15.02.1978
Neðri deild: 58. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2442 í B-deild Alþingistíðinda. (1800)

87. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Friðjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Ég hef undritritað þetta nál. með fyrirvara og mun ég skýra hann í fáum orðum.

Lög um rannsóknarlögreglu ríkisins voru samþ. á Alþ. 16. des. 1976. í 1. gr. þeirra laga segir, að rannsóknarlögregla ríkisins hafi aðsetur í Reykjavík og lúti yfirstjórn dómsmrh. Nú hefur verið flutt frv. til l. um breyt. á þessum nýju lögum. Segir í aths, við það frv., að vegna þeirrar reynslu, sem fengist hafi af starfsemi rannsóknarlögreglu ríkisins þann tíma er hún hefur starfað, þyki nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á lögum nr. 108 frá 1976. Breytingarnar eru að sönnu ekki veigamiklar, enda reynslan stutt af þessum lögum. Nú á að ákveða, að rannsóknarlögregla ríkisins hafi aðalstarfsstöð í Reykjavík eða nágrenni og að skipaður skuli vararannsóknarlögreglustjóri.

Fyrri breytingin mun stafa af því, að búið er að kaupa húsnæði fyrir rannsóknarlögregluna við Auðbrekku í Kópavogi. Talið er að ekki hafi fundist hentugt húsnæði til nota í því skyni innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur. Það ættu þeir að sjálfsögðu að vita gerst sem leitað hafa, en ekki fundið. En tilætlun löggjafans virðist þó hafa verið, að þetta aðsetur yrði fundið á Reykjavíkursvæðinu.

Það má benda á í þessu sambandi, að á árunum 1963–1973 var byggð vegleg lögreglustöð við Hverfisgötu 113–115 í Reykjavík. Hugmyndin var að sú bygging gæti hýst alla starfsemi lögreglunnar á þessu svæði, bæði hinnar almennu lögreglu og rannsóknarlögreglu. Meira að segja var ætlunin að landhelgisgæslan gæti einnig haft þar aðsetur og athvarf. Af því varð þó ekki, þar sem efsta hæðin var tekin til afnota fyrir utanrrn., sem þar er nú til húsa svo sem kunnugt er. Í lögreglustöðvarbyggingunni eru nú enn fremur Umferðarráð og rannsóknarlögregludeild undir stjórn lögreglustjórans í Reykjavík og þar eru að sjálfsögðu aðalstöðvar hinnar almennu lögreglu. Þó er það svo, að þetta rúmgóða og vistlega húsnæði er nú fyrst að fullu nýtt, að ég ætla.

Ég sagði, að það mundi hafa verið ákveðið að kaupa húsnæði í Kópavogi. Um það eru þó mjög skiptar skoðanir. Það húsnæði þykir óhentugt og að dómi þeirra, sem ættu helst að hafa eitthvað um það mál að segja, þ. e. a. s. rannsóknarlögreglumannanna sjálfra, er mikið neyðarúrræði að vista rannsóknarlögregluna á þeim stað. Þeir benda á í grg., sem ég hef séð frá þeim, að auk þess sem ákveðið hafi verið í lögum frá í fyrra eða hittiðfyrra að rannsóknarlögreglan hefði aðsetur í Reykjavík, þá benda þeir á, að mjög miklar og dýrar breytingar þurfi að gera á húsnæðinu til þess að það geti talist nothæft fyrir starfsemi rannsóknarlögreglunnar. Allt umhverfi hússins sé bæði þröngt og að öllu leyti óæskilegt og vandséð hvernig úr því sé hægt a ð bæta og auk þess sé staðsetningin ekki góð.

NÚ verð ég að segja fyrir mig, að mér finnst dálitíð ótrúlegt, að ekki skuli hafa fengist eða fundist hentugt húsnæði í þessu skyni á Reykjavíkursvæðinu. Ég minntist fyrst í því sambandi á nýju lögreglustöðina. Þó að vera megi að það hús sé nú að fullu nýtt, þá fyndist mér að jafnvel hefði komið til mála að hyggja hreinlega nýja álmu þar við. Þar er nóg lóðarrými og meira að segja mun vera gert ráð fyrir viðbyggingu á þeim stað, þ. e. a. s. nýrri álmu. Þá hefði rannsóknarlögreglan verið mjög vel staðsett undir sama þaki og almenna lögreglan, í höfuðbækistöðvum hennar, en þessar tvær megingreinar lögreglunnar þurfa jafnan að vinna mjög náið saman. Þá hefði verið stutt í sakadóm, þar sem hann er nú til húsa, og það hefði verið þægilegt fyrir allan almenning, sem mest samband og mest skipti þarf að hafa við rannsóknarlögreglu ríkisins.

Um það atriði, að þörf hafi verið að skipa sérstakan vararannsóknarlögreglustjóra, get ég verið fáorður. Ég tel, að ekki hafi verið meiri þörf að skipa þar sérstakan varamann en gerist og gengur með fjöldamörg embætti, þar sem fulltrúar gegna störfum aðalmanns þegar hann þarf að víkja sér frá.

Þetta eru þær aths., sem ég vildi láta koma fram hér til að skýra fyrirvara minn, þó að það verði vísast ekki til neins, þar sem búið mun vera að ráða þessum málum til lykta.