25.10.1977
Sameinað þing: 9. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

4. mál, kosningalög

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim þm., sem hafa tekið til máls við þessa umr. — þeir eru nú orðnir æðimargir — fyrir ágætar undirtektir við efni tillögunnar.

Ég get ekki hugsað mér í þessu sambandi að karpa mikið við þá Alþfl.-menn vegna tilhögunar á prófkjöri þeirra, enda þótt formaður flokksins, Benedikt Gröndal, sem nú er horfinn af fundi, hafi gefið ærið tilefni til þess. En hann og aðrir forustumenn Alþfl. vita að sjálfsögðu að prófkjörstilhögun hjá Alþfl. hefur verið töluvert mikið gagnrýnd, bæði af þeirra eigin flokksmönnum og mönnum sem utan flokksins eru. Og gagnrýnin hefur að sjálfsögðu beinst fyrst og fremst að því atriði, að hugsanlegt sé og jafnvel mjög líklegt að menn, sem fylgja öðrum flokkum að málum, ráði úrslitum í prófkjöri Alþfl. og þetta hafi þegar gerst í þeim prófkjörum sem farið hafa fram. Ég held að það sé tiltölulega mjög auðvelt að færa rök að því, að a.m.k. séu mjög miklar líkur til þess, að annarra flokka menn, stuðningsmenn annarra flokka, hafi ráðið úrslitum um hverjir veljast í framboð fyrir Alþfl.-menn sem alls ekki ætla sér að kjósa Alþfl. þegar þar að kemur. Auðvitað er það ekki lýðræðislegt þegar svo tekst til. Það var þetta sem hv. þm. Svava Jakobsdóttir átti við áðan og gerði ágæta grein fyrir, og mér fannst alveg óþarfi af formanni Alþfl. að reyna að snúa út úr orðum hennar því að þau voru mjög skýr og ljós.

Hér hafa orðið talsverðar umr. um kjördæmaskipun og það hversu margir þm. eigi að sitja fyrir hvert kjördæmi hér á Alþ. Hv. þm. Karvel Pálmason beindi spurningum til mín sérstaklega um afstöðu mína til þess atriðis. Ég tel þetta að vísu nokkuð óeðlilegt þar sem það mál, sem hér er til umr., snýst alls ekki um þennan þátt kosningalaga og kjördæmaskipunar. En ég get ekki skorast undan því að fara örfáum orðum um skoðanir mínar á þessu atriði vegna þess að þær eru ekki nú frekar en endranær neitt launungarmál.

Ég hef oft áður verið spurður um það, hver væri afstaða mín til þessa atriðis, og hef veitt svör við því og skal gera það enn. Ég tel að frá því að kjördæmabreytingin var gerð árið 1959 hafi orðið umtalsverð röskun á búsetu hér í landinu og þar af leiðandi breyting á fjölda þeirra atkv. sem eru að baki hverjum þm. Kjósendum hefur fjölgað á þessu tímabili um 45% og aðallega á ákveðnu landssvæði. Og ég tel ekkert óeðlilegt að við reynum að hugleiða hvernig unnt væri að leiðrétta það misvægi sem af þessu hefur hlotist. Þetta mál hefur verið rætt í stjórnarskrárnefnd á undanförnum árum, og ég tel ekkert óeðlilegt að menn reyni að átta sig á því hver séu hin eðlilegustu viðbrögð gagnvart þessu vandamáli. Ég vil hins vegar taka það fram, að persónulega tel ég algerlega óraunhæft að ætla að reyna að leysa þetta vandamál með því að fækka þm. í fámennustu kjördæmunum. Þar er um að ræða mjög víðlend héruð sem búa við á margan hátt miklu lakari þjónustu en hin fjölmennari kjördæmi, og ein sú þjónusta sem hið opinbera veitir þessum héruðum er einmitt það, að þau njóti þess að hafa a.m.k. 5 þm. Ég tel að þjónustan við hinar dreifðu byggðir sé ekki svo góð að réttlætanlegt sé að skerða þennan rétt hinna dreifðu byggða, þannig að ég leita ekki lausnar á þessu vandamáli eftir þeirri leið að fækka þm. í ákveðnum kjördæmum.

Hitt er svo á að líta, að það er ekki æskilegt og vafalaust ekki sérlega vinsælt að fjölga þm. á Alþ. verulega. Ég er viss um að það hlyti engar undirtektir að fara að fjölga þm. hlutfallslega jafnmikið og kjósendum hefur fjölgað á þessu tímabili, um 45%. Til þess þyrftu þm. að verða um 88 talsins. En mér finnst vel koma til greina að leita að lausninni á þann veg, að hlutföllin geti orðið eitthvað svipuð og þau voru þegar kjördæmabreytingin var gerð árið 1959. Mér reiknast svo til, að til þess þyrfti að framkvæma þá breytingu að þm. í Reykjavík fjölgaði um 4 og þm. af Reykjanesi um aðra 4. Mér telst svo til að með þeirri breytingu væru upp komin mjög svipuð hlutföll og voru hér á landi árið 1959.

