16.02.1978
Efri deild: 63. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2498 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég leyfði mér áðan að kalla fram í fyrir hv. þm. Eggert G. Þorsteinssyni til þess að leiðrétta þann misskilning hans, að það sé 2. dæmið í áliti meiri hl. verðbólgunefndar, sem launþegasamtökin ásamt fulltrúum stjórnarandstöðunnar í verðbólgunefnd lögðu til að tekið yrði, að farin yrði sú leið. Því fer víðs fjarri. Ef hv. þm. vildi hafa fyrir því að lesa saman 2. dæmið í áliti meiri hl. verðbólgunefndar og till. launþegasamtakanna og fulltrúa stjórnarandstöðunnar, þá mundi hann komast að því, að hér er um sitt hvað að ræða. Ef hann hefði ekki látið við það sitja að hlýða á botnlanga þann sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason lét fylgja áliti sínu til skýringar á niðurstöðum minni hl. í n., þá hefði þetta blasað við honum. Það er víðs fjarri mér að vilja kasta nokkurs konar rýrð á hv. þm. persónulega. og ég bið bæði forseta og ritara þessarar hv. d. að veita því sérstaka athygli, vegna bókunar, að ég nefni ekki moðhaus í því sambandi.

Leiðirnar, sem fulltrúar launþegasamtakanna og fulltrúar stjórnarandstöðunnar í verðbólgunefnd lögðu til að farnar yrðu og undirrituðu í sérstöku áliti sínu, eru þessar, svo að ég tryggi það, að hv. þm. heyri nú niðurstöðuna af störfum þessara aðila í verðbólgunefndinni, ef vera skyldi að hann nennti ekki heldur að lesa þær eftir á, þá eru þær þessar:

Í fjáröflunarskyni var lagt til, að hækkaður yrði skattur félaga um 10% og auk þess lagður á félögin 5% skyldusparnaður, sem næmi 900 millj. kr. í fjáröflunarskyni, veltugjald á sama skattstofn og aðstöðugjöld, sem næmi 4300 milli. kr., lækkun rekstrargjalda ríkisins 1500 millj. kr., útflutningsuppbætur, sem færast á niðurgreiðslur og næmu 1000 millj. kr., áhrif aðgerðanna á ríkissjóð 2000 millj. kr., hækkun tekna ríkisins vegna betri innheimtu söluskatts og vegna breytinga á tekjuskatti 1000 millj. kr. og sala spariskírteina 2000 millj. kr.

Síðan kemur að ráðstöfunum þessara peninga. Vörugjald fellur niður, 6800 millj. kr., niðurgreiðslur auknar um 3200 millj. kr., leiðréttingar á forsendum fjárl., en samkv. upplýsingum Þjóðhagsstofnunar er óhjákvæmilegt að afla þessara tekna þar sem fjárlagaforsendur hafa reynst rangar, 2100 millj. kr., eða 12100 millj. kr. samtals.

Auk þessara fjárlagaaðgerða verði verslunarálagning lækkuð um 10%, þannig að áhrif verðlækkunaraðgerðanna í framfærsluvísitölu verði sem hér segir: Lækkun verslunarálagningar 1.5%, auknar niðurgreiðslur 3%, niðurfelling vörugjalds 2.5%, lækkunin alls 7%.

Þetta voru till. fulltrúa launþegasamtakanna og fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna í sérstöku áliti sínu um störf í verðbólgunefnd og till. sínum um leiðir. Nú ráðlegg ég hv. þm. Eggert G. Þorsteinssyni endilega hreint að bera þessar till. saman við till. í leið 2 eða 2. dæminu í skýrslu verðbólgunefndar, svo að hann geti gengið úr skugga um það, að ekkert slíkt var þar lagt til. Aftur á móti var í því dæmi gert ráð fyrir því, að stórlega yrði dregið úr ríkisframkvæmdum og sparað með þeim hætti.

Hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson hefur átt mun lengri setu en ég hér á Alþ., hefur verið ráðh. í ríkisstj. sem stjórnað hafa að till. þeirra sérfræðinga og samkv. ráðum þeirra sérfræðinga sem ég nafngreindi í framsöguræðu minni áður, situr nú í stjórn fyrirtækis sem stofnað var að ráðum þessara sömu sérfræðinga, þar sem er málmblendiverksmiðjan í Hvalfirði.

Ég staðhæfi, að ef hv. þm., einn sem allir, 60 að tölu, hefðu fyrir því að kynna sér öllu betur en þeir virðast gera forsendur fyrir útreikningum ýmissa sérfræðinga varðandi grundvallarframkvæmdir á landi hér, fjárfestingarmál sem annað, og tækju síðan afstöðu á grundvelli eigin athugana, þá væri vegur þessarar öldnu stofnunar í vitund almennings öllu meiri en bann nú er. Aftur á móti hygg ég að vegur Alþ. muni ekki vaxa af því, að mjög margir þeirra manna, sem lagt hafa sitt af mörkum lengst til slælegra vinnubragða á borð við þau sem framkomu í ræðu hv. þm. Eggerts G. Þorsteinssonar áðan, gangi hér upp í ræðustól og krefjist aukinnar virðingar til handa þessari stofnun með réttu eða röngu. Hitt var náttúrlega ljóst, þegar er nál. minni hl. í verðbólgunefnd var lagt fram, að sérstökum fulltrúa þingflokks Alþfl. í verðbólgunefnd var það mjög mikið í mun í raun og veru að tileinka sér ýmsar þær teknokratísku leiðir, sem á var bent til úrbóta af hálfu sérstakra efnahagsráðunauta þessarar ríkisstj., eins og af gömlum kæk að hlýða, sem verður ákaflega ríkur í eðlisfari þeirra manna sem virðast hafa frá upphafi misskilið með öllu hlutverk sitt innan löggjafarsamkundunnar.