ekki að undra þótt hér yrði staldrað við þegar hún er komin yfir 70%o hjá stórum hópi launþega. Hér er gerð nokkur gengisfelling til þess að ráða fram úr brýnum vanda sem við höfum staðið frammi fyrir á nýliðnum vikum og mánuðum og fram undan er hjá okkur ef ekki er að gert, og þótt nokkur gengisfelling fari þar með og því miður sé farið eftir gömlum leiðum, þá höfum við það fyrir okkur sem gert er hjá jafnaðarmannastjórnum í nágrannalöndum okkar. Þær telja sér nauðsynlegt að fella gengið, nú síðast í Noregi um 8%. Við höfum verið lausir við áhyggjur vegna atvinnuleysis og höfum vafalaust haft nokkra aukningu verðbólgu vegna þess. Hér hefur verið of mikið gert í því að gefa lausan taum til fjárfestingar. M. a. hefur það verið gert af ásettu ráði til þess að halda uppí fullri atvinnu. En við höfum ekki þurft, guði sé lof, að glíma við þetta vandamál hér á landi, og ég óska engum þess, að til þess þurfi að koma. Ég minnist þeirra ára úr minni barnæsku og frá unglingsárum, þegar sá voði hvíldi yfir alþýðuheimilum hér í Reykjavík og víðar og ég þekkti þá til. Alþfl.- forsrh. í Danmörku stendur frammi fyrir þessu vandamáli. Hann hefur ekki getað náð verðbólgunni niður hjá sér, og hann býr líka við bullandi atvinnuleysi. Helsta ráð hans í dag eða till. eru um það, að tíundu hverja viku taki þeir, sem vinnu hafa, atvinnuleysið á sínar herðar til þess að aðrir komist að.

Við erum ekki neitt einsdæmi hér á Íslandi að búa við verðbólguvandamál. Og við skulum hafa það líka í huga, að okkar vandamál eru fljótari að koma upp og verða okkur erfiðari vegna þess, hvað við búum við einhæfan atvinnuveg — ég segi hiklaust: einhæfan atvinnuveg, og á þá að sjálfsögðu við þann atvinnuveg sem stendur að mestu undir okkar gjaldeyristekjum.

Það eru vissulega atriði, sem hafa komið hér fram, sem ég tel nauðsynlegt að ríkisstj. komi með svör við áður en þetta mál fer út úr þinginu. Þ. á m. er sú spurning sem beint var til hæstv. menntmrh. frá hv. þm. Gils Guðmundssyni um þá námsmenn okkar sem stunda nám erlendis. Ég þykist sjá og hef reyndar fylgst með því við undirbúning þessa máls, að ríkisstj. hefur leitast við að láta þær aðgerðir, sem þarf að gera núna, nauðsynlegu aðgerðir að hennar og okkar mati — og reyndar að allra mati koma sem réttlátast niður á alla aðila og létta undir með þeim sem verst standa í okkar þjóðfélagi. Það er enginn vafi á því, að það er réttilega á það bent af hv. þm. Gils Guðmundssyni, að þessir aðilar, sem stunda nám erlendis og þurfa fé að heiman til þess, lenda í vissum erfiðleikum sem verður að reyna að koma á móti og létta undir með. Og ég tel að fleiri dæmi eigi eftir að koma upp á yfirborðið sem þurfi að líta til.

Hv. síðasti ræðumaður minntist nokkuð á fiskverðshækkunina, — fiskverðshækkun sem ekki var skömmtuð af ríkisstj., heldur fiskverðhækkun sem var samþykkt af fulltrúum sjómanna og útgerðarmanna ásamt oddamanni. Það má ekki gleyma því, og hann verður líka að muna það, vegna þess að hann er sanngjarn maður og réttsýnu eins og hann á flokk til að bera, ef ég mætti orða það þannig, hann verður að hafa það í huga, að það er öðruvísi farið nú með íslenska fiskimenn heldur en oft áður. Þegar áður fyrr þurfti að gera efnahagsaðgerðir, þá var það oft og tíðum gert einmitt í þann mund sem að íslenskum fiskimönnum var komið. Þá var skorið á hnútinn og aðgerðirnar gerðar. En það var þó með harðfylgni séð svo um núna, og ég þakka það mest hæstv, sjútvrh., og reyndar allri ríkisstj., ríkisstj. samþykkti í heild að fiskverð yrði að hækka til þess að fiskimenn kæmust til jafns við þá sem hefðu á undanförnum missirum fengið launahækkanir. Ég nenni ekki að fara að rifja upp fyrir hv. þm. Garðari Sigurðssyni sögu fiskverðshækkunar á liðnum árum og ekki heldur fyrir þá hv. þm. Alþfl., sem hér hafa talað í kvöld. Kannske hefði mátt rifja upp nokkur dæmi frá viðreisnarárunum fyrir hv. núv. formann Alþfl. Hefði þar satt að segja verið af ýmsu að taka. Þeir Alþfl: menn þekkja þetta eins og margt annað, sem er efni í nokkur ævintýri ef sett væri á skrá það sem þá skeði og allt sem þá var gert, þótt öðruvísi sé talað í dag heldur en þá.

