28.02.1978
Sameinað þing: 49. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2651 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er svo í langflestum tilvikum, þegar menn kveðja sér hljóðs utan dagskrár hér á Alþ., að þeir ræða um mál sem beinlínis heyrir undir og snertir einhvern ráðh., og þá er fylgt þeirri venju að láta hann vita fyrir fram. En eins og fyrri ræða mín ber með sér, er hún umkvörtun gagnvart útvarpsráði, sem er stofnun utan Alþ., enda þótt svo vilji til að tveir útvarpsráðsmenn eigi hér sæti. Dagskrá útvarpsins heyrir ekki undir neinn ráðh. Það stendur í útvarpslögunum, að ákvarðanir útvarpsráðs eru endanlegar.

Í öðru lagi taldi ég ekki ástæðu til að hringja til hæstv. forsrh. og raska matarfriði hans, vegna þess að hlutleysisbrotið felst í sjálfu sér ekki í því, að ráðh. skuli halda fram opinberlega skoðunum sem við öll þekkjum, heldur í því, að hann varlátinn gera það einn og það var enginn annar til andsvara. Það, sem hann sagði, hefði ekki verið hlutleysisbrot, ef menn með andstæðar skoðanir hefðu haft tækifæri til að ræða málið við hlið hans. Þetta er kjarni málsins, og þess vegna lít ég ekki á þetta sem ásökun á hæstv. ráðh. af því tagi, að mér hefði borið að gefa honum viðvörun. Það er ekki af ókurteisi eða virðingarleysi að ég ekki lét hann um þessar umræður vita, en til útvarpsráðs hljóta þær að berast héðan úr salnum, og vænti ég þess, að það taki málið þá til íhugunar.

Ég ítreka það sem ég sagði, að ég held ekki fram þeirri gömlu útvarpskenningu, að óhlutdrægni, — það er ekki „hlutleysi“ sem um er að ræða, það orð stendur ekki í útvarpslögunum, heldur „óhlutdrægni“, og þetta fellur ekki alltaf saman, — óhlutdrægninni verði ekki fylgt nema á stundinni séu menn frá öllum flokkum við. Það er ennþá tækifæri til að bæta fyrir þetta. En eins og málin standa eftir kvöldið í gær, er um tvímælalaust hlutdrægnisbrot að ræða og er enginn vafi á að þessi þáttur var sviðsettur í ákveðnum tilgangi. Ég skil það vel, að ýmsir þm. hafi orðið órólegir, kallað fram í, því það eru margir aðilar sem telja sig þurfa að fá að tjá sig um svo viðkvæmt mál sem þetta og er varla hægt að hugsa sér meira klúður í sjónvarpsmeðferð en var í gærkvöld.

Ég vil svo að lokum benda á að hæstv. ráðh. endaði orð sín á að dylgja um að ríkisfjölmiðlarnir, sjónvarp og hljóðvarp, sýndu hlutdrægni á móti ríkisstj. Hann sagði þetta ekki berum orðum, en ég vænti þess, að hæstv. útvarpsráðsmenn hafi heyrt þetta. Hins vegar held ég að það hafi ekki farið fram hjá nokkrum manni, að eitt kvöld sett á svið í sjónvarpi eins og í gærkvöld getur verið áhrifameira en margir klukkutímar af hljóðvarpi eða sjónvarpi við aðrar aðstæður.