14.02.1978
Neðri deild: 57. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2353 í B-deild Alþingistíðinda. (1780)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Lúðvík Jósepsson:

Hæstv. forseti. Góðir hlustendur. Þá hafið þið heyrt skýringar hæstv. forsrh. á frv, ríkisstj. um ráðstafanir í efnahagsmálum. Ég hygg að það hafi ekki farið fram hjá neinum, sem á hlýddi, að uppistaðan í máli forsrh. voru afsakanir og viðbárur: Ráðstafanir í efnahagsmálum varð hann að gera til þess að tryggja rekstur atvinnuveganna. Og svo kom tal um það, að ekkert þjóðfélag þyldi 50–70% launahækkun á einu ári og að reynt væri að tryggja hagsmuni láglaunafólks og stefnt væri að því að kaupmáttur launa yrði svipaður og á s. l. ári. Hér er um lélegar skýringar forsrh. að ræða, skýringar sem ekki segja hálfan sannleika og ganga á svig við kjarna þess alvarlega máls sem hér er um að ræða.

Gengislækkunin, sem samþykkt var fyrir fáum dögum og veldur 14.9% hækkun á erlendum gjaldeyri eða um 15% verðhækkun á öllum innfluttum vörum, var aðeins formleg tilkynning um ákvörðun sem ríkisstj. hafði lokið fyrir mörgum mánuðum. Þegar í fjárlög fyrir árið 1978 voru til afgreiðslu í desembermánuði var upplýst af forstöðumanni Þjóðhagsstofnunar, að við útreikning á tekjum og gjöldum fjárl. væri reiknað með gengissigi sem næmi 1.5% á mánuði eða 18% á árinu. Gengislækkunarstefnan var valin snemma á árinu, þegar ríkisstj. neitaði aðilum vinnumarkaðarins um að veita svigrúm fyrir óhjákvæmilegum kauphækkunum sem þá voru að ganga yfir. Í stað þess þá að lækka skatta og skapa svigrúm hækkaði ríkisstj. enn skattaálögur með því m. a. að taka í ríkissjóð viðlagasjóðsgjaldið, olíugjaldið, hækka sjúkragjald og halda áfram 18% vörugjaldinu sem þó átti að lækka. 60–70% hækkun kauptaxta í krónum frá upphafi árs til loka þess varð ekki vegna þess að verklýðsfélögin hefðu krafist slíkrar krónutöluhækkunar. Þau sömdu aðeins um 8–9% kaupmáttaraukningu á árinu og um verðtryggingu gegn verðlagshækkunum. Það var verðhækkunarstefna ríkisstj. sem margfaldaði 8–9% kaupmáttaraukningu upp í 60–70% krónutöluhækkun kauptaxta sem nú er verið að tala um, og síðan leiddu allar þessar hækkunarráðstafanir til þess að gengið var fellt.

Það frv., sem hér liggur fyrir um ráðstafanir í efnahagsmálum, felur í sér eitt meginatriði. Öll önnur ákvæði frv. skipta litlu máli. Þetta meginatriði er að ákveða með lögum, að greiddar skulu aðeins hálfar vísitölubætur á laun, og þar með að rjúfa skuli alla þá kjarasamninga sem gerðir voru á s. l. ári. Ákvæði frv. um að dregið skuli nokkuð úr þessari kjaraskerðingu á lægstu launum skiptir sáralitlu máli, því að þar er tekjumarkið sett svo lágt að almennir kjarasamningar gera ekki ráð fyrir svo lágum tekjum. Samkv. ákvæðum frv. er við það miðað, að kaupmáttur meðalkauptaxta verkafólks lækki um 10–12% frá því sem verið hefur í upphafi þessa árs. Þetta þýðir í reynd, að kaup þess verkafólks, sem nú hefur 117 þús. kr. á mánuði fyrir fulla dagvinnu, á, þegar við það hefur bæst venjuleg yfirvinna eða vinnuálag, að lækka að raungildi um 10–12% frá því sem samningar gerðu ráð fyrir.

