16.02.1978
Efri deild: 63. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2479 í B-deild Alþingistíðinda. (1816)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. síðasta ræðumanni, 1. landsk. þm., fyrir þann áróður sem hann hafði hér uppi í loksins máls fyrir Sjálfstfl. Hann talaði um að beina því til fólksins að setja krossinn á réttan stað við næstu kosningar. Ég skil hann þannig, að hann sé með áróður fyrir Sjálfstfl., og fagna ég því, þó að áróður sé óviðeigandi úr þessum ræðustól.

En ástæðan til þess, að ég stend hér upp, er sú, að hv. 5. þm. Norðurl. v. gat þess í ræðu sinni, að ég sem efsti maður á lista Sjálfstfl. í Reykjavík treysti mér ekki til að skrifa undir nál. meiri hl, fjh.- og viðskn. um það frv. til l. sem ríkisstj. hefur nú lagt fram um ráðstafanir í efnahagsmálum. Hann ruglar saman kjörtímabilum. Það er fyrir næsta kjörtímabil sem ég er efsti maður á lista Sjálfstfl., en ekki á þessu kjörtímabili. En það skiptir nú ekki máli, það er svo margt ruglað og mikill ruglingur sem kemur úr þeim herbúðum, að það fyrirgefa allir honum þann misskilning. Ég get í stuttu máli gert honum og öðrum hv. þm. grein fyrir því, hver ástæða er fyrir því, að ég get ekki fylgt frv, þessu, en hún er einfaldlega sú, að allt frá upphafi þessa kjörtímabils hef ég talið þá efnahagsstefnu, sem ríkisstj. valdi og hefur fylgt, svo líka þeirri efnahagsstefnu, sem ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, vinstri stjórnin, rak á síðasta kjörtímabili, og langt frá boðaðri stefnu Sjálfstfl. fyrir síðustu kosningar, að ég gat ekki sætt mig við hana og geri það ekki enn. Og þetta er engum dulið, ég hef sagt þetta áður, bæði úr þessum ræðustól og annars staðar. Málefnasamningurinn var þar af leiðandi ekki að mínu skapi.

En það er ekki þar með sagt, að ég telji rangt að ríkisstj, reyni að gera þær ráðstafanir sem með þarf til þess að draga úr hinum slæmu áhrifum vinstristjórnarstefnunnar og koma í veg fyrir stöðvun atvinnuveganna eða stöðvun undirstöðuatvinnuveganna, skulum við segja. Ég er ekki ósammála því, sem kemur fram í nál. hv. minni hl. fjh.- og viðskn., þar sem segir, með leyfi forseta:

„Það er vissulega alvarlegt mál, að ríkisstj. sem sjálf gerir bindandi launasamninga og lætur fjmrh. sinn skrifa hátíðlega undir launa- og kjarasamninga, skuli eftir aðeins þrjá mánuði leyfa sér að svíkja slíka samninga. Þannig hefur núv. ríkisstj. staðið að samningsgerð við BSRB og þannig ætlar hún að hlaupa frá samningum.“

Ég er ósammála þessu að því leyti til, að ég tel ekki að ríkisstj. sé að svíkja gerða samninga. Ég skal ekki taka undir það. En að sjálfsögðu harma ég að ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar skuli vera þannig, að ríkisstj. telji nauðsynlegt að gera þær ráðstafanir sem hér eru til umr. En það er ekki vegna þess að ríkisstj. sé að gera fólkinu í landinu einhverja bölvun. Það má skilja af málflutningi hv. stjórnarandstöðuþm., að það sé ein aðalástæðan, að ríkisstj. sé vísvitandi að gera fólkinu einhverja bölvun með þessum bráðabirgða- eða neyðarráðstöfunum. Ríkisstj. leggur þessar ráðstafanir í efnahagsmálum fram í framhaldi af öðrum ráðstöfunum, gengislækkuninni, til þess að tryggja rekstrargrundvöll undirstöðuatvinnuveganna og til þess að tryggja að fyrirvinna heimilanna hafi tekjur reglulega. Ég held að það hljóti að vera aðalatriðið fyrir alla, hvort sem þeir eru þm. eða ekki þm., meirihluta- eða minnihlutamenn, að það atvinnuástand ríki, að heimilisfeður og fyrirvinnur hafi tekjur og það reglulega. Ég vil bæta við og segja það, að ríkisstj. ber skylda til þess að gripa til ráðstafana þegar hætta steðjar að' í þjóðfélaginu. Ríkisstj. mundi ekki gripa til sérstakra ráðstafana nú nema hún telji að það ástand sé í þjóðfélaginu, að það þurfi að grípa til sérstakra ráðstafana. (StJ: Það er þá mikið í húfi að þær séu réttar.) Já, við kjósum okkur ríkisstj, og við verðum að treysta mati hennar. Hún hefur besta yfirsýn yfir mál á hverjum tíma. Og ég vil endurtaka, að ríkisstj. ber skylda til að gripa til ráðstafana þegar hætta steðjar að í þjóðfélaginu, hvort sem hv. 5. þm. Norðurl. e. líkar það betur eða verr — Annars held ég að hann sé á mælendaskrá á eftir. — En þjóðin ætlast til þess af ríkisstj., að hún stjórni og hún sýni festu í stjórnaraðgerðum. Og ég vil endurtaka það, að ríkisstj. hefur að eigin mati farið mildustu leiðina í ráðstöfunum nú.

