27.02.1978
Neðri deild: 62. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2635 í B-deild Alþingistíðinda. (1924)

62. mál, grunnskólar

Ólafur G. Einarsson:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. menntmn. fyrir skjóta afgreiðslu á þessu máli, þótt menn hafi hér orðið til að gagnrýna n. fyrir að afgreiða málið þetta fljótt.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um hetta mál. Ég gerði grein fyrir þeim sjónarmiðum, sem liggja að baki flutningi þessa frv., þegar ég mælti fyrir hví við 1. umr., og þarf ekki þar miklu við að bæta. En hv. þm. Svava Jakobsdóttir komst svo að orði, að raunverulega hefði ekkert breyst, frá því að grunnskólalögin voru sett, sem réttlætti að þessi breyting yrði gerð á skipan fræðsluumdæmanna. Ég vil leggja áherslu á hina raunverulegu ástæðu fyrir því, að farið er fram á þessa breytingu. Hún er sú, að landshlutasamtök sveitarfélaga fengu enga stoð í lögum, eins og ætlað var þegar grunnskólafrv. var hér til meðferðar á hv. Alþ. á sínum tíma, og það getur ekki verið neitt vit í því að hafa þessa skipan á meðan sveitarfélög eru ekki skuldbundin til þess að taka þátt í starfi landshlutasamtaka sem falið er það vald að kjósa í fræðsluráð. Þegar svo er, eins og í þessu tilviki, að Hafnarfjörður er ekki aðill að landshlutasamtökunum í Reykjaneskjördæmi, þá kemur glögglega í ljós hversu röng sú skipan er sem nú er á þessum málum.

Ég get ekki fallist á þá skoðun, sem fram kemur í nál. 1. minni hl., að með þessu frv. sé verið að brjóta niður það skipulag fræðslumála á grunnskólastigi sem kveðið er á í lögum um grunnskóla, eins og segir í nál. Hér er ekkert verið að brjóta niður. Það er verið að biðja um heimild til þess að setja á stofn sérstakt fræðsluumdæmi í sveitarfélagi sem er með yfir 12 þús. íbúa og eins og ég sagði áðan er ekki aðili að landshlutasamtökunum á viðkomandi svæði sem kjósa fræðsluráðið. Svona einfalt er þetta, og það er þetta sem málið snýst raunverulega um.

Ef þetta frv. verður samþykkt, veitir það að vísu tveimur öðrum sveitarfélögum í landinu heimild til þess að fara fram á svipað eða það sama og bæjarstjórn Hafnarfjarðar er að gera. Þessi sveitarfélög eru Kópavogur og Akureyri, sem bæði eru með yfir 10 þús. íbúa. Hins vegar er aðstaðan ekki sú sama hjá þessum sveitarfélögum og hjá Hafnarfirði, og á það legg ég áherslu. Þau eru bæði aðilar að landshlutasamtökum sveitarfélaga, Kópavogur í Reykjanesumdæmi og Akureyri er aðili að Fjórðungssambandi Norðlendinga. Á þessu er meginmunur. Þessar sveitarstjórnir hafa bein áhrif á kosningu fræðsluráðanna í viðkomandi landshlutum. en svo er ekki um Hafnarfjörð. Þess vegna mun ekki vera uppi neinn áhugi í þessum sveitarfélögum, Akureyri eða Kópavogi, á því að setja upp sérstaka fræðsluskrifstofu. Þau eru aðilar að viðkomandi fræðsluskrifstofum núna. Ég legg áherslu á það, að starfsemi fræðsluskrifstofunnar í Reykjaneskjördæmi hefur gefið mjög góða raun. Þar er unnið gott starf og það er ekki verið að gagnrýna fræðsluskrifstofuna í sinni núverandi mynd með flutningi þessa frv. Á það legg ég mikla áherslu.

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég legg aðeins áherslu á það í lokin, að hér er um heimildarákvæði að ræða og bær heimildir. sem frv. gerir ráð fyrir, verða ekki nýttar nema til komi jafnframt fjárveiting frá Alþ. Ég veit að það stendur ekki á bæjarstjórn Hafnarfjarðar að láta það fé af hendi rakna sem þarf af hálfu sveitarfélagsins til þess að koma upp fræðsluskrifstofunni. En það er undir Alþ. að sækja áfram um fjárveitingu til þess að fræðsluskrifstofunni verði komið á.