23.02.1978
Sameinað þing: 48. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2610 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

104. mál, framhaldsskólanám á Norðurlandi vestra

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Flm. þessa máls beindi til mín spurningum við umr. hér í fyrradag. Og fleiri spurningar vakna að sjálfsögðu upp, þegar rætt er um mál á borð við þetta, framhaldsskólahald, samræmt framhaldsskólanám á Norðurl. v., eins og segir í fyrirsögn tillögunnar.

Út af því vil ég segja örfá orð. Ég vil í fyrstu geta þess, að nú í vetur er á nokkrum stöðum á Norðurl. v. kennt á framhaldsskólastigi. Í héraðsskólanum á Reykjum eru 19 nemendur á fyrsta námsári, á Blönduósi 11, á Sauðárkróki 23, í framhaldsdeild gagnfræðaskólans, og á Siglufirði 43, og auk þess eru svo 66 nemendur í Iðnskólanum á Sauðárkróki. Þetta nám fer fram núna í vetur. Á s. l. hausti komu inn í framhaldsskólana yfirleitt nemendur sem tóku grunnskólapróf og auk þess nemendur sem höfðu lokið gagnfræðaprófi, eða að talið er 11/2 aldursárgangur a. m. k. á ýmsum stöðum á landinu. En nemendafjöldi á þessu landssvæði er ekki meiri en svo, að vandséð er að hægt verði að halda uppi kennslu á öðru námsári nema þá á einum eða tveimur stöðum á næsta skólaári. En það er mjög verið að huga að því nú, hvernig því mætti fyrir koma að halda uppi kennslu á öðru námsári framhaldsskólastigs á þessu svæði.

Þessi mál öll, framhaldsskólanám á Norðurl. v., eru mjög í athugun um þessar mundir og hafa auðvitað verið það að undanförnu hjú fræðsluyfirvöldum og sveitarstjórnum, — annars hefði ekki þessi kennsla farið fram á þessu svæði, nema af því að menn hafa sinnt þessum málum. Nú er þetta svo í athugun fyrir næsta vetur og auðvitað jafnframt fyrir framtíðina bæði hjá sveitarfélögunum og fræðsluyfirvöldunum norður frá og svo hjá rn. Fræðslustjórinn í Norðurl. v. hefur fengið fyrirmæli um að gera till. um kennslustaði næsta skólaár að höfðu samráði við skólastjóra og sveitarstjórnir á þessu svæði. Ég vil einnig láta það koma fram hér, að rn. hafa þegar borist bréf frá einstökum sveitarstjórnum, þar sem þær setja fram sínar hugmyndir beint til rn. Þannig liggur fyrir bréf frá bæjarstjórn og skólanefnd á Sauðárkróki, þar sem rætt er um þann möguleika að sameina í eina heild framhaldsdeildir gagnfræðaskólans þar og starfsemi iðnskólans, líkt og gert var á Akranesi s. l. haust og þykir hafa gefist vel. Þá vakir það jafnframt fyrir þeim sérstaklega, sem skrifað hafa rn. um þetta, að höfð yrði sem allra víðtækust samstaða um slíka samvinnu við aðra byggðahluta í Norðurlandsumdæmi vestra.

