22.02.1978
Neðri deild: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2559 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

189. mál, búnaðarfræðsla

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 367 er frv. til laga um búnaðarfræðslu. Áður en ég vík að frv. vil ég með örfáum orðum gera grein fyrir búnaðarfræðslu hér á landi eins og hún hefur átt sér stað, og reyndar þó heldur betur.

Snemma á síðustu öld tóku menn að leita sér búfræðslumenntunar erlendis, ýmist í Danmörku, Svíþjóð eða Noregi. Fyrstu búfræðingarnir gátu sér gott orð og margir urðu forystumenn í héruðum og leiddu inn búnaðarnýjungar. Talið er að Jón Espólin á Frostastöðum í Skagafirði hafi fyrstur hafið kennslu í búfræði hér á landi 1852, og búfræðikennsla fór fram í Flatey 1857–1858.

Jón Sigurðsson forseti hafði ritað um nauðsyn þess að koma hér upp búnaðarskóla, í Nýjum félagsritum 1849. Fyrsti búnaðarskólinn kemur þó ekki fyrr en 1880, skóli sá er Torfi Bjarnason reisti í Ólafsdal í Dalasýslu, og ekki orkar það tvímælis, að sú menntastofnun hafði mikið gildi fyrir íslenskan landbúnað á þeim árum og einnig fyrir íslensku þjóðina í heild, bæði hvað búnaðarfræðslu áhrærði og menntun almennt. Næstur í röð bændaskóla er Hólaskóli, er stofnaður var 1882. Skóli í búnaðarfræðum var stofnaður á Eiðum 1883 og loks á Hvanneyri 1889. Ólafsdalsskólinn lagði starfsemi sína niður 1907, og 1918 var búnaðarskólanum á Eiðum breytt í héraðsskóla og hefur svo verið síðan. Frá þeim tíma hafa bændaskólar aðeins verið tveir hér á landinu: á Hólum í Hjaltadal og á Hvanneyri. Áform hafa verið uppi síðan 1950 um að stofna þriðja búnaðarskólann og þá á Suðurlandi. Síðan um 1950 hefur það staðið í lögum, að bændaskólar skuli vera þrír, þó ekki hafi orðið af byggingu þriðja skólans á Suðurlandi, sem gert er ráð fyrir að verði í Odda á Rangárvöllum.

Aðdraganda að þeirri setningu nýrrar löggjafar um búnaðarfræðslu, sem hér er lögð til, má rekja til samþykktar Búnaðarþings frá 1971. Það ákvað að skipa mþn., sem fjallaði um búfræðimenntun. Markmið Búnaðarþings þá var að stuðla að því, að sem flestir þeir, sem hefja búskap, hefðu hlotið búfræðimenntun. Var rætt um að fyrir lak þessa áratugs yrði stigið skref að því marki. Mþn. Búnaðarþings skilaði álíti árið eftir og hafði gert margháttaðar athuganir á árangri og stöðu búfræðimenntunar, sem hér hafði nokkuð verið vitnað til.