Þjóðin vill ekki að launþegasamtökin stjórni landinu né heldur samtök atvinnurekenda og því siður Alþingi götunnar. Þetta skilur þjóðin, þótt „verkalýðsrekendurnir“, sem ég hef nefnt svo hér á Alþ., eða sjálfskipaðir talsmenn fólksins á Alþ. hafi hátt og jafnvel hafi leyft sér að hóta í nafni verkalýðssamtakanna að virða ekki lög frá Alþingi. Hvað þýðir það? Af hverju koma þessir menn ekki hreint fram og segja að þeir séu að boða byltingu? Við skulum átta okkur á því, hvað þetta þýðir. Þeir boða það, að fólkið fari ekki að lögum frá Alþ. Það er alþekkt og ekkert nýtt, að aðalmarkmið Alþb.-manna er að grafa undan stjórnarsamstarfinu. Og nú halda þeir að þeir hafi fengið beittasta vopnið í hendurnar og geti æst til verkfalla og æst verkafólk eða notað verkafólk í þeirri iðju sinni.

Nei, ég vil að það komi alveg hreint fram, ég fullvissa hv. þm. um það vegna fsp. frá hv. 5. þm. Norðurl. e., að ég styð ríkisstj. í öllum þeim aðgerðum sem að mínu mati stefna að því að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Og ég dreg ekki í efa að þjóðin öll styður ríkisstj. í þeirri viðleitni.

En það er ýmislegt annað í þessu frv., sem ég get ekki sætt mig við. Það er t. d. IV. kafli, 6. gr., um skyldusparnað félaga og stofnana. Mér finnst vera ráðist þar á þau á sama hátt og var ráðist á einstaklingana þegar skyldusparnaður einstaklinga var hér settur á, félög og stofnanir svipt ákvörðunarrétti til að ráðstafa eignum sínum. Það er gert á sama tíma sem vitað er að fyrirtæki og stofnanir eru fjárvana. Og hvernig er ástandið á peningamarkaðinum þegar þessar ráðstafanir eru gerðar? Bankarnir hafa í langan tíma lokað síðustu mánuði ársins fyrir alla fyrirgreiðslu til þess eins að geta sýnt góða lausafjárstöðu um áramótin. Það dregur að sjálfsögðu mikið úr bæði félögum, stofnunum og fyrirtækjum almennt. Síðan er búið að setja útlánaþak, það er búið að takmarka hvað má setja mikið af þessari blóðgjöf inn í lífæð þjóðarinnar, af þeirri sparifjármyndun sem er á hverjum tíma. Sem sagt, féð er ekki notað sem skyldi. Það er notaður hluti af því. Og nú er búið að bæta við vaxtabreytingum fjórum sinnum á ári, sem þýðir að nú á að fara fram vaxtabreyting eftir viku eða 10 daga, viku held ég, og bankarnir kaupa ekki viðskiptavíxla nema fram að þeim tíma, sem er innan við viku. Ef mikið liggur við fá þeir þá fyrirgreiðslu í yfirdráttarformi, sem kostar þá tvöfalt á við það sem það þyrfti að kosta, ef víxlarnir væru keyptir strax, sem sagt, yfirdráttarkostnaðurinn og síðan, þegar víxlarnir eru keyptir, víxlakostnaðurinn. Þar að auki eru strangar verðlagshömlur og til viðbótar við þetta er það orðin algild innanhúsregla — það eru ekki lög — bankakerfisins að halda eftir 5% af keyptum víxlaupphæðum og leggja í sérstaka sparisjóðsbók á nafni fyrirtækjanna, sem er nokkurs konar trygging. Til viðbótar þessu stendur hér í 6. gr., í IV. kafla, með leyfi forseta:

