23.02.1978
Sameinað þing: 48. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2586 í B-deild Alþingistíðinda. (1892)

183. mál, ríkið virkur aðili að kjarasamningum vinnumarkaðarins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér er til umr., fjallar um það, að Alþ. ályktar að fela félmrh. að undirbúa frv. til laga er feli í sér að ríkisstjórnir séu á hverjum tíma virkur aðili að kjarasamningi um kaup og kjör í landinu. Fram kemur í grg. með þessari þáltill. ásamt mörgu öðru, að aðalrökin fyrir því. að þannig yrði staðið að málum, eru þau, að með því yrðu ríkisstjórnir gerðar ábyrgar fyrir samningsgerð í landinu og þá væntanlega mun ábyrgari en verið hefur á undanförnum árum og áratugum og þegar litið er til þess, sem gerst hefur á þessum vettvangi á liðnum tíma.

Nú eru auðvitað skiptar skoðanir manna um það, hvort og þá í hversu miklum mæli ríkið eigi að vera aðili að kjarasamningum. Ég veit satt að segja ekki hvernig ber að taka þessa till. hv. flm. Það mætti a. m. k. taka hana á ýmsa vegu. Það mætti t. d. skilja hana í ljósi þess, að hér er um að ræða tvo hv. stjþm. sem flytja þetta mál, hv. þm. Framsfl., væntanlega í fullu umboði þingflokks Framsfl. sem slíks, eða í ljósi þess, að núv. Hæstv. ríkisstj., sem þessir hv. þm. hafa stutt hvað dyggilegast, er sú eina sem í raun og veru má segja að hafi formlega gerst aðili að kjarasamningi við launþegasamtök. Alir vita hver raunin varð á í þeim efnum, ef minnst er þess sem gerðist hér á Alþ. í s. l. viku, þegar samþykktar voru hér ráðstafanir í efnahagsmálum.

Jú, flm. segja að með þessu verði ríkisvaldið gert ábyrgt fyrir sínum gerðum og í raun og veru gerðum allra sem hafa komið og kunna að koma nálægt gerð kjarasamninga í landinu. Já, ábyrgð, segja þeir. Hæstv. ríkisstj. með sjálfan fjmrh. í broddi fylkingar stóð að gerð kjarasamninga á s. l. hausti sem ábyrgur aðili, formlegur ábyrgur aðili, með undirskrift sjálfs fjmrh., sem væntanlega var fullur ábyrgðar. Hv. alþm. hafa séð, hversu ábyrgðartilfinningin hefur sligað hæstv. ráðh. frá þeirri samningsgerð og þar til nú í s. l. viku, að þeir ógiltu þá kjarasamninga sem ríkisstj. sjálf hafði sem formlegur aðili staðið að. Í ljósi þess mætti skoða þessa þáltill. sem góðlátlegt grín um hæstv. núv. ríkisstj. Það eru tveir hv. þm. Framsfl., annars stjórnarflokksins, sem flytja málið og má því skilja þetta á þann veg. Nú er ég ekki að segja, að það sé þeirra meining að það eigi að skilja till. svo. en það er fullkomlega hægt að skilja hana svo með hliðsjón af því sem gerst hefur á þessum vettvangi undanfarið.

Ég skal segja það strax sem mína skoðun, að ég er andvígur því að ríkisvaldið eigi frekar en orðið er hlutdeild að samningsgerð. Að mínu viti hefur það form, sem gilt hefur nokkur undanfarin ár með meiri og minni aðild stjórnvalda að samningsgerð, gert alla samninga það flókna, að ég hugsa að mikill meiri hluti launþega í landinu hafi í raun og veru ekki haft um það vitneskju, hvað hin einstöku ákvæði samninga. sem að ríkisvaldinu sneru, höfðu í raun og veru inni að halda launþegum til hagsbóta. Mín skoðun er sú, að fremur eigi að snúa þessu við og einfalda samningsgerðina og það eigi í orðsins fyllstu merkingu að gera atvinnurekendur ábyrga fyrir gerðum sínum við samningsborðið og að sjálfsögðu og ekki síður hæstv. ríkisstj., hver sem hún er, þegar hún hefur afskipti af þessum málefnum eins og raun ber vitni.

