28.02.1978
Sameinað þing: 49. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2650 í B-deild Alþingistíðinda. (1930)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég fylgdist með þeim sjónvarpsþætti sem hér hefur verið gerður að umtalsefni og sendur var út í gærkvöld. Ég verð að segja það, að ég undraðist stórlega þann flutning sem þar fór fram. Það gat auðvitað ekki farið fram hjá neinum manni, að þarna hafði verið skipulögð hlutdrægni. Sá, sem hafði byggt upp þennan þátt, hafði hreinlega ætlast til þess, að ríkisstj. fengi þarna sérstakt tækifæri ein til að tala mikið um deilumál og losa sig við stjórnarandstöðuna sem slíka. Það gat ekki farið á milli mála. Og þegar maður kynnti sér svolítið nánar hvernig hafði verið staðið að uppbyggingu þáttarins, þá var þetta þó enn þá ljósara, því ætlunin hafði verið sú, að þarna mættu tveir af ráðh., en enginn úr stjórnarandstöðunni. Það breyttist svo á síðara stigi málsins, hæstv. viðskrh. Ólafur Jóhannesson var felldur úr leik. Auðvitað fór ekkert á milli mála, að hér var verið að setja upp þátt til þess að gefa hæstv. forsrh. sérstakt tækifæri til að leika þar einleik. En hæstv. forsrh. á kost á því að láta jafna þetta, og ég vil nú skora á hann t. d. að mæta mér á jafnréttisgrundvelli í sjónvarpinu. Ég býst við því, að útvarpsráð mundi hleypa okkur tveimur að og láta okkur fá einn klukkutíma til þess að ræða þessi mál, ef hann vill taka undir það, ef hann vill gefa mönnum kost á því að ræða þessi mál á jafnréttisgrundvelli, en ekki á þann hátt sem gert var í gær.

Það hefði líka verið ósköp eðlilegt, eins og þessi þáttur var upp byggður, að hann hefði verið eingöngu umr. á milli þessara svonefndu aðila vinnumarkaðarins og aðeins þeir hefðu skipst þar á skoðunum. En því var ekki að heilsa. Þarna var líka alveg augljóslega dreginn inn sérstakur íhaldsprófessor til þess að reyna að réttlæta hinar röngu till. ríkisstj. í efnahagsmálum — alveg augljóslega tekinn úr öllu sambandi og settur inn í myndina til þess að koma þessum röksemdum að.

Ég tek því undir mótmæli í sambandi við þennan þátt og tel að hann hafi verið gróft hlutleysisbrot, og það er rétt að þeir viti það, sem að þessum þætti stóðu. En eins og ég sagði, það er hægt að bæta fyrir svona nokkuð með því að gefa báðum aðilum kost á því að mætast á jafnréttisgrundvelli. Og ég endurtek það fyrir mitt leyti, að ég óska gjarnan eftir því af forsrh., að hann leggist á sveif með mér til þess að við t. d. tveir fengjum einn klukkutíma til þess að ræða um þessa till. sem hann afflutti á þann hátt sem hann gerði. (Gripið fram í: Hvað með Gylfa?) Ja, hann mætti gjarnan fá annað kvöld og einn klukkutíma, t. d. með Ólafi Jóhannessyni. (Gripið fram í: Hvað með fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar, sem voru í minni hl. gagnvart formanni BSRB?) Hvað um þá? Það er sjálfsagt, eins og ég var að segja — (Gripið fram í.) Ég vænti þess, að þessi hv. þm. geti beðið um að fá að koma í sjónvarpið, ef hann óskar eftir. En svo er það nú með þennan hv. þm., að hann verður að átta sig á því, að hann er ekki verkalýðshreyfingin — þar á er stór munur. Hins vegar endurtek ég það, að ég hafði talið ósköp eðlilegt að í þessum þætti hefðu mæst aðilar hins svonefnda vinnumarkaðar á jafnréttisgrundvelli. Það gat komið til mála, hvort sem sá hv. þm. hefði svo verið í þeim hópi — sá sem hér var að hrópa fram í — eða ekki. Hitt var alveg augljóslega hlutleysisbrot og það má undirstrika. En við sjáum hvað setur, hvort mér og hv. 9. þm. Reykv. verður gefinn kostur á því að ræða m. a. við forsrh., þannig að hann verði þá að standa við eitthvað af sínum stóru fullyrðingum sem hann setti þarna fram, á meðan hann lék einleik í sjónvarpinu í gærkvöld.