14.02.1978
Neðri deild: 57. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2388 í B-deild Alþingistíðinda. (1789)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Það hefur áreiðanlega ekki farið fram hjá neinum undanfarnar vikur og mánuði, að stjórnarliðar og málgögn ríkisstj. hafa með málflutningi sínum verið að undirbúa almenning í landinu undir það að taka því, sem nú er fram komið og birt er í formi þess frv. til l. sem hér er til umr. Það hefur ekki heldur farið fram hjá neinum, hvað hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar hafa talið höfuðorsök þess vanda sem þeir hafa uppmálað að því er varðar efnahags- og launamál þjóðarinnar. Það skal ekki í efa dregið, að almennt eru menn sammála um að viss vandi er fyrir höndum. Að vísu greinir menn á um, hversu sá vandi sé stór, og ekki síður, hvaða orsakir liggja til þess að þessi vandi er nú upp kominn. Áróður stjórnarliðsins hefur verið sá, að orsakanna sé að leita í of háum launagreiðslum launafólki til handa. Á þessu hefur verið hamrað í málgögnum og ræðum þm. hæstv. ríkisstj., ekki aðeins undanfarna daga eða vikur, heldur undanfarna mánuði. Reynt hefur verið að innprenta almenningi í landinu þessa orsök sem hæstv. ríkisstj. telur vera fyrir því, að þessi vandi er kominn upp.

Ég og margir aðrir höfum haldið því fram, að þessi vandi sé af allt öðrum rótum runninn. Við höfum haldið því fram, að aðalorsökin sé stefna hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum, stefna sem hún hefur haldið uppi allt frá því að hún tók við völdum síðari hluta árs 1974. Þessi stefna hefur verið gengisfellingarstefna, gengisfelling á gengisfellingu ofan, þannig að nú undir lok kjörtímabils þessarar hæstv. ríkisstj. hefur gengislækkun náð því að vera nær því 160% — gengisfelling á rúmum þremur árum nærri 160%. Og þessi stefna hefur auðvitað leitt af sér, eins og margoft hefur verið tekið fram, stórkostlegar hækkanir. Hér hefur því verið í raun og veru allan þennan tíma bullandi verðbólga. Á einu ári einungis, þ. e. frá því í febr. 1977 til febr. 1978, hefur framfærsluvísitalan hækkað úr 682 stigum í 934 stig eða um 37% á einu ári. Og hæstv. ríkisstj. leyfir sér að segja: Þetta er vegna þess að laun verkafólks og alls almennings í landinu eru of há. — Ofan á þetta allt kemur síðan sú staðreynd, að ríkisvaldið hefur gengið á undan að verulegu leyti með hækkanir á svo til öllum sviðum að því er varðar þjónustu á vegum ríkisins.

Það er eðlilegt að menn spyrji, ekki síst ef þeir líta til baka til þess tíma sem núv, stjórnarflokkar stóðu í kosningabaráttu fyrir alþingiskosningarnar 1974 og rifja upp loforðalista þessara flokka þá, hverjar séu efndirnar á hinum fögru loforðum. Við skulum rétt líta í afrekaskrána.

Viðskiptahalli á árinu 1977 var 9 milljarðar kr. og erlendar skuldir í árslok 1977 voru 129 milljarðar. Skuld við Seðlabanka Íslands var við síðustu áramót um 15 milljarðar og halli á ríkissjóði var röskir 2 milljarðar. Svona mætti áfram telja og bera þessar niðurstöður reynslunnar saman við hin gullnu loforð ríkisstj.-flokkanna.