Síðustu áratugina, eða fram að 1970, hafa skólarnir tveir að jafnaði brautskráð um 50 búfræðinga á ári. Þeir voru þá tveggja vetra skólar og var fyrri veturinn almennt undirbúningsnám, en hinn síðari einskorðaðist við búfræðifögin. Þeir, sem höfðu undirbúning hliðstæðan gagnfræðaprófi, gátu því lokið búfræðinámi á einu ári. Frá 1969 hefur ekki verið starfrækt yngri deild við Bændaskólann á Hvanneyri og hefur því á undanförnum árum verið hægt að útskrifa um 70 búfræðinga á ári.Nú á síðasta hausti var yngri deild lögð niður við Bændaskólann á Hólum.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er hins vegar gert ráð fyrir að búfræðinám verði aftur tveggja vetra nám. Verður þá aukning á kennslu búfræðinga og aukin verkleg kennsla og verkþjálfun. Mþn. búnaðarþings gerði athugun á því, hvað hár hundraðshluti starfandi bænda í hverju héraði væri búfræðingar. Það er alkunna, að ekki verða allir búfræðingar bændur. Einnig munu ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um það, hve stór hluti búfræðinga hefur horfið að búskap. Nefndin áætlar að óhætt sé að reikna með, að það séu um 60%. Ætla má að eðlileg endurnýjun bændastéttar sé allt að 150–200 og er þá miðað við 25 ára meðalstarfsævi og 5 þús. bændur, en sú tala mun vera orðin eitthvað lægri núna. Ekki setti nefndin hærra mark en það, að meiri hluti þeirra, sem hæfu búskap, væri með búfræðipróf. Var það álit hennar, að alls þyrfti að útskrifa um 150 búfræðinga á ári og væru þá líkur til að a. m. k. helmingur nýliða í bændastétt yrði búfræðingar. Til þess að þessu marki mætti ná yrðu búfræðiskólarnir að geta brautskráð 120–150 nemendur. Lægri tala gæti átt við hina eiginlegu búnaðarskóla, en sú hærri miðuð við það, að búfræðingar kæmu einnig frá fjölbrautaskóla eins og frv. gerir ráð fyrir. Flestir mundu nemendur ljúka prófi eftir tveggja vetra nám og þyrfti eftir þessu að vera rými fyrir allt að 240 nemendur í skólunum. Nú munu skólarnir hafa rými fyrir um 120 nemendur. Af þessu er ljóst, að hvort tveggja þyrfti að koma til í framtíðinni aukið skólarými, einkum á Hólum, og þriðji skólinn eins og fyrirbugað er. Þess má geta, að ekki er heppilegt að bændaskólarnir séu mjög stórir. Eru 60–90 nemenda skólar taldir heppilegir, a. m. k. með tilliti til aðstöðu til verknáms.

Rétt er að benda á að búfræði er fjölþætt fræðigrein. Í raun fjölmargar fræðigreinar, og búfræðinámið eftir því lífrænt, snertir mjög mörg svið og er í reynd þroskandi og til margra hluta nytsamlegt, einnig fyrir þá sem ekki verða bændur. Við megum ekki missa sjónar á því í okkar fjölþætta og mikla menntakerfi, að það þarf að mennta fólkið þannig, að það nýtist því og atvinnuvegunum. Menntunin má ekki leiða fólk frá atvinnuvegunum, heldur þarf hún að leiða það til þeirra.

Ljóst er að tveggja vetra búfræðinám kostar aukið skólarými. Ekki er þó rétt að líta á það sem bein aukin útgjöld fyrir ríkið, þar sem ætla má að það muni jafnt og þétt fara í vöxt að fólk verði í framhaldsskólum á aldrinum 17–19 eða 20 ára. Þá skóla verður ríkið að kosta. Valið verður þá frekar á milli hvers konar skólar verði byggðir. Verða þeir skólar tengdir undirstöðuatvinnuvegunum eða verða þeir skólar, sem slíta fólk meira eða minna úr tengslum við þá.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir alhliða eflingu búnaðarfræðslu í landinu. Þessi eru aðalatriði frv. sem telja má til nýmæla:

Í fyrstu ber þess að geta, að hér eru felld í eina löggjöf ákvæði um alla búnaðarfræðslu í landinu. Það eru í fyrsta lagi ákvæði um venjulegt búfræðinám, hvort sem það fer fram við bændaskóla eða á annan hátt, við fjölbrautaskóla eða aðra fræðslu, þó að um hana fari eftir sérstökum lögum.

Í öðru lagi eru ákvæði um búnaðarfræðslu á háskólastigi. Einnig sú fræðsla á að geta verið í vissum tengslum við kennslu við Háskóla Íslands og ætlast er til, að þar verði bein samvinna ú milli búvísindadeildar að Hvanneyri og háskólans, ef kennslukraftar og kennsluaðstaða leyfa það. Nytu nemendur búvísindadeildar kennslu við háskólann í ákveðnum undirstöðugreinum sem kenndar eru þegar við Háskóla Íslands. Ýmis ákvæði í kaflanum um búvísindadeild eru svipuð eða hliðstæð ákvæðum í lögum um Kennaraháskóla Íslands. Að öðru leyti má segja það um búvísindadeildina, að námið þar verður hliðstætt að lengd og þeim kröfum sem gerðar eru til kennslu og námsárangurs til að ljúka B.S.prófi við líffræðiskor verkfræði- og raunvísindadeildar Háskóla Íslands.