Ég verð nú að segja það, að þessi tillöguflutningur hv. þm., þessi einleikur hans, liggur mér við að segja. hann skýtur nokkuð skökku við þessi félagslegu vinnubrögð sem ég drap á, því búið er að vinna heilmikið í þessu á þessu svæði nú þegar. Ég tel þau félagslegu vinnubrögð í sjálfu sér miklu eðlilegri heldur en það, að einstakir þm. flytji um það till. hér á hv. Alþ. En við því er hins vegar ekkert að segja og ég er síður en svo að finna að því í sjálfu sér. Slíkur tillöguflutningur vekur athygli á málinu og er jákvæður þannig. En hins vegar sýnist mér satt að segja, að t. d. upphafsgrein þessarar þáltill. — þar segir: „Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir samstarfi sveitarstjórna á Norðurl. v. um stofnun framhaldsskóla með fjölbrautasniði“ — sé ekki sérstök ástæða til þess að samþ., því þetta er nánast það sem verið er að gera. Það er unnið að þessu þar norður frá á vegum sveitarstjórna, fræðsluráðs og fræðslustjóra og í nánu samráði við menntmrn. Hins vegar spillir það ekkert málinu þó gerð sé svona ályktun hér á Alþ. En ég sé ekki að það hafi verulega praktíska þýðingu, því það er verið að vinna að þessu. Aftur á móti held ég að við þær breytilegu aðstæður, sem eru í okkar strjálbýla landi, sé nokkuð erfitt t. d. fyrir einn hv. alþm. eða hvaða einstakling sem væri að setja fram alveg ákveðnar till. um skiptingu námsefnis á skólastaðina, eins og er að nokkru leyti gert í þessari till. Ég er alls ekki þar með að segja að þessar hugmyndir, sem hér koma fram, séu neitt óskynsamlegar út af fyrir sig. En ég held að þetta verði menn að vega og meta heima fyrir í félagslegu undirbúningsstarfi þar sem sveitarstjórnir, skólafólk og skólayfirvöld eða fræðsluráðið þar koma við sögu. Nú er því ekki að neita, enda sjá það allir, að frágangur skólaskipunar á grunnskólastigi hefur gengið hægt og svo er auðvitað um framhaldsskólastigið einnig, og þó raunar enn frekar því að grunnskólalögin eru þó komin fyrir nokkrum árum. Að sumu leyti er það auðvitað óhagstætt að koma ekki fastri skipan á skólaskipanina fyrr en síðar. En að sumu leyti tel ég eðlilegt og raunar æskilegt að þessir hlutir gerist ekki með skyndiákvörðunum. Og ég held að það hafi verið það mikil hreyfing á þessum málum öllum að undanförnu, gengið yfir það miklar breytingar bæði í framkvæmd, þar sem um það hefur verið að ræða., og eins í skoðanamótun og rökræðum, að ég held að það hafi raunar verkað til góðs að dregist hefur að koma meiri festu á sjálfa skólaskipanina, verksvið einstakra skóla, deildaskiptingu o. s. frv. Það er mín skoðun. Eins og ég sagði áðan, þá eru staðhættir á landinu ákaflega ólíkir hvað snertir búsetu og einnig hvað atvinnulíf varðar. Þó ég sé ekki talsmaður þess, að skólar þjóni eingöngu atvinnulífi, — síður en svo, þeir eiga að þjóna einstaklingnum ekki síður, — þá álít ég að það eigi að taka mikið tillit til þarfa atvinnulífsins og þeirra star£a, sem verið er að vinna í landinu. En þá koma þessir mismunandi staðhættir mjög við sögu, eigi að þjóna slíkum þörfum.

Það hefur verið svo þar sem tekið hefur verið til hendinni á framhaldsskólastiginu, að það hefur borið árangur. En annars staðar er verið að vinna að nýskipan og ekki komin niðurstaða eins og á því landssvæði sem hér er um að ræða. Hafa þá sveitarstjórnir og skólamennirnir beitt sér mjög í málunum og unnið ákaflega vel heima fyrir, álít ég, og hefur jafnan tekist gott samstarf við menntmrn., sem aftur hefur reynt að stuðla að því, að í því, sem hefur verið gert á undanförnum árum við einstaka skóla, í einstökum landshlutum á framhaldsskólastiginu, yrði nokkurt samræmi.

