26.10.1977
Neðri deild: 9. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

29. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 57 brtt. við frv. sem hér er til umr., um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Till. er svo hljóðandi:

„Aftan við 9. gr. bætist: Enn fremur fullnægir hljómsveitin hluta af starfsskyldu sinni með flutningi tónlistar víðs vegar um landið og með þátttöku í listahátíð á Íslandi. Starfsmönnum hljómsveitarinnar ber ekki sérstök þóknun fyrir framangreind störf.“

Þessi brtt. er mjög í átt við ákvæði í núgildandi lögum um Þjóðleikhúsið, en 10. gr. þeirra laga hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þjóðleikhúsið lætur Ríkisútvarpinu í té leikrit til flutnings, eftir því sem samkomulag verður um milli þjóðleikhússtjóra og útvarpsráðs. Starfsmönnum Þjóðleikhúss ber hvorki sérstök þóknun fyrir slíkan flutning né leiksýningar utan Reykjavíkur.“

Tilgangur minn með þessari brtt. er fyrst og fremst sá að undirstrika að Sinfóníuhljómsveitin á skyldur að rækja við alla landsmenn, eins og raunar er tekið fram í 2. gr. þessa frv., — við alla landsmenn, hvar sem þeir búa á landinu, hliðstætt því sem er um Þjóðleikhúsið. Mér finnst einsýnt að líta svo á, að hljómleikahald hvar sem er á landinu sé hluti af vinnuskyldu hljómsveitarmanna sem ekki beri að greiða fyrir sérstaka aukaþóknun, svo sem kveðið er á um í lögum um Þjóðleikhúsið þegar starfsfólk þess fer í leikferðir um landið. Sama hlýtur að gilda um þátttöku í listahátíð, en eins og hv. þm. er kunnugt er leitast við að halda slíkar hátíðir hér á landi annað hvert ár.

Óþarft ætti að vera að rökstyðja þessa till. frekar, en benda má á að það nálgast um 100 millj. kr. sem Sinfóníuhljómsveitin kostar alla skattgreiðendur landsins á næsta fjárlagaári. Er því lítil sanngirni í að mikill hluti þeirra, sem bera þá skattbyrði, þurfi að sækja hljómsveitina heim um langan veg, en aðrir eigi kost á að sækja alla hennar tónleika við bæjarvegginn. Ég vil taka undir það sem kom hér fram hjá hv. síðasta ræðumanni, Pálma Jónssyni, að þakkarvert er að hljómsveitin hefur efnt til hljómleikahalds nú undanfarið úti á landsbyggðinni. Þessa starfsemi tel ég að þurfi að auka og efla og er tilgangur minn að undirstrika það með þessum tillöguflutningi.

Ég ætla ekki að blanda mér í þær fróðlegu umr. sem farið hafa fram um þessa merku menningarstofnun, Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég tel þó rétt að benda á það álit, sem fram hefur komið hér hjá ýmsum, og get tekið undir það, að ég lít svo á að ekki sé eðlilegt að binda tölu hljóðfæraleikara í lögum, svo sem gert er í 6. gr. og hér hefur verið um rætt. Í því sambandi vil ég á það benda, að ég veit ekki til þess að fordæmi sé fyrir því að tala starfsmanna ákveðinna ríkisstofnana sé bundin í lögum. Það er t.d. ekki svo um Þjóðleikhúsið, að gert sé ráð fyrir að einhver ákveðin tala leikara starfi við Þjóðleikhúsið, heldur er það svo, að þar eru ráðnir starfsmenn sem heimilaðir eru á fjárl., og venjan er að sjálfsögðu sú, að ekki er lækkuð tala starfsmanna sem heimilað er að ráða, milli fjárl. Venjan er sú, að sótt er um fleiri stöður við stofnanirnar og það gengur misjafnlega að fá nýjar stöður samþykktar af fjárveitingavaldinu. En þetta er sú leið sem venja er að fara, og ég fæ ekki séð annað en það sé sú eðlilega málsmeðferð sem ætti að gilda um Sinfóníuhljómsveitina eins og aðrar ríkisstofnanir. Þetta er kannske ekki neitt höfuðmál. En mér finnst, eins og kom fram í máli hv. þm. Pálma Jónssonar, að í meira lagi sé vafasamt að slá fastri þarna ákveðinni tölu hljóðfæraleikara. Ég bendi á, eins og hann, að hér er ekki um neinn fjandskap að ræða við Sinfóníuhljómsveitina, síður en svo. Ég lít svo á, að æskilegra væri fyrir hana sem stofnun og fyrir Alþ. að ganga frá þessum lögum um þessa menningarstofnun á hliðstæðan hátt að þessu leyti og gert er um aðrar ríkisstofnanir.