21.02.1978
Sameinað þing: 46. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2526 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

341. mál, jöfnun símgjalda

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Ég þakka ráðh. fyrir svar hans. En ég vil taka það fram, að ég er ekki ánægður með það svar, og mér finnst að hann hafi raunar ekki verið að svara minni fsp., heldur þá kannske frekar fsp. hv. þm. Ragnars Arnalds, því að það, sem ég spurðist fyrir um, var fyrst og fremst, eins og kom fram, hvort hann mundi senn framkvæma það ákvæði í póst- og símalögum, að þeir, sem töluðu innan sama svæðis, borguðu eitt gjald, þ e. a. s. núlltaxtann. Ég hafði von um jákvætt svar frá hæstv. ráðh., fyrst og fremst vegna þess hve hann hafði tekið þessu máli vel, þegar það var til umr. í Ed. Eins og ég tók fram áðan, hafði ég borið fram brtt. þar sem þetta var fellt inn í 11. gr., og ráðh. sagði þá frá því, að þetta væri eiginlega gömul till. hans sjálfs og hann liti mjög vinsamlegum augum á þessa till. Síðar komst þessi heimild inn í 11. gr.till. samgn., og átti ég því von á því að næst þegar tekin yrði til athugunar gjaldskrá Landssímans yrði eitthvað gert í þessu efni. En það er mikill munur á því, hvort skref eru almennt lengd eða hvort þetta ákvæði er tekið upp, að núlltaxti gildi innan hvers númerasvæðis, og það er fyrst og fremst vegna þess að innan svæðanna, þ. e. a. s. í nágrannabyggðarlögum, eru svo mikil bæði menningarleg og atvinnuleg samskipti, að það er ákaflega óheppilegt að þar skuli gilda tvenns konar greiðslufyrirkomulag. Þetta kemur ekki hvað síst fram hér í þéttbýlinu. Víð skulum segja þar sem ég bý, uppi í Mosfellssveit, þar er eina umdæmið á svæði 91 sem ekki er á núlltaxta. Á milli þessara svæða, höfuðborgarinnar og Mosfellssveitar, eru geysilega mikil samskipti og náin. Þar eru fimm heilbrigðisstofnanir, sem hafa og verða að hafa náið samband við höfuðborgina, fyrir utan það að fjöldi af mínum sveitungum vinnur niðri í Reykjavík og reyndar Reykvíkingar uppi í Mosfellssveit líka. Þetta þýðir það, að það er mjög erfitt að sætta sig við það greiðslufyrirkomulag sem nú er. Sama má reyndar segja þar sem eru margar útgerðarstöðvar á nálægum svæðum, svo sem á Suðurnesjum. Þar er fisk ekið á milli og eru miklu nauðsynlegri og nánari og meiri símasamskipti þar heldur en víðast hvar, annars staðar. Mér finnst eðlilegt og sjálfsagt að þar sé sama greiðslufyrirkomulag innan svæðanna. Það þýðir ekki það, að Landssíminn komist verr af, það er síður en svo, enda er tekið fram í lok 11. gr. að tekjur og gjöld Landssímans skuli standast á eftir því sem hægt sé. Það þýðir aðeins það, að núlltaxtinn yrði eitthvað hækkaður.