23.02.1978
Sameinað þing: 48. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2600 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

183. mál, ríkið virkur aðili að kjarasamningum vinnumarkaðarins

Flm. (Gunnar Sveinsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir málefnalegar umr. um þessa till., sem hér hefur verið flutt, og ætla aðeins að koma inn á nokkur atriði sem þeir hafa staldrað við.

Jón Sólnes byrjaði með því að ræða þessa till. á þann hátt, að hér væri verið að stefna að Sovét-Íslandi. Ég var svo sem ekkert hissa á því, þó að Jón notaði þetta orðalag, því að ég hafði heyrt þetta af munni annarra sem ég hafði sýnt þessa þáltill. Þeir töldu að óathuguðu máli að þarna væri verið að fara inn á þessa leið. En eftir nánari athugun sáu þeir að þeir höfðu í fljótræði tekið þarna afstöðu sem ekki var raunhæf þegar þeir höfðu lesið frv. yfir.

Það, sem fram kemur fyrst og fremst í þessari till., er að við erum að viðurkenna staðreyndir. Þeir, sem hafa fylgst með samningagerðum undanfarin ár og áratugi jafnvel, geta ekki annað en komist að þeirri niðurstöðu, að það er raunverulega ríkisvaldið sem hefur úrslitaorðið í öllum kjarasamningum sem gerðir eru hér á landi. Við, sem höfum fylgst með þessum samningum, vitum að til eru kallaðir í sjónvarp og útvarp ágætir menn, eins og Björn Jónsson og Jón H. Bergs. Þeir sitja andspænis okkur, sem horfum á sjónvarpsskerminn, og ræða um kaupgjaldsmálin, hvernig samningar gangi o. s. frv. En við vitum að það, sem allt veltur raunverulega á, er hvaða ráðstafanir ríkisstj. muni gera til þess að leysa deiluna. Þeir verða að viðurkenna það sjálfir, að hvorki gengur né rekur fyrr en ríkisvaldið á hverjum tíma hefur sagt sitt orð. Og þess vegna tel ég að nauðsynlegt sé, að þegar menn eru að ræða málin yfirleitt, þá viðurkenni þeir þessar staðreyndir. Ég held því, að ljóst sé að sú samningagerð, sem kemur til með að eiga sér stað milli allra aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins, sé raunverulega það, sem um er að ræða.

Ég vil koma hér inn á það, sem Karvel Pálmason sagði um það sem stendur í grg. við hverja er verið að semja og um hvað er verið að semja. Það, sem felst í grg., er raunverulega þetta að menn geri sér grein fyrir því, að á bak við þá aðila, sem fjalla um samningsgerðina, er ríkisvaldið stærst, menn reikna með því, þegar þeir ræða við þá aðila sem til viðræðu eru.

Ég minnist þess í sambandi við það að Jón Sólnes var að tala um Sovét, að á sínum tíma var Jónas Jónsson kallaður bolsi og á þeim tíma var hann einna mest umtalaði maður hér á landi og í forustusveit fyrir Framsfl. Það var einmitt Sjálfstfl., sem hafði það orð um Jónas. En ég er hræddur um að í dag verði ekki sú skoðun uppi á teningnum, að hann hafi nokkurn tíma aðhyllst þá stefnu sem á sínum tíma var kölluð bolsévismi og var í Rússlandi.

Ég er alveg sammála Jóni í því, að raunverulega byggist kaupgjaldið og afkoma okkar þjóðar á aflabrögðum og framleiðslu. Svo kemur skipting á þessum tekjum, sem ég er að ræða um, eftir því hvað mikið er til skiptanna. Og það eru raunverulega skiptin sem við erum að ræða um, þegar við erum að tala um kaupgjaldsmálin og hvernig þau fara fram. Ég vil líka benda á í sambandi við það sem hann sagði, að í skýrslu um verðbólguvandann mæla þeir raunverulega með þessari leið, en þeir ganga bara ekki alveg eins langt og hér er gert. Ég gerði grein fyrir því í framsöguræðunni, að ég teldi að þeir hefðu gengið of skammt til þess að ná árangri. Jón Sólnes benti á, að hann teldi að minni þátttaka ríkisvaldsins í samningum væri sú leið sem við ættum að fara frekar en auka þátt ríkisins. En ég tel að sú þátttaka, sem ríkið hefur núna í samningum, sé algerlega í lágmarki til þess að samningar geti náðst og samningarnir verði, eins og ég tók fram í framsöguræðu, miklu affarasælli með þeirri tilhögun sem hér er um að ræða. Í nýrri vinnulöggjöf, sem hann ræddi um og taldi að væri nauðsynlegt að setja, mundi þetta efalaust koma fram. Ég vil taka fram, að í þáltill, sem hér er til umr., er fyrst og fremst rætt um það, að haft sé fullt samráð við aðila vinnumarkaðarins um það frv., sem hér er lagt til að verði samið og feli þetta í sér sem gerð er grein fyrir í þessari grg. Hvað svo þeir samningar ná langt í sambandi við aðila vinnumarkaðarins kemur náttúrlega í ljós þegar það frv. verður samþykkt.

Aðeins nokkur orð um það sem Karvel Pálmason talaði um.

