16.02.1978
Efri deild: 63. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2495 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki langt mál um mína afstöðu í þessu máli, enda þegar þrautrætt hér á hv. Alþ. og í fjölmiðlum. En til þess að gera langa sögu stutta vil ég skýra frá því ljóst og ákveðið, að ég er þeirrar skoðunar, að þann efnahagsvanda, sem sannarlega er nú við að eiga, hefði átt að leysa samkvæmt tillögu formannaráðstefnu ASÍ, sem haldin var 15. febr. s. l. og upp hefur verið lesin í þessum umr. og óþarft að endurtaka hér.

Ég kann því hins vegar ákaflega illa í þessum umr., sérstaklega hjá síðasta hv. ræðumanni hér á undan mér, hv. 5. þm. Norðurl. e., þegar verið er að nefna hér mannanöfn sem höfunda þeirra till. er ríkisstj. leggur til, manna sem eiga þess ekki nokkurn kost að verja sitt mál. Sannleikurinn er sá, að þessir menn, nú eins og oft áður fyrir aðrar ríkisstj. næst á undan, hafa unnið sitt starf samviskusamlega, eins og af þeim gögnum má ráða sem þm. hafa hér í höndum. Það er einnig ljóst, að þeir sinntu einungis sínum embættisskyldum, að raða upp þeim möguleikum, sem voru til lausnar þessum vanáa og rökstyðja einstakar leiðir. Það eru ekki þeir, sem ráða úrslitum um það, hvaða leið er endanlega valin. Þeir gera þá embættisskyldu sína að raða upp úrlausnarmöguleikum fyrir ríkisstj. og önnur hagsmunasamtök, sem hér eiga hlut að máli, — þeim valkostum sem fyrir hendi eru, en í þetta skipti var um fimm valkosti að ræða. Án þess að ég ætli hér að fara í neitt forsvar fyrir ríkisstj., þá tel ég rétt að skýra frá því, að einn af þeim valkostum, sem umræddir embættismenn lögðu fram, er sá sem verkalýðssamtökin og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja styðjast við í tillögum sínum.

En lakasta valkostinn valdi ríkisstj. hins vegar fyrir hlutaðeigandi samtök. Það er það rétta í málinu. (StJ: Þú hefur ekki einu sinni lesið þessa ályktun verkalýðssamtakanna.) Ég geri ráð fyrir því, að hv. 5. þm. Norðurl. e. eigi þess kost að tala hér oftar, ef hann óskar eftir, og hann gerir þá betur grein fyrir máli sínu. En ég gat ekki betur skilið hann en svo, að umræddir ráðgjafar og starfsmenn ríkisstj. hefðu unnið hér eitthvert syndsamlegt athæfi. Þeir gáfu upp fimm valkosti og m. a. þann skásta sem launþegasamtökin eðlilega völdu eftir þeim skýrslum sem fyrir lágu, — skýrslum sem á borðum voru jafnt fyrir stjórnarandstæðinga sem stjórnarliða og hv. þm. Stefán Jónsson hefði átt að kynna sér og vonandi hefur a. m. k. gert það að einhverju leyti. En það er rangt og ódrengilegt að ráðast hér að embættismönnum, sem ekki eiga þess kost að verja sitt mál eða sín störf, og ég vil harðlega mótmæla slíkum málflutningi.

Það er þó ekki aðaltilefni þess, að ég stóð hér upp, og er þó ærið tilefni vegna málflutnings hv. 5. þm. Norðurl. e. Það virðist vera til síðs í dag að ráðast að þingræði á Íslandi, m. a. segja það í ræðu og riti, innan þings og utan, að það sé ekki Alþ. sem ráði endanlegum ákvörðunum í efnahagsmálum eða öðrum málum og þar með löggjafarmálum. Það er fullyrt að hér séu samankomnir 60 misindismenn, sem eitt dagblaðanna orðaði svo um daginn að ættu í raun að vera undir lás og slá fyrir hvers konar lagabrot og sérgæðingshátt sem þeir hefðu hér í frammi og viðgengist hafi nálega hundrað ár. Það er slíkur málflutningur, sem þessir menn styðjast við, og það eru slíkar fullyrðingar, sem við eru hafðar um störf Alþ. Þannig er í raun og veru vegið að þingræðinu í landinu með slíkum málflutningi og tekið undir með lökustu tegund af málflutningi sem sést hefur um íslenskt þingræði. Sannarlega var hv. 5. þm. Norðurl. e. bergmál af því blaði, sem ég veit að hann þó annars vill ekki eiga samleið með, sem hafði þessi orð um Alþingi Íslendinga nú fyrir örfáum dögum.

