23.02.1978
Sameinað þing: 48. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2623 í B-deild Alþingistíðinda. (1904)

104. mál, framhaldsskólanám á Norðurlandi vestra

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það er nú í mínum huga engin ný stefna, að í hverju fræðsluumdæmi landsins, hverju kjördæmi, skuli, þegar aðstæður eru til þess, byggja upp framhaldsnám til loka þess. Þetta er sjálfsagt.

Út af ummælum hv. 7. landsk. þm., Helga Seljans, vil ég aðeins láta það koma fram, að framhaldsskólafrv. er ekki það langt á veg komið, því miður, að það sé farið að stranda á ágreiningi innan ríkisstj. Það er enn eins og ég reyndar lýsti áðan, í höndum manna, sem eru að vinna að frv., og ekki komið til kasta ríkisstj.

Hann sagði, hv. þm., að ég hefði einhvern tíma látið í ljós þá skoðun mína, að það lægi á að koma þessu máli áleiðis. Og vissulega er það rétt. Það er orðinn langur aðlögunartími nú þegar og einhvern tíma kemur að fæðingu, og það hæfir ekki að fæðing dragist lengur en eðlilegt er. Það er auðvitað mismunandi áhersla á hinum ýmsu þáttum sem þarna er um að ræða. Þarna eru atriði sem bráðliggur á að fá á hreint, þ. á m. fjármálaþátturinn. En svo eru aftur önnur sem ég álít að þurfi sinn tíma til að meltast. Það eru atriði eins og kennslufræðilegu þættirnir og skólaskipanin, sem þarf sinn tíma til að gerjast. En þó að fjármálalegu atriðin séu að vísu ekki vandalaus, þá eru þau ekki svo flókin að það eigi að þurfa að vefjast lengi fyrir mönnum að ráða þeim til lykta. Og það, sem þar er meginatriðið, er að fá sömu greiðsluhlutföll í allt framhaldsskólastigið, en ekki eins og nú er, að sumir framhaldsskólar séu kostaðir af ríki að fullu og aðrir að hálfu. Þó er þetta vel að merkja þannig, að ríkið greiðir alls staðar launakostnað, svo það er ekki alveg rétt þegar menn segja að fullu og hálfu og gleyma launakostnaðinum. En þetta eru hlutir sem bráðliggur á að fá á hreint.

Það hefur ekki leynt sér, síðan frv. var lagt fram í fyrra, að hér er um mikinn ágreining að ræða, — já, skoðanamun getum við sagt. Frv. var lagt fram á þeim forsendum, að bæði ríki og sveitarfélög skyldu kosta framhaldsskólastigið. En sveitarstjórnarmenn yfir höfuð, held ég að sé óhætt að segja, hafa tekið afstöðu gegn þessu og lagt það til, til þess m. a. að auðvelda málið og gera skipti einfaldari, að láta ríkið eitt bera kostnað við þetta skólastig, og svo beri þá sveitarfélögin að sínum hluta kostnað grunnskólastigsins, kannske jafnvel stærri hluta en nú. Mér er þetta atriði ekkert fast í hendi. Aðeins ef fæst jafnt yfir alla línuna, þá er mér það ekki fast í hendi hvernig því yrði fyrir komið að öðru leyti. Væri kostnaður færður yfir á sveitarfélögin meira en nú, yrðu auðvitað að fylgja því tekjustofnar. Bent hefur verið á, að það yrði nokkuð vandmeðfarið með skiptin vegna misjafnrar aðstöðu sveitarfélaganna. Í sumum sveitarfélögum eru margir skólar, sem ekki eiga sér hliðstæðu annars staðar og eru því sóttir úr öðrum landshlutum. Annars staðar e. t. v., eins og í því kjördæmi sem þessi till. fjallar um, er ekki einu sinni einn almennur skóli út framhaldsskólastigið. Menn hafa bent á erfiðleika, sem eru þessu samfara. og það er vissulega ekki út í bláinn. En hitt aftur á móti held ég að mörgum hafi yfirsést, að skiptin á milli grunnskóla og framhaldsskóla eru ekki heldur augljós og ákveðin, eins og menn hafa kannske fljótt á lítið haldið.

Þannig hefur það komið upp í sambandi við þróun þessara mála að undanförnu, sem sumir telja að hafi verið allt of seinfært, en aðrir að hafi nokkuð mátt við una, að menn hafa séð möguleika þrátt fyrir allt að tengja við grunnskóla, þar sem það þykir henta, einn bekk á framhaldsskólastigi. Sú tilhneiging er ákaflega rík að hafa unglinga sem lengst í skóla heima. Og mér sýnist eins og nú gæti fráhvarfs frá þeirri kenningu að byggja umfram allt upp sem stærstar bekkjareiningar til þess að geta búið þeim fyrirmyndaraðstöðu með tækjum og sérhæfingu margs konar. Menn leggja nú minna kapp á þetta, en meira kannske á möguleika nemendanna til þess að dveljast sem lengst heima. Þetta er svona almennt rabb, en raunar í tilefni af orðum hv. 7. landsk. þm.