Það er ýmislegt merkilegt sem fram kemur í grg. þeirra félaga fyrir þessari þáltill. Þeir slá því föstu í upphafi grg., að sjaldan ef nokkurn tíma hafi verið önnur eins verðbólga á Íslandi og í tíð núv. ríkisstj., sem þeir hafa sjálfir stutt hvað dyggilegast til allra þeirra gerða sem hún hefur framið til þess að magna verðbólguna. (Gripið fram í: Við neitum ekki staðreyndum.) Stundum neita menn nú staðreyndum. Það færi betur, ef þessir hv. þm., sem til alls góðs eru líklegir, hvort sem þeir gera það nú eða ekki, hefðu haft það að leiðarljósi fyrr að neita ekki staðreyndum með sínum dyggilega stuðningi við hæstv. ríkisstj. í þessum efnum sem og öðrum. En velkomnir séu þeir í vorn hóp, þessir tveir hv. þm., í þann hóp sem hefur haldið því fram, að núv. hæstv. ríkisstj. ætti fyrst og fremst sökina á því, hversu verðbólgan hefur tröllriðið þjóðfélaginu hér á undanförnum þremur árum. Og ég fagna því að sjálfsögðu, að tveir af hv. þm. Framsfl. skuli söðla svo gersamlega um, breyta til hins betra, hætta að styðja ríkisstj. í því að magna verðbólgu, ganga í hóp okkar hinna, sem höfum haldið því fram, að breyta ætti um stefnu í efnahagsmálum og því aðeins væri líkur til þess að hægt væri að hefta eða draga úr verðbólgu, að breytt væri um stjórn efnahagsmála.

Hv. þm. Jón Sólnes sagði áðan, að í grg. þessarar þáltill. mætti í raun og veru finna, að með framkvæmd í anda þeirrar grg., sem henni fylgir, væri ríkið eða ríkisvaldið ekki bara að yfirtaka allan atvinnurekstur í landinu, heldur og verkalýðshreyfinguna og öll stéttarfélögin í landinu. Það þyrfti hvorki atvinnurekendur, eftir að þetta væri orðið að lögum, aðra en ríkisvaldið, né nein stéttarfélög í landinu, því að þá væri það allt komið á eina hendi, þ. e. a. s. þeirrar ríkisstj. sem sæti á hverjum tíma. Því er ég andvígur. Þetta segir beinlínis í grg. Vonandi eru hv. flm. á sama máli og ég og hv. þm. Jón Sólnes, en sé þetta misskilningur, þá gera þeir væntanlega grein fyrir því á eftir.

Í þessari þáltill. er líka talað um að með þessum hætti, sem hún gerir ráð fyrir, væri hægt að hafa, a. m. k. í sjónmáll, réttari mynd af heildardæminu varðandi gerð kjarasamninga o.g hvað þjóðfélagið þá sem heild þyldi að gert yrði í launakjörum almennings í landinu. Við höfum nú stofnun af því tagi sem hér um ræðir, og sú stofnun, sem er talin vera hlutlaus aðili í þessum málum, sagði fyrir um það við gerð síðustu kjarasamninga í landinu, hvað hægt væri að gera, hvað hægt væri að hækka kaupið mikið án þess að sprengdur yrði sá rammi, sem talinn var nauðsynleg umgjörð varðandi stöðu þjóðarheildarinnar, þjóðarbúsins. Sagt var fyrir fram af þessari stofnun, að innan þess ramma mætti semja, og það var gert. En eigi að síður sjáum við hvað hefur gerst í framhaldi af því. Þrátt fyrir það að hagur þjóðarbúsins hefur orðið betri, þ. e. a. s. framleiðsluaukning hefur orðið meiri en þessi stofnun gerði ráð fyrir í sínum spám, þegar samningarnir voru gerðir, — þrátt fyrir það þurfti að kippa öllu til baka að mati þeirra sem að því stóðu. (Gripið fram i: Það þurfti ekki kjaraskerðingu.) Já, og nú erum við að tala við tvo slíka. hv. flm. þessarar þáltill., sem hv. þm. Stefán Jónsson gaf þessa einkunn. Það eru ekki mín orð, að ástandið sé með þeim hætti, en þetta var eigi að síður mat þeirra aðila, sem kipptu grundvellinum undan kjarasamningunum sem voru gerðir, þ. á m. þessara hv. þm. beggja.