En það er eðlilegt, að maðurinn á götunni og hinn almenni blaðalesandi fari að hugsa sig um, þegar sjálfir þm. segja: Það erum ekki við og það er ekki ríkisstj. sem hefur endanlegt úrskurðarvald um þessi mál. Hér eru nefnd nöfn eins og „einhverjir Jónar og einhverjir Jóhannesar“ úti í bæ, sem eigi að ráða endanlega úrslitum um þessi mál.

Ef þetta er ekki stuðningur við málflutning Dagblaðsins í þessum efnum, þá kann ég ekki á milli að skilja.

Það alvarlega við afgreiðslu þessa máls nú er það, að til er meiri hl. á Alþingi Íslendinga, Alþingi Íslendinga sjálfra, sem velur lakasta kostinn fyrir launþegasamtökin í landinu, — lakasta kostinn af þeim fimm sem umræddir embættismenn höfðu unnið að og rökstuddu hvern fyrir sig. Og ef það á að verða almenn trú hér, sem hefur þó haft misjafnt gengi á hverjum tíma, að það sé þýðingarlaust að gera kjarasamninga á Íslandi, vegna þess að meiri hl. á Alþ. sé hinn raunverulegi viðsemjandi, og það sé líka þýðingarlaust, að ríkisstj. komi til skjalanna og leysi vandann, vegna þess að hún afnemi þessa samninga þegar henni þykir henta, þá er illa komið. Það er það alvarlega í þessu máli. Skal þó ekki dregið úr þeim málflutningi, þar sem rökstudd andstaða hefur komið fram við áform ríkisstj.

Það er gjarnan sagt innan þings og utan, þegar við hliðstæðan vanda er að etja eins og nú: „Ríkisstj. verður að skerast í leikinn, ríkisstj. verður að gera eitthvað,“ segja menn. Þegar ríkisstj., hver sem hún er, núv. ríkisstj. sem og aðrar sem á undan eru gengnar, þær gera það sem þær telja að sé vænlegast til lausnar, — því það vil ég álíta að ríkisstj. geri yfirleitt, — vænlegast til lausnar fyrir land og lýð í heild, þá er aftur venjulega flest að fundið og m. a. nú. Ráðgjafarnir, og er þá ekki minnst á alla sem þá koma sem sjálfboðaliðar til þeirra starfa, verða á stundum æðimargir, svo sem ráða mátti af ýmsu sem hv. þm. Stefán Jónsson sagði í sinni ræðu áðan, og sjálfsagt fleiri utan þings, og réttilega er fundið að þeirri aðför sem ríkisstj. hyggst nú gera að nýgerðum kjarasamningum.

Ef tilkoma ríkisstj. á hverjum tíma á að brennast svo inn í vitund manna, að hún sé ávallt í þá átt að eyðileggja gerða kjarasamninga, þá er eðlilegt að menn fari að hugsa sig um, hvort frjáls samningsréttur og félagafrelsi sé yfirleitt í gildi í landinu. Ef afskipti ríkisstj. þýða þetta, þegar búið er að hrópa til hennar úr öllum áttum í þjóðfélagskerfinu, — ríkisstj. verði að koma til, — tilkoma hennar þýði ávallt eitt og hið sama, þ. e. neikvæða niðurstöðu, þá er það alvarlegasti hluturinn í þessu máli öllu, þegar á heildina er lítið, — ef það fer áfram ómengað inn í vitund almennings í launþegasamtökunum, að það eitt þurfi til að koma að ríkisstj. skipti sér af málinu, þá sé hægt að rifta gerðum kjarasamningum.