Það nýmæli er í frv., að skipa skal búfræðslunefnd, sem á að marka stefnu í búfræðslumálum og samræma störf þeirra er að þeim vinna. Í búfræðslunefndinni eiga að eiga sæti auk skólastjóra búnaðarskóla fulltrúi kennara, tveir fulltrúar sem kosnir eru á Búnaðarþingi og fulltrúi tilnefndur af menntmrn. Eiga með því m. a. að skapast eðlileg tengsl við skólakerfið í landinu. Auk þessa eiga að vera ráðgefandi skólanefndir við hvern skóla. Þær eiga að vera ólaunaðar, en tilnefndar af stjórnum þeirra búnaðarsambanda sem eðlilegast eru tengdir viðkomandi skóla. Skólanefndir þessar eiga að efla tengsl á milli skólanna og bænda í viðkomandi héruðum. Auk þess yrðu þær til stuðnings og ráðgjafar til eflingar skólanna.

Þess hefur áður verið getið, að búfræðinámið verður eftir frv. tveggja vetra nám í stað eins. Ástæðurnar fyrir því eru einkum eftirfarandi:

1. Nauðsyn þótti að auka hið bóklega búfræðinám. Þar sem ekki var hægt að gera það nema lengja skólatímann kom til álita að lengja skólaárið verulega. Í skoðanakönnun, sem gerð var meðal fyrrverandi nemenda og ungs fólks í sveitum sem hugsanlegra nemenda, kom í ljós, að tvö stutt skólaár mundu mælast betur fyrir. Því var ákveðið að leggja til að skólaárið yrði 7 mánuðir eða tímabilið á milli sláturtíðar og sauðburðar.

2. Þá þótti nauðsynlegt að auka verknámið. Er það hugsað þannig, að það geti farið fram hvort sem er í skólunum sjálfum, á bændabýlum eða tilraunabúum, og þá eftir ákveðnum samningi við viðkomandi aðila undir eftirliti verknámskennara.

Auk hins almenna búfræðináms er gert ráð fyrir að búnaðarskólarnir annist bæði námskeiðahald fyrir bændur og aðra starfsmenntandbúnaðarins svo og aðra fullorðinsfræðslu. Slíkt færi fram í samvinnu við viðkomandi búnaðarsamband.

Þá er ætlað að hafa heimild í lögum til þess að koma á nokkru framhaldsnámi eftir búfræðipróf, svonefndu bútækninámi, þar sem miðað er við að veita fyllri fræðslu í búfræðigreinum, bútækni, búnaðarhagfræði og bústjórn. Slíkt nám tíðkast nú erlendis og er vinsælt. Æskilegt væri að hægt væri að koma á slíku námi við Bændaskólann á Hólum. Þá er gert ráð fyrir því, að búfræðslunefnd geti annast skipulagningu búfræðináms við bréfaskóla.

Í 14. og 15. gr. frv. eru ákvæði um tengsl á milli búnaðarnáms og annarra framhaldsskóla. Þar segir, að ef nemendur sem stundað hafa nám við aðra framhaldsskóla, sæki um inngöngu í búnaðarskóla, skuli meta það til eininga af fyrra námi þeirra, sem nýtist til búfræðiprófs, og minnka námsskyldu sem því svarar. Á sama hátt er ákvæði í 13. gr. frv. sem segir, að hverfi nemandi úr búnaðarskóla að öðru framhaldsnámi skuli búfræðinámið metið til eininga og notast honum við sitt nýja framhaldsnám.

Í framhaldi af þessu verður þá ekki lengur dvalið við hið almenna búfræðinám, en vikið að búvísindadeild.

Það eru nú, sem kunnugt er, 30 ár liðin síðan framhaldsdeild hóf starfsemi sína við Bændaskólann á Hvanneyri. Hún hefur eflst og vaxið síðan. Í fyrsta lagi hafa kröfur til undirbúningsnáms verið auknar og eru búfræðipróf með fyrstu einkunn, stúdentspróf eða próf frá raungreinadeild Tækniskóla Íslands nú inntökuskilyrði. Í frv. er gert ráð fyrir að inntökuskilyrði verði svipuð, þ. e. búfræðipróf, stúdentspróf eða jafngilt framhaldsnám. Með þessu eru gerðar meiri kröfur til undirbúnings en gildir um margar greinar háskólanáms, þar sem búfræðiprófi er aukið við undirbúningsnám. Námstími í framhaldsdeild var upphaflega tveir vetur, en hefur verið þrír vetur síðan 1965. Skólaár eru löng og sumarvinna bætist við.

