22.02.1978
Efri deild: 65. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2553 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

188. mál, Kennaraháskóli Íslands

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Frv. til laga um Kennaraháskóla Íslands var lagt fram á síðasta Alþingi skömmu fyrir þinglok til kynningar. Eftir að þingi lauk sendi menntmrn. frv. ýmsum aðilum til athugunar og umsagnar. Umsagnir þær, sem borist hafa rn., eru prentaðar með frv. sem viðauki. Þegar frv. er nú lagt fram að nýju, þá hefur það tekið nokkrum breytingum, sem gerðar voru m. a. með hliðsjón af aths. umsagnaraðilanna.

Þetta frv. er allmikið að vöxtum, eins og hv. þdm. sjá, 43 greinar. Og frv. er í eðli sínu þýðingarmikið, það er óhætt að segja það. Þýðing frv. fyrir skólahaldið í landinu verður strax ljós þegar lesin er 1. gr. þess, þar sem hlutverk Kennaraháskóla Íslands er markað í megindráttum.

Mikilvægi þessa máls gefur í sjálfu sér ærið tilefni til ítarlegrar framsöguræðu af minni hálfu. Ég mun þó leitast við að stytta mál mitt nokkuð og þá m. a. með tilliti til þess, að frv. fylgja mjög ítarlegar aths., þar sem fjallað er um málið í heild og um einstök atriði þess.

Í lögum um Kennaraháskóla Íslands frá 16. apríl 1971, 25. gr., segir svo m. a.:

„Lög þessi skulu endurskoðuð eigi síðar en að tveimur árum liðnum frá gildistöku þeirra. Hinn 29. nóv. 1972 skipaði þáv. menntmrh., Magnús Torfi Ólafsson, nefnd til að annast þessa endurskoðun í samræmi við þetta lagaákvæði. Skipaðir voru í nefndina: Broddi Jóhannesson rektor, formaður, Árni Gunnarsson deildarstjóri, Jónatan Þórmundsson prófessor og Jónas Pálsson skólastjóri. Þegar Baldur Jónsson hafði verið kjörinn rektor í janúarmánuði 1975 óskaði nefndin eftir því, að hann tæki sæti í henni. Var hann skipaður í nefndina 4. mars það ár. Síðla þetta sama ár var Kristin Magnúsdóttur falið að starfa með nefndinni sem fulltrúi kennaranema, en Lars Andersen var tilnefndur til vara.

Nefndin hóf störf sín með því að afla gagna um þróun í menntamálum kennaraefna frá því að löggjöfin um Kennaraháskóla Íslands frá 1971 var undirbúin. Auk þess sótti formaður nefndarinnar ráðstefnu Evrópuráðs um rannsóknir og endurbætur á menntun kennara í Englandi í apríl 1973. Þá sótti formaður nefndarinnar einnig ráðstefnu um kennaramenntun, sem haldin var í Osló 1975 á vegum Norrænu menningarmálaskrifstofunnar í Kaupmannahöfn.

Nefndin hélt mjög marga fundi og ræddi auk þess við ýmsa sérfróða aðila um einstaka þætti viðfangsefnisins. Var í fyrstu lögð megináhersla á að ræða hlutverk og markmið með menntun og starfi kennara, enda skilningur og mat á þeim efnum eðlileg forsenda allra ákvarðana um kennaranám, gerð þess og inntak, eins og segir í nefndarálitinu.

Eins og ég gat um áðan, hafa menntmrn. borist margar umsagnir og ábendingar um frv. það sem lagt var fram á síðasta þingi. Unnið hefur verið úr þessum ábendingum í rn. í vetur, og rætt við aðila ýmis atriði þeirra og hafa verið tekin til greina. Þau raska ekki meginstefnu frv. á nokkurn hátt, en horfa til bóta að dómi rn. Mun ég víkja nánar að örfáum þeirra atriða síðar.

Í þessu frv. eru ýmis nýmæli miðað við gildandi löggjöf um Kennaraháskóla Íslands. Hér skal drepið á mikilvægustu breytingarnar, sem lagt er til að gerðar verði á hlutverki Kennaraháskólans og gildandi skipan kennaranámsins.