Ég veit ekki hvort ég hef skilið það rétt hjá hv. frsm. og fyrri flm. þessarar þáltill., Gunnari Sveinssyni, að þetta væri kannske ekki síður knýjandi nauðsyn vegna þess, að samvinnuhreyfingunni í landinu hefði gengið illa að rata hinn gullna meðalveg í samningsgerð við sína viðsemjendur, því að það mátti skilja það svo, að samvinnuhreyfingin hefði verið heldur jákvæðari í garð launþega og verkalýðshreyfingar en hinn aðilinn. Vinnuveitendasamband Íslands og þeir herrar sem þar ráða ferðinni. Og það mátti skilja, að einmitt þetta ástand, sem verið hefur og er, gerði það að verkum, að í raun og veru væri líklega Vinnumálasamband samvinnufélaganna orðið ráðvillt í þeirri viðleitni að finna hinn gullna meðalveg til þess að leysa þessi mál. Nú muna auðvitað allir þann hráskinnaleik sem Vinnumálasamband samvinnufélagana lék í kjaradeilunni á s. l. sumri, eða þann sjónleik, réttara sagt, sem þar var settur á svið, þegar það þóttist í orði vera vinveitt verkalýðshreyfingunni og vilja semja, en hafði nákvæmlega sömu afstöðu á borði og Vinnuveitendasambandið, þeir sem þar réðu ferðinni, enda stendur Vinnumálasambandið eftir því sem ég best veit, við hliðina á Vinnuveitendasambandinu í afstöðunni til verkalýðshreyfingarinnar.

Ég veit engin dæmi þess, — þau geta fundist þó ég viti ekki um þau — ég veit engin dæmi þess, að samvinnuhreyfingin sem slík hafi staðið að því eða gert tilraun til þess að brjóta niður þau óvinveittu viðhorf innan Vinnuveitendasambandsins sem hafa verið til verkalýðshreyfingarinnar. Um það er mér ekki kunnugt. Vel má vera að einhver geti nefnt dæmi slíks, og þá er óskað eftir því, að það verði gert hér. Ég held að ef ætti að lögfesta í anda þess, sem grg. þessarar þáltill. gerir ráð fyrir, framkvæmd við gerð kjarasamninga hér á landi með þeim hætti sem hér er lýst, þá væri í raun og veru kominn einn skömmtunaraðili í landinu, sem gæti skammtað á báðar hendur eftir eigin smekk eftir því sem honum sýndist hverju sinni, þ. e. a. s. viðkomandi ríkisstj., án þess að þurfa í reynd að spyrja einn eða neinn. Ég held a. m. k. er það mín sannfæring, og það segi ég að fenginni reynslu, kannske ekki langri eða mikilli, í samningsgerð og samningamálum, — að það eigi fremur að minnka afskipti ríkisvaldsins af gerð kjarasamninga heldur en auka þan stórkostlega, eins og hér er gert ráð fyrir, vegna þess að ég tel að það verði til hins verra. Við höfum líka dæmin fyrir okkur um það, eins og að var vikið áðan.

Það er sagt í grg., með leyfi forseta, að með þessum breytingum tengist saman raunverulegt vald og ábyrgð. Ég sé ekki hvaða ábyrgð hefur færst í þessu tilfelli yfir á núv. hæstv. ríkisstj. með formlegri aðild að kjarasamningum. Ég sé ekki annað en hún hafi verið gersamlega ábyrgðarlaus í þeim kjarasamningum sem hún stóð formlega að að gera á s. l. hausti, og mér dettur ekki í hug að halda, að þó að núv. hæstv. ríkisstj. fengi framlengda lífdaga sína að kosningum loknum, yrði hún ábyrgari eftir en áður, síður en svo. Og sjálfsagt mætti segja hið sama um flestar, ef ekki allar ríkisstj. sem verið hafa hér á undanförnum árum. Þær hafa meira og minna brugðist í þessum efnum. (Gripið fram í: Hann var alltaf á móti vinstri stjórninni, þessi.) Hv. þm. Stefán Jónsson segir: „Hann var alltaf á móti vinstri stjórninni, þessi.“ Ég skal rifja upp fyrir þessum hv. þm. afstöðu mína til vinstri stjórnarinnar, sem var nákvæmlega sú sama og afstaðan, sem ég hafði til hæstv. núv. ríkisstj., varðandi það að ógilda gerða kjarasamninga. Þar skipti ekki máli fyrir mig, hvort það var hægri eða vinstri stjórn. Það var nákvæmlega það sama. sem vinstri stjórnin gerði 1974 og núv. ríkisstj. gerði nú fyrir nokkrum dögum, er hún ógilti gerða kjarasamninga. Því var ég á móti á sínum tíma. Það samþykktu hins vegar sumir, ef ekki allir hv. þm. Alþb. þá. Þar skildi í milli. Það skipti ekki máli í mínum huga, hvort um var að ræða ríkisstj. undir forsæti Sjálfstfl. í samstjórn með Framsókn eða hvort það var ríkisstj. undir forsæti Framsfl. í samstjórn með Alþb. og SF. Hér var um nákvæmlega sama atriði að ræða að því leyti, að báðar ógiltu þessar ríkisstj. gildandi kjarasamninga. Þar skildi milli feigs og ófeigs í afstöðu minni annars vegar og hins vegar þeirra hv. þm. sem studdu þáv. ríkisstj. Ég hef því haldið nákvæmlega sömu stefnu í þessu atriði og ég gerði sem stjórnarsinni. En það geta ekki allir sagt, ekki hv. þm. Stefán Jónsson. (Gripið fram í.) Þú getur ekki sagt um það heldur. Hv. þm. hefur verið á þingi undir sambærilegum kringumstæðum, að því er ég best veit, og haft þá svipaða ef ekki sömu afstöðu til þessara mála og virðist hafa komið fram nú á hinum síðustu tímum.