Reyndar þarf ekki langt að leita til að fá staðfestingu þess, að rangri stjórnarstefnu sé hér um að kenna, en ekki of háum launum launafólks. Í skýrslu þeirri, sem lögð hefur verið fram frá verðbólgunefnd sem skipuð er að meiri hl. fulltrúum hæstv. ríkisstj., liggur fyrir að hin mikla verðbólga undanfarandi 3–4 ára er því að kenna, hvernig stjórnarstefnan hefur verið hér á landi. Ég vil leyfa mér að taka hér fram vegna ummæla hæstv. forsrh. í umr, hér á Alþ. s. l. föstudag, en hann lét þar að því liggja að allir fulltrúar í verðbólgunefnd hefðu verið samþykkir þeirri gengisfellingu sem gerð var s. l. þriðjudag, að þessi ummæli eiga ekki við nein rök að styðjast. Bankaráð Seðlabanka Íslands í samráði við hæstv. ríkisstj. tók ákvörðun um gengisfellinguna á þriðjudaginn í síðustu viku, þ. e. a. s. daginn áður en verðbólgunefndin skilaði af sér störfum, þannig að nm. stóðu þá frammi fyrir gerðum hlut.

Það hefur þegar komið fram, að formaður verðbólgunefndar, sem er forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar, setti fram fimm valkosti sem hann taldi til greina koma til bráðabirgðalausnar þessum vanda sem nú er við að glíma í efnahagsmálum. Var þar um fjórar leiðir að ræða og allar höfðu þær það sammerkt að rifta með beinum eða óbeinum hætti þeim kjarasamningum sem gerðir vorn annars vegar á s. l. sumri af aðilum vinnumarkaðarins og hins vegar á s. l. hausti milli BSRB og hæstv. fjmrh. Nauðsynlegt er að það komi skýrt fram hér, að þeir samningar, sem voru gerðir í júní s. l. milli Alþýðusambandsins annars vegar og Vinnuveitendasambandsins hins vegar, voru gerðir með fullu samþykki hæstv. ríkisstj. Sem rökstuðning má nefna að hæstv. ríkisstj. lofaði breytingum á skattalöggjöfinni og á almannatryggingalöggjöfinni, lofaði breytingum ef samningarnir yrðu innan þess ramma sem talið var mögulegt að því er varðaði þjóðarbúið sem heild. Þjóðhagsstofnun hafði á þessum tíma spáð aukningu þjóðartekna um 5% á árinu 1977. Sú spá lá fyrir þegar þessir samningar voru gerðir, og ríkisstj. taldi að samningar væru innan þeirra marka. Nú liggur hins vegar fyrir, að aukning þjóðartekna 1977 var ekki 5%, heldur 7%, þannig að það ætti ekki að vera ástæða til þess að gengið skuli nú svo freklega á gerða samninga. Reyndar var þetta að hluta til staðfest er fjmrh. undirritaði í umboði hæstv, ríkisstj, samninga við BSRB sem höfðu inni að halda verulega meiri hækkanir en fólust í samningunum við verkalýðshreyfinguna. Það fer því ekki á milli mála, að ríkisstj. lagði blessun sína yfir þessa samninga og hún er því siðferðilega skuldbundin til að halda þá. En í dag, aðeins 7 mánuðum eftir að samningarnir við verkalýðsfélögin voru gerðir, þegar ekki er hálfnað samningstímabilið, þá leggur hæstv. ríkisstj. til að þessum samningum sé rift og gerir þar með sjálfa sig ómerka að fyrri gerðum sínum.

Auðvitað dregur enginn í efa stöðu ríkisstj. til þessa lagalega séð eða meiri hl. Alþ. verði þetta samþykkt. En það er kaldhæðnislegt, að hæstv. ríkisstj. skuli gera sjálfa sig að þvílíkum ómerkingi og það að sinni eigin tillögu. En siðferðilega er réttur ríkisstj, til þessara aðgerða enginn. Það hlýtur að hvíla sú siðferðisskylda á ríkisstj. jafnt og á hverjum þegni þessa lands að standa við gerða samninga.

