25.10.1977
Sameinað þing: 9. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

4. mál, kosningalög

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Hv. þm. Ellert B. Schram rifjaði það upp í ræðu sinni áðan að 17 þm. Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis, allir þm. þessara kjördæma, hygg ég, nema einn, hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, hefðu flutt till. um jöfnun kosningarréttar á síðasta þingi. Hann lét þess jafnframt getið að till. hefði upphaflega einnig verið um persónukjör, en þau skilaboð hefðu komið frá þingflokki Alþb. að hann gæti ekki fylgt persónukjöri og því hefði það verið tekið út úr till. Hér gætir nokkurs misskilnings hjá hv. ræðumanni. Það voru ekki tilmæli frá þingflokknum. Sannleikurinn er einfaldlega sá, að þeir þm. Reykjavíkur og Reyknesinga úr flokki Alþb., sem voru með flm. þessarar umræddu till., voru ekki á því stigi reiðubúnir að taka afstöðu til síðari hluta till., þ.e.a.s. persónukjörs, en vildu ekki tefja það, að till. um jöfnun kosningarréttar kæmi fram, og fóru þess vegna fram á að till, fjallaði um það eitt. Ég vona að ég hafi gert þetta ljóst og að hv. þm. Ellert B. Schram muni það kannske ef hann rifjar það upp, að ég lét þessi orð falla við bann í fyrravor.

Það hefur allmikið verið rætt um það nú að undanförnu að tryggja bæri kjósendum aukið persónulegt val á frambjóðendum og í þeim tilgangi m.a. hefur Alþfl, tekið það upp í flokkslög sín að opið prófkjör skuli fara fram. Jafnframt þessu hefur hann rekið mikinn áróður fyrir þessu opna prófkjöri sínu og jafnvel látið þau orð falla, að þeir stjórnmálaflokkar, sem ekki fylgdu þar honum að málum, væru andlýðræðislegir og vildu láta fámennar klíkur ráða framboði, eins og oft hefur mátt lesa í málgagni flokksins og heyra í málflutningi þeirra hér á Alþingi.

Nú vil ég varpa fram þeirri spurningu um opið prófkjör, eins og Alþfl. tíðkar það og hefur sett reglur um, hvort það feli í raun og veru í sér aukið lýðræði. Ég svara þessu neitandi, og ég geng svo langt að segja að þær reglur, sem Alþfl. hefur sett, séu tilræði við lýðræði, þetta séu veilur í lýðræðinu. Alþfl. gefur öllum nema þeim, sem flokksbundnir eru í öðrum flokkum, kost á að taka þátt í prófkjöri og ráða vali frambjóðenda á listum sínum. Þetta hefur það í för með sér, að viss hópur manna í þjóðfélaginu fær meiri áhrif á kosningar en aðrir hópar. Þeir, sem ekki eru flokksbundnir, fá með þessu móti tækifæri bæði til þess að ráða listum hjá einum flokki og svo að ráða brautargengi annars flokks í hinum almennu kosningum, þ.e.a.s. áhrif viss hóps manna í þjóðfélaginu eru í rauninni margefld á við aðra. Þetta er sannarlega ekki lýðræði og ekki jafnrétti. Þetta kalla ég að sé að hafa óeðlilega mikil áhrif á almennar kosningar, ef við á annað borð trúum því, að það sé jafnrétti og lýðræði að einn maður hafi eitt atkv. og hvorki meira né minna.

Ein þeirra aðferða, sem við flm. þeirrar till., sem hér er til umr., bendum á, er sú að öllum kjósendum sé gert kleift að velja á milli frambjóðenda á þeim lista sem þeir kjósa. Allir, sem á annað borð kæra sig um að kjósa hafa hér sama rétt samdægurs. Það gilda sömu skilyrði og sömu aðstæður. Vissulega hlýtur þessi réttur að vera bundinn innan flokksrammans ef á að koma í veg fyrir það misvægi og þær veilur sem felast í prófkjöri Alþfl.

Hv. síðasti ræðumaður, Sigurlaug Bjarnadóttir, flutti hér Karvelsræðu áðan og hafði mörg orð um það að kosningarréttur — (Gripið fram í.) — ég hef heyrt hana áður með ýmiss konar blæbrigðum — að kosningarréttur væri ekki einu mannréttindin. Ég veit ekki til þess að nokkur hafi haldið því fram. En það gerir kannske ekkert til þó að þau haldi áfram að kyrja þetta yfir okkur. Það mótmælir því enginn, að það er fleira mannréttindi í þessu landi en kosningarréttur. Hinu verður hins vegar ekki breytt, að kosningarréttur er einn af hyrningarsteinum lýðræðis, það eru leikreglur, sem settar hafa verið til þess að tryggja jöfn áhrif í þjóðfélaginu, og ég hef ekki enn heyrt nein rök fyrir því, að þm. dreifbýlisins verði verri þm. þó að fólk á suðvesturhorni landsins fái jafnan rétt til áhrifa á kjördegi og aðrir landsmenn. Ég held að það jaðri við gjaldþrot og uppgjöf ef við getum ekki fundið aðrar leiðir til þess að tryggja jafnan rétt fólks úti á landi til heilsugæslu, skólagöngu og samgangna en að láta það hafa margfaldan kosningarrétt á við Reykvíkinga og Reyknesinga. Ég hef heyrt þessu misvægi kosningarréttar lýst svo, að ef 4 Vestfirðingar flyttu suður, þá misstu þrír þeirra kosningarréttinn. Ég fæ ekki séð að þetta séu mikil mannréttindi þeirra Vestfirðinga.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, en vegna lokaummæla hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur vil ég aðeins segja að Íslendingar hafa aldrei talið siðleysi verða réttlætanlegt við það að Bretar iðki það.