27.02.1978
Neðri deild: 62. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2630 í B-deild Alþingistíðinda. (1916)

192. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Gunnlaugur Finnsson) :

Hæstv. forseti. Við flytjum hér fjórir þm. á þskj. 380 frv. til l. um breyt. á sveitarstjórnarlögum. Efnislega séð er gert ráð fyrir því, að tvenns konar breytingar eigi sér stað frá gildandi ákvæðum.

Annars vegar er lítils háttar tilfærsla á kjördegi. Þar er annars vegar um það að ræða að hverfa frá því fyrirkomulagi, sem gilt hefur um — ja, ég veit ekki hve langan tíma, en svo lengi sem við munum sem hér erum, að kosningar hafa farið fram á sunnudegi. Mér sýnist ástæða til þess, að þarna verði gerð breyting á. Það verður að líta svo á, að laugardagur sé almennur frídagur á Íslandi nú og að það sé ekki ætlandi að þeir séu öllu fleiri sem bundnir eru við störf sín á sunnudegi en á laugardegi. Ég held að þess vegna yrði veruleg hagræðing að því. Ég skal taka það fram, að ég lít raunar svo á að það gildi jafnt um sveitarstjórnarkosningar sem um kosningar til Alþingis, að það sé verulegt hagræði að því að kosningarnar sjálfar fari fram á laugardeginum, þannig að það sé umþóttunartími til næsta virks dags, ekki síst fyrir þá menn sem eru bundnir við störf bæði varðandi framkvæmd kosninganna sjálfra sem og við úrvinnslu, talningu og annað þess háttar. Þá má ætla að hinn fyrsti virki dagur á eftir, mánudagurinn, nýtist betur. Það er ekki fráleitt að álykta, að það sé alistór hluti landsmanna sem vinnudagurinn nýtist ekki eða fyrri hluti þess vinnudags nýtist ekki nema að nokkru.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að kosið verði fyrsta laugardag í júní. Það er ekki gert ráð fyrir neinum undantekningum í þessu tilviki, ekki gert ráð fyrir því sem sagt þó að hvítasunna sé næsti dagur á eftir. Ég hef athugað þetta mál lítillega, hversu oft það kæmi fyrir á næstu árum, og það mundi aðeins gera það við einar kosningar fram til aldamóta, sem sagt árið 1990. Það væri þá til athugunar sérstaklega, ef mönnum fyndist þá ástæða til.

Ég vil vekja athygli á því, að samkv. núverandi skipulagi geta sveitarstjórnarkosningar farið fram hvenær sem er á tímabilinu frá 18. maí til mánaðamóta. Ef hvítasunnu hér upp á 25. maí, sem er þá síðasti sunnudagur í maí, þá er næsti sunnudagur á undan 18. maí. Það er fyrsti möguleiki. Ég held að ástæðan fyrir því, að ekki var samræmdur kosningadagur í þéttbýli og í sveitum þegar breyting átti sér stað seinast, þegar almennar sveitarstjórnarkosningar voru færðar frá síðasta sunnudegi í janúar til síðasta sunnudags í maí, hafi verið það sjónarmið, að þá væri ekki fært að láta kosningar fara fram í sveitum af þeirri ástæðu að þá stæði yfir erfiðastur og harðastur sauðburður. Ég lít svo á samt sem áður, að eftir að maí sleppir þá hafi létt svo á að því er sauðburð varðar, þar sem yfirleitt er búið að sleppa fé, að það eigi að vera fullkomlega framkvæmanlegt þar sem og í þéttbýlissveitarfélögunum. Ísland er eina landið, sem mér er kunnugt um, þar sem ekki er einn og sami kjördagur fyrir allar sveitarstjórnir í landinu, og af ýmsum ástæðum tel ég að það sé miklu heppilegra að kosningar fari fram á sama degi.

