27.02.1978
Efri deild: 66. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2625 í B-deild Alþingistíðinda. (1912)

188. mál, Kennaraháskóli Íslands

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil ekki tefja það, að þetta mál komist til n., enda eru þær athugasemdir, sem ég er hér með varðandi þetta frv., ekki þess eðlis, að nauðsynlegt sé að hæstv. ráðh. sé viðstaddur, en vildi þó aðeins koma nokkrum atriðum að, áður en frv. færi í n., til frekari skoðunar þar. Þar hlýtur þetta frv. að fá rækilega meðferð, svo sem það á skilið, því að hér er gert ráð fyrir svo veigamiklum breytingum og tilfærslu, að það gefur tilefni til verulega góðrar athugunar, og að mínu viti verður áreiðanlega að fara hér að með fullri gát.

Ég álít að þarna sé ekki um minna stökk að ræða í sjálfu sér heldur en þegar kennaraskólanum gamla var breytt í kennaraháskóla og námið í einu vetfangi lengt um 3 ár. Ég var einn þeirra sem voru andvígir því stóra stökki sem þá var tekið. Mér þótti þá of langt gengið og dró ekkert úr andstöðu minni þar við. Ég áleit að hægfara þróun í átt til aukinnar menntunar hefði verið happasælli. Ég hafði ekki uppi neinar hrakspár um þessa breytingu, og ég veit að margt hefur verið vel um hana, þó ég hafi oftar á annmarkana bent, ekki síst þann vissa vanda sem skapast mundi með fjölda kennara á ákveðnu tímabili, sem vel hefur sannast, svo og það, sem e. t. v. skiptir ekki hvað minnstu máli, að engin teljandi launabreyting hefur fylgt í kjölfar hinna auknu krafna sem til menntunar kennara eru gerðar.

Það er ekkert leyndarmál, að innan minnar kennarastéttarinnar var þá útbreidd skoðun, að ekki síst bæri að fylgja frv. um kennaraháskóla á sínum tíma sakir þess, að þá yrði kennarastarfið meir og betur metið í launum. Ég man vel þing kennarasamtakanna, þar sem við austfirsku fulltrúarnir allir með tölu þar vorum kallaðir nátttröll, af því að við vildum ekki trúa þessum áróðri og öðrum viðlíka sem þá var hátt á lofti haldið.

Því fór fjarri að við vildum ekki bæta og auka kennaramenntunina og þá alveg sér í lagi hina uppeldisfræðilegu undirstöðu sem þá höfuðnauðsyn kennaranámsins sem meira veltur á en allt annað. Ég man að ég taldi þá nauðsyn að bæta framhaldsdeild eða jafnvel framhaldsdeildum við kennaraskólann, m. a. til að auðvelda kennaranemum leið inn í Háskóla Íslands til náms í B. A.- greinum þar t. d. Sú er enn skoðun mín, að þetta hefði nægt þá í byrjun í stað þriggja ára viðbótarnáms eftir stúdentsnám með allt of lítilli viðbót þó í því sem snerti kennslufræði og kennsluæfingar, þ. e. raunverulegri aukningu á því sem mestu ræður um það, hversu kennarinn nær tökum á viðfangsefni sínu, þó hvergi skuli dregið úr þeim eðlislægu kostum sem alltaf vega þyngst þegar í starfið sjálft er komið. En hvað um það, enn skal hærra stefnt. N. gerði tillögu um fjóra vetur í stað þriggja, þó rn. hafi sem betur fer, vil ég segja, fellt það brott, nema þá að þar hafi átt eingöngu að vera um beina starfsþjálfun að ræða, vetur í beinni starfsþjálfun. Svo hygg ég að ekki hafi verið, og því vil ég lýsa ánægju minni með niðurfellingu rn. á þessu ákvæði sem n. var með.

Nú liggur ekki enn fyrir frv. um nýskipan framhaldsnáms, en svo sýnist sem allt hnigi í þá átt, að frá grunnskólanum verði í framtíðinni hægt að ganga beint inn á uppeldisbraut á leið til Kennaraháskólans, í stað þess að nú koma flestir þar inn hefðbundna menntaskólaleið án minnstu nasasjónar af uppeldis- og sálarfræði, hvað þá beinni kennslufræði. Að því ber að vinna við skipan framhaldsnámsins, að þetta verði gert kleift og strax þar fái menn vissa starfsþjálfun, svo menn viti út í hvað þeir eru að ganga, því kennarastarf er með vandasamari og erfiðari störfum í okkar þjóðfélagi, ef af alúð er sinnt, þá enn sjáist þess ekki mikil merki í launakjörum kennara. En þar liggur sennilega stærsta orsökin að hinum mikla kennaraskorti s. l. ár og jafnvel áratugi.

