25.10.1977
Sameinað þing: 9. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

4. mál, kosningalög

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég er rétt kominn inn í salinn og veit ekki hvað kann að hafa verið sagt hér eftir kaffihléið. Þegar ég kom hér inn var hv. þm. Karvel Pálmason að tala, og hann innti eftir afstöðu Alþb.-manna varðandi það sem menn nefna í þessum umr. „vægi“ atkv. Mér skilst að honum hafi a.m.k. skilist að einn af þm. Alþb. hafi lýst því yfir hér áðan, að hann teldi að þetta „vægi“ ætti alls staðar að vera hið sama, m.ö.o. sama eða svipað atkvæðamagn á bak við hvern þm., hvort sem hann kæmi úr þéttbýli eða dreifbýli. Ég get ekkert um það fullyrt, hvort þetta hafi komið fram hjá einhverjum hv. þm. Alþb. áður, en það má ljóst vera að þetta mundi tákna það, að stórlega mundi fjölga þm. úr þéttbýlinu, en fækka aftur á móti þm. úr dreifbýli. Og eins og háttar í þessu landi með búsetu og þá um leið þýðingu búsetunnar sem víðast fyrir þessa þjóð, þá tel ég að þetta komi hreint og beint ekki til mála. Ég skil það vel, að mönnum þyki nóg um þegar fimm sinnum fleiri atkv. þarf til þess að koma einum manni á þing úr Reykjaneskjördæmi heldur en þarf af Vestfjörðum. Þar með er ekki sagt að öllu réttlæti sé fullnægt með því að jafnmörg atkv. verði á bak við hvern og einn þm. Það er að vísu hægt að leysa þetta þannig, en vandamál þessarar þjóðar munu ekki minnka við það, heldur munu þau stórlega aukast.

Við erum auðvitað sammála um það, ég og hv. þm. Karvel Pálmason, að eitt af helstu vandamálum þessarar þjóðar er hvernig mannfólkið sogast á tiltölulega takmarkað svæði, en önnur byggðarlög eiga í vök að verjast hvað mannfjölda snertir, þó að vísu hafi nú skánað það ástand á seinni árum, sérstaklega í tíð vinstri stjórnarinnar. Við erum sammála um að þetta er mjög alvarleg þróun og hættuleg með tilliti til þess sem ég gæti nefnt þjóðartilveru okkar. Það er mjög mikils virði fyrir þessa þjóð að byggja landið allt, menningarlega séð, siðferðilega séð og næstum að segja sálfræðilega séð, fyrir nú utan þá nauðsyn sem okkur er á því að mannfólk sé sem víðast, þó að ekki væri nema af öryggisástæðum. Þeim, sem stunda sjóinn, veitir ekkert af að það sé mannfólk sem víðast á ströndinni.

En ef horfið yrði að hinni einföldu lausn, að það skuli vera jafnmörg atkv. á bak við hvern af þessum 60 þm., — sem þýðir náttúrlega að gera ætti landið allt að einu kjördæmi, — þá liggur í augum uppi að þessir 60 þm. mundu keppa um atkv. mest þar sem þau væru flest. M.ö.o.: Störf Alþ. mundu mótast af því að þm. vildu koma sér í mjúkinn hjá fólkinu á þeim svæðum landsins þar sem atkvæðamagnið lægi. Þetta gæti hreinlega leitt til þess, að landsbyggðin legðist alveg í eyði. Það vil ég ekki. Frekar vil ég láta kalla mig ólýðræðislega þenkjandi mann heldur en að eiga þátt í slíku. Ef það er ólýðræðislegur hugsunarháttur, að landsbyggðin skuli hafa tiltölulega fleiri þm. heldur en þéttbýlið, þá er ég til þess neyddur að játa á mig þann ólýðræðislega hugsunarhátt.

Það mætti ræða hlut Vestfirðinga sérstaklega í þessu efni. Þeir hafa átt hvað mest í vök að verjast með það að halda sínu mannfólki, hafa orðið harðast úti í þeirri þróun sem átt hefur sér stað undanfarna áratugi. Ég vil að hv. þm. Karvel Pálmason viti það, að ég tel gott að Vestfirðingar eigi a.m.k. 1/12 hluta í þeim 60 þm. sem hér sitja. Ég tel það gott að þeir eigi þessa tölu hér inni. Hitt gæti komið til mála, að skipta um þá einhverja í næstu kosningum. (Gripið fram í.) Af því að það er grípið fram í fyrir mér af hv. þm. Karvel Pálmasyni, þá bið ég hann að skilja mig ekki svo, að ég sé endilega að óska þess að hann hverfi héðan úr þingsölum. (KP: Það er gagnkvæmt.)