Ég vil taka fram, að ég er hér ekki að flytja mál sem ég tel að tengist beint afskiptum núv. ríkisstj. af samningum, því að ég reikna með að allar ríkisstj., sem verið hafa, hafi á einhvern hátt tekið þátt í samningsgerð. Ég ætla þess vegna ekki að fara að ræða við hann um hvernig ríkisstj., sem nú situr, kemur út úr þessu máli, ef þetta er svona meðan á hennar stjórnarferil stendur, heldur um þá meginstefnu sem felst í því að hafa það fyrirkomulag sem ég er að ræða um. En Karvel lýsti yfir því, að hann væri því andvígur að ríkisvaldið væri nánari aðili að samningsgerð. Hann var einnig á móti því, að stofnuð yrði samstarfsnefnd til þess að aðilar vinnumarkaðarins gætu rætt saman. Það finnst mér koma úr hörðustu átt, ef þeir menn, sem eru í forsvari fyrir verkalýðssamtökin, geta ekki einu sinni sætt sig við að hafa samstarfsnefnd, sem ræðir um málin áður en þau koma til framkvæmda og til samningsgerðar kemur. Það er náttúrlega fyrir neðan allar hellur, að mínu áliti, að menn geti ekki talað saman, hvernig svo sem þeir líta á þá hluti sem um á að ræða.

Hv. þm. áleit, að með þessu væri raunar ríkisvaldið að yfirtaka bæði verkalýðsfélög og atvinnurekendur og þetta yrði bara einstefna. En eins og frem kemur í þessari till. er hér um algeran misskilning að ræða. Hér er fyrst og fremst verið að byggja upp, eins og segir í verðbólguskýrslunni, lýðræðislegt fulltrúavald Alþ. með frjálsum samningum. Það er aðeins gengið dálítið lengra og af meiri einurð en áður hefur verið gert.

Hv. þm. minntist aðeins á samvinnuhreyfinguna, af því að ég minntist á hana og hinn gullna meðalveg. Ég get vel viðurkennt, að oft hefur verið erfitt að fara þennan gullna meðalveg, en þó vil ég fullyrða með vissum og ábyggilegum rökum, að Vinnumálasamband samvinnuhreyfingarinnar hefur alltaf verið velviljað verkalýðsfélögunum. Þar hefur aðeins verið um það að ræða, á hvern hátt ætti að nálgast það dæmi sem um er að ræða. Það hefur oft verið erfitt, því að þar hefur verið um pólitíska andstöðu að ræða í mörgum tilfellum. Ég tel að með stofnun Vinnumálasambandsins hafi verið stigið stórt spor í þá átt að reyna að ná samkomulagi t þessu sviði, þó að það gæti verið betra. Það þyrfti að vera meiri skilningur þarna á milli og meiri samvinna en nú er.

Ég skal ekki verða mjög langorður, af því að það er liðið töluvert á tímann. Jóhannes Árnason ræddi um aukin afskipti ríkisvaldsins. Ég held að þeir menn, sem tala þarna um mikil aukin afskipti ríkisvaldsins sem einhvern voðalegan vanda sem upp kæmi, verði að athuga á hvern hátt þessum málum er skipað í dag. Ríkisvaldið er þegar farið að semja við um 35% af þjóðinni. Við verðum að viðurkenna það. Hví ætti það ekki að geta orðið með þá, sem eftir eru, á sama hátt og þá, sem fyrir ern, innan þeirra marka sem við setjum, í samráði við þá aðila sem um það eiga að fjalla? Ég tel að ekki sé svo mikill munur þarna á bændum og sjómönnum. Þetta er náttúrlega ekki eins í smáatriðunum, en markar heildarstefnuna.

Ég hef lesið þá till., sem þeir flytja hv. þm. Jóhannes Árnason og Pétur Sigurðsson og mér fannst hún fyrir marga hluti athyglisverð. En það er að mínu áliti sami galli á henni og fram kemur í skýrs]unni um verðbólguvandann þar er ekki tekið á málum af nógu raunsæi. Það er verið að skipa nefnd til þess að fjalla um málið án þess að sú nefnd eigi á einn eða annan hátt að hafa raunveruleg áhrif á það sem gerist þegar til úrslitanna kemur. (Gripið fram í) Já, ég held að sú tillögugerð feli ekki í sér lausn á vandanum, en náttúrlega eru menn frjálsir að því að hafa þá skoðun.

Út af því, sem hv. þm. Stefán Jónsson sagði, þá fagna ég því, að hann telur að vert sé að taka til athugunar, þegar þessi dæmi eru gerð upp, þá till., sem hér er til umr., og að í henni geti ásamt öðru falist lausn, sem gæti haft þau áhrif að þessi mál kæmust í betra horf en raun hefur verið á undanfarið. Hann talaði um tillöguflutning Alþb. á þessu þingi. Ekki kom nú fram í framsöguræðu minni, að ég teldi að þar ætti að breyta neinu í vinnulöggjöfinni, þannig að það var heldur ekki meint þannig. En ég ætla ekki að fara að ræða við Stefán Jónsson um þessa ríkisstj. eða samninga hennar við ríkisstarfsmenn. Mér heyrðist á hv. þm. Karvel Pálmasyni, að hann segði áðan, án þess að Stefán Jónsson mótmælti því, að Stefán hefði staðið að svipuðum aðgerðum 1974, kannske með krampakenndri hendi eins og hann vildi meina að við Ingvar hefðum gert fyrir helgina. Hann mótmælti því ekki á sínum tíma, þannig að ég veit ekki, hvern hann er um að saka, hvort aðgerðir voru miklu verri nú en það sem gert var þá. En staðreyndin er sú, að þegar þarf að gera hlutina, þá verða menn oft að gera ýmislegt sem þeir kannske hefðu viljað gera öðruvísi.

Ég þakka mönnum fyrir málefnalegar umr. og held að ég lengi ekki mál mitt meira.