16.02.1978
Neðri deild: 60. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2508 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ekki er þörf að endurtaka ummæli um þá undrun sem það varð forráðamönnum launþegasamtakanna, þegar þeir voru á elleftu stundu kallaðir á fund nokkurra ráðh. og þá dregin fram úrræði sem voru hvergi nærri því, sem verðbólgunefnd hafði til hugar komið eða hún hafði rætt í starfi sínu rúmlega eitt ár.

Það fer varla á milli mála. að 3. gr. frv., eins og það upphaflega var, vakti mesta undrun, af því að þar var um róttæka og áhrifaríka aðgerð að ræða og ákvæðið, eins og það var í frv., var þess eðlis, að það bar vott um fljótræði og fálm og virtist vanhugsað með öllu, eins og fram kom í umr. og stjórnarmeirihl. í n., sem fjallaði um frv., varð strax að viðurkenna. Þetta mál er þess eðlis, að það eru ekki stjórnmálamenn með fulla ábyrgð eða með eðlilegan hugsunarhátt sem leggja til að það sé framkvæmt á þann hátt sem var í frv. upphaflega. Það er eitthvert furðulegt valdatafl á milli stjórnarflokkanna, sem hlýtur að standa að baki þeirri fáránlegu skyssu sem ríkisstj. þar gerði og hún hefur nú viðurkennt með því að hörfa frá þessu ákvæði í Ed. Hvort það eru sömu mennirnir, sem áttu upphafið að þessari skyssu og réðu því að hún var dregin til baka, skal ég ekki segja. Það vita aðrir betur en ég. En engu að síður verður að viðurkenna, að það er mikill ávinningur að ríkisstj. skyldi þó sjá að sér og draga þetta ákvæði til baka, enda þótt það ætti ekki að koma til framkvæmda fyrr en í byrjun næsta árs. Þetta var óvænt ákvæði, sem átti mikinn þátt í því, hversu mikil harka hefur færst í þessa deilu. Ríkisstj. brást því meginhlutverki sínu að reyna að bera sáttaorð á milli stétta, heldur hellti hún ollu á eld deilnanna. Þetta óskiljanlega ákvæði var hrein ögrun við launþegasamtökin og ógerningur fyrir forustumenn þeirra að skilja það á annan hátt, enda stóðu þeir upp og gengu út af þeim fundi þar sem þeim var skyndilega tilkynnt að þetta væru áform ríkisstj.

Engu að síður hafa mótmæli þau, sem borist hafa, og umr. á fjöldamörgum fundum í launþegasamtökum, sem fram hafa farið síðan meðferð þessa máls hófst, snúist meira um það sem gerist 1. mars heldur en 1. jan. n. k. Ég hygg að allur þorri launþega geri sér miklu gleggri grein fyrir því, hvað er verið að taka af þeim 1. mars, heldur en hvað ríkisstj. gæti gert með hið vanhugsaða og fáránlega ákvæði 3. gr., sem stjórnin hefur nú dregið til baka. Látum það kyrrt liggja, ég ætla ekki núv. ráðh. nein ill áform í því sambandi.

En þar sem áhyggjur launþegasamtakanna beinast fyrst og fremst að því, sem næst er og til framkvæmda kemur eftir stuttan tíma, þá hef ég fram að færa skriflega till., frávísunartillögu, og skal nú lesa hana, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem breytingar Ed. á frv. draga ekkert úr kjaraskerðingu eða riftun samninga, sem í því felast, og enn stendur boð stærstu launþegasamtakanna um að ræða við ríkisstj. um lausn á vandamálum atvinnuveganna án þess að kjarasamningum sé rift, ályktar Nd., í trausti þess að slíkar viðræður fari fram, að vísa frv. til ríkisstj.

Flm. þessarar till. eru auk mín Eðvarð Sigurðsson og Karvel Pálmason.