1. Kennaraháskólinn skal vera miðstöð vísindalegra rannsókna í uppeldis- og kennslufræðum í landinu.

Í nál. er gerð ítarleg grein fyrir þörfinni á auknum rannsóknum á sviði íslenskra uppeldis- og fræðslumála. Þar er rakin allítarleg þróun slíkra rannsókna og greint frá lagaákvæðum þar að lútandi. Verður sú greinargerð ekki endurtekin hér, en um veigamiklar breytingar er að ræða á þessu sviði.

2. Kennaraháskólinn skal annast uppeldis- og kennslufræðilega menntun allra kennara á grunnskólastigi og í öllum skólum á framhaldsskólastigi.

Þetta hefur ekki verið svo, heldur hefur þessi þáttur kennaramenntunar verið framkvæmdur í fleiri skólum, að því leyti sem hann hefur verið ræktur. Talið er að fjármagn og kennaralið nýtist betur með þessum hætti og undirbúningur kennaraefna verði heildstæðari með því að þessi þáttur undirbúningsins fari fram á einum stað, þótt nokkrar sérgreinar verði kenndar á öðrum stöðum líkt og nú á sér stað. Menntmrh. getur þó samkv. ákvæðum frv., ef sérstakar ástæður þykja til, heimilað frávik frá þessum ákvæðum á þá lund, að tilteknir sérkennaraskólar annar áfram uppeldis- og kennslufræðilega menntun nemenda sinna, en þá með nánu samráði við Kennaraháskóla Íslands. Þetta síðast nefnda ákvæði var sett inn í frv. við endurskoðun þess nú í vetur.

3. Heimilt er að fela skólanum að annast fullnaðarmenntun kennara í þeim greinum grunnskóla, sem kenndar eru í sérskólum við hvatningu laganna.

Það fyrirkomulag, sem nú tíðkast, hefur þróast í gegnum árin, sérskólarnir oft upp vaxnir fyrir brýna þörf og jafnvel stofnaðir af áhugafólki fyrst og fremst. Ekki er með frv. þessu fyrirhugað að kollsteypa þessu fyrirkomulagi, en rétt þykir að hafa í væntanlegri löggjöf heimildarákvæði af þessu tagi.

4. Stofna skal til kennslu í uppeldisfræðum til B.A.-prófs við Kennaraháskóla Íslands. Auk þess er heimilt samkvæmt ákvörðun skólaráðs og að fengnu samþykki menntmrh. að efna til framhaldsnáms í Kennaraskólanum til æðri prófgráðu en B.A.- prófs.

Um þetta segir m. a. í nál.: „Laganefndin taldi eðlilegt, að framangreind starfsemi í Háskóla Íslands yrði færð í Kennaraháskólann. Er það í samræmi við þá meginstefnu, sem mörkuð er í 1. gr. frv. um hlutverk Kennaraháskólans. Ef sú uppeldis- og kennslufræðimenntun framhaldsskólakennara, sem rækt hefur verið í Háskóla Íslands, flyst á vegu Kennaraháskólans, eins og frv. gerir ráð fyrir,, sýnist og eðlilegt, að kennslan í uppeldisfræði til B.A.- prófs flytjist með, sökum þeirra tengsla sem að framan getur. En einnig frá sjónarmiði Kennaraháskólans sem almennrar kennaramenntunarstofnunar eru gild rök fyrir því, að koma beri á fót kennslu til háskólaprófs í uppeldisfræði við skólann.“ Ég vík örlítið nánar að þessu atriði síðar.

5. Nefndin, sem samdi upphaflega frv., lagði til að menntmrh. yrði heimilað að lengja kennaranámið um allt að einu ári að fengnum tillögum skálaráðs. Menntmrn. telur hins vegar ekki tímabært að lögfesta þá heimild nú og felldi þetta atriði niður úr frv. þegar í fyrri gerð þess. Persónulega sé ég ekki ástæðu til að gefa undir fótinn með lengingu kennaranámsins fyrr en meiri reynsla er fengin af starfsemi Kennaraháskóla Íslands eins og hún hefur þróast til þessa og er að þróast.