Þarna lá hundurinn grafinu að dómi ríkisstj. Þarna var að finna skýringuna á efnahagsvanda þjóðarinnar. Vandinn lá þá í því, að fólkið í frystihúsunum og fólkið sem vinnur í iðnaði, að hið vinnandi fólk hafði fengið of mikið í sinn hlut. Þetta hefur alltaf verið skýring íhaldsaflanna á öllum efnahagsvanda. Þetta er skýring atvinnurekenda og þetta er nú skýring Framsóknarforingjanna á þeim vanda sem við er að fást, Nú segja m. a. Framsóknarforingjarnir við bændur landsins, að skera verði niður umsamin kjör bænda um 10–12% eins og laun viðmiðunarstéttanna, vegna þess að laun bóndans eru tengd við laun verkamanna.

Sá vandi, sem við er að fást í íslenskum efnahagsmálum, er vissulega margslunginn. Við honum duga engin íhaldsúrræði. Á valdatíma núv. stjórnar hefur þessi vandi vaxið um allan helming. Hér skulu nefnd nokkur dæmi frá valdaferli stjórnarinnar.

Hún hefur lækkað gengið þrisvar sinnum formlega og auk þess notað gengissig miskunnarlaust. Afleiðingarnar eru að í hennar tíð hefur Bandaríkjadollar hækkað í verði um 156.7% og annar gjaldmiðill enn meir. Þetta þýðir að innfluttar vörur hafa hækkað af þessum ástæðum um 150–170% á rúmum þremur árum. Framfærsluvísitalan hefur hækkað um 214%, en það merkir, að verðlag hefur almennt meira en þrefaldast á stjórnartímanum. Erlendar skuldir hafa vaxið um tugi milljarða á hverju ári og námu orðið 130 milljörðum um síðustu áramót, og enn á að taka 20 milljarða lán á þessu ári samkv. þeim áætlunum sem ríkisstj. hefur sent frá sér. Ríkissjóður hefur verið rekinn með stórtapi þrátt fyrir marga nýja tekjustofna og stórhækkaða skattheimtu. Skuldaaukning ríkisins við Seðlabankann nemur 14 milljörðum í tíð núv. stjórnar. Vaxtagreiðslur ríkisins nema nú á ári samkv. fjárl. um 13 milljörðum kr. Viðskiptahallinn við útlönd reyndist rúmir 9 milljarðar á s. l. ári.

Þetta eru hrikalegar staðreyndir um óstjórnina í efnahagsmálum, ekki síst þegar það er haft í huga, að s. l. tvö ár hafa verið einstaklega hagstæð ár, metafli og síhækkandi verðlag á öllum útflutningsvörum. Afsakanir ríkisstj. á því, hvernig komið er, eru gersamlega haldlausar. Árið 1915 og árið 1976 og hálft árið 1977 fór kaupmáttur launa minnkandi. Þá var ekki hægt að kenna hækkandi kaupi um erfiðleikana og þá voru áhrifin frá erlendri verðhækkun með minnsta móti, en samt geisaði verðbólga hér og náði hámarki á árinu 1975.

Orsakir vandans liggja í rangri stjórnarstefnu. Gengislækkunarstefnan er röng. Verðhækkunarstefnan er röng. Stjórn á ríkisfjármálum hefur verið fráleit. Vaxtahækkunarstefnan hefur magnað vandann. Fjárfestingarstefnan hefur í rauninni verið óstjórn. Hún hefur leitt til tugmilljarða fjárfestingar sem engan arð hefur gefið, en krefst áfram mikilla útgjalda. Krafla er þar sorglegasta dæmið. Grundartangadæmið er þó enn þá vitlausara, enda jafngildir það þremur Kröflum að verðmæti og stefnir í milljóna taprekstur á hverju ári. Eyðslu- og fjársóunarstefnan hefur verið ríkjandi á stjórnarheimilinu. Ljóst dæmi þar um eru kaupin á Víðishúsinu, þar sem stefnt er til útgjalda í gömlum húshjalli fyrir um 700 millj. kr.

