22.02.1978
Neðri deild: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2566 í B-deild Alþingistíðinda. (1882)

189. mál, búnaðarfræðsla

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs eins og hv. þm. Ingólfur Jónsson til þess að lýsa yfir stuðningi við þetta frv. og fagna því, að það skuli fram komið.

Það fer vel á því, að fram komi slíkt mál, vel unnið mál, núna þegar uppi er áróður gegn bændastéttinni, háskalegri og ósvífnari en nokkru sinni fyrr. Þá fer vel á því, að menn flytji mál sem stefnir að því að efla íslenskan landbúnað og þar með styðja íslensku bændastéttina.

Aðalbændaskólinn hér á Íslandi er í nágrenni við heimili mitt, og ég hef á undanförnum árum orðið aðnjótandi þeirrar ánægju að heimsækja þennan skóla oft og fylgjast með störfum þar og mannlífi og mér er óhætt að segja að það sé í flestu tilliti um að ræða fyrirmyndarstofnun. Starfslið þess skóla er yfirleitt af þeirri kynslóð, sem má kallast hin yngri kynslóð, ungir menn og áhugasamir, og með tilliti til þessa, þá sýnist mér að sjálfsagt sé að gera allt sem hægt er til þess að veita þessum skóla sem besta starfsaðstöðu og því fólki sem við hann vinnur. En á það hefur nokkuð skort, og æðimikið reyndar. Hér á ég við fjármagn til ýmiss konar rannsóknarstarfsemi, sem þarna er unnin og er hin merkasta. Ég harma það, að þjóðin skuli ekki vita meira um þá starfsemi en raun ber vitni. Þar hygg ég að nokkru valdi um hógværð þeirra manna sem þarna starfa. En það má vera til marks um hæfileika, þekkingu og getu kennaraliðsins á Hvanneyri, að nemendur frá búvísindadeild., sem löngum hét framhaldsdeild, hafa, eins og bæði hæstv. landbrh. og hv. þm. Ingólfur Jónsson minntu á, verið teknir til framhaldsnáms við erlenda háskóla, og þá hygg ég helst í Noregi, eins og um væri að ræða menn sem hefðu útskrifast þar frá viðkomandi búnaðarháskólum. Próf frá búvísindadeild Hvanneyrarskóla telst með öðrum orðum jafngilt sambærilegum prófum frá háskólum þar ytra. Að þessu leyti fer það ekkert á milli mála, að það væri hægt að kalla þetta háskóladeild. Og eins og báðir hv. þm. sögðu, þá sýnir þetta, að það starfslið, sem þarna vinnur, er fyllilega starfi sínu vaxið. Ég hygg reyndar að núv. skólastjóri Hvanneyrarskóla, Magnús Jónsson, sé fyrstur eða annar þeirra manna, sem teknir voru til framhaldsnáms athugasemdalaust þegar þeir komu til Noregs með próf héðan frá búvísindadeild eða framhaldsdeildinni, eins og hún hét þegar hann var þar.

Það er manni sérstakt ánægjuefni að sjá í þessu frv., að gert er ráð fyrir að nemendur í bændadeild skuli stunda sitt verknám og hljóta sína verkþjálfun jöfnum höndum á skólastöðum og á bændabýlum eða öðrum búum, þá að sjálfsögðu í grennd við skólana. Þetta er mjög þýðingarmikið. Eins og verður æ ljósara, þá er það einn gallinn í okkar skólakerfi, eins og það hefur þróast undanfarið. að skólarnir hafa fjarlægst fólkið í landinu, tengslin milli skóla og þjóðarinnar sjálfrar hafa ekki verið eins og skyldi. Slík tengsl eru að sjálfsögðu þeim mun nauðsynlegri þar sem hér er um að ræða skóla af þessu tagi. Hv. þm. Ingólfur Jónsson minntist á reynsluna. sem er mjög þýðingarmikil í sambandi við búskapinn, og það er rétt. Þarna yrði stuðlað að því, að eldri bændur gætu miðlað tilvonandi bændum reynslu sinni. Þetta er líka þeim mun nauðsynlegra sem sú ánægjulega staðreynd blasir við, þegar maður heimsækir Hvanneyrarskóla, að æðistór hluti þess fólks, sem þar er við nám, er úr þéttbýlinu, og ótrúlega stór hluti héðan úr Reykjavík. Margt af því fólki hefur að sjálfsögðu takmarkaða reynslu við sveitabúskap, þó mér sýnist að flest af því hafi valið þennan skóla einmitt fyrir það, að það hefur verið sem börn og unglingar í sveit og þá fengið áhuga á þessum störfum og lært að meta þau, lært að meta gildi þeirra, sem er kannske það þýðingarmesta.