Ég sem sagt harma það ekki út af fyrir sig þó þetta gangi nokkuð hægt þegar á heildina er lítið. Ég tel að það hafi nokkuð eðlilega verið staðið að þessu, að síga svona á. Menn hafa ekki treyst sér til að biða eftir heildarlöggjöf um framhaldsskólastigið, og það er einnig alveg eðlilegt, enda er í raun og veru alls ekki beðið eftir löggjöfinni, heldur unnið að því að undirbúa hana. Og það má segja að akurinn hafi nokkuð verið urinn fyrir framkvæmdum síðar, þegar lögin ganga í gildi, með þeim athöfnum sem fram hafa farið. En mér sýnist hér hníga allt í sömu stefnu, enda er það svo, a. m. k. ef lagafrv. um framhaldsskólastig verður svipað að byggingu og það var síðast, að þá felur það ekki í sér nákvæm fyrirmæli um skólaskipanina sjálfa. Og ég á ekki von á því, að það verði tekið upp. Mér sýnist þróunin í þessum framhaldsskólamálum vera í þá átt, í sem allra fæstum orðum, að það sé reynt að vinna að meiri samhæfingu náms og meiri sveigjanleika um leið, þannig að menn eigi nokkuð greiða leið inn í námið og út úr því að loknum tilteknum áföngum með tiltekin réttindi. Einnig hefur verið unnið töluvert að því í sambandi við þessar aðgerðir á framhaldsskólastiginu að auka samnýtingu kennslukrafta og samnýtingu aðstöðu. Á nokkrum stöðum voru menn búnir að koma upp örsmáum einingum í vélstjóranámi, stýrimanna- eða skipstjóranámi, iðnnámi í ýmsum greinum o. s. frv., auk framhaldsdeilda gagnfræðaskólanna. Þetta hafa menn reynt að tengja saman þannig, að kennslukraftar og aðstaða nýttist betur en áður. En það liggur í augum uppi, að það eru vissar námsgreinar sem þarf að kenna til undirbúnings öllu þessu námi, og það á að vera hægt að kenna þær saman. Svo tel ég að þróunin gangi í þá átt að efla verknámið og auka virðingu þess, ef svo mætti segja. Þar sem stofnaðir hafa verið fjölbrautaskólar eða samvinna þessara aðila án þess að þar hafi verið um heina skólastofnun að ræða, þá hefur námsþáttunum ýmsum, hvort sem þeir eru einkum verklegir eða einkum bóklegir, verið raðað hlið við hlið.

Sums staðar hafa menn komið sér nokkuð vel fyrir nú þegar á framhaldsskólastiginu, t. d. á Suðurnesjum og á Akranesi, skulum við segja, þó að það sé enn þá nýrra og erfiðara að dæma alveg samstundis hversu tekist hafi um stofnunina. En einmitt þessir tveir skólar eru dæmigerðir fyrir það, hvernig menn verða, ef vel á að vera, að taka tillit til að'stæðna. En þær eru mjög ólíkar á þessum stöðum. Á Suðurnesjum er þéttur hnappur þéttbýliskjarna, sem ná að sameinast allir um einn skóla sem unnt er að sækja frá öllum stöðunum daglega. Þar varð, eins og kunnugt er, ákaflega góð samstaða, og ég held að engum blandist hugur um að þar hafi verið vel af stað farið. merk nýmæli hafi verið tekin upp við þann skóla, eins og flugmannanámsbrautin. Áður hafði íslenska skólakerfið ekkert gert fyrir kennslu flugmanna. Hún var eingöngu á vegum einkaaðila. Ég veit, að af hálfu þeirra aðila hefur þessari aðgerð verið fagnað mjög. Sú braut er í raun og veru komin upp fyrir frumkvæði þeirra sem þar eiga hlut að máli, flugmannanna og þeirra samtaka og svo Suðurnesjamanna. Það er stundum verið að deila á menntmrn. annars vegar fyrir að hafa of mikla miðstýringu og hins vegar fyrir það að hafa ekki næga stjórn á hlutunum, að þetta sé að þróast úti um hvippinn og hvappinn. Ég ber ekki neinn kinnroða fyrir það að taka við ábendingum og stuðla að því að koma í framkvæmd hlutum sem verða til á þann hátt, t. d. eins og fjölbrautaskólinn á Suðurnesjum fyrir samtök sveitarfélaganna og t. d. eins og flugmannanámsbrautin við þann skóla fyrir atbeina þeirra sem þar eiga hlut að máli. bæði skólayfirvaldanna þar á staðnum og svo þeirra sem þurftu á þessu námi að halda. Mér finnst þetta einmitt eins og hlutirnir eiga að gerast.

