21.02.1978
Sameinað þing: 47. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2539 í B-deild Alþingistíðinda. (1867)

95. mál, hámarkslaun o.fl.

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að víkja örfáum orðum að þeim þætti í framsöguræðu minni sem greindi frá því sem hv. þm. Benedikt Gröndal kallaði símanjósnir. Strax í upphafi ræðu minnar lýsti ég yfir þakklæti mínu til hans fyrir það, að hann skyldi vera viðstaddur hér í Sþ. í dag, beinlínis vegna þess hversu oft ég hafði orðið að fresta því að mæla fram með till. vegna þess að þeir voru báðir fjarverandi, þeir menn sem ég sveigði svo mjög að í framsöguræðu minni, hann og hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason Ég sagði eingöngu frá því, hvaða erfiði og hvaða fyrirhöfn ég lagði á mig, ekki til þess að kanna hvar þeir væru, heldur til þess að ná sambandi við þá, þannig að ég gæti beðið þá um að gera svo vel að heiðra sali hv. Alþ. með nærveru sinni meðan á þingstörfum stæði.

Ég hefði ekki viljað þurfa að fjalla um þessi 60%-mál þeirra hv. þm. Benedikts Gröndals og Gylfa Þ. Gíslasonar í tengslum við þessa þáltill. sem hér er um að ræða. Ég hefði viljað komast hjá því, því sannast sagna veit ég að hægt er fyrir duglega menn að vinna fyrir kaupinu sínu í vel skipulögðu starfi hjá opinberri stofnun á tiltölulega skömmum tíma.

Ástæðan fyrir því, að ég taldi mig til knúinn að fjalla um þessi mál hér, var einfaldlega sú, að að okkur tveimur þm. Alþb., sem hvorugur tekur fastar tekjur annars staðar, var sveigt á svívirðilegan hátt í Alþýðublaðinu. Mér þykir leitt að ég skyldi titla hv. þm. Benedikt Gröndal nm. í þfkn. Í því fólst aðeins misskilningur, en ekki nein svívirðileg aðdróttum. Hitt var svívirðileg aðdróttun, hitt var aðdróttun um svívirðilegan verknað, að ég skyldi hafa það fyrir satt, sem mér hafði verið sagt, að það væri gagngert hann sem skrifaði ritstjórnargreinar sem merktar væru með Ó í Alþýðublaðinu, vegna þess að verknaðurinn, sem höfundur þessarar greinar vinnur í þessu tilfelli, er ekki nógu góður, og ef um hv. þm. Benedikt Gröndal var þar að ræða, sem stýrði pennanum, þá var verknaðurinn ólýsanlega vondur. En það hvarflar ekki að mér að draga í efa að hv. þm. segi það satt, að hann hafi ekki skrifað þessa ritstjórnargrein. Aftur á móti sagði hann sem svo, að náttúrlega bæri hann og form. þingflokks Alþfl á vissan máta ábyrgð á þessari grein sem forustumenn flokksins. Ég læt hann um að koma verknaðinum á hina mennina sem skrifa undir þessum bókstaf, Ó. Hlutur hans sem slíks batnar ekkert geysilega mikið við það, en þó heldur, það lítið það er.

Ég veit að þetta atriði, sem hv. þm. kom inn á, það sem lýtur að framfærsluöryggi þm. sem hættur er í pólitík, þetta er raunverulegt atriði sem taka ber til íhugunar, en tek aðeins undir það sem hv. þm. Jónas Árnason sagði, að hægt á að vera að koma því þannig fyrir, að menn eigi störf sín tryggð án þess að þeir taki hluta af launum fyrir. Sjálfur hef ég bréf upp á það, að ég er enn þá fastráðinn starfsmaður Ríkisútvarpsins án launa. Þetta bréf hafðist alveg gjörsamlega kvaðalaust út úr stofnuninni, þannig að nær sá tími kemur að ég hætti störfum hér á Alþ., sem ég vona innilega að varði áður en ég verð kominn af starfsaldri, þá get ég gengið aftur til starfa á mínum gamla vinnustað hjá Ríkisútvarpinu.

Ég er þess alveg viss, að fyrir okkur hv. alþm., og ekki síst fyrir okkur þm. þeirra flokka sem, eins og hv. þm. Benedikt Gröndal orðaði það, beitum okkur fyrir bættum kjörum þeirra sem eiga sér nú formælendur heldur færri í efstu skúffunum, — fyrir okkur er ákaflega þýðingarmikið að geta sýnt fram á ljósum rökum og dylgjulaust að við a. m. k. reynum að vinna ærlega fyrir kaupinu okkar, en slægjumst ekki svo mjög eftir greiðslum umfram þau laun sem ætlast er til að okkur nægi til framfærslu. Ég tel að aðstæður hjá okkur á þessu landi séu slíkar, að ef okkur tekst með okkar pólitíska afli og samtakamætti launþegasamtakanna að knýja það fram, að laun verkamanna verði um það bil helmingur af þeim launum, sem hæst eru borguð á Íslandi, þá yrði það lausn fyrir okkur alþm. að fara fram á það að hafa nokkru hærri tekjur en verkamenn.

Ég ítreka hitt, að það er eða á að vera ákaflega auðvelt fyrir alþm. að koma því til leiðar að leiðréttir verði formgallar varðandi atvinnutryggingu sem lýtur að þeim störfum sem þeir geta gegnt að öðru leyti, en hlýt aðeins í lokin að geta þess, að því miður var ekki alveg rétt með farið það sem Jónas Árnason sagði um tryggingu Karvels Pálmasonar fyrir vinnu að loknu starfi í pólitíkinni. Hann er látinn gjalda þess, og það væri raunar ákaflega æskilegt ef hæstv. menntmrh. vildi fræða okkur um það mál, að vísu í fjarveru Karvels Pálmasonar, — hann er látinn gjalda þess að hann er ekki réttindakennari. Honum hefur, þrátt fyrir tilraunir sínar til þess að fá tryggingu fyrir áframhaldandi starfsrétti að loknu starfi í pólitíkinni, ekki heppnast það. Honum er gert að segja starfi lausu vegna þess að hann er ekki réttindakennari.