Hvert er viðhorf almennings til þeirra sem fremja samningsrof? Í almenningsálitinu eru sektarákvæði og fjársektir þau viðhorf sem fyrst koma upp í hugann er upp kemst um slíkan verknað. En hér verður að sjálfsögðu engu slíku við komið gagnvart hæstv. ríkisstj. En það er enginn vafi á því, að upp kemur í huga almennings við þessar ráðstafanir annars konar viðhorf til sektarákvæða, þ. e. a. s. sú dómsuppkvaðning sem hæstv. ríkisstj. á yfir höfði sér á komandi sumri, sú dómsuppkvaðning sem almenningur í landinu hefur í höndum sér innan ekki langs tíma. Það verða margir launþegar sem þá dæma hæstv. ríkisstj. og stjórnarliða alla sökudólga að samningsrofi. Og sá dómur mun verða þyngri en þó fjársektir hefðu til komið.

Þær till., sem hér liggja fyrir, eru að litlu sem engu leyti þær till. sem fulltrúar ríkisstj. í verðbólgunefnd lögðu blessun sína yfir og lögðu til að framkvæmdar væru, eins og ég kom að áður. Það má raunar segja, að það séu fyrst og fremst fyrstu þrjár greinar frv. sem séu meginefni þess. 1. gr. er um að rifta gerðum kjarasamningum á þann hátt að skera niður um helming þær verðbætur sem launafólk á að fá samkv. gildandi kjarasamningum. Hér er ráðist enn á ný á garðinn þar sem hann er lægstur. Það er ekki einu sinni svo, að hæstv. ríkisstj. sjái sóma sinn í því að láta samningana gilda gagnvart þeim lægst launuðu og verst settu, þrátt fyrir allt tal sumra hæstv. ráðh. og ekki síst hæstv. viðskrh. Ólafs Jóhannessonar á s. l. vori um hina sjálfsögðu kröfu launþegasamtakanna varðandi þá lægst launuðu.

Samkv. þeim samningum, sem nú eru í gildi, er gert ráð fyrir að 10% launahækkun hefði komið nú 1. mars vegna þeirra verðbótaákvæða sem samningarnir innihalda. En samkv. frv. á aðeins að greiða 5%, þ. e. helming þeirrar hækkunar. Og hið sama á að gerast 1. júní, 1. sept. og 1. des. n. k. Við skulum athuga þetta aðeins nánar, og spyrji nú hver og einn sjálfan sig: Er það of mikið að verkamaður, sem hefur í mánaðarlaun 120 þús. kr., fái núna 1. mars 12 þús. kr. hækkun eins og samningarnir gera ráð fyrir? Ég segi nei, allra síst þegar til þess er lítið að ríkisstj. hefur framkallað og lagt blessun sína yfir þær gífurlegu verðhækkanir lífsnauðsynja, vöru og þjónustu, sem hafa átt sér stað að undanförnu. En ríkisstj. segir: Það er of mikið fyrir verkamann með 120 þús. kr. á mánuði að fá 12 þús. kr. hækkun. Það verðum við að skerða um helming. Þjóðarbúið þolir ekki þessa hækkun, segir ríkisstj. En hæstv. ríkisstj. segir: Þjóðarbúið þolir ráðherralaun upp á ca. 1 millj. á mánuði, að vísu þingfararkaup innifalið. Það er í lagi, segir hæstv. ríkisstj. Og þjóðarbúið þolir bankastjóralaun upp á 600–700 þús. kr. á mánuði. Jú, við sleppum því, segir hæstv. ríkisstj. Þjóðarbúið þolir einnig, segir ríkisstj., þingmannskaup upp á 334 þús. kr. á mánuði. Við látum það vera. Þjóðarbúið þolir, segir ríkisstj., flugstjórakaup upp á 550 þús. kr. á mánuði. Þjóðarbúið þolir, segir ríkisstj., laun framkvæmdastjóra járnblendiævintýris upp á 700–900 þús. kr. á mánuði. Þjóðarbúið þolir, segir hæstv. ríkisstj., forstjóralaun hjá flugfélagi upp á 1100 þús. kr. á mánuði. Og svona mætti halda áfram að telja. Þetta og annað þessu líkt þolir þjóðarbúið, segir hæstv. ríkisstj. En kaup mannsins, sem hefur 120 þús. kr. á mánuði, má ekki hækka um 12 þús. kr., þá sligast þjóðarbúið. Hvað sem öllu líður, segir hæstv. ríkisstj., verður að koma í veg fyrir að þessi hækkun komi til, þó að það kosti að ríkisstj. gangi á bak allra sinna orða og gerða og rjúfi öll sín fyrirheit, það breytir engu. Það verður líka, segir hæstv. ríkisstj., að lækka kjör elli- og örorkulífeyrisþega. Verðbætur þeirra, sem hafa undir 88 þús. kr. á mánuði, verða skertar um þriðjung. Og svo segir Tómas Árnason, Framsóknarþm. og komissar með meiru: Þetta verðum við að gera vegna þess að Íslendingum hefur sjaldan eða aldrei vegnað betur, velmegun er svo mikil og góð, þess vegna verðum við að skerða kjörin.