Það er því alveg augljóst mál, að í mínum huga skiptir ekki máli, hvort það er hægri eða vinstri stjórn í landinu, þegar kemur til þessa. En það skiptir suma hv. þm. máli, að því er virðist vera, og þeir um það. Þetta er að því leyti rétt hjá hv. þm. Stefáni Jónssyni, að í þessu var ég á móti vinstri stjórninni, það er rétt. Og ég hef hlotið minn dóm fyrir þá ákvörðun mína. (Gripið fram í: Hann verður ekki framkvæmdur fyrr en í vor.) Ef þarf að minna hv. þm. á það, þá var kosið 1974 eftir að fyrrv. ríkisstj. — eða fyrrv. hæstv. forsrh. kannske réttara sagt — rauf þing og efndi til kosninga. Þá lá þessi afstaða mín fyrir og m. a., að því er ég best man, ekki síst talin ástæða til á Vestfjörðum af flokksbróður hv. þm. Stefáns Jónssonar að kjósa einmitt um þá afstöðu mína til ríkisstj., hvort ég vildi ógilda samninga eða ekki. Sá dómur er fallinn. Hann féll 1974. Og hversu mikil óskhyggja sem býr í brjósti hv. þm. Stefáns Jónssonar um að hér hafi aðeins verið um áfrýjun að ræða, þá bið ég eigi að síður alveg rólegur þess æðsta dóms, ef hv. þm. Stefán Jónsson á við það, að hann komi í næstu kosningum. Ég hef engar áhyggjur, af því að á mínum heimavígstöðvum hefur það yfirleitt verið svo, sem betur fer, að menn hafa fremur látið málefni ráða en misjafnlega pólitískt lituð gleraugu. Og ég hygg að svo verði enn. En ég ætla ekki um það að spá, það kemur allt í ljós á sínum tíma.

Hv. frsm. vék aðeins að kafla, sem er í skýrslu hinnar margumtöluðu verðbólgunefndar, og las upp úr þeirri skýrslu, þ. á. m., eins og oft hefur fram komið áður, að það var álit meiri hl. þeirrar nefndar, að setja bæri upp samstarfsnefnd, þ. e. a. s. samstarfsnefnd þriggja aðila, vinnuveitenda, verkalýðshreyfingar og ríkisvalds, sem í mínum huga þýddi það eitt, að þessir þrír aðilar, tiltölulega fámennur hópur í þjóðfélaginu, réðu í meginatriðum gerð kjarasamninga hverju sinni. Ábyrgðin og framkvæmdin yrði í höndum tiltölulega fárra einstaklinga hér í Reykjavík. Það þýddi í mínum huga þessi væntanlega samstarfsnefnd, sem hér er verið að tala um og menn hafa oft vitnað til að hafi gefið góða raun t. d. í Svíþjóð. Og ekkert hefur farið leynt, að það er margyfirlýst stefna Vinnuveitendasambands Íslands að færa samningsgerðina í hendur sem fæstra, auka miðstjórnarvaldið. Þetta er yfirlýst stefna Vinnuveitendasambands Íslands, enda þau samtök byggð upp á þessu í grundvallaratriðum og hafa margoft lýst yfir, að þau óskuðu þess eindregið að á sama hátt yrði verkalýðshreyfingin uppbyggð, aukið miðstjórnarvald þar. Þó hitt sé slæmt, sem menn hafa verið að tala um áður, þá sýnist mér a. m. k. að í grg. þessarar till. megi lesa það milli lína, að enn þá lengra sé gengið í þessum efnum, því að með henni væri verið að færa alla samningsgerðina í hendur ríkisvaldsins. Og ég er nærri því viss um það, hvað sem menn hafa sagt um róttækni þeirra sumra hverra, hv. þm. Alþb., þá er ég nærri því viss um að þeir verða tiltölulega fáir sem telja þetta æskilegt í þeim herbúðum, sem á annað borð eitthvað þekkja til þessara mála og hafa nálægt þeim komið. Að þessu leyti ganga þessir hv. þm. Framsfl. svo miklu framar en þeir róttæku þm. Alþbl. sem margir eru um að tala.