Varðandi nýmælin skal því fagnað sem hæstv. ráðh. sagði um bætta möguleika réttindalausu kennaranna til þess að bæta svo við menntun sína að þeir öðlist fullan rétt. Hér hafa það margir lagt fram mikilvægan skerf á s. l. áratugum, að auðvelda ber sem allra mest þeim sem þar hafa sýnt hæfileika og getu, oft umfram réttindamennina, að öðlast sín fullu réttindi og um leið sama kaup. Ég tel hreinan vansa hvernig var að launakjörum þeirra búið a. m. k. um hríð, þeirra sem björguðu oft skólastarfi heilla héraða, og er enn, að ég hygg, langtum of illa með þá farið. En bæði þetta frv. og frv. hæstv. ráðh. um embættisgengi kennara eiga að stuðla að því, að þessir menn öðlist sín réttindi, og gott er það sem gert er í þeim efnum þó seint sé.

Miðað við að frv. nái óbreytt fram að ganga, þá hlýtur að teljast eðlilegt að Kennaraháskólinn verði miðstöð vísindalegra rannsókna í uppeldis- og kennslufræðum í landinu, þ. e. eftir að skólinn hefur alfarið tekið yfir menntun allra kennara á framhaldsskólastigi, svo sem hér er ráð fyrir gert. Þar er auðvitað um stærstu spurninguna að ræða, hvort svo langt skuli gengið og það nám, sem nú fer fram í Háskólanum í þessum greinum, skuli fært yfir í Kennaraháskólaun. Um það vil ég ekki og get ekki fellt neinn allsherjarúrskurð.

Neikvæðar umsagnir, sem fylgja með frv. og koma að sjálfsögðu helst frá þeim sem þarna eiga í að missa, þ. e. Háskólanum og aðilum honum tengdum, menntaskólakennurum t. d„ þær umsagnir eru þó þann veg, að ýmislegt í þeim verkar nokkuð sannfærandi á mig. Við slíka andstöðu er a. m. k. rétt að gefa sér góðan tíma til athugunar, því ekkert sýnist mér benda til knýjandi umbyltinga á þessu sviði, þó tenging grunnskólanáms og framhaldsnáms með nýskipan þess síðar nefnda kunni að hafa í för með sér nauðsynlegar breytingar á kennaranáminu í heild og þá e. t. v. í þá veru, sem hér er gert ráð fyrir, að við sömu skólastofnun skuli allir nema, þeir sem kenna á báðum þessum skólastigum, grunnskóla- og framhaldsskólastigi. Ég hygg því að vel færi á því, að sú skipan, þ. e. a. s. skipan framhaldsnámsins, lægi nokkuð ljós fyrir áður en endanleg ákvörðun yrði tekin um hvernig menntunin á þessum skólastigum báðum skuli fram fara.

Að því hefur verið látið liggja, að hér sé um að ræða fyrst og fremst vissa ásókn í aukinn og betri „status“ fyrir Kennaraháskólann. Ekki vil ég þar um fella dóm. En það eitt út af fyrir sig, ef satt væri, nægir mér til varkárni gagnvart þessari breytingu. Ég er a. m. k. eindregið á þeirri skoðun, að brýnna sé fyrir kennaramenntunina í landinu að bæði aðfararnám að Kennaraskólanum verði kennslufræðilega markvissara en nú er og eins hitt, að auka enn og bæta þann þátt kennaranámsins sem fólginn er í starfsþjálfun, en sú breyting sem hér er ráð fyrir gert. En allt þarf þetta athugunar við, og sjálfsagt er að hafa hin ýmsu sjónarmið og þarfir í huga þegar endanlega verður hér málum skipað. En ég sem sagt hvet til vissrar varkárni í svo mikilli umbyltingu, þegar andstaða er svo mikil sem umsagnir bera vott, hvað framhaldsmenntun snertir, og eins vildi ég að ljósara lægi fyrir en nú, hversu nýskipan framhaldsnámsins reiðir af, áður en snúið er til svo eindreginna breytinga. Þar með er ég ekki að segja, að ég sé alfarið andsnúinn þessu máli, því margt í grg. n. varðandi samtengingu kennaramenntunar fyrir bæði skólastigin í sömu kennslustofnun er athyglisvert, og fyrir þeirri skoðun eru færð mörg veigamikil rök. En þau sýnast mér þó um of bundin því, á hvern veg mál skipast um framhaldsmenntun eftir grunnskólann, þannig að hald þeirra raka ræðst verulega af því.