Í frv. þessu er gert ráð fyrir að lengja námið þannig að bæta við einu ári, þar sem gefinn er kostur á sérhæfðu námi og þjálfun við rannsóknarverkefni. Þetta er hliðstætt og nú er við líffræði í Háskóla Íslands. Sá kostur hafi verið valinn að kalla þetta búvísindadeild og hafa hana í tengslum við Bændaskólann á Hvanneyri, og er það fyrst og fremst vegna þess að þeir, sem að þessum málum stóðu, vildu halda nafni Bændaskólans á Hvanneyri og töldu rétt deildarinnar skipta öllu máli, en ekki háskólanafnið. En á það má hins vegar benda, að hér eru gerðar sömu kröfur til námsins sem um fullt háskólanám væri að ræða, sem það raunverulega líka er. Kennarar við búvísindadeildina skulu uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til háskólakennara, og þeir skulu njóta sömu kjara og prófessorar og dósentar við háskólann njóta.

Enn fremur er með þessu ákvæði haldin ein yfirstjórn yfir Hvanneyrarstað, en það var í augum okkar, sem að unnum, einnig mikils virði. En eins og fram hefur komið í máli mínu er hér um hliðstætt nám að ræða í þessari búvísindadeild sem í háskóla væri, og það er aðalkjarni frv., er lýtur að þessum þætti þess.

Í grg. frv. er að finna þau atriði önnur sem ég hef ekki vikið sérstaklega að. En ég vil í því sambandi benda á, að aukinn kostnaður, sem leiða kann af þessu frv., er tiltölulega lítill og mun að sjálfsögðu fyrst og fremst ráðast af því, hversu hratt verður unnið að uppbyggingu á staðnum, en að því hefur verið unnið jafnt og þétt nú síðustu árin og stefnt er að því að halda því starfi áfram. Sama verður að segja um námið. Það ræðst af ákvörðun hverju sinni, hvað mikill hraði verður í útfærslu þess.

Ég vil, um leið og ég lýk máli mínu, geta þess, að á þeim 30 árum sem framhaldsdeild hefur verið starfrækt við Bændaskólann á Hvanneyri hefur hún útskrifað um 120 kandídata. Hún hefur gegnt hinu mikilvæga hlutverki að veita framhaldsmenntun í búfræði. Það hefur verið hennar hlutverk að leysa það verkefni af höndum. að búnaðarsamböndin víðs vegar í landinu gætu fengið í sína þjónustu menn með slíka menntun, en þeir hefðu ekki verið til staðar hér á landi ef framhaldsdeildin og síðar bútæknideildin við Bændaskólann á Hvanneyri. hefði ekki annast þessa kennslu.

Ég vil einnig geta þess, að þeir, sem út fyrir landsteina hafa farið og leitað sér framhaldsnáms við erlenda háskóla, hafa mætt þeim skilningi, að búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri hefur verið metin sem háskóli væri og þeir gengið inn í nám við slíka skóla, sem bjóða sérfræðinám á sviði búvísinda, eins og þeir hefðu stundað það nám á þeim stöðum eða hliðstæðum. Þess vegna er það svo, að í dag nýtur búvísindadeildin á Hvanneyri sama réttar og skilnings fyrir störf sín á Norðurlöndum og hjá öðrum nágrannaþjóðum okkar sem raunverulegur háskóli væri, sem hún reyndar er. Með þessu frv. er þetta hins vegar fest enn þá meira í skorður og búfræðslan í landinu í heild falin í einum lagabálki og byggð upp frá grunni til háskólanámsins.

Ég vil í sambandi við þetta frv. segja það, að búið er að leggja mikla vinnu í undirbúning þess og hafa þar margir lagt hönd að verki. Kann ég þeim öllum bestu þakkir fyrir og tel að þetta mál sé mjög vel undirbúið.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.