6. Gert er ráð fyrir að tekið verði upp námseiningakerfi, og kveðið er á um meginþætti kennaranáms á þeim grundvelli. Jafnframt er valgreinakerfið gert sveigjanlegra og tekur nú einnig til sérstakra verksviða í grunnskóla, t. d. byrjendakennslu.

Um þetta segir nefndin: „Nokkur vandi hefur stafað af því og óánægja meðal kennaraefna, að skýr fyrirmæli hefur brostið um skilgreiningar á námseiningum í Kennaraháskólanum, enda þótt löggjöfin geri ráð fyrir því, að háskólarnir báðir viðurkenndu námseiningar hvor annars. Með frv. þessu, ef að lögum verður, er úr því bætt. Einnig eru meginþættir náms skilgreindir skýrar en fyrr og valgreinakerfið gert sveigjanlegra, sbr. aths. um þessi atriði við 15. gr.

Rétt þykir að setja lagaákvæði um þetta og þá einkum til þess að tryggja annars vegar fullt samræmi milli háskólanna tveggja og svo til þess að tryggja, að eðlilegum lágmarkskröfum um nám og námsárangur í Kennaraháskólanum verði fullnægt.

7. Æfingaskólinn skal sinna þróunarverkefnum á uppeldissviði í samvinnu við menntmrn., einkum skólarannsóknadeild þess.

Hér er um grundvallaratriði að ræða. Eru því gerð ítarleg skil í aths. með frv. og vísast til þess sem þar segir.

Varðandi þessi þýðingarmiklu atriði, sem ég hef nú stuttlega drepið á, sjö að tölu, vil ég sérstaklega vísa til ítarlegra skýringa í aths. með frv., en þær er að finna á bls. 11–16, auk þess sem fjallað er um þessi efni í aths. við einstakar greinar.

Á bls. 29 er fjallað um áætlaðar kostnaðarbreytingar vegna nýmæla í frv. Hagsýslustofnunin fór nokkuð ofan í þessi atriði í fyrra og gerði þá ráð fyrir að 22–26 millj. kr. kostnaðarauki fylgdi samþykkt frv. og fullri framkvæmd laganna. Ég mun biðja Hagsýslustofnunina að yfirfara málið á ný og láta menntmn. þessarar d. í té nýtt álit á þessum þætti. En ég vil benda á að kostnaðarauki af frv. þessu, ef að lögum verður, fellur ekki á sama dag né heldur sjálfkrafa síðar nema þá að hluta, því að um alla meginþætti hans þarf sérstaka ákvörðun við gerð fjárlaga.

Ég vil geta sérstaklega um örfáar þeirra breytinga, sem gerðar hafa verið á frv. frá því að það var lagt fram í fyrra, en eins og ég hef tekið fram, eru þær flestar minni háttar og raska alls ekki meginstefnu, þótt þær að dómi rn. horfi til bóta.

Um heimild til kennslu uppeldisfræði í sérkennaraskólunum hef ég áður getið.

Í 39. gr. frv. er kveðið á um stofnun samstarfsnefndar Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Eins og vikið er að í aths. um 1. gr. frv., er augljós nauðsyn á nánu samstarfi milli Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Með þessari grein er lagður grundvöllur að skipulagðri samvinnu þessara tveggja stofnana. „Koma þessi ákvæði að nokkru í stað fyrirmæla í 1. gr. gildandi laga um verkaskiptingu milli þessara tveggja skóla,“ segir í aths. Ég vil geta þess hér, að svipaðar samstarfsnefndir hafa þegar verið settar á fót t. d. innan menntaskólastigsins og á fleiri stigum, þar sem rn. hefur frumkvæði að því að leiða saman fulltrúa þessara stofnana.