Í annan stað er gert ráð fyrir því í þessu frv., að breyting verði á þar sem hlutfallskosningar eiga sér ekki stað, þ. e. a. s. þar sem kosið er óbundnum kosningum. Hér er gert ráð fyrir því að hægt sé að kjósa í einu lagi, svo sem rannar er gert ráð fyrir nú í lögum. Það er nú gert ráð fyrir tvenns konar óbundnum kosningum í lögum, annars vegar þar sem tilnefndir eru helmingi fleiri fulltrúar en þeir sem kjósa á. Það þýðir það í framkvæmd, ef við hugsum okkur að það séu einhver átök um, hverjir skuli skipa sveitarstjórn, að atkv. skiptist á milli einstaklinga þar, en menn geti verið tiltölulega sammála um einhverja einstaklinga sem skuli skipa varastjórn og að þeir fái þess vegna tiltölulega mörg atkv. í neðstu sætin. Ef við hugsum okkur að það ætti að kjósa 5 menn í sveitarstjórn, þá geta menn tilnefnt þá í 8., 9. eða 10. sæti, sem þeir hugsa sér ekki að kjósa í sveitarstjórn, en að þeir séu þar til vara. En þar sem ekki er númerað, þá má búast við að slíkir í 8., 9. eða 10. sæti hlytu það mörg atkv., að þeir yrðu kosnir aðalmenn í hreppsnefnd án þess að hafa til þess raunverulegt kjörfylgi. Af þessari ástæðu hafa flestar sveitarstjórnir horfið frá því að viðhafa slíkt fyrirkomulag. En það hefur þá þýtt það, að orðið hefur að endurtaka kosningu eftir að búið er að kjósa aðalmennina og þá yfirleitt á nýjum kjördegi, einhvern tíma síðar á sumrinu. Á einstaka stöðum hefur að vísu tekist að kjósa sama daginn, þ. e. að kvöldi dags, en það verður þá að gerast með einhverju sérstöku samkomulagi, og er raunar ekki séð að það fullnægi þeim ákvæðum um kjörfundi sem er að finna í lögum um kosningar til Alþingis og gilda líka varðandi kosningar til sveitarstjórna. Þess vegna á sú hugmynd, sem þarna er sett fram, að tryggja annars vegar að hægt sé að kjósa á einum kjörseðli sem er tvískiptur, þannig að ef kjósandi hefur tilnefnt einhvern mann, sem hann vill fá í sveitarstjórn, en ekki nær kjöri í sveitarstjórnina, þá geymist atkv. hans, þannig að það komi honum til góða þegar talið er úr atkv. varamanna.

Það er sem sagt gert ráð fyrir því í þessu frv., að kjörseðlinum verði tvískipt, kosnir annars vegar aðalmenn og hins vegar varamenn, og þeir verða einfaldlega kosnir í sveitarstjórn sem fá flest atkv. á lista aðalmanna. En þegar úrskurðað er hverjir hljóti kosningu sem varamenn, þá hljóti sá kosningu í 1. sæti sem varamaður sem hefur fengið flest atkv. í 1. sæti á lista yfir varamenn, að viðbættum þeim atkv. sem hann fékk sem aðalmaður. Á sama hátt verði 2. varamaður sá sem fær flest atkv. í 2. sætið að viðbættu því sem hann fékk sem aðalmaður og viðbættu því sem hann kann að hafa fengið í 1. varamannssæti. Þannig gildir reglan áfram eftir því hve marga á að kjósa.

Ég vil vekja alveg sérstaka athygli á því, að þarna er fyrst og fremst hugsað um það fyrirkomulag sem gæti verið í óbundnum kosningum, þar sem ekki er gert ráð fyrir flokkadráttum eða að menn skipi sér í fylkingar. Ég vil alveg sérstaklega benda á það, að þar sem slík sjónarmið eru uppi, þar er það sjálfsagt að nota ákvæðin um listakosningar. Það eru engar breytingar á ferðinni um framkvæmd listakosninga og er að sjálfsögðu heimilt alls staðar að viðhafa þær.

Það er gert ráð fyrir í leiðinni í þessu frv., að þar sem ekki eru framboð til sýslunefnda og kosið er óhlutbundið gildi sömu ákvæði varðandi kosningar til sýslunefndar.

Ég held að á þessu stigi sé ekki ástæða til að taka fram fleira varðandi þetta mál. Mér þætti fyrir mitt leyti vænt um ef hægt væri að greiða leið þessa frv. til n. og í gegnum þingið, þannig að við heyrðum hver vilji Alþ. er varðandi þessar breytingar, sem ég tel að sé a. m. k. frá mínum bæjardyrum séð sjálfsagt að nái fram að ganga, og ef frv. verður gert að lögum á þessu þingi, þá komi fram skýr afstaða sem allra fyrst.

Ég vil svo, virðulegi forseti, leggja til að að lokinni 1. umr. verði þessu frv. vísað til félmn., þar sem hér er um að ræða breytingar á sveitarstjórnarlögum.