Það er líka sagt hér, að með breytingu í þessa átt gætu vinnuveitendur, atvinnurekendur, ekki lengur skrifað undir samninga, eins og sagt er hér fullum orðum, held ég, einhvers staðar, — samninga sem þeir vissu fyrir fram að fyrirtækin þyldu ekki, í trausti þess að ríkisvaldið bjargaði þeim síðar. Í þessu sambandi vil ég segja það, að vissulega eru uppi ýmis vandamál hjá sumum hverjum atvinnugreinum. En þar er fyrst og fremst um að ræða vandamál, sem ekki er svo ákaflega erfitt að kippa í liðinn, eins og t. d. hjá fiskvinnslunni. Ég er t. d. viss um það, að ekki er gert ráð fyrir því, og væri raunar furðulegt ef ráð væri fyrir því gert í grundvelli eða rekstri fyrirtækis eins og t. d. hraðfrystihúss, að það gæti borið sig með því að hafa hráefni til vinnslu einungis 2–3 mánuði úr ári, eins og virðist vera hjá obbanum af fiskvinnslufyrirtækjum t. d. á Reykjanesi. Það er því ekkert vafamál, að þetta er hægt að laga með því að fækka fiskvinnslufyrirtækjum og koma rekstri þeirra á eðlilegan grundvöll, því eins og ég sagði áðan er það alveg út í hött að hægt sé að reka fyrirtæki sómasamlega með því einungis að það starfi kannske 2–3–4 mánuði úr árinu. Það væri meira en lítill gróði sem slíkur atvinnurekstur skapaði, ef rekstrargrundvöllur væri fyrir vinnslu kannske 4 mánuði úr árinu. Þó að ég hafi haldið því fram, að þessi fyrirtæki mörg hver blómstri, þá hef ég ekki gert því skóna, að það væri svo mikill afraksturinn af því, að þeim nægði að vinna 3–4 mánuði úr árinu. En þetta mun vera staðreynd, t. d. á Reykjanesinu, að þar hafa fyrirtæki ekki hráefni til vinnslu nema tiltölulega lítinn hluta úr árinu. Þetta þýðir auðvitað það, að þegar heildin er tekin saman, þó að frystihús eða fiskvinnslufyrirtæki í öðrum landshlutum standi síg bærilega, — þegar heildin er tekin saman og reiknað út meðaltal, þá er auðvitað bullandi tap á þessu öllu, þegar stór hluti fyrirtækjanna er rekinn þannig, að í raun og veru er glórulaust að ætlast til þess, að þau geti borið sig. Þetta er ekki hvað minnsti vandinn við að glíma í sambandi við rekstur fyrirtækja hér á landi. Því miður er tiltölulega lítt þekkt hér á landi að fyrirtæki fari á hausinn, en það er fjöldi fyrirtækja í landinu sem mætti fara á hausinn og þyrftu að fara á hausinn til þess að hægt væri að taka upp rekstur af einhverju viti. Þetta á kannske ekki heima í umr. um þessa þáltill., þótt að vísu sé óbeint komið inn á það, þegar því er slegið föstu í grg. með till., að forsvarsmenn hinna ýmsu atvinnufyrirtækja í landinu hafi vitandi vits skrifað undir samninga sem þeir töldu fyrir fram eða vissu fyrir fram að væri gersamlega vonlaust að fyrirtækin gætu staðið undir, í trausti þess að ríkisvaldið hlypi undir bagga. Þessu er mikilvægt að breytt sé, en ekki alfarið að ríkisvaldið sé látið yfirtaka alla þessa hluti. Það þekkjast auðvitað ágætis ríkisfyrirtæki, vel rekin, en nú kváðu vera uppi raddir um að selja þau ríkisfyrirtæki, fyrst og fremst, sem ern best rekin og hafa skilað hagnaði, en halda í þau sem tiltölulega lítill eða enginn rekstrargrundvöllur virðist vera fyrir.