Það er athyglisvert í málflutningi þeirra, sem reyna að verja stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum, að efnislega vilja þeir ekki ræða um það, sem stjórnin hefur gert, né heldur árangur stefnunnar. Þess í stað grípa þeir til þess ráðs að segja að aðrir hafi gert þetta líka. Þannig geta þeir ekki varið hina hrikalegu skuldasöfnun við útlönd, ekki heldur sífelld rekstrartöp ríkissjóðs, ekki verðbólguna og ekki vaxtaokrið og ekki fjárfestingarafglöpin. Þess í stað segja þeir einvörðungu: Þið hafið líka lækkað gengið, þið hafið líka magnað verðbólguna og þið hafið líka breytt kjarasamningum. — Þessi málflutningur er lágkúrulegur í meira lagi, en auk þess oftast rangur eða villandi. Hámarki nær þessi lágkúra hjá framsóknarmönnum, sem ekki hika við að bera rangar sakir á vinstri stjórnina og þar með á sjálfa sig í þeim tilgangi að reyna að réttlæta þau skammarstrik sem þeir standa nú að í félagi við íhaldið.

Aðgerðir vinstri stjórnarinnar sumarið 1974, þegar vísitölubótum á laun var frestað með brbl. í tvo mánuði, voru gerólíkar þeim ráðstöfunum sem nú er verið að gera. Þá voru niðurgreiðslur stórauknar, verðlagshækkanir, sem áttu að ganga fram, voru stöðvaðar, þannig að launafólk tapaði þá ekki eyri við frestun vísitölubótanna í tvo mánuði. Frestunin þá var óhjákvæmileg vegna þess að þing hafði verið rofið og kosningar fóru fram.

Nú reyndi hæstv. forsrh. í máli sínu hér að láta orð liggja að því, að ég væri á móti verðtryggingu launa. Slíkt er vitanlega hreinn útúrsnúningur á orðum mínum. Það er engin þörf á því að laun æði upp eftir vísitölu, það er rétt. En til þess að það gerist ekki þarf að halda verðlaginu í skefjum, og um það snerust umr. árið 1974. Þá þurfti að gera ráðstafanir til þess að lækka verðlag, það þurfti að gera líka nú. Nú er hins vegar um beint rof ríkisstj. á nýgerðum launasamningum að ræða og um kaupskerðingu sem nemur 10–12% og það í einstöku góðæri.

Hlutur Framsfl. í þessum íhaldsaðgerðum öllum er þáttur út af fyrir sig. Það hefur orðið hlutverk Framsfl. í samstarfinu við íhaldið undanfarin ár að réttlæta sérstaklega mikinn niðurskurð verklegra framkvæmda, eins og niðurskurð til vegamála, niðurskurð til skólamála niðurskurð til hafnargerða og stórfelldan niðurskurð á framkvæmdafé til atvinnuuppbyggingar, eins og til þess að ljúka við byggingu fiskvinnslustöðva víðs vegar um landið. Á sama tíma hafa Framsóknarþm. hins vegar samþykkt, eftir því sem best verður séð með glöðu geði, stórfelldar fjárveitingar til hafnargerðarinnar á Grundartanga. Til slíkra hafnargerða hafa verið nægir peningar. Framsókn hefur líka samþykkt að fella niður framlög ríkisins til byggingar elliheimila og til rekstrar barnaheimila. Lög um að fella niður slíkan stuðning voru samþykkt þegar landsbyggðin var að hefjast handa um framkvæmdir á þessum sviðum.