Þetta eru aðeins hugleiðingar af minni hálfu, en ekki ákveðnar till. Ég held að ég megi fullyrða að enginn flokkur hefur mótað ákveðna stefnu í kjördæmamálinu, ekki minn flokkur frekar en flokkur Karvels Pálmasonar, og ég veit ekki til að það séu uppi neinar ákveðnar till. frá neinum flokki í þessu efni. Þetta er aðeins hugleiðing af minni hálfu vegna þess að enn er þetta mál algerlega á því stigi. En mér virðist á öllu að þetta væri sú lausn, sem væri eðlilegust miðað við ríkjandi aðstæður, og sú lausn, sem auðveldast væri að ná einhverju samkomulagi um. Hitt er ljóst, að eftir þessa breytingu yrði ekki um að ræða jafnmikinn atkvæðafjölda á bak við hvern þm. Eftir sem áður yrði um að ræða það sem menn hafa í þessum umr. kallað misvægi og það talsvert. Ég er hins vegar hræddur um að það sé fullkomlega óraunhæft að ætla að rétta það misvægi fullkomlega af. Það verður ekki gert nema með lausn sem mundi hafa í för með sér mjög verulega ágalla.

Ég vil að öðru leyti segja það eitt um þetta mál, að eðlilegast er að stjórnarskrárnefnd haldi áfram umr. um það og leiti eftir samstöðu um hvernig það verði eðlilegast leyst.

Ég vil svo bæta því við að lokum, að hv. þm. Ellert Schram komst svo að orði í ræðustól áðan, að þessar umr., sem hér hefðu orðið í dag, gætu orðið leiðbeining fyrir stjórnarskrárnefnd og fyrir þá „ad hoc“-nefnd, eins og hann orðaði það, sem sett hefði verið á laggirnar til þess að fjalla um þetta mál. Hér er bersýnilega misskilningur á ferðinni. Það hefur enn ekki nein nefnd verið sett á laggirnar til að fjalla um þetta mál. Menn hafa ekki einu sinni enn komið saman til þess að ræða um tilhögun þess hvernig að slíkri nefndarskipan yrði staðið. Og enn síður liggur fyrir nokkurt samkomulag um hvaða viðfangsefni og verkefni slík nefnd á að hafa á sinni könnu.

Ég hef lýst því yfir hér í umr., að ég tel óskynsamlegt fyrir framhald málsins og sérstaklega fyrir framhald þess máls sem hér er til umr., þ.e.a.s. um aukin áhrif kjósenda á röð frambjóðenda, að blanda saman öllum þessum erfiðu úrlausnarefnum sem snerta kosningalög og kjördæmaskipun. Ég tel, eins og ég sagði áðan, réttast að stjórnarskrárnefnd fjalli áfram um kjördæmaskipun, um úthlutun þingsæta, um hugsanlegan fjölda þm. í framtíðinni og um önnur skyld atriði, eins og t.d. hvort ákveða ætti eitthvert ákveðið lágmark, hvort ákveða ætti einhvern ákveðinn lágmarksatkvæðafjölda sem tryggði flokkum rétt til þingsætis hér á Alþ. Ég er sammála þeim sem hér hafa rætt um að núverandi reglur eru óeðlilegar. Það kynni að vera mjög eðlilegt og sjálfsagt að miða þar við einhverja ákveðna hlutfallstölu ellegar t.d. miða við að sá flokkur, sem atkvæðalega séð ætti rétt á þremur uppbótarþingsætum, fengi þau, jafnvel þótt hann hafi ekki fengið neinn kjörinn mann. Einhverjar reglur af þessu tagi væri ekki óeðlilegt að setja. En þetta eru allt náskyld mál sem verður að ræða í samhengi, og ég tel eðlilegast að þau verði rædd í stjórnarskrárnefndinni sem síður en svo hefur enn sagt af sér.

En það sem ég hef hér aftur á móti gert að umtalsefni í þessum umr., varðar persónubundnara kjör. Þar er um atriði að ræða sem snertir almenn lög. Þar er um sérgreint atriði að ræða sem hægt er að skoða sér á parti, þannig að því verði hugsanlega komið í framkvæmd í næstu kosningum, og þess vegna langeðlilegast að sérstök nefnd fjalli um það atriði. Ég tek undir það sem sagt hefur verið hér í þessum umr. að auðvitað er sjálfsagt að nefndin skili af sér þannig að niðurstaða hennar geti legið fyrir áður en þing hættir störfum og ný kosningatilhögun geti tekið gildi fyrir næstu kosningar. Ég veit að sumum þykir það kannske eitthvert umhugsunarefni, hvort hægt sé að koma því við vegna þess að ýmsir flokkar hafi nú þegar ákveðið framboð í ýmsum kjördæmum og því sé óeðlilegt að Alþ. komi nú með breytta skipan. En ég vil benda á, að ef sú leið verður valin sem ég hef hér mælt með, að hér verði einungis um heimildarákvæði að ræða, en ekki skyldu fyrir flokkana að taka upp breytt fyrirkomulag í þessum efnum, þá ætti það litlu að breyta þótt flokkarnir ýmsir hverjir hafi nú þegar ákveðið framboð sín í einstökum kjördæmum. Þá þyrftu þeir einungis að ákveða hvort þau framboð stæðu óbreytt áfram eða hvort breyting yrði á þeim.

Þetta vildi ég láta verða mín lokaorð. Ég sé ekki að þörfin fyrir þá nefndarskipun, sem hér er gerð till. um, sé neitt minni þótt forsrh. hafi gefið ákveðna yfirlýsingu um að hann vilji og sé reiðubúinn til að skipa nefnd sem fjalli um þessi mál öll í heild sinni. Það tel ég að sé óskynsamlega að málum staðið.