21.02.1978
Sameinað þing: 46. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2528 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

341. mál, jöfnun símgjalda

Axel Jónsson:

Herra forseti. Fyrst símamálin eru á dagskrá og það hvað hægt er að gera þar til úrbáta og í réttlætisátt, þá vil ég aðeins koma því á framfæri, að til viðbótar því slæma ástandi, sem er í símamálum Mosfellssveitar, er svo komið, að það er algert neyðarástand í Kópavogskaupstað varðandi þessi mál. Það er svo, að það þykir gott ef í fjölbýlishúsi með tveimur íbúðum er einn sími. Og það sem verra er, það virðist ekki vera neitt fram undan til úrbóta. Þau svör, sem ráðamenn Kópavogskaupstaðar fá hjá yfirstjórn símamála, eru einfaldlega þau, að þeir viti ekki neitt hvenær sé von úrbóta. Ég vildi aðeins koma þessu á framfæri, herra forseti. Ég geri ráð fyrir að það fari að heyrast allhátt í íbúunum sem búa við þetta ástand þar.