21.02.1978
Sameinað þing: 47. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2534 í B-deild Alþingistíðinda. (1864)

95. mál, hámarkslaun o.fl.

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því, að hv. alþm. sé löngu hætt að koma á óvart, hverju hv. þm. Stefán Jónsson kann að taka upp á né þó að hann noti sér óskylda till. til þess að setja upp eins konar réttarhöld yfir samþm. sínum eins og einhver guð, yfir okkur alla hafinn, sem kveður upp dóma um heiðarleika og aðra mannkosti. Ég mun ekki kippa mér upp við þetta, ætla aðeins að leiðrétta nokkrar vitleysur sem fram komu hjá honum.

Hann lýsti yfir að ritstjórnargreinar í Alþýðublaðinu merktar Ó væru skrifaðar af mér. Ég skrifa oft ritstjórnargreinar í Alþýðublaðið undir mínum eigin stöfum, en bæði ég og aðrir, sem þar starfa, höfum notað þetta Ó sameiginlega til skiptis af ýmsum ástæðum. Ég skrifaði ekki þessa umræddu grein. Ég þekkti á stundinni af orðalagi hver hafði skrifað hana, en ég ætla ekki að nefna það hér, það kemur ekki málinu við. Allir þessir miklu siðferðislegu dómar, sem hv. þm. fellir um mig — og dregur raunar hv. þm. Gylfa Þ. Gíslason inn í að jöfnu — út frá þessari grein, falla því um sjálfa sig að öðru leyti en því, að við berum almenna ábyrgð á Alþýðublaðinu. En þar er ekki um daglega ritskoðun að ræða og það er hugsanlegt að einhver ágreiningur geti verið um einstök atriði, sem leiðarahöfundar bregða fyrir sig.

Í öðru lagi heyrðist mér hv. þm. segja, að ég ætti sæti í þfkn. Það er alger misskilningur. Ég hef aldrei átt sæti í þeirri n. Hins vegar er ég eini þm., sem hefur flutt frv. sem felur í sér að leggja þessa n. niður, og ég hef skrifað greinar í blöð þar sem ég kalla hana „leyninefnd“ Alþingis og tel hana vera þinginu til skammar. Ég hef og sagt þetta áður í þessum ræðustól. Flokksbróðir minn, Gylfi Þ. Gíslason, hefur tvívegis flutt till. um það, að ákvörðun um kaup þm. verði falin aðila utan þings í sjálfu sér ekki af vantrausti á þingið, heldur til þess að auka traust þjóðarinnar og draga úr því að hún hafi ástæðu til að gagnrýna hv. þm. Hann hefur leitað sér að meðflm. í bæði skiptin og aðeins fengið einn, hv. þm. Ellert B. Schram, svo að ég hygg að ekki sé sérstaklega við okkur að sakast í þessum efnum.

Varðandi mætingu á fundum skal ég ekki segja margt, því að ég get ekkert um það sagt sem hv. þm. vita ekki. Það er sjaldan fullskipað í d. eða Sþ. En við vitum vel að þm. eru oft að störfum annars staðar í húsinu eða í næstu húsum og það fullkomlega jafnnauðsynlegum störfum og að hlusta á ræður, t. d. eins og þá síðustu sem hér var flutt. En það er fróðlegt að vita það, að þessi hv. þm. Alþb. skuli hafa tekið upp símanjósnir um mig og hv. þm. Gylfa Þ. Gíslason til þess að geta komið á okkur einhverju skítkasti, að því er best verður séð í langvarandi reiðikasti, af því að hann var nefndur á annan hátt en hann óskaði í ritstjórnargrein í Alþýðublaðinu. En ég læt mig það engu skipta. Hann má hringja um allan bæ og allt land til að vita hvar ég er, því að ég hef fullkomlega hreina samvisku af því að ég stundi bæði þingstörf og þá stöðu forstöðumanns í Fræðslumyndasafninu, sem ég hef haft jafnframt þingstörfum eins og lög leyfa, með 60% starfs og launa. Raunar er stjórn yfir því safni og fylgist með því. Ekki hafa borist neinar kvartanir um að þeim störfum hafi ekki verið gegnt.

Hitt er svo allt annað mál, af hverju þm. hafa önnur störf, en þessi staða forstöðumanns er vafalaust í lægri launaflokkum en ýmsar aðrar stöður sem þm. hafa. Ég get sagt það hreinskilnislega, að ég hefði sagt þessari stöðu lausri fyrir mörgum árum ef ekki hefði verið öryggisleysið. Það er ekki langt síðan það voru milli 40 og 50 atkv. sem fleyttu mér inn á þingið. Við getum öll átt von á því að hverfa héðan skyndilega. Þegar menn eru búnir að eyða 20–25 bestu árum ævinnar í pólitík, þá er ekki víst að þeir eigi greiðan aðgang að vinnumarkaðnum, sérstaklega ef þeir eru eins og ég og hv. þm. í þeim flokkum sem mest vilja breyta þjóðfélaginu og hafa þar af leiðandi árum saman haldið uppi gagnrýni á stofnanir sem ráða yfir verulegum hluta vinnumarkaðsins. Þar fyrir mundi síður en svo standa á mér að gera breytingar á þessari heildarskipan, og það mundi ekki standa á mér að fylgja því, ef Alþ. ákvæði að breyta gildandi lögum hvað þessu viðkemur.

Hitt þekki ég frá fyrri árum, að hér stóðu langvarandi deilur um þessi mál. Á seta á Alþ. að vera fullt starf eða á hún ekki að vera það? Á að stefna að þveröfugu, að þm. haldi tengslum við hinar ýmsu starfs- og atvinnugreinar í landinu? Eysteinn Jónsson hélt manna harðast fram sjónarmiðinu, að þm. ættu að gegna þingmennskunni sem fullu starfi, en Bjarni Benediktsson hélt fram hinu gagnstæða. Þróunin hefur orðið sú, að launakjörin ern orðin þannig, að þetta á að geta verið fullt starf. En fyrir þá, sem ekki eru í algerlega öruggum sætum eða hafa verið, þá er öryggið nokkurs virði og meira en nóg afsökun fyrir því, að þeir hagnýti sér það, sem leyft er samkv. lögum, að menn hafi önnur störf hjá ríkinu með skertum tekjum.