Það kom fram hjá hv. 8. landsk. þm., sem beindi nokkrum spurningum til mín og hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar, eins og reyndar öllum öðrum þm. sem hér hafa talað í kvöld, að það væri við mikinn vanda í efnahagsmálum að etja og það hefðu komið fram nokkrir valkostir. Hins vegar kom ekki fram hjá neinum þeirra að um væri að velja einhverja frambúðarlausn. Áður en ég kem að því er kannske rétt að koma að þessari undarlegu hugvekju sem hann kom inn á áður en hann stillti mér upp við vegg og fór að leggja spurningar fyrir mig, — þessari undarlegu hugvekju um að afturhaldsöflin í Reykjavík væru farin að eflast og þá sérstaklega í Sjálfstfl., sem m. a. hefði haft það í för með sér, að tveimur af þm. Sjálfstfl., og þar var átt við mig og hv. þm. Guðmund H. Garðarsson, sem værum með uppruna okkar og meginhluta starfs innan íslenskrar launþegahreyfingar, okkur hefði verið skipað til sætis á lista í prófkjöri Sjálfstfl. af þessum sömu afturhaldsöflum. Það er afskaplega fróðlegt að fá að heyra þetta mat þessa hv. þm., sem sjálfsagt á eftir í framtíðinni að mynda ríkisstj. fyrir Alþfl., sem guð forði okkur vonandi frá. En við skulum hafa í huga að það ganga mjög háværar sögur í Reykjavík um að þau hin sömu öfl, sem skipuðu okkur í þessi lágu sæti, hafi m. a. komið hans hv. nýkjörna formanni í sitt sæti hér í Reykjavík, sem hann skipar í dag, og um leið hinum nýja fulltrúa borgaranna, Vilmundi Gylfasyni, í það sæti sem hann mun skipa á þinglistanum í næstu kosningum, þannig að þau virðast eiga víðar innangengt, þessi afturhaldsöfl, heldur en í Framsfl. og Sjálfstfl. hér í Reykjavík. (SighB: Telur hv. þm. þetta sennilegt?) Við skulum ekki ræða um hvað ég tel sennilegt, en hins vegar vitum við hvað út úr þessu kom. M. a. kom það, að við héngum á lista, ég og Guðmundur H. Garðarsson, en síðustu tengsl reykvíska Alþfl. á Alþ. í gegnum launþegahreyfinguna — það var skorið á þau í þessu sama prófkjöri hjá Alþfl. (SighB: Það er mesti misskilningur, Við eigum fulltrúa —) Ég veit að hv. þm. og hv. formaður Alþfl. telja sig standa föstum fótum í jötu íslenskrar verkalýðshreyfingar, þeir hafa gert það frá fyrstu tíð, enda hafa verkin þeirra sýnt það. Hins vegar hef ég grun um að sárindi þm., sem taka upp þykkju annarra sem utan þings standa, séu m. a. komin til vegna þess að það sé verið að stiga sömu spor og þeir ætluðu sér að stiga, en höfðu ekki þrek eða getu til vegna þess að þeir nutu ekki trausts til þess lengur en raun ber vitni um, og er ég þá að tala um síðustu vinstri stjórn og einstaklinga þar.

