12.10.1977
Neðri deild: 2. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

Umræður utan dagskrár

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég vil fagna þeim umr. sem hér hafa orðið um þau mjög svo mikilsverðu mál í lýðræðislandi sem lúta að kosningarrétti þegnanna. Þær eru mjög svo tímabærar, þessar umr., því að þannig er málum komið á okkar landi, að sú staða, sem uppi er í þessum málum, er að mínu viti algerlega óviðunandi.

Ég lít á kosningarréttinn sem mannréttindi. Þegar barist var fyrir almennum kosningarrétti á sínum tíma var sú barátta grundvölluð á því að færa þessi réttindi út til alls fólksins. Mjög misjafnt vægi atkvæða eftir kjördæmum er því að mínu viti skerðing á mannréttindum fyrir þá sem búa við slíkt misvægi. Ég fagna því þeim umr, sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason hóf hér áðan.

Hann talaði um tvö atriði aðallega. Í fyrsta lagi nefndi hann réttilega þann mikla mun sem nú væri orðinn á þyngd atkvæða eftir kjördæmum, og ég tók svo eftir að hv. þm. Ingólfur Jónsson teldi að hann hefði verið nm fjórfaldur. (Gripið fram í.) Það er rétt, hann var rúmlega fjórfaldur um síðustu kosningar, en hann mun verða rúmlega fimmfaldur þegar gengið verður næst til kosninga, og það er meira en eðlilegt er að þola.

Hitt atriðið, sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason vék að, hverjir af listum flokkanna skuli hljóta setu á Alþ. eftir kosningar, er líka stórt og mikið atriði. Það vildi svo til að þegar hv. þm. var að tala, þá var verið að útbýta frv. frá mér um nýskipan þessara mála. Hún lýtur að því, að ef frv. mitt verður samþ., þá leggja flokkarnir framvegis fram lista sína með nöfnum frambjóðenda í stafrófsröð og svo verður það algerlega á valdi kjósendanna sjálfra að raða þeim nöfnum eftir því sem þeim þykir best. Það fylgir nokkur grg. þessu frv., sem ég vil vísa til frekari upplýsinga og skal ekki lengja þennan fund með að orðlengja um efni frv.

Mig langar þó að víkja að einu atriði sem kom fram í ræðu hv. þm. Ingólfs Jónssonar áðan, — ræðu sem var markverð og gaf miklar upplýsingar, sem ég er þakklátur fyrir. Hann talaði um þá möguleika sem fyrir hendi væru, m.a. til þess að jafna þyngd atkv. eftir kjördæmum með því að hreyta 122. gr. kosningalaganna; og talaði þá um að afnám hlutfallsreglunnar um úthlutun uppbótarsæta mundi leiða til þess að meira jafnvægi um þyngd atkv. næðist eftir að slík breyting hefði verið gerð. Þetta getur verið rétt, en það getur líka verið rangt, svo merkilegt sem það er. Ég hef látið athuga þetta atriði sérstaklega með hliðsjón af úrslitum síðustu alþingiskosninga. Hefði þá verið í lögum, að uppbótarsætum skyldi einungis úthlutað eftir atkvæðamagni, hefði það leitt til þess að uppbótarsætum Reykjavíkur hefði fjölgað, en uppbótarsætum Reykjaneskjördæmis, sem býr nú við mest misrétti í þessum efnum, hefði ekkert fjölgað þó að þessi breyting hefði þá verið komin á. Þetta er að sjálfsögðu óviðunandi úrlausn fyrir okkur Reyknesinga. Ég hef þó nokkuð kynnt mér þessi mál, hvort hægt væri að ná eðlilegu réttlæti í þessum málum með því einu að breyta kosningalögunum, og því miður verð ég að segja það sem mína skoðun, að það er að mínu viti ekki hægt. Til þess þarf líka að verða breyting á sjálfri stjórnarskránni.

Ég hef áður lýst því yfir, að ég tel eðlilegt að svo kölluð landsbyggð hafi, ef svo mætti orða það, nokkru þyngri atkv. heldur en tvö fjölmennustu kjördæmi landsins, Reykjavík og Reykjanes hafa. Ég get látið mér detta í hug að það væri jafnvel ekki óeðlilegt að landsbyggðaratkv. hefðu tvöfalda þyngd á við atkv. úr Reykjavík og Reykjaneskjördæmi. Ef menn gefa sér þá forsendu og athuga nú að fjölga þyrfti uppbótarþm. til þess að misvægið væri hvergi meira en tvöfalt, þá hefði þurft að bæta við sex uppbótarþm. í síðustu alþingiskosningum, uppbótarþm. hefðu orðið að vera 17 í stað þess að þeir eru 11. Ég hygg að það sé lítill grundvöllur fyrir því á hv. Alþ. og áreiðanlega lítill stuðningur við það úti í þjóðfélaginu að fjölga þm. frá því sem er, svo að sú leið út af fyrir sig er ófær.

Þó að ég geti tekið undir flest það sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason sagði hér í upphafi, þá er eitt atriði sem ég er honum ekki sammála um, og það er þegar hann segir að þingflokkur Alþfl. hafi komist að þeirri niðurstöðu eftir athugun þessara mála að rétt væri að setja n, til að athuga málið. Við höfum satt að segja ekki mjög glæsilega reynslu af þeim n. sem hafa verið settar til að athuga þessi mál. Núv. stjórnarskrárnefnd var skipuð, ef ég man rétt, 19. maí 1972. Frá henni hafa engar meiri háttar till. komið um þessi mál. Og ég hef ekki mikla trú á því, að ný nefndarskipun verði til þess að hraða framgangi einhverra breytinga á þessum málum. Sum atriði liggja alveg ljós fyrir. Alþm. verða sjálfir að taka afstöðu og gera upp hug sinn til vissra breytinga. Það frv., sem ég flyt á þskj. 21, er mjög einfalt og þarf enga sérstaka umhugsun um það. Menn þurfa bara að gera það upp við sig, hvort þeir vilja þessa tiltölulega einföldu en þó róttæku breytingu eða vilja hana ekki.