Þeir segja hér, félagar, í grg., að með þessum vinnubrögðum verði sköpuð skýrari mörk um hvað væri verið að semja og við hverja væri verið að semja. Getur það verið, að forustumenn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hafi í haust ekki vitað við hverja var verið að semja? Er það hugsanlegt? Ég held ekki. Ég ætla mönnunum það ekki, að þeir hafi ekki alveg vitað við hverja þeir voru að semja. Ég get sagt fyrir mig sem forsvarsmaður eins verkalýðsfélags í landinu, að ég hef alltaf talið mig vita við hvern ég væri að semja. Það hefur ekki skort á það. Það er ekki vandamálið, þannig að ekki þarf neitt skýrari löggjöf, skarpari mörk eða ákvæði um það, hvort þessi á að semja við þennan eða hinn við hinn. Þetta vita menn alveg. Það er ekkert vandamál. En hafi þetta átt sér stað t. d. hjá BSRB-mönnum í haust, þá hefðu hv. flm. þessarar þáltill. átt að vísa þeim veginn til hins rétta aðila, sem þeir áttu að semja við, ef þeir hafa ekki samið við þann rétta.

Nei, það er ekki það, sem um er að ræða, þetta er ekki vandamálið. Vandamálið er kannske fyrst og fremst það, hvernig menn verða gerðir ábyrgari gerða sinna. Það er fyrst og fremst það, sem ætti að vera mikilvægast í þessu sambandi. Kannske það komi með kjörorðinu sem þessari grg. lýkur á: Kjarabaráttan inn í kjörklefann. Kannske það komi með því, að samningarnir gildi eða hvað sem menn vilja hafa það.

Getur það verið, — mér er nú bara spurn, — getur það átt sér stað, að þessir hv. tveir þm. Framsfl. séu með tillöguflutningi af þessu tagi að reyna að slá ryki í augu kjósenda í landinu svona tiltölulega skömmu fyrir kosningar og á þennan hátt að reyna að leiða athygli almennings í landinu frá því, sem verið hefur að gerast í stjórnartíð Framsfl., til þess sem þeir félagar vilja, að verði gert í næstu stjórnartíð Framsfl. í samstarfi við íhaldið? Er það hugsanlegt? Ætli þessir tvímenningar hugsi sem svo: Það er vonlaust að ná þessu markmiði okkar fram í þessari þáltill. nema beina athyglinni að Framsfl. sem líklegustum aðila til þess að framkvæma eitthvað af viti varðandi samningsgerð í landinu. — Sé þetta meiningin, sem ég vil ekki segja beinlínis, en gæti komið til mála að væri, þá er ég ekki í neinum vafa um það, að þeir verða ekki margir sem láta blekkjast af þessu, nema þá því aðeins að fyrir liggi formleg viðurkenning af hálfu hv. þm. Framsfl. á því, að þeir hafi á síðustu þremur árum í raun og veru ekki vitað hvað þeir voru að gera með stuðningi sínum við þá efnahagsstefnu sem er í landinu.

Komi slík yfirlýsing og játning fram, þá gæti vel verið að fólk færi að hugsa sig um, hvort það væri nú ekki rétt að styrkja eitthvað stöðu þessara tveggja hv. þm. innan flokksins í væntanlegum kosningum. En komi engin slík játning fram, að þeim hafi kannske í raun og veru ekki verið um það kunnugt með stuðningi sínum við stefnuna, hvað þeir voru að gera, þá nægir ekki þessi þáltill. til þess að slá ryki í augu á fólki. Það verður í gegnum hana séð.

Ég skal ekki, herra forseti, orðlengja þetta frekar. Ég er andvígur þeirri stefnu, sem túlkuð er í grg. með þessari þáltill., og tel að fremur eigi að beina athyglinni að því að gera kjarasamningana í landinu einfaldari, ekki flóknari. En ég stend í þeirri meiningu að með stórkostlega auknum afskiptum ríkisvaldsins verði þeir flæktir og kannske flæktir svo, að það botni enginn í þeim. Og auðvitað er ég andvígur því að gera slíka samninga sem enginn skilur.