21.02.1978
Sameinað þing: 47. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2540 í B-deild Alþingistíðinda. (1869)

104. mál, framhaldsskólanám á Norðurlandi vestra

Flm. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Í mörg ár hafa landsmenn beðið eftir því, að menntmrn. hefði forgöngu um nýja skólaskipan á framhaldsskólastigi. Það er löngu orðið sýnt að framhaldsskólastigið er veikasti hlekkur skólakerfisins, enda er það bæði illa skipulagt og auk þess eru margir þættir þess vanræktir. Við hv. þm. Helgi F. Seljan fluttum árin 1975 og 1976 till. á Alþ. þar sem gert var ráð fyrir að ríkisstj. legði fram frv. um nýskipan framhaldsskólastigsins. Við höfum ekki flutt þetta frv. í vetur og reyndar ekki heldur s. l. vetur, vegna þess að hæstv. menntmrh. hefur boðað að væntanlegt sé stjfrv. um þetta efni. Þetta frv. lét nú reyndar lengst af á sér standa á s. l. vetri, þar til komið var fram undir vor, að frv. af þessu tagi birtist. Það var svo seint fram komið, að það gat ekki neina afgreiðslu hlotið hér á þinginu. Var þá von manna sú, að frv. yrði endurflutt, breytt eða óbreytt eftir atvikum. þannig að það mætti hljóta afgreiðslu nú í vetur. Því miður hefur þetta ekki orðið. Frv. hefur ekki verið endurflutt og því er fyllsta ástæða til þess að spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort ekki sé að vænta þess, að frv. af þessu tagi sjái dagsins ljós hér á Alþ. og hvort hann hafi þá einhverja von um að það geti hlotið afgreiðslu á þessum vetri.

Nú undanfarin ár hef ég flutt aðra till. hér á Alþ. þessari náskylda, en hún hefur fjallað um framhaldsskólanám á Norðurl. v. Í þessari till. segir svo í 1. mgr., með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir samstarfi sveitarstjórna á Norðurl. v. um stofnun framhaldsskóla með fjölbrautasniði. Skólastarfið fari fram á nokkrum stöðum í fræðsluumdæminu og verði byggt upp sem ein heild með náinni samvinnu og verkaskiptingu milli skólastaða. Stefnt skal að því, að sem flestar námsbrautir framhaldsskólastigsins, sem annars staðar er að finna í menntaskólum, iðnskólum, vélskóla, tónlistarskólum eða öðrum sérskólum, verði stundaðar á a. m. k. einum þessara skólastaða.“

Sá tími er löngu liðinn, að í lögum séu aðeins þrír skólar ætlaðir til undirbúnings nemendum til stúdentsprófs. Þannig var þetta hins vegar um áratugaskeið. Nú hefur orðið stökkbreyting í þá átt á fáum árum að fjölga þessum skólum og er svo komið, að í öllum kjördæmum landsins er menntaskólanám stundað eða í undirbúningi — í öllum kjördæmum nema Norðurlandi vestra. Þessi þróun í þá átt að dreifa starfi framhaldsskólauna er eðlileg og sjálfsögð. Hún er sjálfsögð, því að hún mun leiða til þess, aðmiklu fleiri en ella leitast við að afla sér framhaldsmenntunar og eiga þess kost. Framhaldsnám úti í dreifðum byggðum landsins stuðlar að því, að unga fólkið festir frekar rætur á heimaslóðum, það hverfur síður úr heimabyggðinni, og hættan er þar minni að skólagangan valdi því, að unga fólkið sé slitið upp með rótum úr þeim jarðvegi sem það er sprottið úr. Einnig er á það að líta, að skólastarf framhaldsskóla og föst búseta menntaðra kennara hefur ómetanlegt gildi fyrir sérhvert byggðarlag og verður með margháttuðum víxlverkunum til að styrkja annað athafnalíf. Það hefur sem sagt mikið og margháttað gildi fyrir hvert kjördæmi, að fullkomin framhaldsskólafræðsla sé þar byggð upp.

Þegar um er að ræða stefnumótun í málefnum framhaldsskólanna, þá eru það einkum þrjár lykilspurningar sem verður að svara fyrir þetta kjördæmi ekki síður en fyrir landið allt.

Í fyrsta lagi er það þessi spurning: Á að einangra menntaskólanám frá öðru framhaldsskólanámi? Á að halda því kerfi áfram að velja úr bókhneigðustu nemendurna, þá sem best gengur, og setja þá í sérstaka framhaldsskóla, svonefnda menntaskóla, en bjóða síðan öðrum nemendum upp á verknám af ýmsu tagi, þar sem annars flokks aðstæður ríkja, skólarnir eru frumstæðari og réttindin mjög takmörkuð? Þessi mismunun, sem hafur ríkt um langt skeið, hefur ekki síst lýst sér í því, að ríkið hefur greitt allan kostnað menntaskólanámsins, bæði byggingarkostnaðinn og rekstrarkostnaðinn, en iðnskólarnir hafa að hálfu leyti verið byggðir upp á vegum sveitarfélaganna, uppbyggingin hefur gengið miklu hægar. Allir viðurkenna í dag, að verknámið er í molum. Ég tel að þessi stefna sé röng og ekki eigi að aðskilja verknám og bóknám, heldur sameina það í samræmdum framhaldsskóla. Ef þessi stefna verður ofan á, þá er ljóst að um leið opnast meiri möguleikar til þess að dreifa skólastarfinu, til að byggja það upp á nokkrum stöðum í hverju kjördæmi.