Uppi á Akranesi er aðstaðan töluvert önnur. Vesturlandið er miklu viðlendara en Suðurnesin og þar verður þetta svona, að höfuðstöðvarnar verða í skólanum á Akranesi, en leitað verður lags að hafa sem allra best samráð og tengingu við hina ýmsu þéttbýlisstaði og samræma nám þar, þannig að fólk, sem nemur á hinum ýmsu stöðum mismunandi námsþætti, geti þá alltaf fallið að sama marki og samræmt. Og það er einmitt þetta sama sem vakir fyrir hv. flm. þessarar till. varðandi framhaldsskólanámið á Norðurl. v. Og sama vakir fyrir miklum hluta sveitarstjórnarmanna og skólamanna fyrir norðan, eða kannske er það hugmynd allra fyrir norðan að vinna málið á þennan hátt. Þannig er það, að þessi till. hv. þm. fellur í raun og veru alveg saman við það sem verið er að gera.

Ég nefndi áðan að á sumum stöðum hafa menn að vísu ekki farið út í það að stofna fjölbrautaskóla, en þó gert fast formlegt samkomulag um samstarf skólaeininganna á stöðunum. Þannig er það í Vestmannaeyjum og þannig er það í Neskaupstað. Og ég held að þetta þokist allt að einu marki, þó menn hafi nokkuð mismunandi hætti á á ytra borðinu, eftir því hvernig aðstæður eru á hverjum stað.

Ég vil aðeins geta þess í lokin, að það er svo sem eðlilegt er, oft spurt um framhaldsskólafrv., sem er í vinnslu á ný eftir að það var sýnt í fyrra. Menn segja stundum að seint gangi með þetta mál. En ég vitna til þess, sem ég sagði áðan, að það þýðir ekki að ætla sér að kasta höndum til þessa verks. Það er ekkert óeðlilegt eða óæskilegt að lofa málunum að þróast nokkuð og mótast. En varðandi vinnubrögðin við þetta frv. nú síðan það var kynnt hér á Alþ. skömmu fyrir þinglok í fyrra, þá vil ég geta þess. að það var sent til umsagnar fjölmörgum aðilum. Umsagnir þeirra flestra, eða mjög margra a. m. k., voru að berast rn. alveg fram á vetur. Það var beðið um að þær kæmu nokkuð fyrr, en sum þessi samtök eru nokkuð fjölmenn, standa víða fótum og áttu erfitt með að sinna þessu þannig að þau teldu viðunandi fyrr en eftir sumarleyfi o. s. frv., svo umsagnir urðu síðbúnar. Síðan tók grunnskólanefnd þessar umsagnir saman og hagræddi þeim til úrvinnslu á síðara stigi. Og svo hafa núna í vetur farið fram fundarhöld fyrir frumkvæði rn. með fulltrúum frá samlökum skólafólks, samband hefur verið haft við sveitarstjórnamenn og nú síðast hafa verið fundarhöld með fulltrúum úr atvinnulífinu. Svo er það hugmyndin áður en lengra er haldið, og t. d. áður en farið er að vinna á ný að prentun og endanlegum frágangi frv., að fá fulltrúa frá þingflokkunum til þess að kynna þeim þetta, m. a. með það fyrir augum að fram kæmu einhverjar bendingar, sem menn gætu e. t. v. sameinast um áður en frv. er lagt fram á Alþingi.

Ég vildi geta þessa um leið, fyrst ég fór að tala í þessu máli. Ég man ekki til að það væru sérstakar beinar spurningar, sem hv. flm. beindi til mín, aðrar en almennt um hvernig þessi mál stæðu fyrir norðan og þá um framhaldsskólafrv., og hef þá lokið máli mínu.