16.02.1978
Neðri deild: 60. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2518 í B-deild Alþingistíðinda. (1842)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru aðeins stuttar aths.

Það er í fyrsta lagi vegna ummæla hv. 4. þm. Vestf., Gunnlaugs Finnssonar, sem talaði um verðbætur í prósentutölu á öll laun og mátti skilja svo, að ákvæði í kjarasamningum verkalýðsfélaganna frá 22. júní hafi m. a. verið af því tagi, að allsráðandi væru verðbætur í prósentutölu, þar sem tvöfaldar verðbætur kæmu á öll hærri laun. Af þessu tilefni vil ég taka fram, ef hv. þm. eða aðrir vita það ekki, að samningar Alþýðusambandsins í sumar voru ekki með þessum hætti. Þar var í fyrsta lagi um að ræða kauphækkun, sem var tiltekin í prósentum og að sjálfsögðu krónutölu á lægstu laun. Síðan kom sú sama krónutala á önnur laun. Þannig voru samningar Alþýðusambandsins í sumar. Verðbæturnar á launin vorn einnig í krónutölu. Það voru fullar verðbætur á lægstu laun og síðan sama krónutala á öll önnur laun í þeim samningum. Hins vegar gilti þetta ekki nema um verðbæturnar sem komu 1. sept. og 1. des. Með þessari krónutölureglu, bæði í grunnkaupshækkunum og verðbótum, þetta tímabil höfðu launataxtar færst mjög saman. Það þótti ekki fært að minnka þetta bil frekar, og verðbætur 1. mars, 1. júní og 1. sept., þ. e. a. s. það sem eftir var af samningstímabilinu, áttu að vera með prósentuuppbótum á öll laun. Þetta er sannleikurinn um þessi mál, og ég tel alveg sjálfsagt og rétt að það komi hér fram, svo að ekki valdi neinum misskilningi, hvernig þessir samningar voru í sumar. Þeir sem sagt voru launajöfnunarsamningar. Slíkir samningar hafa ekki verið gerðir fyrr sem hafa falið í sér jafnmikinn launajöfnuð og fólst í samningum Alþýðusambandsins. Það er hins vegar ekki úr vegi að minna á það, að hæstv. ríkisstj. bauð Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja fullar verðbætur í prósentum á öll laun og þannig var frá þeim samningum gengið. Það var boð ríkisstj.

Vegna orða hæstv. forsrh. áðan varðandi efnisatriði 3. gr. frv., sem var, þá taldi hann að sú stefnuyfirlýsing, sem hefði falist í þessari 3. gr., hefði verið eitt aðalatriði frv. (Forsrh.: Eitt aðalatriði gagnrýninnar á frv.) Ég gat nú ekki betur heyrt en þetta hafi verið eitt aðalatriði frv. Ég held hins vegar að svo hafi ekki verið, fjarri því, aðalatriði frv. fælist í 1. gr. þess og kjaraskerðingunni sem henni fylgir. Hins vegar taldi ég að það að nema brott þessa 3. gr. væri undanhald ríkisstj. í þessum efnum vegna þeirra snörpu mótmæla sem komið höfðu frá launþegasamtökunum. Hvort þetta heitir undanhald eða eitthvað annað er mér svo hjartanlega sama um. Það var ekki ætlun mín að hafa strákslegt orðalag, en hæstv. forsrh. þótti sem svo hefði verið. Það er þá algerlega óvart og sennilega þá mér meðfætt að nota strákslegt orðalag. En sem sagt, það átti alls ekki að skiljast svo. Ég var hér aðeins að tína fram staðreyndir málsins. Hæstv. ríkisstj. hefur farið á undanhald í þessu efni. Það hélt ég að væri staðreynd, þegar búið var að taka 3. gr. burt.

Ég taldi líka í þeim orðum, sem ég sagði áðan, viturlegt af hæstv. ríkisstj. að reyna að leysa þessi mjög svo viðkvæmu mál, sem felast í verðbótaákvæðum kjarasamninga, í samráði við verkalýðssamtökin. Ég lýsti hins vegar því, hvernig þau samráð hefðu verið í framkvæmd, ekki hvað síst við meðferð og undirbúning þessa frv. Ég sagði síðan, að ríkisstj. hefði ekki fallið frá áformum sínum hvað varðaði efnisatriði hinnar sálugu 3. gr. Og hæstv. forsrh. lýsti yfir áðan að einmitt það væri staðreynd, ríkisstj. hefði ekki fallið frá þessum áformum, hins vegar yrðu önnur vinnubrögð höfð við að koma þessu í framkvæmd.

Ég ætla ekki að fara að ræða þessi mál neitt frekar hér. Ég lýsti ósköp greinilega, trúi ég, afstöðu minni í fyrri ræðu í kvöld og hef ekki neinu við það að bæta.