Þetta má segja að sé kjarninn í því frv. sem hér er til umr. Og það var ekki mikið að hjá hæstv. sjútvrh., sem talaði áðan. Það var ekki á honum að heyra, að það væri mikið um vandamál. Hann unir sýnilega glaður við sitt, enda þarf hann ekki, hæstv. ráðh., sem betur fer að lifa á 120 þús. kr. á mánuði, enda dygði það honum líklega skammt.

Það annað, sem er í þessu frv., er smíðað utan um þennan ramma. Við skulum þó staldra við 3. gr. frv., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Frá og með 1. jan. 1979 skulu óbeinir skattar ekki hafa áhrif á verðbótavísitölu eða verðbótaákvæði í kjarasamningum.“

Hér er lagt til að söluskattur, bensíngjald, vörugjald, tollar o. fl. verði tekið út úr vísitölugrundvelli og stjórnvöld hafi í hendi sér að hækka þessar álögur að eigin vild, án þess að nokkrar bætur til handa launafólki komi á móti. Hér er á ferðinni slíkt svartnættishugarfar af hinu vonda gagnvart verkalýðshreyfingu og launafólki, að það má furðu gegna að sjá slíkt í frv: formi hér á Alþ. Það hugarfar, sem þessi frvgr. sýnir, er slík svívirða gagnvart verkalýðshreyfingunni og launafólki, að þess munu engin dæmi hjá neinni ríkisstj., og er þá mikið sagt. Þessi grein er einnig að öðru leyti athyglisverð, því að engu er líkara en hér sé um að ræða kosningastefnuskráratriði stjórnarflokkanna og augsýnilegt á því, að þeir ætla sér í áframhaldandi stjórnarsamstarf eftir kosningar fái þeir til þess umboð.

Krafan um að kippa óbeinum sköttum út úr vísitölunni er að öllum líkindum komin frá Framsfl. og þá líklegast frá formanni hans, hæstv, viðskrh. Ólafi Jóhannessyni. A. m. k. finnst mér svipaður keimur af henni og þeirri kröfu sem gerð var vorið 1974, því að svo slæmir sem sumir hverjir forustumanna Sjálfstfl. eru gagnvart verkalýðshreyfingunni, þá er afstaða þeirra hreinir smámunir miðað við það sem er að finna innan forustu Framsfl. Og ekki kæmi mér á óvart þó að formaður Framsfl. væri með þessari kröfu sinni að undirbúa möguleika fyrir Framsókn til að hlaupa úr vistinni áður en kjörtímabili er lokið.