Varðandi rannsóknirnar svo og hlutverk æfingaskólans er ekkert nema gott að segja, svo sem ég benti á áður. Skólarannsóknadeild menntmrn. hefur hér að undanförnu lagt að grunninn, en verið langt um of vanbúin að fé til þess að sinna því sem þar hefur verið brýnast. Þetta kom ljóslega fram við gerð síðustu fjárlaga og hefur svo verið undirstrikað rækilega af þeim aðilum sem gerst þekkja til, svo sem skólastjórum og kennurum á grunnskólastigi. Í fjárhagsáætlun skólarannsóknadeildar fyrir 1978, sem ég hef hér fyrir framan mig, kom í ljós að endurskoðun námsefnis þar var samtals upp á 127 millj. kr., en í undirbúningi fyrir fjárlagafrv. hlaut þessi áætlun þá meðferð hjá hagsýslustofnun, að hún var skorin niður um 56% eða um 71.7 millj., og eftir stóðu þá 55 millj. 387 þús. Síðan var aftur tekinn upp í þetta verðbótastuðull vegna launáhækkana og síðan fékkst inn á síðustu stundu hækkun vegna framhaldsstigs og síðan launahækkun enn til viðbótar, þannig að endanlega talan mun hafa verið eitthvað um 89 millj., en um aukningu á verkefnum frá þessum niðurskurði mun ekki hafa verið um að ræða. Að því starfi, þ. e. a. s. starfi skólarannsóknadeildar menntmrn., þarf því örugglega betur að búa og það leysist ekki við það vitanlega að fela öðrum aðila, hvort sem það er Kennaraháskóli eða Æfingaskóli, aukin verkefni á þessu sviði. Þar er það spurningin um fjármagn fyrst og fremst sem gildir, og er ástæða til að minna á hér hve óskir rn. hafa verið skornar niður, að best verður séð út í bláinn og án alls tillits til þess, hve þörfin er brýn, svo eðlilegt framhald megi verða á nauðsynlegri endurnýjun námsefnis í kjölfar framkvæmdar grunnskólalaga. Þar veit ég að við hæstv. ráðh. erum algjörlega á sama máli.

Ég vil svo að lokum fagna því sem segir um námseiningakerfið og aukinn sveigjanleika í valgreinakerfinu, t. d. varðandi byrjendakennsluna, sem um of hefur verið vanrækt að mínu mati hvað snertir forskólahaldið, sem er mjög mikilvægt og er orðið mjög almennt einnig. Þar er rétt stefnt og hiklaust það sem mér þykir jákvæðast við þetta viðamikla frv., sem hlýtur að þurfa vandlega athugun í heild áður en að lögum verður.

Þetta eitt ásamt nokkrum öðrum atriðum, sem ég hef ekki gert að umtalsefni hér, en eru þó býsna mikilvæg í starfsháttum skólans, gæti réttlætt að mínum dómi framlagningu þessa frv., þó að ég hafi verið hér með ýmsar vangaveltur og athugasemdir, því að mér er um það annt, að sem allra best sé búið að menntun þeirra sem ég tel að sinni vandasamasta hlutverkinu í menntakerfi okkar, þ. e. a. s. kennaranna á grunnskólastiginu. En þar er það vitanlega ekki árafjöldi námsára sem gildir, heldur hvernig að er staðið í náminu og þjálfuninni þannig að í hendur haldist bæði staðgóð þekking og fyrst og fremst kannske góð starfsæfing, þannig að menn viti hvað þeir eru að ganga út í, hvaða starf þeir eru að takast á hendur. Ég held að óhætt sé að segja, að mestu skiptir fyrir okkar uppeldismál í heild í landinu að vel takist til um það mikilvæga uppeldis- og mótunarstarf sem fram fer á þessu stigi.