21.02.1978
Sameinað þing: 46. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2522 í B-deild Alþingistíðinda. (1849)

341. mál, jöfnun símgjalda

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Þegar frv. til l. um póst- og símamál var til umfjöllunar í Ed. í vor bar ég fram till. til breytingar á 11. gr. frv. Þær efnisbreytingar, sem ég lagði til að gerðar yrðu, voru þrjár. Sú fyrsta, um talstöðvar í bifreiðar fatlaðra, hefur þegar verið rædd hér nú nýlega. Hinar tvær voru svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Ráðh. ákveður við næstu gjaldskrárbreytingu, að sama gjald komi fyrir hvert það símtal sem fram fer innan sama númerasvæðis.“ Og enn fremur: „Þá er ráðh. heimilt að ákveða að sama gjald skuli krafið fyrir símtal við helstu þjónustu og stjórnsýslustofnanir ríkisins í Reykjavík, hvaðan sem talað er af landinu.“

Ekki fengust þessar breytingar, gerðar á frv., en samkomulag varð um að n., sem hafði málið til umfjöllunar, tæki það til skoðunar á ný, o.g hún breytti 11. gr. mjög í þá veru er ég hafði lagt til, þannig að tilsvarandi málsliðir í 11. gr. hljóða nú svo: „Stefnt verði að því við gjaldskrárgerð að sömu gjöld gildi innan hvers svæðisnúmers, og skal ákveðið í reglugerð, hvenær framkvæmd þessa ákvæðis kemst á.“ Og enn fremur: „Ráðh. er heimilt að ákveða að sama gjald skuli krafið fyrir símtal við helstu stjórnsýslustofnanir ríkisins í Reykjavík, hvaðan sem talað er af landinu.“

Hæstv. samgrh. tók þessum till. mjög vel, og þess vegna hef ég leyft mér að bera fram á þskj. 137 svo hljóðandi fsp. til samgrh.:

„1. Má bráðlega vænta framkvæmda á eftirfarandi málslið í 11. gr. laga um póst- og símamál. Stefnt verði að því við gjaldskrárgerð að sömu gjöld gildi innan hvers númerasvæðis?

2. Hyggst ráðh. nota fljótlega svo hljóðandi heimild í sömu gr.: Ráðh. er heimilt að ákveða að sama gjald skuli krafið fyrir símtal við helstu stjórnsýslustofnanir ríkisins í Reykjavík, hvaðan sem talað er, af landinu?“