Ég vil láta það koma skýrt fram, að ekki eru allir á eitt sáttir um að færa kennslu í uppeldis- og kennslufræðum frá Háskóla Íslands til Kennaraháskóla Íslands. Kemur þetta m. a. glöggt fram í aths. við 1. gr. frv., sem eru sérstaklega ítarlegar, og svo í áliti Háskóla Íslands, sem prentað er í heild með frv. sem fskj., eins og raunar aðrar álitsgerðir sem rn. hafa borist. En það, sem vakir fyrir höfundum frv., er í sem allra fæstum orðum sagt þetta: Það er ekki grundvöllur til að kenna uppeldis- og kennslufræði við tvær stofnanir. Eigi að reka Kennaraháskólann sem raunverulegan háskóla á sínu sviði hlýtur þessi kennsla að færast til hans. Hitt er svo annað, að margir velta því fyrir sér, hvort ekki kynni að vera æskilegra að sameina alveg þessa tvo háskóla. En þótt svo kynni að fara í framtíðinni, að það þætti æskilegt, þá virðist ekki vera grundvöllur til að taka nú ákvörðun um slíka sameiningu. Ég held að menn séu nokkuð sammála um það að við séum ekki undir það búin. Ég vil einnig láta það koma fram, að það hefur verið álit menntmrn., a. m. k. um nokkurt skeið, og raunar frá því farið var að undirbúa stofnun Kennaraháskóla Íslands, að þennan hátt bæri að hafa á. Kemur það fram í því m. a., að þegar skipaður var prófessor í uppeldis- og kennslufræði við Háskóla Íslands fyrir nokkrum árum, þá var það sérstaklega tekið fram af hálfu menntmrn., að til þessarar breytingar kynni að koma. Þetta viðhorf höfunda frv., menntmrn. getum við líka sagt, má einnig orða á þá lund, að meginmarkmið löggjafarinnar um Kennaraháskóla Íslands er að gera þá stofnun svo hæfa sem unnt er til þess að gegna því þýðingarmikla hlutverki sem henni er falið með 1.gr. frv., ef að lögum verður.

Ætla má að þegar fram líða stundir verði þörf fyrir kennaramenntað fólk það mikil, að hagkvæmt reynist að kenna þau fræði víðar en á einum stað. Að því lúta ákvæði 40. gr., en þar segir:

„Í reglugerð, sem menntmrn. setur að fengnum tillögum skólaráðs Kennaraháskála Íslands, er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þessara laga, þ. á m. að skólinn starfi að hluta utan Reykjavíkur.“

Í frv., eins og það var lagt fram í fyrra, var þessi heimild bundin við Akureyri. En við nánari athugun þótti réttara að hafa heimildina víðtækari.

Þá vil ég vekja athygli á ákvæði til bráðabirgða. Þar segir, í 42. gr., að nemendur, sem skráðir voru í Kennaraháskóla Íslands fyrir gildistöku þessara laga, eigi rétt á að ljúka námi og prófum samkv. fyrri lögum um Kennaraháskóla Íslands.

Í ákvæði til bráðabirgða, 43. gr., segir svo: „Þeir, sem við gildistöku þessara daga hafa starfað sem settir kennarar við skyldunámsskóla 6 ár eða lengur, en hafa ekki full kennsluréttindi, skulu eiga kost á að ljúka námi á vegum Kennaraháskóla Íslands til að öðlast slík réttindi. Um tilhögun námsins og mat á fyrri menntun og starfsreynslu skal setja ákvæði í reglugerð.

Nú allra næstu daga verður lagt fyrir Alþ. frv. um embættisgengi kennara. Í því frv. verður að finna ákvæði samhljóða þessu.