Í tíð vinstri stjórnarinnar voru nefskattar til trygginganna lagðir niður. En nú hefur íhaldið pínt Framsókn til þess að leggja á sérstakt sjúkragjald og það á hina lægst launuðu, þannig að í reynd er nú endurvakið gamla skattgjaldið til sjúkratrygginganna. Hvað hefur Framsfl. gert í samstarfinu við íhaldið til þess að jafna aðstöðumun fólksins úti á landsbyggðinni? Hvað hefur ráðh. Framsóknar gert til þess að jafna símakostnaðinn? Því sem næst ekkert. Enn er raforkuverðið um 50% hærra úti á landi en á Landsvirkjunarsvæðinu. Og hvað hefur verið gert til þess að jafna flutningskostnað? Hreinlega ekkert. Enn er söluskattur lagður á öll flutningsgjöld, og nú hefur Ólafur Jóhannesson, formaður Framsfl., heimilað versluninni úti á landi að leggja verslunarálagninguna einnig ofan á flutningsgjöldin. Og Ólafur Jóhannesson og þm. Framsóknar hafa líka samþykkt að kröfu íhaldsins að taka meginhluta olíugjaldsins af fólkinu úti á landi, sem átti að fá gjaldið, og ráðstafa því til annarra.

Sífelldur vandi í efnahagsmálum er satt að segja að gera flesta landsmenn gersamlega ruglaða. Efnahagsaðgerðir eru gerðar einu sinni til tvisvar á ári. Gengið er lækkað eða látið síga. Ríkisstj. segist vera í stöðugum átökum við verðbólguna, en samt sækir verðbólgan alltaf á. Kaup er lækkað eða launasamningar rofnir, og allt kemur fyrir ekki. Vextir eru hækkaðir og látnir elta verðbólguna og þeir eru nú 25–30% algengast. Og vaxtagreiðslur — aðeins vaxtagreiðslur af nýrri íbúð í blokk eru orðnar um 100 þús. kr. á mánuði, ég endurtek: um 100 þús. kr. aðeins í vexti af umsömdum lánum á mánuði fyrir eina íbúð. Ég þó er talið að 117 þús. kr. á mánuði í kaup fyrir 8 klst. vinnu á dag fyrir þýðingarmestu störf í þjóðfélaginu séu of hátt kaup. Er nema von að hlutirnir séu farnir að snúast fyrir augum manna?

Við Alþb.-menn segjum að eina leiðin út úr þessu öngþveiti sé að breyta um stjórnarstefnu. Við leggjum til að lögð verði áhersla á aukna framleiðslu. Við getum auðveldlega framleitt meira en við gerum og verðmeiri vörur. En til þess þarf vinnuafl að leita í framleiðslustörf og fjármagni þjóðarinnar verður að heita til framleiðsluaukningar, þveröfugt við það sem nú er gert. Við Alþb: menn leggjum til að þegar í stað verði gert nokkurt átak til verðlagslækkunar. Um það höfum við gert till. í félagi við Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og aðra stjórnarandstöðuflokka. Við leggjum til að fjárfestingarmálin verði þegar í stað sett undir sterka stjórn og þannig reynt að koma í veg fyrir rangar fjárfestingar og óþarfa eyðslu. Við leggjum til að yfirbygging þjóðarbúsins verði minnkuð. Það á að fækka bönkum og stöðva útþenslu í bankakerfinu. Það á að fækka vátryggingarfélögum. Og okkur nægir að hafa aðeins eitt olíudreifingarfélag. Það verður líka að knýja fram sparnað í innflutningsversluninni og draga úr óþörfum milliliðakostnaði. Við leggjum til að rekstur ríkisbúsins verði líka tekinn til rækilegrar endurskoðunar með sparnað í huga, án þess þó að minnka félagslega þjónustu. Við leggjum til að verðlagseftirlitið verði gert virkara og hafi beinlínis hönd í bagga um að vörur séu keyptar til landsins á hagkvæmustu verði. Við Alþb.-menn höfnum erlendri stóriðju og virkjunarframkvæmdum þeirra vegna. Við leggjum áherslu á íslenska atvinnustefnu, á eflingu iðnaðar, ekki aðeins í orði, heldur á borði, á stóraukna framleiðslu úr sjávarafurðum og skynsamlega hagnýtingu þeirra möguleika sem íslenskur landbúnaður býr yfir.