„Skyldusparnaður telst að fullu greiddur þegar fullnaðarskil hafa verið gerð á öllum þinggjöldum gjaldanda til ríkissjóðs samkv. þinggjaldabók ásamt þar greindum skyldusparnaði.“

Í Reykjavík er innheimtudeild, Gjaldheimtan í Reykjavík. Öllum gjöldum, sem greidd eru, er skipt á milli útsvara og ríkistekna, þannig að það verður að greiða að öllu opinber gjöld áður en hægt er að greiða inn á þennan skyldusparnað. Síðan segir, með leyfi forseta, í 7. gr., að „sé skyldusparnaðurinn ekki greiddur að fullu fyrir 1. febr. 1979 reiknast verðbætur þó aðeins frá 1. jan. næsta ár á eftir fullnaðarskilum“. Sem sagt, það fé, sem er greitt við skulum segja eftir 1, febr. 1975, greitt t. d. 2. febr., er verðbótalaust allt árið. Það er höggvið af atvinnurekendum og atvinnurekstrinum hér um bil í hverri línu. Síðan kemur, með leyfi forseta, í VII. kaflanum svo hljóðandi:

„Lög þessi öðlast þegar gildi og koma III. og IV. kafli til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda til ríkissjóðs fyrir skattárið 1977.“

Maður skyldi ætla að ef fyrirtækin hefðu einhvern varasjóð eða eitthvað eftir til þess að leggja í þennan skyldusparnaðarsjóð, þá væri þó búið að ráðstafa honum þegar komið er fram á árið 1978. En þetta á að verka aftur fyrir sig. Hvað skyldi svo eiga að gera við þennan skyldusparnað? Við skyldum ætla að það væri nóg, að fyrirtækjum væri gert að leggja þennan skyldusparnað inn í bankabók, þannig að hann væri þar fastur einhvern ákveðinn tíma á þeim kjörum sem bankakerfið segir til um. Það er hægt að leggja inn í vaxtaaukalán, það er hægt að gera ýmislegt og hafa bæði vexti og verðbætur. En í skýringu á bls. 8 með IV. kaflanum segir í 2. mgr., með leyfi forseta: „Má ætla, að skyldusparnaður þessi auki ráðstöfunarfé ríkissjóðs á árinu 1978 um 800 millj. kr.“

Hver er að spara, ef þessu, sem tekið er í skyldusparnaðarfé af félögum og stofnunum, er bætt við ráðstöfunarfé ríkissjóðs? Úr hverju er verið að draga? Það er verið að færa til framkvæmdamöguleika, taka þá frá félögum og einstaklingum og afhenda ríkissjóði. Ég hef fengið þá skýringu, að þessar 800 millj. kr, eigi að fara í ríkissjóð að vísu til þess að greiða upp erlendar skuldir. Er það ekki alveg sama. Ríkissjóður hefur þá aðrar 800 millj, til þess að eyða. Það eru svona atriði í þessu frv. sem ég get ekki sætt mig við, og þar af leiðandi hef ég ekki skrifað undir þetta nál.

Ég vona að ég hafi svarað hv. 5. þm. Norðurl. v. nægilega til þess að fullnægja forvitni hans. Á sama tíma sem lögin eiga að skylda einstaklinga og fyrirtæki til þess að spara þarna um 10%, þá segir, með leyfi forseta, í VI. kafla, um ríkisframkvæmdir og lántökur, 12. gr., svo hljóðandi: „Þrátt fyrir ákvæði fjárl. fyrir árið 1978 er heimilt að lækka fjárveitingar“ o. s. frv. Af hverju á ríkissjóður ekki að hlíta sömu reglum og allir aðrir? Af hverju er hann ekki skyldaður í þessari grein til að spara um 1000 millj., eins og tekið er fram þarna, á framkvæmda- og rekstrarliðum?

Ég sem sagt treysti mér ekki til þess að skrifa undir nál., vegna þess að í þessu frv. eru ýmis atriði sem ég treysti mér ekki til að standa að. En það er ekki vegna þess að ég styðji ekki ríkisstj. í viðleitni til að halda uppi fullri atvinnu og tryggja að í framtíðinni eins og hingað til verði fyrirvinnum heimilanna tryggt að þær hafi tekjur eins og með þarf, þó að ég sé sammála um að þær mættu vera hærri.