Hv. þm. Ingólfur Jónsson benti réttilega á það, að ýmsir þeir, sem best búa, hafa ekki endilega farið á búnaðarskóla. Ég tek undir það. Þeir eru sannarlega til. En það er æðioft að þeir hinir sömu hafa þó farið á aðra skóla. Hv. þm. sagði í þessu sambandi, að slíkir bændur gerðu sér far um að fylgjast með nýjungum í landbúnaði og læsu landbúnaðarrit. Hér er ekki aðeins um að ræða íslensk rit, heldur líka útlend, ekki síður útlend, og ýmsir þessir bændur, sem hafa orðið lyftistöng í sínum byggðarlögum vegna þekkingar sinnar og þess, hversu vel þeir fylgjast með, ýmsir þessir bændur eru með stúdentspróf, sumir jafnvel verið 1, 2, 3 ár í háskólum erlendis. M. ö. o.: niðurstaðan verður sú, að að öðru jöfnu skiptir menntunin gríðarlega miklu máli í sambandi við búskap.

En ég kem aftur að reynslunni. Ef við ættum að meta það, sem bændur kunna fyrir sér í verklegum efnum, ef ætti að taka það inn í útreikningana, þegar verið er að meta hvaða kjör þeir eigi að búa við, þú hygg ég að þeir mundu verða ærið ofarlega í launaflokkum, því að bændur yfirleitt — jafnframt því sem þeir þurfa að sjálfsögðu að hafa reynslu að því er varðar búskapinn sjálfan, ræktun lands og umhirðu gripa — þurfa að vera iðnaðarmenn. Menn tolla ekki í þessum búskap, menn duga ekki öðruvísi en að þeir séu alhliða iðnaðarmenn. Og það get ég borið um að því er varðar mína nágranna, að þeir ern það. Bili vél, þá eru þeir sjálfir í flestum tilfellum færir um að gera við hana, þeir eru smiðir bæði á tré og járn, fyllilega sambærilegir við hina lærðu smiði. Ég nefni í þessu sambandi eitt dæmi. Ég kom vestur í Klofningshrepp núna í haust, Sveinsstaðir heitir þar einn bær, og þar hafði 24 eða 30 klukkustundum áður brunnið hlaða. Og þegar ég kom þarna, þá var búið að reisa hana við, komið á hana nýtt þak og allur frúgangur eins og þar hefði verið um lærða smiði að ræða. Þeir, sem þetta verk höfðu unnið og á svo skömmum tíma, voru bændurnir í nágrenninu, hver og einn fær um að leysa þetta verk af hendi, sem í þéttbýlinu er talið sjálfsagt að sé falið iðnaðarmönnum.

Þetta mætti vera umhugsunarefni núna, þegar menn telja eftir allt, sem varðar þessa stétt, og vildu margir hverjir helst útrýma henni með öllu. Svo mætti bæta við þetta hinu, sem reyndar hefur nú verið reynt að hafa af bændum, og það er sú menning sem þeir halda þó við í þessu landi þrátt fyrir allt, íslensk menning, meira en aðrar stéttir, miklu, miklu meira en aðrar stéttir. Ef það ætti að takast inn í útreikning varðandi kjör, þá mættu þeir hækka mín vegna a. m. k. um 2–3 launaflokka.

Þetta eru aðeins lauslegar hugleiðingar í sambandi við þetta frv. Ég óska núv. hæstv. landbrh. alls hins besta í þessu sambandi. Mér er reyndar ekki grunlaust um, að það væri ástæða til að þakka líka kempunni hv. þm. Ingólfi Jónssyni, fyrrv. hæstv. landbrh., fyrir ýmislegt sem hann hefur gert í þessum efnum, því hvað sem líður áróðri innan vébanda ýmissa stjórnmálaflokka, þá eru þar, guði sé lof, sannarlega til menn sem skilja þýðingu íslenskrar bændastéttar.

Ég vona að hæstv. landbrh. takist að koma þessu frv. í gegn núna á þessu þingi, enda aldrei að vita, hve mikils skilnings bændastéttin á að vænta af hálfu næstu ríkisstj., ef illa tekst til.