Með því frv., sem hér liggur nú fyrir til umr., ætlar ríkisstj. að hlaupa frá þeim launasamningum sem hún lét fjmrh. sinn undirrita hátíðlega við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja fyrir rétt rúmum þremur mánuðum. Hún ætlar einnig að svíkja það samkomulag sem hún var aðili að við hin almennu verkalýðsfélög og gert var 22. júní í sumar. Ekkert hefur gerst í ytri aðstöðu þjóðarbúsins síðan þessir samningar voru gerðir sem réttlætt gæti þessar aðfarir. Þvert á móti hefur þjóðarframleiðslan orðið meiri en ráð var fyrir gert og þjóðartekjur hækkað meira en reiknað var með við samningsgerðina. Hér er því um siðlausa framkomu að ræða, ábyrgðarleysi og virðingarleysi fyrir því að halda gefin loforð og standa við skuldbindingar sínar.

Öll er framkoma ríkisstj. með eindæmum í þessu máli. Auk þess að rifta samningum og gera ráð fyrir 10–12% raunkaupslækkun leggur hún svo fram till. um að eftir 1. jan. n. k. skuli bæta með vísitölubótum á laun verðlagshækkanir sem verða vegna hækkana á söluskatti, tollum, vörugjaldi, bensínskatti og öðrum óheinum gjöldum. Ríkisstj. leggur m. ö. o. til að hún fái vald til að geta hækkað verðlag að vild án þess að launafólk fái bætur fyrir. Hún vill fá vald til að geta ógilt kjarasamninga hvenær sem hún telur ástæðu til.

Það þarf engan að undra, að samtök launafólks hafi brugðið hart við gegn þessum fyrirætlunum og þessum árásum á vinnandi fólk. Hér er í rauninni um sjálfan samningsrétt launafólks að ræða. Hér er um það að ræða, hvort hægt eigi að vera að gera bindandi kjarasamninga sem eitthvað gildi hafi. Með frv. þessu hefur ríkisstj, íhalds og Framsóknar sýnt launafólki hvert þessir flokkar stefna í launa- og kjaramálum. Ákvæði 3. gr. frv., sem ekki á að taka gildi fyrr en 1. jan. á næsta ári, gefur vísbendingu um að stjórnarflokkarnir ætla að halda samstarfi sínu áfram eftir kosningar fái þeir til þess umboð. En getur það verið, að þessir tveir flokkar, Sjálfstfl. og Framsfl., fái áfram umboð til að stjórna landinu eftir þá hörmulegu reynslu sem fengin er af stjórn þeirra? Getur það gerst? Svarið við því veltur á launafólki sjálfu sem er mikill meiri hl. kjósenda í landinu. Af reynslu liðins árs í kjarabaráttu og af þeim sönnunargögnum, sem fyrir liggja í þessu frv., verður launafólk að læra. Það hlýtur að sjá að kjarabarátta þess getur ekki farið saman við stuðning við Sjálfstfl. eða Framsfl. Stuðningur við þessa flokka er gersamlega ósamrýmanlegur heiðarlegri og réttlátri kjarabaráttu vinnandi fólks. Mælirinn er fullur. Núv. ríkisstj. stendur frammi fyrir gjaldþroti. Öll hennar ráð hafa reynst óráð. Öll hennar loforð hafa verið svikin. Hún er verðbólgustjórn. Hún er kjaraskerðingarstjórn. Hún er stjórn milliliða og braskara. Hún er stjórn óráðsíu og eyðslu. Hún er stjórn vaxtaokurs, skuldasöfnunar og stjórn lánlausra stórframkvæmda og erlendrar stóriðju. Og nú hefur framkoma hennar leitt til þess, að öllum kjarasamningum verður sagt upp og ný átök hefjast um það sem samningar áttu þó að vera í gildi um.

Af þessari dýrkeyptu reynslu verður þjóðin öll að læra, og í kosningunum á næsta sumri verður launafólk, hvar sem það áður hefur staðið í flokki, að svara fyrir sig og það á þann hátt, að ekki verði misskilið af valdhöfunum. — Góða nótt.