Hæstv. forsrh. sagði fyrr við þessar umr., að fulltrúar allra þingflokka hafi þurft að standa frammi fyrir því að þurfa að breyta vísitöluákvæði gildandi kjarasamninga. Sjálfsagt er þetta rétt hjá hæstv. ráðh., að allir þingflokkar hafi staðið frammi fyrir þessu. En það er ekki þar með sagt, að allir stjórnmálamenn hafi staðið að því að framkvæma þetta. Ég a. m. k. vísa því á bug að hafa staðið að slíku. Ég stóð gegn því vorið 1974, þegar krafa var sett fram af þáv. forsrh. Ólafi Jóhannessyni, að rifta gerðum samningum. Þá rauf Ólafur Jóhannesson þing, af því að hann fékk ekki þessari kröfu sinni framgengt. En þeir voru allt of margir þá, þm. sem vildu fallast á þessa kröfu, og það verður að segjast, að það eru allt of margir stjórnmálamenn, sem hafa gleymt hugsjónunum þegar þeir hafa verið komnir í valdaaðstöðu. Og menn hafa væntanlega heyrt rökstuðning Framsóknarráðh. Halldórs E. Sigurðssonar áðan. Rökstuðningur hans fyrir þessu frv. og gerðum hæstv. ríkisstj. var fyrst og fremst sá, að Lúðvík Jósepsson og Gylfi Þ. Gíslason hefðu oft gert hið sama. Það er ekki slæmur rökstuðningur við frv. af því tagi sem hér er um að ræða.

Það er alveg ljóst, að engin ríkisstj. er svo sterk að hún geti brotið á bak aftur þau grundvallarlýðréttindi verkalýðshreyfingarinnar að semja án lagaþvingana um sín mál. Hæstv. ríkisstj. hafði vissulega ætlað sér að nota hina margumtöluðu verðbólgunefnd sem skálkaskjól að þeim ráðstöfunum sem hún fyrirhugaði. Nú hefur komið í ljós, að engin samstaða var innan stjórnarflokkanna um að fara þá leið til lausnar vandanum sem fulltrúar hennar og sérfræðingar í efnahagsmálum lögðu til í verðbólgunefnd. Ríkisstj. leggur allt annað til með þessu frv.

Eins og frá hefur verið greint, tókst samkomulag í verðbólgunefnd milli fulltrúa ASÍ, BSRB og fulltrúa stjórnarandstöðunnar hér á Alþ. um till. til lausnar þeim bráða vanda sem við er að etja. Þessar till. byggjast fyrst og fremst á þremur meginatriðum: að halda gerða samninga, að tryggja fulla atvinnu og beita ráðstöfunum til að draga úr verðbólgu. Þessar till. eru framkvæmanlegar, á því er enginn vafi, og með þeim er hægt að ná árangri, að vísu ekki miklum á þessu ári, en þó meiri en till. hæstv. ríkisstj. gera ráð fyrir. En það, sem mestu máli skiptir, er að þær leggja grunninn að frekari langtímalausn í baráttunni við verðbólguna. Bæði ASÍ og BSRB hafa tjáð sig reiðubúin til viðræðna við ríkisstj. á grundvelli þessara tillagna. Enn er það tækifæri opið ríkisstj., og hæstv. ríkisstj. ætti að hafa vit á því að taka því boði.

Verði þetta frv. samþykkt hefur ríkisstj. valið þann kost sem verstur er, að efna til vinnudeilna og óróa á vinnumarkaðinum, og að sjálfsögðu verður hún að taka afleiðingum þeirra gerða sinna. Hún hefur þá kosið stríð við launþegasamtökin í stað þess að taka í framrétta hönd þeirra til lausnar vandans. Það er því alveg ljóst, að knýi ríkisstj. þetta mál í gegnum þingið eins og það liggur fyrir, þá er vísvitandi stefnt í stórkostleg átök og hörku á vinnumarkaðinum og það er ríkisstj. sem á frumkvæði að þeim átökum. Hér á því við sem oftar, að sá veldur miklu sem upphafinu veldur. — Góða nótt.