Staða hinna svonefndu réttindalausu kennara hefur mikið verið rædd að undanförnu og raunar um langa hríð. Nú í haust og vetur hefur farið fram ítarleg umræða um þetta efni, m. a. hjá menntmrn. og kennarasamtökunum. Hefur orðið samstaða um þetta ákvæði, sem ég áðan greindi frá, og í megindráttum um framkvæmd þessara ákvæða, að ég ætla. En á henni veltur auðvitað mikið, því ákvæðin eru rammi um framkvæmdina frekar en nánari útfærsla. Til frekari glöggvunar hv. þdm. vil ég rifja upp það sem segir í aths. um 43. gr., en það er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Á undanförnum árum hefur orðið að setja til kennarastarfa allmargt manna sem ekki hafa full kennsluréttindi samkv. gildandi lögum og geta því ekki hlotið skipun í kennarastöðu. Í umr. um þessi mál hefur verið bent á að æskilegasta lausnin á vanda þessara kennara sé að greiða þeim leið til að afla sér fullra réttinda með viðbótarnámi. Í skýringum við 9. gr. frv. er vikið að því, að kennslureynsla ætti að koma til álita við mat á umsóknum um námsvist í Kennaraháskólanum ásamt formlegri undirbúningsmenntun, og í 26. gr. er fjallað um möguleika á viðurkenningu prófa frá öðrum háskólum eða sérkennaraskólum sem þætti til fullnaðarprófs frá Kennaraháskólanum. Í þessari gr. er gert ráð fyrir sérstöku átaki við gildistöku nýrra laga um Kennaraháskóla Íslands á þann veg, að þeim, sem þá hafa starfað sem settir kennarar við skyldunámsskóla 6 ár eða lengur, skuli gerður kostur á að ljúka á vegum Kennaraháskólans réttindanámi er verði sérstaklega skipulagt í því skyni. Er þá m. a. haft í huga, að um gæti orðið að ræða sumarkennslu og bréfanám að einhverju leyti.“

Ég vil sérstaklega benda hv. þdm. á, að í áliti mþn. eru raktir ljóslega, í stuttu máli þó, helstu drættirnir í sögu kennaramenntunar á Íslandi og í ljósi reynslunnar leitast við að benda á kosti og galla þess skipulags, sem ríkt hefur, og á áhrif þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á kennaranáminu á undanförnum árum. Þá er einnig í niðurlagi nál. reynt að meta hvaða sess íslensk kennaramenntun hefur skipað í skólakerfi Íslendinga fyrr og nú. Og loks er gerð grein fyrir áætluðum námsmannafjölda í Kennaraháskólanum á næstu árum. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu á sínum tíma, að reynslan af löggjöfinni um Kennaraháskólann benti til þess þá strax, að næstu árin færi aðsókn að skólanum enn vaxandi, og segir nefndin að einsætt sé að fjöldi brautskráðra kennara frá skólanum muni fullnægja almennri kennaraþörf á grunnskólastigi, þegar fram liði stundir. Nú er nokkuð liðið síðan gengið var frá þessu nál. og bendir það, sem síðar hefur gerst, alveg eindregið til þess, að þessi spádómur ætli að rætast. Aðsókn að Kennaraháskólanum hefur nú stórlega aukist og er það vel.

Það er samdóma álit okkar í menntmrn. og þeirra, sem starfa við Kennaraháskóla Íslands, að nauðsynlegt sé að hraða afgreiðslu þessa máls eftir því sem fært þykir. Nú vil ég að sjálfsögðu ekki leggja hv. þdm. neinar lífsreglur um þetta. En ég vil vekja athygli á því, að þetta mál hefur hlotið mjög ítarlegan undirbúning. Það var rækilega kynnt í fyrra með framlagningu hér og útsendingu og farið hefur verið ofan í það á ný nú síðustu mánuðina. Ég vil því beina því til hv. þdm. og menntmn. sérstaklega að íbuga nú hvort fært þyki að mæla með afgreiðslu málsins á þessu þingi.

Ég læt ekkert tækifæri ónotað til þess að minna hv. alþm. á að Kennaraháskóli Íslands hefur búið við og býr nú við mjög þröngan kost að því er snertir húsnæði og búnað. Framkvæmdafjárveiting til nýbyggingar er á fjárl. þessa árs og byrjunarfjárveiting til nýbyggingar var á fjárl. síðasta árs einnig. Það er unnið núna að frágangi teikninga og stefnt að því, að verk geti hafist á þessu ári. Ég vona að það standist. En ég tel að byggingarmálinu verði að fylgja fast eftir ef ekki á að hljótast meiri skaði en orðinn er nú þegar af þrengslum þeim og ófullkominni aðstöðu, sem Kennaraháskóli Íslands hefur búið við frá upphafi, er óhætt að segja.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði vísað til menntmn. að umr. lokinni.