Um frv. það til l., sem hér liggur fyrir um ráðstafanir í efnahagsmálum, má segja um 3. gr. frv., sem mönnum hefur orðið til mikilla umr. og útlegginga og fsp., m. a. til mín, að þar sé verið að benda á leið sem geti verið hluti aðgerða að mínu mati — aðeins hluti aðgerða til þess að vinna gegn verðbólguþróuninni í framtíðinni. Um leið og ég svara þessari fsp., sem til mín kom, vil ég segja það, að ég tel að á þessum stað og á þessum tíma hafi þessi tillögugerð ekkert þarna að gera og alls ekki eins og hún er orðuð. Ég hefði talið algert lágmark, að með þessu orðalagi, sem í 3. gr. er, hefði komið fram sú staðreynd, að til viðbótar kæmu ákvæði um niðurgreiðslur vöruverðs, vegna þess að niðurgreiðslur vöruverðs eru óbeinn skattur, neikvæður. Þetta eru tveir hlutir á sama meiði. Og þótt ég óttist ekki að núv. hæstv. ríkisstj. noti sér það að hækka óbeina skatta, eftir að þetta væri orðið að lögum, og um leið að nota það fé, sem þá sparaðist, til þess að greiða niður t. d. landbúnaðarvörur, þá er ekki þar með sagt að það verði ekki aðrir menn við völd eftir næstu kosningar sem gætu beitt þessu. Þess vegna tel ég ákaflega varasamt að vera með þetta eitt sér og hefði talið að það hefði þurft að vera viðtækara. Þar að auki tel ég að það eigi alls ekki að standa á þessum stað. Þetta er kosningastefnumarkmið, að mínu mati, sem tveir stærstu flokkarnir eru sammála um að gera skuli, ekki vegna þess að þeir séu að gefa yfirlýsingu um að þeir ætli að vinna saman eftir kosningar, heldur, eins og þegar hefur komið fram hjá hæstv. forsrh., að þeir séu að undirgangast þá skyldu sína eftir kosningar, verandi stærstu stjórnmálaflokkar þjóðarinnar enn þá og að öllum líkindum eftir kosningar, skulum við vona, — þeir undirgangast þá skyldu hvor um sig eða báðir eða með fleirum að fara þessa eða skyldar leiðir. Og það er enginn vafi á því — það verðum við að viðurkenna — að uppskurður á öllu vísitölukerfinu er nauðsynlegur. En ég er hjartanlega sammála þeim, sem hér hafa talað, um að við eigum ekki að gera það á þennan hátt, að samþykkja það með meiri hl. atkv. hér á Alþ., þegar við þurfum ekki á því að halda og meðan við erum að gera bráðabirgðaráðstafanir til að komast út úr ríkjandi vanda. Persónulega hefði ég óskað eftir að þetta hefði komið sem sérstakur kafli í frv., þetta og fleiri atriði sem hefðu verið stefnumarkandi hjá ríkisstj. og báðir flokkarnir saman eða hvor um sig í næstu kosningum hefðu notað fyrir kjósendur sína og sagt þeim hreinskilnislega að þessa leið vildu þeir fara. Ég get því svarað hv. þm. því, að á móti þessari 3. gr., eins og hún er í frv., mun ég greiða atkv. Ég mun greiða atkv. gegn 3. gr. Að vísu er komið nokkuð á móti skoðunum mínum í sambandi við niðurgreiðslu vöruverðs í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. og reyndar var það útskýrt af hv. frsm. n., hv. þm. Ólafi G. Einarssyni. En með leyfi forseta segir í þessu nál.:

„Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþykkt, en tekur fram, að rétt sé að fela Kauplagsnefnd að meta sérstaklega þátt niðurgreiðslna í vöruverði, svo og aðra þætti í tengslum við óbeina skatta:

Þetta er gott, svo langt sem það nær, en ég hefði gjarnan viljað hafa þetta í lagagr. sjálfri. Þetta var sú fsp. sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson lagði fyrir mig. Hann spurði jafnframt, hvort hér væri um yfirlýsingu um samvinnu að ræða. Fyrir mig persónulega get ég líka sagt það, en það má vera að til mín verði ekki leitað um það atriði, vegna þess að ég eigi kannske ekki afturkvæmt á þing eftir næstu kosningar, en alla vega vænti ég þess, að mér auðnist að koma vini mínum Guðmundi H. Garðarssyni inn, og við erum nokkuð sammála í þessu máli, þannig að hann mun þá geta svarað fyrir okkur báða þar um, að við erum ekki reiðubúnir til að lýsa því yfir, að við ætlum að vinna með þessum eða öðrum stjórnmálaflokki að þessum kosningum loknum. Ég geri ekki ráð fyrir að neinn af ráðh. Sjálfstfl. í ríkisstj. hafi nokkurn tíma látið það á sér heyra eða vilji gera það að svo stöddu. Mitt persónulega mat á þessu er það, að ég álít að sá vandi, sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir í efnahagsmálum og reyndar á fleiri sviðum, sé svo geigvænlegur að það þurfi fleiri til en tvo stærstu flokka þjóðarinnar, þótt þeir hafi mikinn og góðan þingmeirihl., það þurfi að fara viðar og á fleiri vígstöðvar til þess að leita að þeim vopnum sem við þurfum að brynja okkur með og brýna til þess að sigrast á verðbólguvandanum. Reyndar er þetta búin að vera skoðun mín frá því að umr. um síðustu stjórnarmyndun fóru fram, og það hefur aldrei verið nein launung hjá mér um þetta.