Þá erum við reyndar komin að annarri spurningunni í þessu sambandi: Á að byggja upp fáa stóra framhaldsskóla, framhalds- og fjölbrautaskóla á landinu, og þar með aðeins einn í hverju kjördæmi, eða á að dreifa skólastarfinu á nokkra skólastaði í hverju kjördæmi og hvað er raunhæft að því sé mikið dreift?

Þriðja lykilspurningin er svo sú spurning, sem má kannske segja að hafi að nokkru leyti falist í fyrstu spurningunni, um gerð þess skóla sem byggður verður upp á framhaldsskólastiginu, þ. e. a. s. hvort um verði að ræða sameinaðan skóla fyrir menntaskólanám og verknám eða ekki. Það er kostnaðarhliðin. Á að halda þeirri reglu, sem verið hefur, að iðnskólanámið sé aðeins greitt að hálfu af ríkinu meðan menntaskólanámið er greitt að fullu? Hver á að vera hlutur ríkisins og hver á að vera hlutur sveitarfélaganna? Á að taka upp nýja reglu í þessum efnum, eins og þá sem hefur verið í gildi um þá fáu fjölbrautaskóla sem nú þegar hafa verið byggðir upp, eða á að leggja þennan kostnað á ríkissjóð?

Þessum þremur spurningum, sem ég hef hér lagt áherslu á, hef ég sjálfur svarað fyrir mitt leyti í þessari till. minni. sem þó snertir aðeins skólanám á Norðurl. v. Ég er ekki að segja að mín svör séu neinn stórisannleikur í þessum efnum, og ég er að sjálfsögðu reiðubúin að breyta um skoðun, ef ég sannfærist um annað. En mér finnst nauðsynlegt að koma hreyfingu á þessi mál og þess vegna hef ég sett fram ákveðna stefnu um þessi atriði öll í þessari þáltill. Í fyrsta lagi er hér eindregið lagt til, að um verði að ræða samræmdan fjölbrautaskóla þar sem tengt verði saman bóknám og verknám og allar aðrar tegundir framhaldsskólanáms, að svo miklu leyti sem hægt er að koma því við í þessu fámenna kjördæmi.

Í öðru lagi hef ég slegið því föstu, að um verði að ræða dreifingu milli nokkurra skólastaða í þessu kjördæmi. Tel ég mig hafa sýnt fram á það í grg. með frv., að þetta kjördæmi sé alls ekki minna en svo, að ekki sé fullkomlega raunhæft að láta skólastarfið fara fram á nokkrum stöðum í kjördæminu fremur en að safna því öllu á einn stað.

Og í þriðja lagi tel ég, að kostnaðarskiptingin eigi að vera sú, að um greiðslu kostnaðar sé fylgt þeim ákvæðum, sem gilda um stofnun og rekstur menntaskóla, og kostnaðurinn greiðist allur úr ríkissjóði eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum. Ég tel að sú stefna sé óhjákvæmileg einfaldlega vegna þess, að hér þarf að brjóta nýju skipulagi braut. Ég óttast það, að ef á að gera sveitarfélögin sjálf ábyrg fyrir kostnaðinum að meira eða minna leyti, það skiptir ekki máli, verði málið í heild erfiðara í framkvæmd.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að fjölyrða um efni þessarar till. Hæstv. menntmrh. var viðstaddur þegar ég flutti upphaf þessarar framsöguræðu minnar og heyrði þar af leiðandi þær spurningar sem fyrir hann voru lagðar. Ég sé að hann er nú genginn úr salnum, en efast ekki um að jafnágætur maður og hann er reiðubúinn að svara jafneinfaldri spurningu og fyrir hann var lögð í þetta sinn á þessari umr. Vildi ég óska eftir því við hæstv. forseta, að hann sæi til þess, að samband yrði haft við hæstv. ráðh. og hann inntur eftir því, hvort hann hefði ekki hug á að svara jafneinfaldri spurningu og fyrir hann hann áðan. Ef hitt kynni að reynast staðreyndin að hann væri horfinn úr húsinu, þá vildi ég óska eftir því við hæstv. forseta, að hann frestaði umr. þar til ráðh. hefði átt þess kost að svara spurningunni, því að þótt hér sé um mjög, mikilvægt mál að ræða þar sem er uppbygging skólastarfs á Norðurl. v., uppbygging framhaldsskólastarfs, sem hefur verið vanrækt mörg undanfarin ár, þá er hitt auðvitað enn stærra mál, hvað líður því að þessi mál verði skipulögð á landsmælikvarða, og af því að ég veit ekki til þess, að hæstv. ráðh. hafi átt þess kost að svara þeirri spurningu hér í þinginu nú um alllangt skeið, finnst mér að tilefni sé til að hann geri það nú.

Ég vil einnig gera það að till. minni, að þegar þessari umr. lýkur eða henni verður frestað verði þessari till. vísað til hv. allshn.