Þess vegna tek ég undir með þeim ræðumönnum, sem hér hafa talað á undan mér, að ég fagna þeirri yfirlýsingu frá hæstv. forsrh. hér í dag við upphaf þessarar umr. að 3. gr. frv. skuli felld niður. Ég óttast hins vegar sannarlega að sá frestur, sem með því gefst til að ræða slík stórmál, verði ekki nægjanlega nýttur. Kjaraskerðingin kemur eigi að síður til framkvæmda 1. mars n. k., svo sem boðað hefur verið. Ég óttast að sá tími, sem gefinn er til umr. um breytingar á sjálfum grundvelli vísitölunnar og þátttöku hinna ýmsu kostnaðarliða hennar, verði ekki nýttur svo sem þörf er á. Það er einkum tvennt sem ég óttast og tel mig hafa ástæðu til, þótt ég fagni þessari yfirlýsingu hæstv. forsrh., að endurskoðunin muni eiga sér stað. Við vitum ósköp vel hvaða tímar eru fram undan. Það eru tvennar kosningar, annars vegar til Alþingis og hins vegar til bæjar- og sveitarstjórna ásamt sumarleyfum. Í þetta hvort tveggja munu fara að venju 3–1 mánuðir, og það er komið fram á haustmánuði, þegar vitað er hverjir eiga að stjórna og hvar. Ég veit því að sá tími, sem fram undan er, er ekki vinnudrjúgur til að komast að endanlegri lausn svo mikils vanda. En í yfirlýsingu hæstv. forsrh. felst tvímælalaus viðurkenning á skoðun verkalýðssamtakanna, og á ég þar jafnt við Alþýðusamband Íslands sem BSRB, að þarna var í raun og sannleika vegið að kerfi sem hefur verið eina vörnin, en deila má um hvort er rétt uppbyggt í alla staði. Ég hygg að allir séu sammála um að svo sé ekki, en hins vegar greinir menn mjög á um hverju eigi þar að breyta. En ég ítreka það, að mig hryllir við þeirri þróun, ef það kemst almennt inn í vitund launþegasamtakanna, að afskipti ríkisstj. þýði eyðileggingu á nýgerðum samningum, hvenær sem ríkisstj. kemur nálægt þeim.

Hingað til hefur tilkoma ríkisstj. og afskipti einstakra ráðh. vakið vonir og oft leyst deilur, og tilkoma ríkisstj., bein og óbein, í samningamál m. a. á s. l. sumri var vissulega tilraun til lausnar á vanda. En með tillögum hennar nú er beinlínis höggvið að rótum þess samkomulags sem hún sjálf átti hlut að að náðist á s. l. sumri.

Það er þessi þróun sem ég tel, burt séð frá öllum talnalegum rökum sem beitt hefur verið gegn þessu máli, það alvarlegasta, til viðbótar þeim ofboðslega áróðri sem hafður er uppi gegn löggjafarsamkomu þjóðarinnar á opinberum vettvangi leynt og ljóst og hjálpar þeim aðilum sem ósanngjarnast tala um það, að Alþ. sé ekki sú stofnun, sem segi á hverjum tíma síðasta orðið um afgreiðslu mála. Það eru engir menn úti í bæ jafnvel ekki samtök, sem eiga að gera það, heldur Alþ. sjálft. Það eiga menn að vita, og til þess erum við hingað kjörnir og eigum að hafa þor til að gera á hverjum tíma það sem við teljum réttast.

Enn bætist sú fullyrðing við, að meiri hl. sé alltaf fyrir hendi á Alþ. til þess að eyðileggja þann frumstæða, en helgasta rétt, sem launþegasamtökin eiga, og sé einungis til þess notaður að vega að þeim sjálfum. Þá mun álit almennings eðlilega skerðast á hinn verri veg fyrir framtíð íslenskrar löggjafarsamkomu.

Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi: Ég er einlægur stuðningsmaður tillagna verkalýðssamtakanna og hefði glaður greitt atkv. till. þeirra til lausnar vandanum, sem ég hef enga aðstöðu til að vefengja að sé í raun fyrir hendi. Ég vil trúa því, að þar hafi rétt og dyggilega verið að unnið. Í verðbólgunefnd hafa stjórnmálaflokkarnir átt möguleika á að kynna sér málin til hlítar. Þó að einstök atriði hafi á lokastigi málsins verið dulin fyrir þingheimi og þm. haft skamman tíma til að vega og meta einstök atriði, þá lít ég þó á það, sem ég hef hér á undan sagt um nauðsyn á trúnaðartrausti sem alvarlegasta hlutinn við afgreiðslu málsins. Er það lýðræðislega traust enn þá til?

Ég læt í ljós þá einlægu von, þrátt fyrir að vitað er nú um þingmeirihl. fyrir þessari aðför að íslensku samningafrelsi, að tíminn. sem lofað er að nota samkv. yfirlýsingu hæstv. forsrh. hér í dag, verði í raun og sannleika notaður íslenskum launþegum til hags og heilla og þar unnið af fullum krafti og tíminn notaður til þess ítrasta alþjóð til framtíðarheilla.