Hitt er svo annað mál, að vera má að ekki sé geðfellt fyrir ríkisstj., sem vill eiga samstarf og býður samstarf, að standa og bíða eftir því að menn komi, þótt boðnir séu, sérstaklega þó ekki eftir að þeir skella hurðum á menn þegar boðið er til upplýsinga og viðræðna um ákveðna hluti. Ég er hins vegar því fylgjandi og hef alltaf verið því fylgjandi, að það eigi að reyna til hins ítrasta að ná samkomulagi við þýðingarmikil samtök vinnumarkaðarins og það hljóti að vera til hins betra að reyna það. Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því, að það getur komið fyrir og hefur margoft komið fyrir, að slíkar samkomulagsumleitanir hafi ekki borið árangur. Þá verða stjórnvöld að sjálfsögðu að fara þá hina skynsamlegustu leið sem þeir telja. En enginn þarf að segja mér að stjórnarflokkarnir og forustumenn stjórnarflokkanna séu nú, skömmu fyrir kosningar, að gera sér einhvern sérstakan leik að því að stofna til ófriðar við tvenn þýðingarmikil samtök launþega. Ég hef a. m. k. ekki þá þekkingu til að bera, að ég væni neinn ráðh. núv. hæstv. ríkisstj. um neitt slíkt og reyndar engan einstakan þm. í stjórnarliðinu heldur. Og þótt menn tali hér í hita umr. þannig, að helst megi skilja sem hálfgildings hótanir um að ákveðnir þm. ætli að beita sér fyrir utan þings að fastar verði tekið á en ætla mætti að þörf væri á, þá hef ég ekki trú á því, að sú verði raunin á, þó að sumir gætu skilið orð þeirra á þann veg.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til lengri ræðu, enda held ég að ég hafi svarað þeim persónulegu spurningum sem var beint til mín, og ég hef látið koma fram nokkra skoðun á málinu sjálfu. Ég tel að að frágenginni þessari umræddu 3, gr. frv. sé með frv. sjálfu verið að leysa brýnan vanda sem við stöndum frammi fyrir. Ég sakna þess hins vegar í þessu frv., vegna þess að í 3. gr. er nokkur vísir að því að menn vilji líta á sjálft vandamálið, að það skuli þá ekki vera gengið hreinna til verks og jafnvel einum kafla frv. offrað til þess að koma því til hv. kjósenda og þá sérstaklega til þeirra sem þetta varðar hvað mest, sem er íslensk verkalýðshreyfing, að þeim sé þá boðið að taka þátt í endurskoðun nauðsynlegs uppskurðar á þessu kerfi sem við búum við, enda eiga þessi ákvæði ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót. Hins vegar má segja að það sé nægur tími til þess, vegna þess að samningar Alþýðusambandsfélaganna renna út á þessu hausti og þá að sjálfsögðu, ef þessi frvgr. verður samþykkt, munu þau félög, sem þá ganga til samninga, taka einmitt þetta ákvæði til umræðu og viðræðna við samningsaðila sína. En þá stendur eftir sá galli, sem hér hefur verið bent á, að samningar BSRB gilda lengur. En ég hef enga trú á, eins og ég sagði áðan, að það sé verið að reyna að eltast við neinn fram yfir annan til þess að valda neinum skaða, sbr. hvað gert var að þessu sinni í sambandi við fiskverð sjómanna, heldur öfugt, að það sé verið að reyna að jafna byrðunum sem jafnast niður. Þá hef ég ekki trú á því, að ef hægt væri að ná samkomulagi við félög Alþýðusambandsins á komandi hausti um skynsamlegar aðgerðir, skynsamlega samninga, þar sem tekið væri tillit til nauðsynlegs uppskurðar á öllu vísitölukerfinu og verðbótakerfinu okkar hér heima, að opinberir starfsmenn mundu verða látnir sitja eftir.

Það er auðvitað ekki hægt að halda því fram — og ég skal láta það vera mín lokaorð, — það er auðvitað ekki hægt að halda því fram með neinum drengskap, að um sé að ræða bein svik ríkisstj, við þessi þýðingarmiklu launþegasamtök þótt til þessara aðgerða þurfi að gripa, eins og allar stjórnir hafa þurft að grípa á undanförnum áratugum. Það er ekki hægt að segja það, hafandi í huga að ríkisstj. varaði við og benti á hvað langt mætti fara og hvað hún treysti sér til þess að ganga í sambandi við þá samninga sem gerðir voru á s. l. ári. Það var margbent á þetta og aðvarað. Og hver segir að hægt hafi verið að stöðva eða gera eitthvað annað betra en gert var á s. l. hausti til að ná samkomulagi við opinbera starfsmenn undir þeirri nauðung, sem óneitanlega er þegar verið er í verkfalli? Ég efa að nokkur annar hefði getað gert það betur eða á annan hátt.